Lagt til við landsfund Sjálfstæðisflokks að bankar, Íslandspóstur, flugvellir, ÁTVR og mögulega RÚV verði selt
Í drögum að málefnaályktunum sem lagðar verða fyrir fyrsta landsfund Sjálfstæðisflokksins síðan 2018 er lagt til að ríkið selji fjölmörg fyrirtæki og eignir sem það á í dag, að einkaaðilum verði hleypt inn í velferðarþjónustu-, menntamál og orkugeirann á hátt sem þeir eru ekki í dag og að grunnskólinn verði styttur í níu ár. Flokkurinn vill lækka skatta, leggja af bankaskatt og stilla gjaldheimtu á sjávarútveg í hóf.
Í drögum að málefnaályktunum sem unnar hafa í aðdraganda fyrsta landsfundar Sjálfstæðisflokksins í fjögur og hálft ár er meðal annars lagt til að klára sölu á hlutum í Íslandsbanka og hefja söluferli á Landsbankanum. Þar er líka lagt til að selja Íslandspóst og kanna hvort rekstri RÚV sé ekki „að öllu leyti eða hluta betur komið í höndum einkaaðila.“ RÚV á einnig að fara af auglýsingamarkaði.
Þá vill Sjálfstæðisflokkurinn skoða sölu ríkisins á verslunum ÁTVR samhliða afnámi á einokunarstöðu ríkisins á sölu áfengis og færa áfengiskaupaaldur niður í 18 ár. Flokkurinn vill líka selja Fríhöfnina, dótturfélag Isavia, enda sé „engin þörf á því að ríkið standi í sælgætis- og ilmvatnssölu.“
Málefnanefndir flokksins, sem unnið hafa drögin, leggja einnig til að eignir Eignarhaldsfélags Suðurnesja, félag í eigu ríkisins sem á eignir upp á rúman hálfan milljarð króna, verði seldar, að ríkið eigi að selja rekstur og eignarhald flugstöðva og flugvalla og selja jarðir og lóðir í eigu ríkisins þar sem því verður viðkomið.
Vilja stytta grunnskólann og koma krökkum úr menntaskóla 18 ára
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins mótar stefnu hans. Kosið er í stjórnir málefnanefnda á fundinum sem vinna með þau drög sem unnin voru í aðdraganda fundarins. Drögin verða kynnt landsfundargestum nú í morgunsárið.
Eftir að landsfundi lýkur munu liggja fyrir samþykkar landsfundarályktanir sem kjörnum fulltrúum flokksins ber að vinna eftir. Í ljósi þess hversu langt er síðan að landsfundur fór síðast fram, sá síðasti var í mars 2018, er töluvert um uppfærsluhugmyndir á stefnumálum í þeim drögum að ályktunum sem málefnahópar innan Sjálfstæðisflokksins hafa unnið í aðdraganda fundarins.
Í menntamálum er meðal annars lagt til að sveitarfélögum verði auðvelduð útvistun verkefna til einkaaðila í leik- og grunnskólum og að skólaárum í grunnskóla verði fækkað úr tíu í níu samhliða lengingu skólaársins „þannig að ungmenni útskrifist að jafnaði úr framhaldsskóla 18 ára, eins og tíðkast í flestum löndum í kringum okkur. Löng sumarfrí hafa slæm áhrif á námsárangur, einkum þeirra sem standa höllum fæti.“
Þá leggur málefnahópurinn sem skrifaði drögin að skoðað verði hvort hægt sé að stytta bóklegt kennaranám og fjölga körlum í greininni. Hann vill líka að sjálfstætt starfandi háskólar fái tækifæri til að bjóða upp á kennaranám.
