Lagt til á ríkisstjórnarfundi að kaupa hluta af höfuðstöðvum Landsbankans á sex milljarða
Nýjar höfuðstöðvar Landsbankans við Austurhöfn eru nú að verða tilbúnar. Þær voru reistar þrátt fyrir nánast algjöra andstöðu hjá eigandanum, íslenska ríkinu. Byggingin átti að kosta níu milljarða króna en sá kostnaður er nú komin í tólf milljarða króna. Fyrirhugað er að selja hluta þess. Einn áhugasamur kaupandi hefur verið í viðræðum um kaup á þeim hluta, ríkissjóður Íslands. Vilji var til þess að flytja tvö ráðuneyti í húsnæðið. Kaupin eru nú í uppnámi, aðallega vegna þess að kaupverðið þykir ekki forsvaranlegt á sama tíma og ríkissjóður boðar aðhaldsaðgerðir.
Tillaga um að ríkissjóður myndi kaupa hluta af nýjum höfuðstöðvum Landsbankans, sem rísa nú við Austurhöfn, á um sex milljarða króna var lögð fram í ríkisstjórn fyrr í sumar. Samkvæmt heimildum Kjarnans var málið tekið upp á nokkrum ríkisstjórnarfundum en andstaða var við kaup á húsnæðinu á meðal einhverra ráðherra og því eru kaupin, sem stendur, í uppnámi. Um mikið hitamál er að ræða innan ríkisstjórnarinnar þar sem sumir ráðherrar hafa keyrt það fast að umrætt húsnæði, eitt það dýrasta sem fyrirfinnst á Íslandi, verði keypt undir tvö ráðuneyti. Samkvæmt heimildum Kjarnans eru þau ráðuneyti annars vegar utanríkisráðuneytið, sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins stýrir sem stendur, og nýlegt ráðuneyti háskóla-, nýsköpunar og iðnaðar, sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir stýrir.
Fréttablaðið greindi frá því á forsíðu á miðvikudag að kaup ríkissjóðs á um sex þúsund fermetrum af þeim sextán þúsund og fimm hundruð fermetrum sem Landsbankinn er að byggja við Austurhöfn væru í uppnámi. Þar kom fram að málið væri á hendi forsætisráðuneytisins, sem Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, stýrir, og fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks fer fyrir. Viðmælendur Kjarnans segja þó að kaupin á hinu svokallaða norðurhúsi Landsbankahöfuðstöðvanna hafi verið teiknuð upp í ráðuneyti Bjarna.
Uppstokkunin á húsnæði stjórnarráðsins á rætur sínar að rekja til þess að sitjandi ríkisstjórn ákvað að fjölga ráðherrum um tvo þegar Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur endurnýjuðu stjórnarsamstarf sitt í fyrrahaust. Þá þurfti að koma fleiri ráðuneytum fyrir.
Samkvæmt svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn á Alþingi fyrr á þessu ári var áætlað að breytt skipan ráðuneyta gæti kostað ríkissjóð allt að 1,77 milljörðum króna á þessu kjörtímabili. Kostnaðurinn færi aðallega í fjölgun starfa sem fylgi breyttu skipulagi, þar á meðal ritara, bílstjóra og aðstoðarmanna nýrra ráðherra. Þar var því ekki tekið inn í dæmið mögulegur viðbótarhúsnæðiskostnaður.
Vilja í sveigjanlegra og nútímalegra húsnæði
Í febrúar sendu forsætis- og fjármála- og efnahagsráðuneytið frá sér sameiginlega tilkynningu þar sem greint var frá áformum um breytta skipan húsnæðismála. Markmiðið með þeirri breyttu skipan væri „að starfsemi Stjórnarráðsins verði komið fyrir í sveigjanlegu og nútímalegu húsnæði sem nýtt verður með hagkvæmum hætti.“
Til lengri tíma yrði gert ráð fyrir að starfsemi Stjórnarráðsins verði í stærri og sveigjanlegum einingum á og við Stjórnarráðsreit. „Um er að ræða Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu auk viðbyggingar, Skúlagötu 4, Sölvhólsgötu 4, Sölvhólsgötu 7-9, Arnarhvol við Lindargötu og Norðurhús á Austurbakka auk þess sem Gamla Hæstaréttarhúsið við Lindargötu verður nýtt undir sameiginlega aðstöðu.“
Neðst í þeirri fréttatilkynningu, eftir að allar aðrar breytingar höfðu verið taldar upp, sagði að stefnt yrði að því að „hefja formlegar samningaviðræður við Landsbankann um kaup á norðurhúsinu við Austurbakka sem er í byggingu þar sem kannað verði til hlítar hvort hægt sé að ná fram hagkvæmri niðurstöðu um kaup ríkisins á eigninni. Um er ræða nútímalegt og sveigjanlegt skrifstofuhúsnæði sem hægt er að sérsníða að þörfum Stjórnarráðsins innan tiltölulega skamms tíma og er því um álitlegan kost að ræða.“
Bygging höfuðstöðvar Landsbankans, sem er í eigu íslenska ríkisins, hefur verið verulega umdeild. Byggingin er að rísa á einni dýrustu lóð sem hægt er að byggja á í Reykjavík og sú málsástæða Landsbankans að hann þyrfti að vera með höfuðstöðvar í miðborginni hefur verið dregin verulega í efa. Meðal annars hefur verið bent á að Íslandsbanki hafi flutt sína starfsemi í turn í Kópavogi án vandkvæða og samhliða lagt öll áform fyrirrennara síns, Glitnis, um að reisa íburðarmiklar höfuðstöðvar á Kirkjusandsreitnum í námunda við Laugardalinn á hilluna. Þar er nú að rísa nýtt íbúðarhverfi ásamt atvinnuhúsnæði undir blandaða þjónustu.
