Síðla vetrar árið 1950 voru tveir 12 ára strákar á skautum á tjörninni í smáþorpinu Stavnsholt á Norður-Sjálandi. Þetta höfðu þeir margoft gert áður og vissu fátt skemmtilegra. Skyndilega datt annar þeirra beint á andlitið á svellið, með þeim afleiðingum að tvær framtennur brotnuðu. Drengurinn sem varð fyrir þessu óhappi hét Povl Dissing-Rasmussen. Auk brotnu tannanna hafði Povl fengið högg á nefið og afleiðingar þess sáust alla ævi.
Povl fæddist í Stavnsholt 27. janúar 1938. Stavnsholt, sem nú tilheyrir sveitarfélaginu Farum, var fámennt, flestir íbúanna smábændur. Foreldrar Povl, Karl Rasmussen og Huldfred Ochmann Dissing lifðu af búskapnum, sem var ekki stór í sniðum. Höfðu fáeinar skepnur og ræktuðu grænmeti. Hjónin voru söngelsk og höfðu yndi af að syngja, tóku meðal annars þátt í kórastarfi. Povl hafði ekki mikinn áhuga fyrir búskapnum en var þó látinn taka þátt í bústörfunum. Hann var iðulega látinn passa yngri bróður sinn og sagði í viðtölum að þeir bræður hefðu unað sér vel saman.
Byrjaði ungur í tónlistinni
Povl hafði allt frá barnæsku mikinn áhuga á tónlist. Ungur stofnaði hann ásamt félaga sínum tveggja manna hljómsveit, The hot dogs. Þeir spiluðu fyrir foreldra, systkini og leikfélaga. Povl spilaði á heimagerða trommu, úr kökudós, en félaginn á gítargarm eða á píanó sem foreldrar Povl áttu en hvorugt þeirra notaði. Povl sagði einhverju sinni frá því í viðtali að sumum félaganna hefði þótt lítið til koma og uppnefnt hljómsveitina, kölluðu hana Dødens pølse. Seinna fjölgaði í hljómsveitinni, þriðji félaginn bættist við. Þeir fengu smáaura fyrir að spila fyrir vini og kunningja og Povl keypti trommuskinn sem hann negldi á hringlaga trékassa undan sápu, mikil framför frá kökudósinni sagði hann síðar.
Litblindur
Povl Dissing lét sig ekki dreyma um að geta gert tónlist að lifibrauði, hann yrði að hafa einhverja fasta vinnu. Hann fékk vinnu í málningarvöruverslun og ætlaði sér að fá, með tíð og tíma, atvinnuleyfi sem málningarsali (farvehandler). Í ljós kom að Povl var litblindur og þar með var sá draumur á enda.
Savanna Ramblers og bílaverkstæðið
Eftir að endi var bundinn á námið í málningarfræðunum flutti Povl Dissing að heiman. Fór þó ekki langt, til Farum. Þar fékk hann, gegnum kunningsskap, vinnu á bílaverkstæði en sinnti tónlistinni í frístundum. Fyrirmynd hans á því sviði var þá, og alla tíð, Louis Armstrong.
Í Farum stofnaði Povl ásamt félögum sem hann kynntist þar hljómsveitina Savannah Ramplers. Povl varð sér úti um flygilhorn en komst fljótlega að því að óhappið, þegar hann braut framtennurnar á skautunum forðum, kom í veg fyrir að hann gæti náð almennilegum tökum á blásturshljóðfærum. Hann keypti notaðan gítar og lærði þrjú grip, sem að hans eigin sögn, dugðu vel allar götur síðan. Hann reyndi að syngja eins og fyrirmyndin Louis Armstrong, útkoman líktist ekki rödd átrúnaðargoðsins en þegar pabbi hans, sem hafði verið ósáttur við söngstílinn, sagði að þetta væri ekki líkt Louis, „en þetta er þín rödd Povl.“ Það var þessi sérkennilegi söngstíll sem síðan fylgdi Povl ævina á enda. Mamman sagði Povl af hverju hann syngi ekki gömul og þekkt dönsk lög „með sínu lagi“.
Hjónin á rauða bílnum
Á bílaverkstæðinu í Farum var ekki bara gert við bíla. Þar var líka hægt að fá þvegið og bónað. Meðal viðskiptavina voru hjón sem áttu rauðan MG sportbíl sem þau komu reglulega með í þvott. Povl þótti bíllinn flottur og lagði sig fram um að þvo og bóna bílinn. Hann varð vinur hjónanna sem buðu honum heim, þar sá Povl teikningar sem maðurinn hafði gert en hann var auglýsingateiknari og listmálari.
