Djúpstæð óánægja ríkir innan lífeyrissjóðakerfisins um það hversu hægt er stefnt að því að rýmka heimildir þeirra til að fjárfesta erlendis.
Eins og staðan er í dag hafa þeir heimild til að vera með 50 prósent eigna sinna erlendis en Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti nýverið drög að frumvarpi sem myndi hækka það hlutfall um eitt prósentustig á ári frá byrjun árs 2024 og til loka 2038. Heimildin yrði þá 65 prósent í lok þess árs.
Í umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða um frumvarpsdrögin segir að æskilegt sé að byrja að hækka heimildina strax um næstu áramót og hækka hana um tvö til þrjú prósentustig á ári þangað til að 65 prósent markinu yrði náð. Ef farið yrði að ítrustu kröfum sjóðanna myndi það takmark nást í árslok 2027 að óbreyttu.
Fulltrúar þeirra sjóða sem eru næst hámarkshlutfalli eigna erlendis telja einfaldlega að boðuð skref séu allt of varfærin og ná yfir of langt tímabil. Afar brýnt sé að fara hraðar í breytingar „með hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi“.
Í umsögninni segir að ef „hömlur á fjárfestingar í erlendum gjaldmiðlum gera það að verkum að stórir sjóðir neyðast til að fjárfesta í innlendum eignum umfram það sem þeir telja æskilegt út frá hagsmunum sinna sjóðfélaga verður að sama skapi talsverð hætta á ruðningsáhrifum og bólumyndun á innlendum eignamarkaði sem getur leitt til þess að innlend eignasöfn lífeyrissjóða verði að einhverju leyti ósjálfbær til framtíðar“.
Hafa neyðst til að kaupa eignir innanlands
Lengi hefur legið fyrir að það þurfi að hækka hámark á erlendum eignum lífeyrissjóða þannig að íslenska lífeyrissjóðakerfið geti dreift áhættu sinni betur. Kerfið er þegar orðið risavaxið, en eignir þess námu alls 6.550 milljörðum króna í janúar. Erlendu eignirnar voru metnar á 2.244 milljarða króna, sem þýðir að þær voru 34,3 prósent allra eigna sjóðanna. Þær hafa tvöfaldast í krónum talið á rúmum þremur árum.
Miklu fleiri eru að borga inn í sjóðina en að taka út úr þeim, og þeir því, undir venjulegum kringumstæðum, alltaf að stækka að umfangi óháð því hvernig fjárfestingar þeirra ganga.
Lífeyrissjóðirnir voru bundnir í fjármagnshöftum meira og minna frá haustinu 2008 og til 2017, þótt þeir hafi fengið undanþágur til að fara út með eitthvað fé. Eignir þeirra í dag eru næstum fimm þúsund milljörðum króna meira virði en þær voru síðla árs 2008. Á meðan að á haftatímabilinu stóð þurftu sjóðirnir því að kaupa nánast allt sem þeir gátu hér innanlands til að tryggja ávöxtun. Fyrir vikið eiga þeir, beint og óbeint allt að helming allra skráðra hlutabréfa í landinu og stóran hluta af útgefnum skuldabréfum.
Már skrifaði skýrslu
Við undirbúning að gerð frumvarpsins fékk fjármála- og efnahagsráðherra Má Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóra, til að greina viðmið og forsendur við mat á heimilaðri gjaldmiðláhættu lífeyrissjóða í desember 2021. Már skilaði skýrslu með greiningum sínum og tillögum í febrúar 2022.
Þar kemur fram að erlendar fjárfestingar séu nauðsynlegar til þess að sem mestur árangur náist af sjóðsöfnun til að létta lífeyrisbyrði starfandi, draga úr álagi á innlenda fjármálamarkaði og ruðningsáhrifum í þjóðarbúinu og stuðla að betri áhættudreifingu eigna. „Erlendar fjárfestingar séu þó ekki síður áhættusamar en innlendar og innlendar fjárfestingar hafi jafnframt sína kosti. Þar ber sérstaklega að nefna að þær geta leitt til framleiðniaukningar í innviðum, tækni og framleiðslutækjum sem styðja við iðgjaldagrunninn. Því sé best að eignasafn lífeyrissjóða sé blanda innlendra og erlendra fjárfestinga.“
Vilja verja „stöðugleika“
Yfirlýst ástæða þess að fjármála- og efnahagsráðherra vill fara varlega í að hleypa sjóðunum út í fjárfestingar, og hækka hámarkið í varfærnum skrefum yfir langt tímabil, er að stærri skref gætu ógnað stöðugleika gjaldeyrismarkaðar og greiðslujöfnuð þjóðarbúsins. Því meiri af peningum sem þarf að skipta úr íslenskum krónum yfir í erlenda gjaldmiðla fyrir lífeyrissjóðina því fleiri erlenda peninga þarf til að skipta í krónur svo það skapist ekki ójafnvægi sem veiki íslensku krónuna. Líkt og segir í greinargerð með frumvarpsdrögunum þá á markmið þrepaskiptrar lækkunar að vera „að nýta svigrúm greiðslujöfnuðar fyrir erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða án þess að stefna stöðugleika í hættu“.
Samtök atvinnulífsins eru á meðal annarra sem skiluðu umsögn um frumvarpsdrögin og styðja þar nálgun fjármála- og efnahagsráðherra um að hækka þakið á erlendum fjárfestingum lífeyrissjóða varfærnislega og yfir langt tímabil. Hliðaráhrif af því verða enda þau að stærri hluti af fjármunum lífeyrissjóða þarf að leita í íslenskt atvinnulíf eftir ávöxtun.
Seðlabanki Íslands gerir heldur ekki athugasemd í sinni umsögn við helstu atriði þeirrar leiðar sem ráðherrann vill fara í málinu.