Ákvörðunin hefur verið rökstudd með því að Landsbankinn sé í of mörgum stöðum með starfsemi sína, sem er dreifð víða um miðborgina. Með því að koma öllum á sama stað myndi verða til mikil hagræðing auk þess sem hægt yrði að selja annað húsnæði bankans upp í kostnað.
Úr níu í tólf milljarða króna
Kjarninn fjallaði ítarlega um áform Landsbankans í fréttaskýringu sem birtist í september 2019. Þar kom meðal annars fram að Bankasýsla ríkisins, sem fer með hlut ríkissjóðs í Landsbankanum hefði ekki haft neina aðkomu að þeirri ákvörðun að reisa nýju höfuðstöðvarnar.
Það hefur heldur ekki þótt tilefni til að bera byggingu höfuðstöðva undir hluthafafund, þar sem eini alvöru hluthafinn, íslenska ríkið, gæti sagt sína skoðun á áformunum.
Ákvörðunin um að ráðast í framkvæmdirnar, sem áætlað var að myndu kosta um níu milljarða króna, hækkaði svo í tíu milljarða króna en eru nú orðnir tólf milljarðar króna, var því tekin án aðkomu fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem heldur á hlutabréfum íslenska ríkisins í bankanum og stofnunarinnar sem fer með þann eignarhlut.
Hún var tekin af bankaráði á fundi sem haldinn var 16. maí 2017. Landsbankinn, sem er í 98,2 prósent eign skattgreiðenda, hefur ekki viljað upplýsa um hvernig atkvæði féllu hjá sjö manna bankaráðinu þegar kosið var um bygginguna.
Stjórnmálamenn á móti því að höfuðstöðvarnar yrðu byggðar
Þegar ákveðið var að ráðast í bygginguna fannst vart stjórnmálamaður í ríkisstjórn eða á Alþingis sem studdi hana. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, var þar á meðal. Hann gagnrýndi meðal annars forgangsröðun ríkisbankans sem ætti fyrst og síðast að einbeita sér að því að bæta kjör viðskiptavina sinna. Það væri undarlegt ef banki í almannaeigu færi gegn því sem virtist vera augljós vilji eigenda, almennings og fulltrúa hans.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og þá varaformaður fjárlaganefndar Alþingis en nú ráðherra í ríkisstjórn, sagði til að mynda við RÚV að það væri öllum ljóst að þarna væri verið að fara illa með eignir ríkisins og engin gæti gert neitt í því. „Ég mun að minnsta kosti vekja athygli á þessu og taka þetta upp á þingi þegar það kemur saman í haust.“
Jón Gunnarsson, þá formaður atvinnuveganefndar en nú dómsmálaráðherra, lýsti sig einnig verulega andsnúinn byggingunni.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, lagði til, í grein sem hann skrifaði, að höfuðstöðvarnar yrðu byggðar, en að í kjölfarið ætti að dreifa „um húsið þrjú hundruð þúsund sleggjum og hvetjið landsmenn alla til þess að koma og brjóta það niður í steinmola fyrir steinmola til að tjá reiði sína og fyrirlitningu á hrokanum og óhófinu sem einkenndi bankana fyrir hrun og skutu síðan upp kollinum rétt sem snöggvast í Landsbankanum árið 2015.“
Kári sagði enn fremur að það ætti að taka gjörninginn upp og senda sem framlag Íslands til næsta Feneyjatvíærings undir heitinu: „Meira en nóg til af þessari helvítis vitleysu.“
Ekki vitað um aðra mögulega kaupendur
Þrátt fyrir allt er byggingin þó að rísa og Landsbankinn stefnir á að flytja sína starfsemi í hana fyrir árslok. Áhrifamikil, og fokdýr, stuðlabergsklæðning er komin á stóran hluta byggingarinnar og ásýnd hennar farin að taka á sig endanlega mynd.
