Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, var dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi á dögunum fyrir að leka upplýsingum um hælisleitanda til fjölmiðla. Fram að dómnum hafði Gísli Freyr ítrekað þverneitað fyrir að tengjast lekanum, en ákvörðun hans um að játa brotið sem honum var gefið að sök í ákæru Ríkissaksóknara, kom nánast á sama tíma og upplýsingar bárust frá lögreglu um að umrætt skjal hefði fundist í tölvu hans. Þar með var Gísli kominn í öngstræti, og ákvað að nú væri mál að lygunum linnti. Hann hefur reyndar sjálfur haldið því fram að sönnunargögn lögreglu hafi ekki haft áhrif á ákvörðun hans um að játa skyndilega sök í málinu. Þá hefur hann sömuleiðis þverneitað að Hanna Birna hafi verið viðriðin málið.
Lekamálið hefur engu að síður reynst Hönnu Birnu Kristjánsdóttur erfitt, frá því að það fyrst komst í hámæli í fjölmiðlum fyrir ári síðan. Samkvæmt heimildum RÚV og Nútímans hyggst Hanna Birna segja af sér embætti innanríkisráðherra í dag. Ekki eru öll kurl þó komin til grafar í málinu, og mörgum spurningum enn ósvarað. Svo virðist sem fleiri aðilar málsins séu komnir með bakið upp við vegg.
Gísli Freyr enn og aftur tvísaga
Í kjölfar fréttar DV um að Gísli Freyr og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, þáverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, hafi ræðst við í síma þrívegis við upphaf lekamálsins, eða þann 20. nóvember í fyrra þegar fréttir byggðar á skjalinu sem Gísli lak rötuðu fyrst í fjölmiðla, fullyrti Gísli Freyr í samtali við Kjarnann að málefni hælisleitandans Tony Omos hafi ekki verið til umræðu þeirra á milli í umræddum símtölum.
„Fram hefur komið að Sigríður Björk notaðist, einhverra hluta vegna, við óskráðan farsíma á heimili sínu til að hringja í Gísla til baka.“
Eftir að frétt Kjarnans birtist, þar sem var haft eftir Gísla Frey: „Ég man ekki hvað við ræddum, en við ræddum ekki Tony Omos,“ hafði hann samband við Kjarnann og sagði að eftir að hafa farið betur yfir málið, og litið í minnisbók sína, hafi rifjast upp fyrir honum að fyrri staðhæfing hans um innihald símtalanna væri ekki rétt. Hann hafi spurt Sigríði út í Tony Omos, og hvort rannsóknin á máli hans væri lokið. Fyrsta viðbragð Gísla Freys við fyrirspurn Kjarnans, var sem sagt að fullyrða ósannindi. Þá sagði Gísli Freyr sömuleiðis í samtali við blaðamann Kjarnans að hann hefði hringt tvívegis í Sigríði Björk, hún hefði ekki hringt í hann. Það er reyndar ekki heldur rétt hjá Gísla, miðað við yfirlýsingu Sigríðar Bjarkar.
Sendi pólitískum aðstoðarmanni greinargerð
Í kjölfar áðurnefndar fréttar DV um símtöl Gísla Freys og Sigríðar Bjarkar, sendi sú síðarnefnda frá sér yfirlýsingu. Þar kemur fram að hún hafi fyrst hringt í Gísla Frey, morguninn örlagaríka þann 20. nóvember, til að svara skilaboðum frá honum. Fram hefur komið að Sigríður Björk notaðist, einhverra hluta vegna, við óskráðan farsíma á heimili sínu til að hringja í Gísla til baka. Það símtal bar ekki árangur, því Gísli svaraði ekki símtalinu.
Sigríður Björk og Gísli Freyr töluðu síðar tvívegis saman í síma, en í samtölum þeirra óskaði Gísl Freyr eftir greinargerð frá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum um málefni Tony Omos. Samkvæmt yfirlýsingu Sigríðar Bjarkar var umbeðin greinargerð send Gísla Frey að kvöldi þessa sama dags. Sigríður Björk bendir á í yfirlýsingu sinni að trúnaðarupplýsingarnar sem Gísli Freyr var sakfelldur fyrir að leka, hafi hann látið af té til fjölmiðla áður en samskipti þeirra áttu sér stað. Þetta komi meðal annars fram í rannsóknargögnum lögreglu. Þess ber þó að geta að rannsókn lögreglu snérist einvörðungu um að upplýsa hver hefði lekið trúnaðarupplýsingum um ráðuneytinu, ekki hvaðan upplýsingarnar sem þar var að finna hefðu komið.
