Sigríður Björk Guðjónsdóttir, þáverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, afhenti Gísla Frey Valdórssyni, fyrrverandi aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, greinargerð um hælisleitandann Tony Omos, í trássi við reglugerð um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu. Samkvæmt stuðningsyfirlýsingu stjórnar Lögreglustjórafélags Íslands við Sigríði Björk, er það sömuleiðis almennt verklag lögreglustjóra að veita starfsmönnum ráðuneyta upplýsingar án þess að kanna hvort viðkomandi starfsmaður hafi umboð til slíkrar upplýsingaöflunar.
Fullyrðir að hún hafi ekki gert neitt rangt
Í hádegisfréttum RÚV á laugardaginn fullyrti Sigríður Björk Guðjónsdóttir, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum og núverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, að hún hefði engin mistök gert þegar hún sendi Gísla Frey Valdórssyni, fyrrverandi aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, greinargerð um hælisleitandann Tony Omos. Umbeðin greinargerð var send Gísla Frey 20. nóvember á síðasta ári, eða sama dag og fyrstu fréttirnar birtust upp úr minnisblaði um Tony Omos sem Gísli Freyr lak til fjölmiðla. Gísli Freyr var á dögunum dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna lekans.
„Aðspurð, í áðurnefndri frétt RÚV, um hvort Gísli Freyr hafi óskað eftir greinargerðinni með formlegum hætti, taldi Sigríður Björk svo ekki vera.“
Sigríður Björk sagði að greinargerðin hefði verið send Gísla Frey í góðri trú, þar sem fram hafi komið í símtali þeirra á milli að hann væri að hringja og biðja um greinargerðina fyrir innanríkisráðuneytið. Sigríður Björk vísaði máli sínu til stuðnings til 14. greinar laga um Stjórnarráð Íslands, en þar segir orðrétt: „Ráðherra getur krafið stjórnvald, sem heyrir undir yfirstjórn hans, um hverjar þær upplýsingar og skýringar sem honum er þörf á til að sinna yfirstjórnarhlutverki sínu.“
Óskaði ekki eftir greinargerðinni með formlegum hætti
Aðspurð, í áðurnefndri frétt RÚV, um hvort Gísli Freyr hafi óskað eftir greinargerðinni með formlegum hætti, taldi Sigríður Björk svo ekki vera. „Ég held ekki, ég held að hann hafi bara hringt og beðið um þetta. [...] Það er mjög oft sem fara símtöl á milli, það er ekkert alltaf formlegar fyrirspurnir á milli ráðuneytis og undirstofnanna. [...] Ég held að aðstoðarmenn hafi bara oft beðið um upplýsingar í einstökum gögnum,“ sagði Sigríður Björk í samtali við Fréttastofu RÚV á laugardaginn.
„Lögreglustjórar líta einfaldlega svo á að ekki þurfi að efast um umboð starfsmanna ráðuneytis til samskipta við lögreglustjóra.“
Stjórn Lögreglustjórafélags Íslands sendi frá sér fréttatilkynningu í gær vegna málsins. Þar segir að í fréttum hafi borið á því samskipti þáverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum og fyrrverandi aðstoðarmanns innanríkisráðherra vegna greinargerðarinnar hafi verið gerð tortryggileg. Þess ber að geta að Sigríður Björk Guðjónsdóttir á sæti í stjórn Lögreglustjórafélagsins, en hún kom ekki að gerð fréttatilkynningarinnar.
Í tilkynningunni segir: „Samskipti lögreglustjóra og ráðuneytis hafa verið og eru mikil; bæði formleg, s.s. með bréfum, og óformleg, s.s. með símtölum, og snerta þau samskipti alla þætti í starfsemi lögregluembætta, sem undir ráðherra falla. Samskipti lögreglustjóra eru við alla starfsmenn ráðuneytis án tillits til stöðu þeirra innan ráðuneytisins. Það ræðst af efni hvers erindis hver starfsmanna ráðuneytis er í samskiptum við lögreglustjóra. [...] Á þetta bæði við um embættismenn ráðuneytis og aðstoðarmenn ráðherra. Lögreglustjórar líta einfaldlega svo á að ekki þurfi að efast um umboð starfsmanna ráðuneytis til samskipta við lögreglustjóra.“
Fullyrðingar og vinnubrögð sem stangast á við reglugerð
Í reglugerð um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu segir í 5. grein: „Að svo miklu leyti sem unnt er skulu mismunandi tegundir varðveittra persónuupplýsinga aðgreindar í samræmi við nákvæmni þeirra og áreiðanleika. Upplýsingum um staðreyndir skal halda aðgreindum frá gögnum byggðum á áliti eða mati. Einnig skal upplýsingum vegna stjórnsýslu haldið aðgreindum frá upplýsingum vegna lögreglustarfa.“
Samkvæmt þessu ber lögreglu að halda upplýsingum vegna stjórnsýslu aðgreindum frá upplýsingum vegna lögreglustarfa. Miðað við yfirlýsingar Sigríðar Bjarkar kannaði hún ekki hvort Gísli Freyr, sem óskaði eftir greinargerðinni, hefði umboð til að hlutast til um lögreglumál.
„Vandséð er að tryggt hafi verið að farið sé eftir þessarri grein í tilfelli greinargerðarinnar sem Sigríður Björk lét Gísla Frey í té samkvæmt símtali, án þess að fyrir lægi formleg beiðni um upplýsingarnar, og í hvaða tilgangi ætti að nota þær.“
Ef það er almennt verklag lögreglustjóra, eins og fram kemur í tilkynningu Lögreglustjórafélags Íslands, að deila öllum persónuupplýsingum, sem aflað er í þágu lögreglustarfa, með hvaða starfsmanni ráðuneytis sem sýnir þeim áhuga án þess að fyrir liggi formleg beiðni, skilgreining á þörfum fyrir upplýsingar, tilvísun til lagagreina eða umboð viðkomandi starfsmanns, er vandséð hvernig lögreglustjórar geta tryggt eða haft eftirlit með því að skilyrði 6. greinar áðurnefndrar reglugerðar um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu sé uppfyllt hverju sinni.
Samkvæmt skilyrðum 6. greinar reglugerðarinnar verður persónuupplýsingum ekki miðlað til annarra en innan lögreglunnar nema samkvæmt samþykki hins skráða, lagaheimild, heimild Persónuverndar eða ef miðlun upplýsinga er nauðsynleg til að koma í veg fyrir alvarlega og aðsteðjandi hættu.
Loks segir í 7. grein reglugerðar um meðferð persónuupplýsinga: „Persónuupplýsingar sem lögregla hefur miðlað má ekki nýta í öðrum tilgangi en þeim sem lýst var í beiðni um upplýsingar. Notkun upplýsinga í öðru skyni er háð samþykki viðkomandi lögregluyfirvalds.“ Vandséð er að tryggt hafi verið að farið sé eftir þessarri grein í tilfelli greinargerðarinnar sem Sigríður Björk lét Gísla Frey í té samkvæmt símtali, án þess að fyrir lægi formleg beiðni um upplýsingarnar, og í hvaða tilgangi ætti að nota þær.