Einhverju sinni sagði hann við Povl að hann ætti ekki að verða einhver eilífðar augnakarl þarna á verkstæðinu. „Þú átt að sækja um í Kunsthåndværkerskolen og læra auglýsingateiknun.“ Povl þótti þetta góð hugmynd, sótti um og komst inn. Að námi loknu fékk hann starf á auglýsingastofu en það var eftir sem áður tónlistin sem átti hug hans allan.
Folkeklubben og Vise vers hus
Meðfram vinnunni fór Povl að koma fram á börum og litlum klúbbum. Þetta vatt upp á sig og um miðjan sjöunda áratuginn bauðst honum að koma fram í Folkeklubben, nýjum stað sem lagði áherslu á lítt þekkt tónlistarfólk og þjóðlagatónlist. Þetta voru, sagði Povl, fyrstu alvörutónleikarnir. Hann átti ekki gítar en eigandi klúbbsins fékk lánaðan gítar, sá var tólf strengja. Slíkt hljóðfæri hafði Povl aldrei séð og þótt hann kynni ennþá bara þrjú grip tókst honum að krafla sig í gegnum tónleikana. Söng dönsk lög, með sínum hætti. Viðbrögð tónleikagestanna voru misjöfn, flestir skemmtu sér konunglega en sumir ruku á dyr, hneykslaðir.
Povl hefur sagt að þarna hafi dyrnar opnast, eins og hann komst að orði. Hann fékk nú í auknum mæli tilboð um að koma fram, meðal annars í hinu þekkta Vice vers hus í Tívolí, sem Thøger Olesen hafði sett á laggirnar 1965. Thøger var afkastamikill textahöfundur og hann hafði jafnframt þýtt fjöldann allan af bandarískum lagatextum við lög þarlendra, t.d eftir Shel Silverstein. Mörg lög hans, með dönskum texta Thøger, tók Povl Dissing á sína efnisskrá. Hann var ekki farinn að semja lög þegar þarna var komið.
Beefeaters og Nøgne øjne
Undir lok sjöunda áratugarins gaf Povl út plötuna Dissing, oftast kölluð Nøgne øjne, sem margir tónlistarsérfræðingar telja að markað hafi tímamót í danskri tónlistarsögu. Á þessari plötu lék hljómsveitin Beefeaters undir hjá Povl. Hann hætti að mestu á auglýsingastofunni og sneri sér í auknum mæli að tónlistinni. Tekjurnar voru þó ekki tryggar.
Benny Andersen og Svante Svendsen
Snemma árs 1973 barst Povl Dissing bréf. Sendandinn var Benny Andersen, þekktur rithöfundur. Í umslaginu var handrit lítillar bókar, skáldsögu, sem Benny hafði skrifað, Svantes viser hét hún. Aftast voru 13 lög, skrifuð á nótur, sem Benny hafði samið við ljóð sem hann hafði skrifað í Svantes stað. Svante þessi Svendsen bjó í Danmörku en langaði alla tíð heim til Svíþjóðar. Hræðsla við sjóveiki kom hins vegar í veg fyrir að hann kæmist nokkurn tíma til baka. Í bókinni hefur Svante beðið Benny Andersen að gera lög við ljóð sem hann (Svante) hefur samið. Þetta er í mjög stuttu máli efnisþráður sögunnar.
Povl Dissing þótti bæði lögin og ljóðin góð en tímasetningin afleit. Hann var á kafi í vinnu og sagði Benny það. „Allt í lagi,“ sagði Benny. „Við látum þetta bíða aðeins.“ Nokkru eftir þetta kom bókin um Svante út hjá forlaginu Borges. Benny var, eins og áður sagði, þekktur höfundur og nú bárust honum beiðnir frá bókasöfnum um að lesa upp úr bókinni. Þá hafði Benny samband við Povl og gat talað hann inná að syngja nokkur lög úr bókinni um Svante. „Ég get ekkert verið þessi Svante,“ sagði Povl. „Ég er ekki að biðja þig að vera Svante, bara að syngja lögin með þínum hætti,“ svaraði Benny.