Viðmælendur Kjarnans innan stjórnarráðsins eru þó sammála um að fyrir liggi að Landsbankinn hafi offjárfest í húsnæðinu. Það væri á endanum allt of dýrt og framboð á öðru atvinnuhúsnæði í miðborginni væri þegar mikið. Þá ætti vitanlega eftir að bætast við allt það húsnæði sem Landsbankinn mun flytja úr, en bankinn er nú í tólf húsum í Kvosinni og alls 18 þúsund fermetrum.
Sjálfur ætlar bankinn að nota tíu þúsund fermetra í nýju byggingunni en leigja eða selja hitt. Röð áhugasamra kaupenda eða leigjenda, á verði sem endurspeglar þann mikla byggingarkostnað sem höfuðstöðvarnar hafa framkallað, hefur ekki verið löng.
Þess vegna var farið að kanna að láta ríkissjóð, eiganda Landsbankans, kaupa allt að 6.500 fermetra undir starfsemi stjórnarráðsins. Miðað við verðið sem kynnt var á ríkisstjórnarfundi, sex milljarðar króna, stóð til að greiða um 923 þúsund krónur á hvern fermetra. Samkvæmt heimildum Kjarnans er það eina kauptilboðið sem lagt hefur verið fram í húsnæðið.
Milljarða aðhaldsaðgerðir á næstu árum
Þetta er að gerast á sama tíma og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir umtalsverðu aðhaldi í ríkisrekstri á næstu árum. þegar áætlun áranna 2024-2029 var birt í mars síðastliðnum kom fram í henni að búist sé við að svokallaðar afkomubætandi ráðstafanir – niðurskurður eða hærri skattar – hefjist á þarnæsta ári og að umfang þeirra verði um níu milljarðar króna á ári.
Sú tala er þó ekki meitluð í stein. Ef efnahagsspár verða undir væntingum, til dæmis vegna minni alþjóðahagvaxtar, meiri hækkana hrávöruverðs og færri ferðamanna, gætu afkomubætandi ráðstafanirnar hækkað. Samkvæmt fjármálaáætluninni gætu aðhaldsaðgerðirnar tæplega fimmfaldast ef það gerist og numið um 42 milljörðum króna á hverju ári.
Óhjákvæmilegt er að opinber þjónusta skerðist að einhverju leyti vegna þessara aðhaldsaðgerða, þótt það sé einnig hægt að ná þeim fram með nýjum skatttekjum eða hagræðingu í öðrum opinberum rekstri.
Ofan á þetta er mikil verðbólga, krefjandi kjarasamningalota framundan, kaupmáttur er á undanhaldi og vísir að bólu er til staðar á húsnæðismarkaði, sem mögulega kallar á leiðréttingu á eignarverði. Því eru mörg teikn á lofti í efnahagsmálum þjóðarinnar og skilaboðin sem stjórnvöld hafa verið að senda út í samfélagið hafa verið einföld: sýnið aðhald. Milljarðakaup á húsnæði á dýrasta stað í höfuðborginni undir tvö ráðuneyti ríma ekki við þau skilaboð, að mati viðmælenda Kjarnans.
Vildu ekki segja hvaða ráðherrar hafi verið á móti
Kjarninn sendi fyrirspurn á forsætisráðuneytið vegna málsins. Þar var meðal annars spurt um hið ætlaða kaupverð og kallað eftir upplýsingum um hvaða ráðherrar hefðu sett sig á móti kaupunum á ríkisstjórnarfundi í síðasta mánuði.
Í svari forsætisráðuneytisins var vísað í sameiginlega yfirlýsingu þess og fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem send var út á miðvikudag, í kjölfar forsíðufréttar Fréttablaðsins um að kaupin væru í uppnámi. Í tilkynningunni sagði að á meðal kosta sem horft hefði verið til við endurskipulagningu húsnæðismála stjórnarráðsins væru „möguleg kaup ríkisins á hluta af nýbyggingu Landsbankans við Austurhöfn, sem gæti hentað vel fyrir starfsemi Stjórnarráðsins. Viðræður hafa farið fram við Landsbankann um þann kost og standa vonir til þess að fá endanlega niðurstöðu um hvort af þeim kaupum verði á allra næstu vikum.“
Kjarninn ítrekaði fyrirspurn sína þar sem tilkynningin svaraði ekki þeim spurningum sem lagðar voru fram í henni. Í seinna svari forsætisráðuneytisins sagði að „þær upplýsingar sem umrædd ráðuneyti geta veitt á þessu stigi máls að finna í svarinu sem sent var í morgun [miðvikudag].“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði