Sigríður Björk Guðjónsdóttir, þáverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, braut lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga með því að skrá ekki í málaskrá embættisins þegar hún sendi Gísla Frey Valdórssyni, þáverandi aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, greinargerð um hælisleitandann Tony Omos við upphaf lekamálsins svokallaða. Þetta kemur fram í úrskurði Persónuverndar sem Kjarninn birti fyrstur fjölmiðla á föstudaginn.
Þar að auki hafði Sigríður Björk, sem er lögfræðimenntuð, ekki heimild til að senda greinargerðina en henni bar, sem ábyrgðaraðili á vinnslu persónuupplýsinganna, að kanna á hvaða lagagrundvelli beiðni Gísla Freys um greinargerðina var sett fram. Þá er sömuleiðis látið að því liggja í úrskurði Persónuverndar að Sigríður Björk hafi brotið gegn lögreglulögum þar sem kveðið er á um þagnarskyldu lögreglu, svo viðkvæmar hafi persónuupplýsingarnar um Tony Omos verið.
Mat lögreglunnar að heimild var til staðar
Í yfirlýsingu kveðst Sigríður Björk hafa sent Gísla Frey greinargerðina í góðri trú. Persónuvernd fellst ekki á það í úrskurðinum og ítrekar að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi átt að vita betur. Þá segir í yfirlýsingu Sigríðar Bjarkar: „Það var mat lögreglunnar á Suðurnesjum að lagaleg heimild væri til staðar fyrir miðlun skýrsludraganna.“
Kjarninn sendi Sigríði Björk svohljóðandi fyrirspurn í ljósi þessarar fullyrðingar: „Hvernig fór umrætt mat fram? Í ljósi matsins, af hverju var þá miðlun upplýsinganna ekki skráð í málaskrá lögreglunnar á Suðurnesjum? Eru til einhver gögn því til staðfestingar að umrætt mat hafi farið fram?“ Sigríður Björk hefur ekki svarað fyrirspurn Kjarnans, sem send var henni í gær.
Kjarninn sendi sömuleiðis Ólafi Helga Kjartanssyni, lögreglustjóra á Suðurnesjum, sambærilega fyrirspurn. Þar segir: „Eru til einhverjar upplýsingar hjá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum varðandi umrætt mat? Hafið þið einhverjar skýringar af hverju miðlun skýrsludraganna var ekki skráð í málaskrá lögregluembættisins í kjölfar matsins? Hvernig fer slíkt mat fram?“
Ólafur Helgi sendi Kjarnanum svohljóðandi svar í kjölfarið: „Allar upplýsingar sem Lögreglan á Suðurnesjum bjó yfir varðandi umspurt mál voru sendar Persónuvernd í samræmi við ósk þar að lútandi. Persónuvernd hafði aðgang að upplýsingum varðandi málið við uppkvaðningu úrskurðarins. Málinu er lokið af hálfu Persónuverndar og er vísað (til) úrskurðarins varðandi efnisatriði varðandi þau gögn sem fyrir lágu í málinu.“
Reyndi að víkja sér undan ábyrgð
Þá segir í yfirlýsingu Sigríðar Bjarkar í kjölfar úrskurðar Persónuverndar: „Persónuvernd segir í úrskurði sínum „að móttaka aðstoðarmannsins á skýrsludrögunum frá Lögreglunni á Suðurnesjum hafi talist liður í starfsemi ráðuneytisins og það því ábyrgðaraðili að þeirri vinnslu sem í móttöku draganna fólst“. Það var því ráðuneytisins að tryggja að rétt yrði farið með skjalið.“
Erfitt er að túlka úrskurð Persónuverndar á þann veg að hægt sé að fría lögregluna á Suðurnesjum af þeirri ábyrgð að sannreyna hvort heimild hafi verið til staðar fyrir miðlun persónuupplýsinga til innanríkisráðuneytisins þó ráðuneytið hafi borið ábyrgð á að skrásetja móttöku gagnanna. Sem ekki var gert, og Persónuvernd gerir athugasemd við í úrskurði sínum.
Stórum spurningum enn ósvarað
Tveimur stærstu spurningunum er lúta að meintri aðild Sigríðar Bjarkar að lekamálinu er auðvitað enn ósvarað: a) byggði minnisblaðið sem sent var fjölmiðlum og markaði upphaf lekamálsins á upplýsingum frá henni og b) af hverju upplýsti Sigríður Björk aldrei rannsakendur lekamálsins um samskipti sín við Gísla Frey?
Ólöf Nordal innanríkisráðherra virðist að minnsta kosti kæra sig kollótta um svarið við síðarnefndu spurningunni, miðað við svör hennar við spurningum fréttamanna á mánudaginn og skýringar Sigríðar Bjarkar á því af hverju hún hélt samskiptum hennar og Gísla Freys leyndum fyrir lögreglumönnum, sem hún stýrir sjálf í dag, hafa verið heldur ófullnægjandi. Þá virðist innanríkisráðherra hafa samúð á skýringum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að hann hafi hreinlega ekki vitað betur.
Þá hefur enn ekki verið útilokað með óyggjandi hætti að upplýsingarnar sem finna mátti í minnisblaðinu sem Gísli Freyr lak til fjölmiðla og hlaut skilorðsbundinn dóm fyrir, hafi komið frá Sigríði Björk. Þá vakti athygli að hún kaus að nota annan síma á heimili sínu en sinn eigin þegar hún hringdi í Gísla Frey, um morguninn þegar fyrstu fréttirnar um lekamálið birtust í fjölmiðlum.
Hefnd Hönnu Birnu?
Frá því að Sigríður Björk var skipuð lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins án auglýsingar, eftir að Stefán Eiríksson vék úr embættinu í kjölfar rannsóknar lekamálsins, hefur hún tekið til handa við að breyta yfirstjórn lögreglunnar. Samkvæmt heimildamönnum Kjarnans eru trakteringar Sigríðar Bjarkar í takt við ummæli sem Hanna Birna Kristjánsdóttir fyrrverandi innanríkisráðherra viðhafði við Stefán Eiríksson á meðan rannsókn lekamálsins stóð, um að hreinsað yrði til hjá lögreglunni.
Eins og Stundin benti á í lok febrúar hafa tveir helstu samstarfsmenn Stefáns verið settir til hliðar eftir að Sigríður Björk tók til starfa. Jón H. B. Snorrason, saksóknari, aðstoðarlögreglustjóri og fyrrverandi staðgengill Stefáns hefur verið fluttur úr aðalstöðvum lögreglunnar við Hverfisgötu og yfir á Rauðarárstíg, og þá var Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri fluttur yfir til embættis ríkislögreglustjóra í tímabundin verkefni. Á sama tíma var Alda Hrönn Jóhannsddóttir, fyrrverandi aðstoðarlögreglustjóri á Suðurnesjum, skipaður aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu í fjarveru Harðar.
Lögreglumenn sem Kjarninn hefur talað við hafa áhyggjur af því hvaða áhrif úrskurður Persónuverndar hefur á trúverðugleika embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og hvaða skilaboð það sendi út á við að lögreglustjóri sem braut lög og kann ekki að fara með persónuupplýsingar sitji sem fastast. Þá segja þeir ákvörðun Sigríðar Bjarkar um að halda samskiptum sínum og Gísla Freys við upphaf lekamálsins, leyndum fyrir undirmönnum sínum hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins, hafa hleypt illu blóði í marga laganna verði hjá embættinu.