Povl lét til leiðast og þeir komu fram á nokkrum bókasöfnum. Benny spilaði á píanó og Povl á gítar. Viðtökurnar voru góðar og í framhaldinu var ákveðið að setja efnið á plötu. Tónlistarmaðurinn Peter Abrahamsen átti lítið útgáfufyrirtæki, Abra Cadabra, og hann gaf plötuna út. Fyrirtækið var ekki stöndugt og til að fjármagna útgáfuna seldi Peter Abrahamsen bílinn sinn, með loforði kaupandans um að Peter gæti keypt bílinn til baka ef platan seldist. Fimm þúsund eintök þurfti Peter að selja til að fá bílinn aftur. Það tókst, og gott betur reyndar. Nú, tæpum fimmtíu árum síðar, hafa selst hátt á annað hundrað þúsund eintök, fyrir utan niðurhal og hlustun af netinu.
Þeir Povl Dissing, Benny Andersen og Svante Svendsen urðu nánast á svipstundu þjóðþekktir í Danmörku og víðast hvar á Norðurlöndum. Beiðnir um að koma fram streymdu til þeirra Benny og Povl sem sagði í viðtali fyrir nokkrum árum að hann hefði ekki hugmynd um hve mörg þúsund sinnum hann hefði sungið vinsælasta lagið á plötunni um Svante, lagið um kaffið sem er rétt að verða tilbúið, á meðan Nina er í sturtunni. Heitir reyndar Svantes lykkelige dag.
Eftir Svante
Samstarf þeirra Benny og Povl hélt áfram eftir Svante tímabilið, eins og þeir kalla það og þeir gáfu út fjórar plötur til viðbótar, þeirra þekktust er Oven visse vande sem kom út árið 1982. Þeir fóru jafnframt í margar tónleikaferðir, innan lands og utan.
Eins og nefnt hefur verið var Benny Andersen orðinn þekkt skáld þegar leiðir hans og Povl Dissing lágu saman. Hann er meðal þekktustu rithöfunda Dana og hefur skrifað tugi bóka. Ljóð og skáldsögur fyrir börn og fullorðna, leikrit og handrit fyrir sjónvarpsþætti. Fyrir utan auðvitað öll lögin!
Þegar Benny Andersen varð sjötugur var blysför honum til heiðurs við Thorvaldsen safnið í Kaupmannahöfn. Einungis tveimur öðrum dönskum skáldum hefur hlotnast slíkur heiður, þeim H.C. Andersen og Adam Oehlenschläger. Benny Andersen var fæddur 7. nóvember 1929 og lést 16. ágúst 2018.
Povl Dissing sat ekki heldur auðum höndum eftir Svante ævintýrið, eins og hann kallar það iðulega. Á ferlinum gaf hann út 25 plötur og kom að auki fram á tugum annarra platna. Hann starfaði á fyrsta áratug aldarinnar með tveimur sonum sínum af fyrra hjónabandi, en Povl var tvígiftur.
Hattarnir
Fyrir utan röddina sérstæðu og leikræna framkomu á sviði var hattur eins konar einkennistákn Povl Dissing. Framan af voru hattarnir venjulegir búðarhattar, eins og Povl kallaði það, en á síðari árum ætíð ítalskir Borsalino hattar. Hatturinn sat þó ekki alltaf fastur á höfði söngvarans því til áhersluauka í söngnum tók hann hattinn ofan, oft í hverju lagi.
Spánarferðin örlagaríka og ævilok
Veturinn 2017 fór Povl Dissing til Spánar. Þar ætlaði hann, með þarlendum tónlistarmönnum, að taka upp plötu með flamenkó tónlist sem hann hafði mikið dálæti á. Rétt áður en upptökurnar áttu að hefjast fékk Povl vægt heilablóðfall, féll niður á hart gólfið og fékk þungt höfuðhögg. Hann var í skyndi fluttur á spítala þar sem hann lá þungt haldinn í rúman mánuð. Missti meðal annars heyrnina. Heyrnina endurheimti hann með hjálp læknavísindanna en tónlistarferillinn var á enda. Hann náði sér aldrei að fullu eftir slysið á Spáni og glímdi við erfið veikindi síðustu árin.
Mánudaginn 18. júlí sl. voru synirnir Jonas og Rasmus á heimili föður þeirra og eiginkonunnar Piu Jacobæus við Hundested á Sjálandi. Pia hafði hringt til þeirra um morguninn og sagt að kveðjustundin nálgaðist. Povl Dissing lést síðar þann sama dag. Merkilegum kafla í danskri tónlistarsögu var lokið.
Hér í lokin má bæta því við að skrifari þessa pistils sótti tónleika sem þeir Benny og Povl héldu árið 2013 í tilefni þess að 40 ár voru liðin frá útgáfu Svantes viser. Þótt Povl setti annað slagið upp gleraugun og Benny ögn lengur að fikra sig að hljóðnemanum, til að segja frá, var allt á sínum stað. Þeir höfðu engu gleymt.