Útgerðarfyrirtækið Vísir hf. hagnaðist um 797 milljónir króna í fyrra ef miðað er við gengi evru í árslok 2021. Velta fyrirtækisins var um tíu milljarðar króna á því ári og rekstrarhagnaður – hagnaður fyrir afskriftir, skatta og fjármagnskostnað – var um tveir milljarðar króna. Stjórn Vísis ákvað að arðgreiðsla til hluthafa, sem eru sex systkini, ætti að vera ein milljón evra eða um 148 milljónir króna á árslokagengi síðasta árs.
Þetta kemur fram í ársreikningi Vísis fyrir síðasta ár sem nýverið var birtur í ársreikningaskrá Skattsins.
Tilkynnt var um kaup Síldarvinnslunnar á öllu hlutafé í Vísi 10. júlí síðastliðinn. Útgerðarrisinn frá Neskaupstað sagðist vera að borga 31 milljarð króna fyrir Vísi. Sú tala skiptist þannig að skuldir upp á ellefu milljarða króna yrðu yfirteknar, sex milljarðar króna yrðu greiddir í reiðufé og 14 milljarðar króna með hlutabréfum í Síldarvinnslunni, þar sem miðað yrði meðaltalsgengi síðustu fjögurra vikna á undan viðskiptunum. Frá þeim tíma hefur gengi bréfa í Síldarvinnslunni hækkað um tæp átta prósent og virði þeirra hlutabréfa sem systkinahópurinn sem á nú Vísi fær sem afgjald fyrir fyrirtækið hefur þegar aukist um 1,1 milljarð króna, upp í 15,1 milljarð króna.
Margt bendir til þess að aflaheimildir séu vanmetnar í ársreikningi
En hvað er verið að kaupa? Helstu bókfærðu eignir Vísis eru annars vegar aflaheimildir sem metnar voru á 90,9 milljónir evra, alls um 13,4 milljarða króna á árslokagengi síðasta árs. Aflaheimildir eru nær undantekningarlaust vanmetnar í reikningum sjávarútvegsfyrirtækja, en fyrir viðskiptin var heildarupplausnarvirði úthlutaðs kvóta á Íslandi áætlað um 1.200 milljarðar króna, miðað við kaup Síldarvinnslunnar á útgerðinni Bergi Huginn í fyrra.
Kaupin á Vísi eru langt undir því verði. Heildareignir félagsins, miðað við gengi evru í dag, eru í ársreikningi metnar á um 19 milljarða króna. Af því eru fastafjármunir – fasteignir, skip, vélar og tæki – metnir á 5,3 milljarða króna.
Helstu verðmæti Vísis eru því úthlutaðar aflaheimildir sem bókfærðar eru á um 12,6 milljarða króna miðað við gengi evru í dag. Aðrar eignir, eins og eignarhlutir í hlutdeildarfélögum, eru mun minna virði.
Ef horft er til nýlegra viðskipta með aflaheimildir þorsks þá hefur kaupverð á þeim verið í kringum fjögur þúsund krónur á kíló. Miðað við þá tölu ætti bara úthlutaður kvóti Vísis í þorski – 5,4 prósent alls slíks kvóta, eða í kringum tíu þúsund tonn – einn og sér að vera í kringum 40 milljarða króna virði. Þá á eftir að reikna með úthlutuðum aflaheimildum í öðrum tegundum.
Skuldsett fyrirtæki með þunga gjalddaga framundan
Miðað við þetta má ætla að Vísir hafi fyrst og síðast verið að selja Síldarvinnslunni kvóta. Og það á frekar lágu verði, þrátt fyrir að á fjórða tug milljarða króna sé gríðarlegir peningar í hugum flestra.
Ástæða þessa gæti verið falin í því að Vísir er afar skuldsett fyrirtæki. Fjármagnskostnaður þess á árinu 2020 var um 500 milljónir króna og í fyrra var hann litlu lægri, eða um 430 milljónir króna.
Samkvæmt ársreikningi Vísis fyrir árið 2020 áttu 46,3 milljónir evra, um 6,4 milljarðar króna á gengi dagsins í dag, af langtímaskuldum fyrirtækisins við lánastofnanir að vera á gjalddaga á árinu 2022. Í nýbirtum ársreikningi fyrirtækisins hefur sá þungi gjalddagi færst til ársins 2023 og er nú 50,1 milljónir evra, eða 6,9 milljarðar króna. Langtímaskuldir Vísis jukust um 2,2 milljónir evra, um 300 milljónir króna, á síðasta ári og voru ellefu milljarðar króna um síðustu áramót. Þær skuldir tekur Síldarvinnslan yfir samþykkti Samkeppniseftirlitið samruna félaganna.
