Launadeilur aðila vinnumarkaðarins, sem ná til kjarasamninga fyrir um 140 þúsund Íslendinga, eru nú komnar inn á borð ríkissáttasemjara, þar sem útséð var með að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda næðu saman. Himinn og haf ber á milli verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins, og það sama má segja um stéttarfélög opinberra starfsmanna og ríkisins. Allt bendir til þess að umfangsmiklar verkfallsaðgerðir, sem munu hafa víðtæk áhrif, séu framundan.
Eins og Kjarninn hefur bent á áður þá er rík krafa um það hjá verkalýðshreyfingunni að lægstu laun verði hækkuð myndarlega, og hafa samningar ríkisins við lækna, þar sem samið var um meira en 20 prósent hækkun launa, haft mikil áhrif á kröfugerð stéttarfélaga og andann í samningaviðræðunum yfir höfuð. Þetta staðfesta viðmælendur beggja megin borðsins. Hjá SGS hefur krafan verið sú að lægstu laun verði hækkuð í 300 þúsund en þau eru 214 þúsund í dag. Hækkunin á að koma fram á þremur árum, en meðal mánaðarlaun þessa hóps hafa verið sögð meira en 400 þúsund krónur þegar allt er talið.
Ólíkar kröfur eftir félögum
Flóabandalagið hefur sett fram kröfur um 35 þúsund króna hækkun lægstu byrjunarlauna. Auk þess sem þau verði leiðrétt miðað við hækkanir hjá öðrum umfram forsendur síðustu kjarasamninga. Formaður Eflingar og talsmaður Flóabandalagsins, Sigurður Bessason, hefur látið hafa eftir sér að Flóabandalagið geri kröfu um þessa hækkun á einu ári, einfaldlega vegna þess að þau treysti ekki stjórnvöldum og því sé ekki hægt að semja til lengri tíma. Þegar allt er talið telja Samtök atvinnulífsinss að kröfur Flóabandalagsins feli í sér 17,5-22% hækkun launataxta, og þeim sé ekki hægt að mæta.
Hjá Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur (VR) er uppi krafa um 50 þúsund króna launaþróunartryggingu. Það þýðir um 20% hækkun þeirra sem lægstu laun hafa. Samkvæmt heimildum Kjarnans er horft til þess að semja til tólf mánaða. Samtök atvinnulífsins hafa lýst yfir áhyggjum, sem snúa því að krónutöluhækkanir taxta, sem samið yrði um, fari upp allan launaskalann, og þannig geti þeir sem hæstu launin hafa í reynd fengið meiri krónutöluhækkun en aðrir. Þessu hafa forsvarmenn VR hafnað, og tala fyrir nauðsyn þess að hækka launin hjá þeim sem minnst hafa. Einblína á þann hóp, enda séu félagsmenn VR upp til hópa ekki hluti af hálaunastéttum í landinu.
Iðnaðarmenn og stéttarfélög þeirra hafa gert almenna kröfu um tuttugu prósent launhækkun. Þar af um um 100 þúsund króna hækkun lægstu taxta. Kröfur hafa verið uppi um enn meiri hækkanir hjá Matvís, félagi iðnaðarmanna í matvæla- og veitingageiranum, sem eru með lægri taxta en hinir hópar iðnaðarmanna eins og mál standa nú. Líkt og hjá hjá Flóabandalaginu og VR, hefur verið horft til þess að semja aðeins til tólf mánaða.
Stjórnvöld í slæmri samningsstöðu eftir niðurlægjandi tap
Eftir að stjórnvöld töpuðu máli sem þau höfðuðu fyrir Félagsdómi, til að reyna að koma í veg fyrir verkfallsaðgerðir félagasmanna BHM, er staðan í kjaraviðræðunum snúin og flestir viðmælendur Kjarnans eru á því, að hún sé stjórnvöld mjög í óhag. Traustið í garð þeirra er lítið, á sama tíma og sigurinn í dómsmálinu þjappaði fólkinu innan BHM enn meira saman. Kröfur hafa verið gerðar í viðræðunum, um að lægstu laun hækki úr 265 þúsund í 400 þúsund. Í tilfelli einstakra stéttarfélaga innan BHM er gerð krafa um meiri hækkanir. Helstu rök fyrir kröfum BHM eru þau, að margar háskólamenntaðar stéttir hafi setið eftir í launaþróun undafarinna ára, eins og gögn sýna, og síðan að stjórnvöld hafi þegar gefið tóninn um hvernig skuli horft til kröfugerðar um þessi mál með samningum við lækna og kennarastéttir sömuleiðis. BHM hefur horft til þess að semja til þriggja ára en eins og mál standa nú eru samningar órafjarri, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Svipaða sögu er að segja af kröfum BSRB, sem meðal annars er með SFR innan sinna vébanda, nema hvað rætt hefur verið um að semja til tólf mánaða, og þá um hækkun sem er í kringum 17 til 20 prósent. Auk þess sem rætt hefur verið um styttingu vinnuviku, breytt starfsfyrirkomulag og fleiri atriði sem snúa að því.