„Þá hefur Katrín Oddsdóttir, lögmaður áðurnefndrar konu sem nafngreind er í minnisblaðinu, óskað eftir upplýsingum um á hvaða upplýsingum fullyrðingar Gísla voru byggðar.“
Gísli Freyr eyddi tölvupósti sem Sigríður Björk hafði milligöngu um að hann fengi. Gísli Freyr eyddi raunar öllu póstum tengdum hælisleitandanum Tony Omos úr pósthólfi sínu eftir að lekamálið svokallaða komst í hámæli.
Persónuvernd telur að mögulega hafi persónuupplýsingum verið miðlað þegar Sigríður Björk sendi Gísla Frey áðurnefnda greinargerð. Persónuvernd hefur sent lögreglunni á Suðurnesjum bréf þar sem óskað er eftir skýringum varðandi sendingu greinargerðar um málefni hælisleitanda sem send var innanríkisráðuneytinu. Þetta kemur fram á vefsíðu Persónuverndar.
Sigríður Björk hefur ekki viljað veita fjölmiðlum viðtöl vegna málsins til þessa.
Fræga viðbótin sem gæti velt þungu hlassi
Í minnisblaðinu sem Gísli Freyr hefur nú verið sakfelldur fyrir að leka til fjölmiðla úr innanríkisráðuneytinu, var að finna fræga viðbót í lok skjalsins. Viðbót sem Gísli Freyr tók upp á sitt einsdæmi að semja og bæta við, áður en hann sendi það frá sér til óviðkomandi. Viðbótin var svohljóðandi: „Þá er rétt að benda á að í hælismáli stúlkunnar sem á von á barni, hugsanlega með TO (Tony Omos) er því borið við af hennar hálfu að hún sé mansalsfórnarlamb. Ekki liggur ljóst fyrir hver er barnsfaðir hennar, en rannsóknargögn gefa til kynna að hún sé beitt þrýstingi um að segja að TO sé faðirinn þó svo að hann eigi nú í samandi við íslenska stúlku.“
Gísli Freyr Valdórsson í dómsal þegar hann játaði að hafa lekið minnisblaðinu úr innanríkisráðuneytinu til fjölmiðla.
Ósagt skal látið hvort viðbótin hafi verið hreinn skáldskapur, búinn til í huga Gísla, en ekki er ólíklegt að telja að fullyrðingarnar hafi verið byggðar á upplýsingum sem hann hafi búið yfir. Samkvæmt heimildum Kjarnans er nær ómögulegt að upplýsingar sem fullyrðingarnar eru byggðar á hafi komið frá öðrum en Útlendingastofnun, Stígamótum eða embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Útlendingastofnun sendir öll gögn viðkomandi máls til innanríkisráðuneytisins, þegar úrskurður stofnunarinnar eru kærðir, og sömuleiðis viðbótargögn sem stofnuninni berast eftir að málinu er formlega lokið þar. Stígamót býr yfir ýmsum upplýsingum varðandi möguleg mansalsmál, enda leita fórnarlömb slíkra mála iðulega til samtakanna. Þá bjó embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum yfir margvíslegum upplýsingum um málefni Tony Omos, enda mál hans til rannsóknar hjá embættinu.
„Þá fullyrðir forstjóri Útlendingastofnunar að hún hafi aldrei átt í samskiptum við Gísla Frey. Þá hafi hún spurt núverandi starfsmenn Útlendingastofnunar hvort þeir hafi átt í samskiptum við fyrrverandi aðstoðarmann innanríkisráðherra, sem þeir hafi allir neitað.“
Þá hefur Katrín Oddsdóttir, lögmaður áðurnefndrar konu sem nafngreind er í minnisblaðinu, óskað eftir upplýsingum um á hvaða upplýsingum fullyrðingar Gísla voru byggðar. Fullyrðingarnar eru að mati Katrínar þess eðlis að þær hljóti að hafa verið byggðar á rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjunum. Hún vill því fá upplýsingar um hvort og hvernig þær upplýsingar hafi borist aðstoðarmanni innanríkisráðherra.
Fullyrðingar sem ekki gátu byggt á gögnum frá Útlendingastofnun
Í samtali við Kjarnann fullyrðir Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, að Gísli Freyr hafi ekki getað byggt áðurnefndar fullyrðingar á gögnum sem stofnunin sendi innanríkisráðuneytinu. Upplýsingar um umrædda þungun hafi ekki litið dagsins ljós fyrr en málum Tony Omos og konunnar sem nefnd er í minnisblaðinu hafi verið lokið hjá stofnuninni.
Tony Omos kærði ákvörðun Útlendingastofnunar, um að meina honum um hæli hér á landi, til innanríkisráðuneytisins í lok maí árið 2012, og meint barnsmóðir hans kærði sambærilega ákvörðun stofnunarinnar í byrjun febrúar í fyrra. Konan í minnisblaðinu fæddi barn í byrjun mars á þessu ári. Þá hafi stofnuninn ekki verið kunnugt um að konan væri beitt þrýstingi til að halda því fram að Tony Omos ætti barnið.
Þá fullyrðir forstjóri Útlendingastofnunar að hún hafi aldrei átt í samskiptum við Gísla Frey. Þá hafi hún spurt núverandi starfsmenn Útlendingastofnunar hvort þeir hafi átt í samskiptum við fyrrverandi aðstoðarmann innanríkisráðherra, sem þeir hafi allir neitað. Það hefur hins vegar ekki verið sannreynt við rannsókn lögreglu, enda snérist rannsókn hennar fyrst og síðast um að upplýsa hver lak áðurnefndu minnisblaði frá innanríkisráðuneytinu til fjölmiðla, eins og áður segir.
Í samtali við Kjarnann fullyrðir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, að engar upplýsingar hafi farið frá samtökunum sem hafi gefið tilefni til fullyrðinga Gísla Freys undir lok minnisblaðsins. Samtökin veiti aldrei innanríkisráðuneytinu persónulegar upplýsingar um skjólstæðinga sína, heldur einvörðungu lögreglu.
Böndin berast að lögreglunni á Suðurnesjum
Í ljósi ofangreinds vakna upp spurningar um hvort Gísli Freyr hafi einfaldlega aflað sér upplýsinga innan innanríkisráðuneytisins um málefni Tony Omos, sem fullyrðingar hans hafa byggt á. Þá ber að hafa í huga að Gísli var pólitískt ráðinn aðstoðarmaður Hönnu Birnu, en ekki embættismaður innan ráðuneytisins sem fjallar málefni hælisleitenda. Hann hefur þá þurft að afla sér þessara tilteknu upplýsinga að eigin frumkvæði, eða samkvæmt beiðni innanríkisráðherra.
Þá ber að hafa í huga að ein af þeim vörnum sem Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur haldið uppi í málinu, sem hún hefur ítrekað gert, var að ekkert sambærilegt gagn og umrætt minnisblað væri að finna í ráðuneytinu. Það er auðvitað í besta falli orðhengilsháttur, þar sem minnisblaðið, fyrir utan viðbót Gísla Freys, var sannarlega til í ráðuneytinu eins og rannsókn lögreglu hefur leitt í ljós. Spurð út í ummælin, þegar minnisblaðið fannst í tölvum starfsmanna ráðuneytisins, hefur Hanna Birna sagst vera að vísa í „breytta“ minnisblaðið þar sem áðurnefndri viðbót Gísla Freys hafði verið bætt við.
Ef Gísli byggði fullyrðingar sínar á gögnum sem ekki voru til í ráðuneytinu, vakna upp spurningar hvaðan upplýsingarnar sem fullyrðingarnar byggðu á séu komnar. Miðað við ofangreint berast óumflýjanlega böndin að lögreglustjóranum á Suðurnesjunum.
Ráðning Sigríðar Bjarkar vakti athygli innan lögreglunnar
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.
Starfsfólki hjá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum var tilkynnt um ráðningu Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur í stöðu lögreglustjóra, nánast samdægurs og Stefán Eiríksson sagði upp störfum. Samkvæmt heimildum Kjarnans vakti ráðning hennar athygli innan lögreglunnar, ekki síst á meðal þeirra rannsóknarlögreglumanna sem önnuðust rannsóknina á lekamálinu. Þeir vissu nefnilega um símtöl hennar og Gísla Freys við upphaf lekamálsins.
Þá vakti ráðning Sigríðar Bjarkar ekki síður athygli fyrir þær sakir að staða lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins var ekki auglýst laus til umsóknar. Um er að ræða eftirsóknarverðustu stöðu innan lögreglunnar, og eflaust margir núverandi lögreglustjórar sem hefðu haft áhuga á að sækja um stöðuna. Við nýlegar ráðningar í stöður lögreglustjóra í tveimur minnstu lögregluumdæmunum, það er á Vestfjörðum og Vestmannaeyjum, voru stöðurnar rækilega auglýstar, sem og hæfniskröfur. Við skipanir í þessi embætti var skipuð sérstök valnefnd af ráðherra til að meta hæfi umsækjenda. Sama fyrirkomulag hefur meðal annars verið við lýði við skipun ríkissaksóknara og vararíkissaksóknara.