Kaupin eru afar umdeild og hafa víða vakið hörð viðbrögð. Verði þau samþykkt af hluthafafundi Síldarvinnslunnar hf. og Samkeppniseftirlitinu munu núverandi fiskveiðiheimildir Síldarvinnslunnar fara yfir það tólf prósent hámark sem hver útgerð má samkvæmt lögum halda á af úthlutuðum kvóta.
Haustið 2020 héldu tíu stærstu útgerðir landsins með samanlagt á 53 prósent af úthlutuðum kvóta, en Kjarninn greindi frá því í nóvember í fyrra að það hlutfall væri komið upp í rúmlega 67 prósent. Samþjöppunin eykst enn við kaup Síldarvinnslunnar á Vísi.
Samhliða þessari þróun hefur hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja aukist gríðarlega. Hagnaður geirans fyrir skatta og gjöld frá byrjun árs 2009 og út árið 2020 var alls um 665 milljarðar króna á umræddu tímabili, samkvæmt sjávarútvegsgagnagrunni Deloitte. Af þeirri upphæð fór undir 30 prósent til íslenskra ríkisins, eiganda auðlindarinnar, í formi tekjuskatts, tryggingagjalds og veiðigjalda. En rúmlega 70 prósent sat eftir hjá eigendum fyrirtækjanna. Gera má ráð fyrir að hagnaður geirans hafi verið gríðarlegur í fyrra og að hann verði mjög mikill í ár líka.
Samherji og mögulega tengdir aðilar með næstum fjórðung
Miðað við nýjasta birta lista Fiskistofu um þær aflaheimildir sem hvert fyrirtæki heldur á þá er Síldarvinnslan, ásamt dótturfélögum, í þriðja sæti yfir þær útgerðir sem ráða yfir mestum kvóta með 9,41 prósent hans. Þá keypti Síldarvinnslan, líkt og áður sagði, útgerðarfyrirtækið Berg Huginn á árinu 2020 en það heldur á 1,03 prósent af öllum úthlutuðum kvóta.
Samkeppniseftirlitið birti þá niðurstöðu frummats síns í febrúar 2021 að til staðar væru vísbendingar um um yfirráð Samherja eða sameiginleg yfirráð Samherja og tengdra félaga yfir Síldarvinnslunni. Síðan að sú niðurstaða var birt hefur, samkvæmt heimildum Kjarnans, verið kallað eftir gögnum frá stjórnvöldum, Samherja, Síldarvinnslunni og öðrum tengdum aðilum vegna málsins. Sú gagnaöflun hafi gengið vel en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort ráðist verði í formlega rannsókn á málinu.
Stærstu eigendur Síldarvinnslunnar, sem var skráð á hlutabréfamarkað í fyrra, eru Samherji hf. (32,64 prósent) og Kjálkanes ehf. (17,44 prósent), félags í eigu Björgólfs Jóhannssonar, fyrrverandi forstjóra Samherja, og fólks sem tengist honum fjölskylduböndum. Auk þess á Eignarhaldsfélagið Snæfugl, sem er meðal annars í eigu Samherja og Björgólfs, 3,79 prósent hlut. Samanlagt halda því þessir þrír aðilar á um 53,9 prósent hlut í Síldarvinnslunni og skipa þrjá af fimm stjórnarmönnum þess.
Samherji Ísland ehf., félag að öllu leyti í eigu Samherja, er með fjórðu mestu aflahlutdeild í íslenskri efnahagslögsögu allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi, eða 8,09 prósent. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er líka í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,1 prósent kvótans.
Gjögur, sem er í eigu sömu aðila og eiga Kjálkanes, heldur svo á 2,5 prósent af öllum úthlutuðum aflaheimildum.
Þessir aðilar: Síldarvinnslan, Samherji og Gjögur, sem Samkeppniseftirlitið telur mögulegt að séu tengdir, héldu því samtals á 22,14 prósent af öllum úthlutuðum kvóta í nóvember í fyrra. Nú bætist 2,16 prósent kvóti Vísis við og samanlagður úthlutaður kvóti til Samherja og mögulegra tengdra aðila fer upp í 24,3 prósent, eða næstum fjórðung allra úthlutaðra aflaheimilda á Íslandi.
Innherji greindi frá því fyrir skemmstu að kaupin á Vísi hefðu verið leidd af Jakobi Bjarnasyni, stjórnarformanni Vísis fyrir hönd fjölskyldunnar sem á fyrirtækið, og Baldvini Þorsteinssyni, sem erfði fyrir nokkrum árum stóran hlut í Samherja frá foreldrum sínum. Faðir Baldvins, Þorsteinn Már Baldvinsson, og Jakob, sem starfaði lengi í bankakerfinu, eru nánir vinir og tengsl þeirra ná langt aftur í tímann samkvæmt Innherja.