Landsbanki Íslands, sem íslenska ríkið á, sendi frá sér fréttatilkynningu á dögunum þar sem fram kom að Steinþór Pálsson bankastjóri, hefði undirritað samning um sölu á 31,2 prósent eignarhlut í Borgun. Kaupverðið á hlutnum var tæplega 2,2 milljarðar króna og var kaupandi hlutarins Eignarhaldsfélag Borgunar Slf. Ekkert formlegt söluferli fór fram áður en félagið var selt, en Magnús Magnússon, forsvarsmaður félagsins, var sá sem setti sig í samband við Landsbanka Íslands og sýndi áhuga á kaupum á hlut Landsbankans.
Kaupin fóru því fram bak við luktar dyr, þar sem enginn annar en hópurinn sem sýndi áhuga á kaupunum fékk að reyna að kaupa hlutinn. Stofnfé Eignarhaldsfélags Borgunar nemur 500 þúsund krónum sem skiptist í þrjá flokka, 100 þúsund í A flokki, 395 þúsund í B flokki og fimm þúsund í C flokki. Í A og B flokki eru eigendur stofnfjár með takmarkaða ábyrgð en í C flokki er ótakmörkuð ábyrgð.
B flokkurinn langstærstur
Einu eigendur A flokks stofnfjár er félagið Orbis Borgunar slf. Eigendur B flokks hlutabréfa Eignarhaldsfélags Borgunar eru þrettán talsins, samkvæmt samningi um samlagsfélagið sem Kjarninn hefur undir höndum. Stærsti einstaki eigandinn er Stálskip ehf., þar sem Guðrún Lárusdóttir hefur stýrt ferðinni í áratugi, með 29,43 prósent hlut. Þá á félagið P126 ehf. 19,71 prósent hlut, en eigandi þess er Einar Sveinsson í gegnum móðurfélagið Charamino Holdings Limited sem skráð er á Lúxemborg.
Þá á Pétur Stefánsson ehf. 19,71 prósent hlut, en forsvarsmaður þess var Sigvaldi Stefánsson á stofnfundi. Samanlagður eignarhlutur þessara þriggja stærstu eigenda nemur 68,85 prósentum af B flokki stofnfjár.
Á eftir þessum stærstu eigendum kemur félagið Vetrargil ehf. með 5,14 prósent hlut og TD á Íslandi ehf. 5,15 prósent. Afganginn eiga AB 426 ehf (2,86%)., þar sem Sigurþór Stefánsson er í forsvari, Eggson ehf. (0,86%), þar sem Anna Birgitta Geirfinnsdóttir er í forsvari, Bústoð ehf. (0,86%), þar sem Anna Birgitta er einnig í forsvari, Framtíðarbrautin ehf. (4,43%), þar sem B. Jakobína Þráinsdóttir er í forsvari, Iðusteinar ehf., þar sem Magnús Pálmi Örnólfsson er í forsvari, Holt og hæðir ehf., þar sem Sigríður V. Halldórsdóttir er í forsvari, Spectabilis ehf., þar sem Óskar V. Sigurðsson er í forsvari, og Mens Manus ehf., þar sem Hjalti Þ. Kristjánsson er í forsvari.
Stofnfundur í október
Samkvæmt stofnfundargerð félagsins, frá 23. október síðastliðnum, voru fjórir einstaklingar mættir fyrir hönd félaganna Orbis Borgunar slf. og Orbis GP ehf. Þau félög eru þau einu sem eru í eigendur stofnfjár í C flokki með ótakmarkaða ábyrgð. Þau sem mættu á fundinn fyrir hönd félaganna voru Magnús Magnússon, Óskar V. Sigurðsson, Jóhann Baldursson og Margrét Gunnarsdóttir.Miklar takmarkanir
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, lét hafa eftir sér í tilkynningu vegna þessara viðskipta að sátt sem gerð var við Samkeppniseftirlitið árið 2008, hefði haft í för með sér miklar takmarkanir á aðkomu Landsbankans að félaginu. „Ennfremur hefur það verið markmið samkeppnisyfirvalda að aðeins einn banki sé hluthafi í hverju greiðslukortafyrirtæki á hverjum tíma. Þessi staða var óviðunandi fyrir Landsbankann og því teljum við þetta vera farsæla úrlausn fyrir bankann, félagið og nýja eigendur,“ sagði Steinþór í tilkynningu.Eins og áður segir var það Magnús Magnússon, sem skráður er með lögheimili á Möltu, sem nálgaðist Landsbankann með þá hugmynd að kaupa hlut bankans í Borgun. Þetta staðfesti hann sjálfur í samtali við Kjarnann. Þá hófst ferli sem lauk síðan með sölu hlutnum. Ekkert hefur komið fram um það hvers vegna Landsbankinn auglýsti hlutinn ekki til sölu og seldi hann í gagnsæju ferli, eins og bankinn hefur raunar lagt áherslu að sé gert með aðrar eignir sem hafa verið seldar að hálfu bankans.
Þessi 31,2 prósent hluti í Borgun var í reynd eign íslenska ríkisins, í gegnum dótturfélag þess, Landsbanka Íslands, en eignarhlutur ríkisins í bankanum nemur um 98 prósentum.