Lagt er til að háskólar landsins taki upp aðgangsstýringu til að tryggja að tíma nemenda og skólanna sé betur varið. „Ísland er eitt fárra Evrópuríkja án slíkrar stýringar. Skoða ætti skólastigið í heild og kanna hvar tækifæri eru til aukins einkarekstrar, samstarfs og sameiningar, nemendum og vísindum til heilla, og styrkja stofnanir á landsbyggðinni.“
Í menningarmálum er að finna tillögu um endurskoðun á starfs- og heiðurslaunakerfi listamanna „þannig að það sé sanngjarnt, hvetjandi, ýti undir grósku í menningarstarfi og styðji við upprennandi listafólk.“
Vilja afnema bankaskatt að fullu og hækka lífeyrisaldur í 70 ár
Miklu púðri er að venju eytt í efnahags- og atvinnumál og áherslan áfram sem áður á skattalækkanir, skattaívilnanir og samdrátt í ríkisrekstri. Á meðal sértækra hugmynda sem er að finna í drögunum eru innleiðing skattafslátta fyrir einstaklinga vegna kaupa á hlutabréfum, að hækka lífeyrisaldur í 70 ár og rýmka heimildir þeirra sem hafa náð þeim aldri til að vinna hjá hinu opinbera og taka upp eitt skattþrep með stíglækkandi persónuafslætti. Þá er lýst yfir vilja til að taka upp „barnapersónuafslátt“ í stað barnabóta sem á að tryggja læggri skattbyrði og „stuðning fyrir þá sem sérstaklega þurfa á honum að halda.“
Vilji er til að afnema bankaskattinn að fullu og til þess að „bæta vaxtakjör fólks og fyrirtækja“. Innheimtur bankaskattur í fyrra.Í fjárlagafrumvarpi ársins 2023 er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs vegna bankaskatts nemi 5,9 milljörðum króna. Ef hann hefði ekki verið lækkaður árið 2020 myndu þær vera 15,3 milljarðar króna. Vaxtamunur stærstu banka landsins hefur aukist, ekki dregist saman, á þeim tíma sem liðinn er frá því að bankaskatturinn var lækkaður. Hann er nú um og yfir þrjú prósent, sem er mun hærra en í löndum sem Ísland ber sig saman við.
Málefnahóparnir leggja líka til að virðisaukaskattskerfið verði einfaldað, að launagreiðendum og stéttarfélögum verði tryggt raunverulegt félagafrelsi á vinnumarkaði.
Áfram sem áður er það stefna Sjálfstæðisflokksins að stilla eigi gjaldheimtu í sjávarútvegi í hóf til að „hún dragi ekki úr samkeppnishæfni á alþjóðamarkaði og fjárfestingu í greininni“ og að virða beri „eignar- og nýtingarrétt einstaklinga á auðlindum og ekki grípa til þjóðnýtingar eða skerðingar á réttindum einstaklinga.“
Þá fjalla ýmsar greinar í drögunum fjalla um frekari einkavæðingu og einkarekstur í heilbrigðisgeiranum.
Á móti ESB en vilja skattaafslætti fyrir einkarekna fjölmiðla í stað styrkja
Í fjölmiðlamálum er aðallega lagt til að bæta skattaumhverfi fjölmiðla og, líkt og áður sagði, að RÚV veðri tekið af auglýsingamarkaði. „Þannig verður styrkari stoðum rennt undir tilvist einkarekinna fjölmiðla í stað beinna ríkisstyrkja.“
Í utanríkismálum er sagt að brýnt sé að tryggja áfram „opinn og frjálsan aðgang að innri markaði Evrópusambandsins (ESB) á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og treysta jafnframt viðskiptasambönd við Bandaríkin og Bretland.“ Tengsl Íslands við ESB séu almennt í farsælum farvegi með EES-samningnum og Sjálfstæðisflokkurinn áréttar að „þá stefnu sína frá 2009 að hag þjóðarinnar og yfirráðum hennar yfir auðlindum sínum sé best borgið utan ESB. Ekki verði sótt aftur um aðild að sambandinu nema Íslendingar hafi áður samþykkt það í þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Fíkn heilbrigðismál og fólki frjálst að skilgreina kyn
Í drögum að ályktunum um dóms- og löggæslumál, og ýmsum ályktunum sem snúa að mannréttindum, kennir ýmissa grasa. Þar er meðal annars sagt að neysla fíkniefna og varsla neysluskammta ætti ekki að vera refsiverð. Fíkn sé heilbrigðismál, ekki löggæslumál.
Kallað er eftir því að stjórnvöld móti sér heildræna stefnu í málefnum hinsegin fólks þar sem sérstaklega verði „skoðað að styrkja stöðu hinsegin fjölskyldna, einkum með tilliti til ættleiðinga, skráningar og sjálfkrafa viðurkenningar samkynja foreldra.“ Þá eigi fólki að vera frjálst að skilgreina kyn sitt að vild.
Lagt er til að aðskilnaður ríkis og kirkju verið kláraður að fullu og að Ísland sýni frumkvæði að því að bjóða fleiri kvótaflóttamönnum til landsins. Sjálfstæðisflokkurinn vill hins vegar taka verndarkerfið í innflytjendamálum til endurskoðunar þannig að ferlar séu styttir og einfaldaðir. Þá vill flokkurinn að því fólki sem kemur utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), og er með hreint sakavottorð, verði gert kleift að koma til Íslands og starfa.
