Flokkarnir sem mynda ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur fengu samtals 52,8 prósent atkvæða í kosningunum 2017 og byrjaði líftíma sinn með 35 manna meirihluta, þótt það kvarnaðist úr honum síðar á kjörtímabilinu. Ári síðar var farið að halla töluvert undan fæti og fylgið mældist einungis 43,6 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn hafði einn stjórnarflokkanna bætt einhverju við sig í könnunum og mældist með 25,8 prósent fylgi. Hinir tveir, Vinstri græn og Framsókn, höfðu tapað miklu fylgi, eða samtals 9,8 prósentustigum.
Nokkrum mánuðum síðar skall á kórónuveirufaraldur og fylgi stjórnarflokkanna tók kipp upp á við. Verkefni þeirra breyttist enda yfir nóttu í að vera fyrst og fremst viðbragð við heilbrigðisvá og efnahagslegum afleiðingum þess faraldurs.
Þegar kosið var á ný í september í fyrra gerði mikill kosningasigur Framsóknarflokksins, og fordæmalaust liðhlaup Birgis Þórarinssonar úr Miðflokki í Sjálfstæðisflokk. það að verkum að stjórnarflokkarnir styrktu stöðu sína á þingi. Stjórnarflokkarnir fengu 54,3 prósent atkvæða og eru nú með 39 þingmenn af 63 á þingi.
Með nákvæmlega sama fylgi og ári eftir kosningarnar 2017
Í þingkosningunum 2017 fengu Samfylkingin, Píratar og Viðreisn samtals 28 prósent atkvæða. Ári síðar mældist sameiginlegt fylgi þeirra 38,4 prósent í könnunum Gallup. Sú staða hélst alls ekki út kjörtímabilið og þegar kosið var að nýju í september 2021 fengu flokkarnir þrír samtals 26,8 prósent atkvæða. Eftir fjögur ár í stjórnarandstöðu gegn ríkisstjórn sem átti lítið sameiginlegt samkvæmt hefðbundnum pólitískum kvörðum þá tapaði hin svokallaða frjálslynda miðja fylgi milli kosninga. Það átti ekki að vera hægt.
Mestu munaði um hrun fylgis Samfylkingarinnar. Hún mældist með 17 prósent fylgi í október 2018 – og fór reyndar upp í 19,3 prósent skömmu áður sem var mesta fylgi sem flokkur annar sem Sjálfstæðisflokkurinn mældist með á síðasta kjörtímabili – en fékk einungis 9,9 prósent í kosningunum 2021.
Nú, ári eftir síðustu kosningar, er Samfylkingin aftur á siglingu og mælist næst stærsti flokkur landsins með 16,3 prósent fylgi. Þar skipta yfirvofandi formannsskipti í flokknum, sem munu eiga sér stað í lok þessa mánaðar, sennilega miklu máli. Þá mun Kristrún Frostadóttir að óbreyttu taka við formennsku af Loga Einarssyni. Fylgi flokksins er samt sem áður minna en það var ári eftir kosningarnar sem leiddu af sér fyrstu ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.
Samanlagt fylgi hinnar frjálslyndu miðju er nú nákvæmlega það sama og það var ári eftir kosningarnar 2017, eða 38,4 prósent.
Níu flokka þing breytir stöðunni
Nú mælast hins vegar bæði Miðflokkurinn og Flokkur fólksins mun minni en þeir gerðu þá. Sameiginlegt fylgi þeirra tveggja var 16,5 prósent í lok október 2018 en mælist nú 10,5 prósent.
Þá hefur tilvist Sósíalistaflokks Íslands breytt stöðunni í íslenskum stjórnmálum en hann mælist sem stendur með menn inni á þingi. Það þýðir að flokkarnir á Alþingi yrðu níu talsins. Þótt Sósíalistaflokkurinn bæti aðeins við sig einu prósentustigi í nýjustu könnun Gallup frá síðustu kosningum þá myndi það skila honum þremur þingmönnum í stað engra í dag.
Við það myndi ríkisstjórnin falla, enda fengi hún einungis 30 þingmenn ef kosið yrði í dag. Það er átta færri en hún fékk í síðustu kosningum og níu færri en hún er með nú, þegar liðhlaup Birgis Þórarinssonar er talið með.
Auk Sósíalistaflokksins myndu Samfylkingin og Píratar bæta við sig. Fyrrnefndi flokkurinn fengi fjóra nýja þingmenn ef kosið yrði í dag en Píratar þrjá.
Nokkur stjórnarmynstur í kortunum
Sú staða myndi teikna upp nokkra möguleika í ríkisstjórnarmyndun. Í ljósi þess að núverandi ríkisstjórnarsamstarf næði ekki meirihluta, og bæði Samfylking og Píratar munu ekki mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki, þá á stærsti flokkur landsins engan möguleika á tveggja eða þriggja flokka ríkisstjórnarsamstarfi miðað við stöðu mála í könnunum í dag.
Ef mynda ætti stjórn til hægri þyrfti Sjálfstæðisflokkurinn að fá til liðs við sig Framsókn, Viðreisn og annað hvort Miðflokk eða Flokk fólksins til að ná þriggja manna meirihluta.
Frjálslynda miðjan – Samfylking, Píratar og Viðreisn – er sem stendur að mælast með 24 þingmenn og ef miðjuflokkurinn Framsókn myndi bætast í hópinn væru flokkarnir með 33 þingmenn og meirihluta. Önnur leið væri að horfa til vinstri, sleppa Viðreisn en bæta Vinstri grænum við fjögurra flokka mynstrið og fá út sama meirihluta. Í slíku samstarfi væri einnig hægt að bæta Sósíalistaflokknum við og ná þingmannafjöldanum á bakvið stjórnina upp í 36.