Fréttin hefur verið uppfærð og fyrirsögn hennar breytt. Í upplýsingum sem Kjarninn fékk skriflega frá Landsvirkjun í gær sagði að á næstu 1-2 árum yrði allri sölu á raforku til rafmyntagraftrar hætt. Hið rétta er, segir í leiðréttingu frá Landsvirkjun, að fyrirtækið hefur ekki ákveðið hvort að samningar við gagnaver hvað vinnslu rafmynta snertir verði endurnýjaðir að hluta eða í heild er þeir renna út eftir 1-2 ár. Fyrirtækið muni sjá hvernig rætist úr stöðunni og taka ákvörðun í framhaldinu.
Eftir að Kína ákvað að banna gröft eftir rafmyntum, sem fram fer með aflfrekum tölvum í gagnaverum sem þarf að skipta títt út, jókst eftirspurn eftir raforku frá Landsvirkjun vegna slíkrar starfsemi mikið. Fyrirtækið hefur nú hafnað öllum nýjum beiðnum um raforkukaup vegna rafmynta, bæði til núverandi viðskiptavina og nýrra aðila sem hafa áhuga á að hefja starfsemi. Heildareftirspurnin nam um 1.000 MW sem er tífalt það magn sem gagnaverin á Íslandi nýta í dag. Forstjóri Landsvirkjunar hefur ennfremur sagt að ekki verði virkjað sérstaklega til rafmyntagraftrar. Núverandi samningar um þessa starfsemi renna út á næstu 1-2 árum.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í svörum Landsvirkjunar við fyrirspurn Kjarnans í tilefni af því að fyrirtækið ákvað að skerða afhendingu á raforku til fiskimjölsverksmiðja sem og stórnotenda með skerðanlega skammtímasamninga, t.d. gagnavera og álvera.
„Ástæðan fyrir skerðingu til fiskimjölsverksmiðja er fyrst og fremst sú að þær, einar iðnfyrirtækja á almennum markaði, eru eingöngu með skerðanlega samninga,“ segir Ragnhildur Sverrisdóttir upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar. Aðrir stórnotendur semja um forgangsorku og að auki um skerðanlega orku, í samningum til skemmri tíma. Fiskimjölsverksmiðjurnar hafa hins vegar „kosið að greiða lágt orkuverð, gegn því að sæta skerðingu þegar nauðsyn krefur“.
Nóg af orku en flöskuhálsar í flutningi
Það er ekki þannig að skerðingin nú skýrist af almennum orkuskorti í landinu, þ.e. að þær orkustöðvar sem hér hafa verið reistar, virkjanirnar, eigi ekki að duga til svo loðnubræðslurnar geti starfað. Margir þættir hafa komið saman sem skapað hafa þá nauðsyn á skerðingum sem Ragnhildur nefnir.
Í fyrsta lagi þá ræður flutningskerfið ekki við að flytja alla þá orku sem hægt væri að framleiða í stærstu virkjun landsins, Kárahnjúkavirkjun, til viðskiptavina. Þannig eru fiskimjölsverksmiðjurnar á Austurlandi sem nú þurfa að búa við skerðingu „röngu megin“ í flutningskerfinu, líkt og Ragnhildur orðar það. Þær eru engu að síður í nágrenni Kárahnjúka . „Meiri framleiðslugeta er fyrir norðan en notkun og minni framleiðslugeta en notkun á Suðvesturlandi,“ segir Ragnhildur. Þetta verður til þess, að því er sagði í tilkynningu Landsvirkjunar um skerðinguna, að á tíu dögum rann framhjá Kárahjúkavirkjun orka sem samsvarar heilsársnotkun allra bræðslna á landinu. „Þessar takmarkanir orsaka það að ekki er hægt að fullnýta raforkukerfið,“ bendir Ragnhildur á.
Á Suðvesturlandi er svo á sama tíma gríðarmikil eftirspurn ef raforku, „enda leggja stærstu viðskiptavinir okkar áherslu á að fullnýta verksmiðjur sínar, nú þegar eftirspurn eftir vörum þeirra er í hæstu hæðum og verðið þá um leið,“ segir Ragnhildur. Þetta á m.a. við um álverin og gagnaverin. Nú er rafmagn afhent til gagnavera á fimm stöðum á landinu. Þrjú ver eru rekin á Suðurnesjum, eitt á höfuðborgarsvæðinu og eitt á Blönduósi. Eitt álver er á Grundartanga, annað í Hafnarfirði og það þriðja á Austurlandi.