Í drögunum er sagt að engin knýjandi þörf sé á því að umbylta efni stjórnarskrár Íslands. „Heildarendurskoðun sem umturnar öllum ákvæðum stjórnarskrárinnar samræmist illa sjónarmiðum um réttaröryggi og fyrirsjáanleika. Að sama skapi telur Sjálfstæðisflokkurinn mikilvægt að breytingar á stjórnarskrá séu gerðar í víðtækri pólitískri sátt og að undangenginni vandaðri og málefnalegri umræðu.“ Þá sé óþarft er að gera grundvallarbreytingar á fyrirkomulagi kosningamála.
Hér er grænt, um grænt, frá grænu til einkaframtaksins
Ein af helstu kosningaáherslur Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar voru orkumál. Eða réttara sagt orkuskipti. Sennilega hafa frambjóðendur Sjálfstæðisflokks aldrei klifað jafn mikið á forskeytinu „grænt“ og þeir gerðu í aðdraganda þeirra.
Þessi umbreyting endurspeglast ágætlega í drögum að landsfundarályktun flokksins. Þar segir meðal annars að í „þágu orkuskipta og í ljósi niðurstöðu grænbókar um orkumál er nauðsynlegt að afla nýrrar grænnar orku, bæta nýtingu núverandi raforkukerfis og framleiða grænt raf- og lífeldsneyti. Hagsmunum Íslands er best borgið með því að byggja upp grænan iðnað í tengslum við orkuskipti hér á landi og flytja ekki græna orku úr landi með sæstreng. Landsfundur stendur heilshugar á bak við hugmyndir um atvinnuuppbyggingu innanlands á grunni hagkvæmrar nýtingar orkuauðlinda. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins leggur áherslu á að hlúa enn frekar að uppbyggingu grænna iðngarða enda styðja þeir við sjálfbærni með því að innleiða félagsleg, efnahagsleg og umhverfisleg sjónarmið í skipulagningu, í stýringu og framkvæmd.“
Þá segir að nauðsynlegt sé að ríkið setji skýra eigendastefnu gagnvart orkufyrirtækjum og og raforkuflutningsfyrirtækjum í eigu ríkisins „sem tryggi m.a. að þau styðji stjórnvöld í að ná markmiðum sínum í loftslagsmálum.“ Í öðrum kafla, sem snýr að nýtingu náttúruauðlinda, sem orkuauðlindir eru sannarlega, segir síðan að það hafi reynst vel að nýtingar- og afnotaréttur þeirra sé í höndum einkaaðila. Sjálfstæðisflokkurinn telur líka nauðsynlegt að nýta einkaframtakið eins og hægt er þegar kemur að uppbyggingu flutningskerfis orku, sem er nú að öllu leyti í opinberri eigu.
Þegar kemur að umhverfismálum eru skilaboðin einfaldari. Í drögunum segir að einkaframtakið og einkarétturinn séu besta náttúruverndin.
Einkafjármagn í samgöngur og skattalegir hvatar
Að lokum eru það samgöngumál. Sjálfstæðisflokkurinn er á þeirri skoðun að ráðast þurfi í flýtiframkvæmdir í samgöngum og til þess þurfi „fjölbreyttari fjármögnun“. Það þýðir á mannamáli að hið opinbera eigi að hleypa einkaaðilum í meiri mæli inn í uppbyggingu samgöngumannvirkja og Sundabraut nefnd sem aðkallandi dæmi.
Í drögunum er því sérstaklega fagnað að framlög til samgönguframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu verði stóraukin á grundvelli samgöngusáttmála milli ríkis og sveitarfélaga á svæðinu sem undirritaður var 2019. Stærsta samgönguverkefnið sem ráðist verður í á grunni þess sáttmála er hin svokallaða borgarlína. „Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að þetta mikilvæga verkefni sé undirbúið vel, kynnt vel fyrir íbúum og um það sköpuð góð sátt. Mikilvægt er að tryggja arðbæra nýtingu fjármuna þannig að markmið um greiðari samgöngur, aukin lífsgæði og valfrelsi í samgöngum náist.“
Til að orkuskipti í samgöngum geti gengið greiðlega í náinni framtíð segir flokkurinn að til þurfi „alvöru skattalega hvata fyrir einstaklinga og fyrirtæki.“
Þá er að finna ályktun um flugtengd málefni og meðal annars sagt að stefna skuli að orkuskiptum í innanlandsflugi á Íslandi fyrir árið 2030, eða eftir rúmlega sjö ár. Að sjálfsögðu er minnst á Reykjavíkurflugvöll, sem mikið hefur verið rifist um á síðustu áratugum. Tillagan er þannig að Sjálfstæðisflokkurinn árétti „að Reykjavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu öryggishlutverki fyrir allt landið og er því brýnt að hann verði óskertur í Vatnsmýri þar til annar jafn góður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars