Verðfallið á olíu hefur umtalsverð áhrif á stöðu almennings hér á landi eins og annars staðar, og haldist verðið á svipuðum slóðum og það er nú þá skilar það sér í auknum ráðstöfunartekjum heimila sem jafngildir ríflega þriggja prósenta launahækkun.
Þetta kom fram í erindi dr. Daníels Svavarssonar, forstöðumanns hagfræðideildar Landsbankans, á fundi um áhrif olíuverðsfallsins að undanförnu á efnahag Íslands og stöðu efnahagsmála í heiminum, sem Landsbankinn stóð fyrir í morgun.
Miklar sveiflur
Frá því um mitt síðasta ár hefur verð á olíutunnunni fallið hratt, úr um 110 Bandaríkjadölum niður fyrir 60 dali fatið, en undanfarnar vikur hefur verðið sveiflast lítillega í kringum þá tölu.
Þessi mikla niðursveifla er sú mesta síðan á hápunkti fjármálakreppunnar á árunum 2007 til 2009. Þá hækkaði verð á olíu fyrst hratt, upp fyrir 140 Bandaríkjadali, en féll síðan um nærri 70 prósent á örskömmum tíma eftir að eftirspurn í hagkerfum heimsins hrundi snögglega. Þessi tvö tímabil, það er verðfallið í fjármálakreppunni á árunum 2007 til 2009 og síðan nú á tímum, eru mestu sveiflur sem sést hafa á heimsmarkaði með olíu í það minnsta síðustu þrjátíu árin.
Þessi mynd birtist með erindi Daníels, en hún sýnir hversu miklar sveiflur hafa einkennt olíumarkaðinn að undanförnu.
Í ljósi þess að Ísland er ekki olíuframleiðsluríki, líkt og t.d. Noregur og Rússland, þá eru áhrifin af verðfallinu á olíu fyrst og fremst jákvæð fyrir þjóðarbúið. Haldist olíuverð í kringum 60 Bandaríkjadali út þetta ár gæti það sparað þjóðarbúinu um 40 milljarða króna í gjaldeyri, eða tæplega 270 milljónir evra á ári, miðað við stöðuna eins og hún var í fyrra. Sjávarútvegsfyrirtæki njóta ekki síst góðs af þessu, þar sem verð á öðrum hrávörum, eins og málmum og fiski, hefur ekki fylgt verðþróun olíunnar. Verðlækkun á olíunni kemur því sjávarútvegnum til góðs, og það sama má segja um ferðaþjónustuna og flugfélög. Ódýrara er að fljúga og ódýrara er að sigla, en það var t.d. í fyrra.
100 þúsund kall á ári
Gera má ráð fyrir að áhrif þessarar skörpu verðlækkunar á olíunni, upp á um 50 Bandaríkjadali, geti skilað sér í auknum hagvexti upp á hálft til eitt prósentustig fyrir Ísland, og ráðstöfunartekjur heimilanna gætu aukist um 100 þúsund krónur á ári. Það er einnig til marks um áhrif olíuverðslækkunarinnar að verðbólga hér á landi væri nú 1,7 prósent í stað 0,8 prósent, ef það hefði haldist óbreytt eins og það var í fyrra.