En það er fleira en flutningskerfið sem skýrir stöðuna. Staðan í vatnsbúskapnum er verri á Suðurlandi en hún hefur verið um langt skeið. Uppistöðulónið Þórisvatn, sem fóðrar virkjanir Landsvirkjunar í Þjórsá, fylltist ekki í haust. Þetta hefur áhrif niður virkjanakerfið á svæðinu. Vatn í öðru uppistöðulóni, Krókslóni, hefur lækkað það mikið að hleypa þurfti vatni framhjá Vatnsfellsvirkjun. Því hefur dregið úr orkuvinnslu á Þjórsár- og Tungnársvæði og orkusölu þaðan þá sömuleiðis.
Bilanir hjá Landsvirkjun og HS orku
Svo eru það bilanir. Bilun kom upp í vél (hverfli) í Búrfellsvirkjun fyrir nokkrum dögum. Enn er ekki ljóst hversu umfangsmikil hún er. Áætlað var að hefja vinnu við útskipti á vatnshjóli þessarar sömu vélar um miðjan janúar og mun sú vinna standa fram í byrjun maí.
Um er að ræða einn af sjö hverflum Búrfellsvirkjunar og eru þeir sjaldnast keyrðir allir í einu. Hinar vélarnar verða að líkindum keyrðar meira á meðan sú bilaða er úti sem eykur áhættu í rekstri raforkukerfisins, að sögn Ragnhildar.
Kjarninn fékk einnig þau svör frá HS Orku að ein 6 MW vél í Svartsengi væri biluð og því ekki „að keyra núna“ líkt og Jóhann Snorri Sigurbergsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar fyrirtækisins, orðar það. Orkuvinnslan í virkjunum HS orku væri í meðallagi miðað við síðustu fimm ár.
1-4 prósent raforkunnar til gagnavera
Sá iðnaður hér á landi sem vex einna hraðast um þessar mundir tengist gagnaverum. Geymslu og vinnslu gagna í öflugum tölvum. Viðskiptavinir Landsvirkjunar í gagnaversiðnaði eru fjórir og getur eftirspurnin sveiflast á milli ára. Þannig hefur sala til gagnaveranna verið á bilinu 1-4 prósent af heildarraforkusölu fyrirtækisins á árunum 2017–2021. Sala Landsvirkjunar til gagnavera nemur um 100 MW um þessar mundir og sala HS orku til þeirra er um 15 MW til viðbótar.
„Gagnaversiðnaður er í stöðugri sókn á heimsvísu enda verða gögn sífellt mikilvægari í viðskiptum og daglegu lífi,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, við Kjarnann. Gagnamagn aukist á degi hverjum og tilheyrandi gagnavinnsla sömuleiðis. „Aukin notkun fyrirtækja og einstaklinga á upplýsingatækni hefur stuðlað að hröðum vexti gagnaversiðnaðar og búist er við að hann haldi áfram í veldisvexti.“
Samtök iðnaðarins áætla að um helmingur af starfsemi gagnavera hér á landi tengist vinnslu rafmynta. Hlutfallið af starfsemi sem tengist greftri eftir rafmyntum hefur farið minnkandi á undanförnum árum en það var um 80-90 prósent þegar mest lét. Önnur starfsemi gagnavera hefur hins vegar verið í hraðari vexti. Ekkert þeirra fjögurra stóru gagnavera sem starfrækt eru á Íslandi er eingöngu í rafmyntum.
Milljarðar til þjóðarbúsins
Sigríður bendir á að gagnaverin leggi bæði mikið til þjóðarbúsins, um 20 milljarða í gjaldeyristekjur á ári, auk þess sem þar starfi um 100 fastráðnir starfsmenn. Einnig tekur hún fram að hér hafi skotið upp kollinum tæknifyrirtæki sem eingöngu starfi í kringum gagnaversiðnaðinn. Þá þjónusta íslensk upplýsingatæknifyrirtæki einnig gagnaverin.
Staðan sem upp er komin núna sem leitt hefur til þess að skerða hefur þurft raforku til gagnavera og fleiri fyrirtækja „er meðal annars birtingarmynd þess að hér hefur umræða um orkuöflun verið í ákveðnum skotgröfum á síðustu árum, samanber rammaáætlun sem hefur verið í algjöru frosti um árabil,” segir Sigríður. „Ljóst er að stjórnsýsla raforkumála hefur ekki verið skilvirk og þvert á móti, í raun hefur uppbygging raforkukerfisins verið í algjöru lamasessi. Lærdómurinn er auðvitað sá að við verðum að temja okkur að hugsa lengra fram í tímann, það hefur legið fyrir lengi að atvinnu- og efnahagslíf framtíðar verður að miklu leyti raforkuknúið og það eru að verða miklar breytingar í iðnaði. Orkuskipti, framtíðariðnaður; meðal annars gagnaversiðnaður, hátæknimatvælaframleiðsla, líftækni, vetnis- og rafeldsneytisframleiðsla (sem má nefna sem dæmi) eru allt stór tækifæri fyrir okkur Íslendinga. Við getum hins vegar ekki nýtt þau tækifæri, til hagsbóta fyrir þjóðarbúið allt, nema með því að efla raforkukerfið til muna, auka orkuöflun og stuðla að aukinni skilvirkni og bolmagni í flutnings- og dreifikerfi raforku.”
Samningar Landsvirkjunar við gagnaver eru breytilegir sem endurspegla margbreytilega starfsemi þeirra. Þjónusta gagnavera við fyrirtæki byggir á miklum áreiðanleika tölvukerfa, fjarskipta og orku og gagnaver tryggja sér kaup á forgangsorku fyrir þá starfsemi. Vinnsla gagnavera vegna námugraftar eftir rafmyntum hefur í för með sér kvikari eftirspurn og eru samningarnir styttri. Nú hefur Landsvirkjun gripið til skerðinga í slíkum samningum en Ragnhildur segir í sínum svörum til Kjarnans á að skerðingin hafi takmörkuð áhrif á starfsemi gagnaveranna þar sem um umsamið magn raforku í skerðanlegum skammtímasamningum sé lítið.
Ætla að fasa út rafmyntir
Verne Global er fyrsta alþjóðlega gagnaverið á Íslandi og þjónustar m.a. stór alþjóðleg fyrirtæki og stofnanir. Dæmi um viðskiptavini gagnaversins eru bílaframleiðendur og hönnuðir, fyrirtæki í líftækniiðnaði, fjármálastofnanir sem þurfa mikið reikniafl og svo framvegis. Gagnaver á Íslandi hyggjast hins vegar „fasa út“ rafmyntir og færa sig meira yfir í hefðbundna viðskiptavini.
„Verne Global er jafnframt fyrsta gagnaverið til þess að fasa út rafmyntir og ekki er gert ráð fyrir slíkri starfsemi í gagnaverinu frá og með á næsta ári,“ segir Ragnhildur. Önnur gagnaver á Íslandi eru með blandaða starfsemi og eru að bæta við sig alþjóðlegum viðskiptavinum sem þurfa á miklu reikniafli að halda. Hún segir að rafmyntastarfsemin hafi hjálpað gagnaverunum að komast á legg, þ.e. til að ná stórnotendaviðmiðum í flutningssamningum raforku, greiða niður fjárfestingar og byggja upp alþjóðlegan viðskiptavinahóp sem þarf á reikniafli ofurtölva að halda. Landsvirkjun hefur nú hafnað öllum óskum nýrra gagnaversviðskiptavina um orkukaup vegna rafmyntagraftrar. Raforkusamningar fyrir rafmyntagröft eru stuttir og verða allir útrunnir eftir eitt til tvö ár. Landsvirkjun hefur hins vegar ekki ákveðið hvort samningarnir verða endurnýjaðir að hluta eða heild. Fyrirtækið mun sjá hvernig rætist úr stöðunni og taka ákvörðun í framhaldinu.