Á dögunum ákvað Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra með sérstakri reglugerð að breyta fyrirkomulagi við veiðar smábáta á makríl. Fyrir komandi vertíð sem hefst nú innan skamms verður makrílkvóta í fyrsta sinn úthlutað niður á einstaka báta. Úthlutunin mun byggja á aflareynslu áranna 2009-2014 eftir ákveðinni formúlu. Á síðustu árum hefur gilt svokallað „ólympískt“ fyrirkomulag. Það felst í því að smábátaflokknum í heild er úthlutað heildarkvóta fyrir komandi vertíð og svo hefur smábátum með gild veiðileyfi verið frjálst að veiða þangað til heildarkvótanum er náð.
Þetta fyrirkomulag hefur haft það í för með sér að fjölmargir útgerðarmenn smábáta hafa verið kappsamir að veiða sem allra mest þangað til heildarkvótanum er náð. Sóknarþunginn hefur því verið talsvert mikill. Alls fá nú 192 smábátar úthlutuðum makrílkvóta fyrir komandi vertíð. Um 86 af þessum bátum fá þó einungis tíu tonn og minna í sinn hlut. Tuttugu stærstu kvótahafarnir munu verða með um 50 prósent af kvóta smábátanna. Flestir stærstu kvótahafarnir koma af sunnan- og vestanverðu landinu þar sem veiðin hefur verið best. Ef þessi úthlutun nú niður á einstaka báta mun leiða til þess að varanleg aflahlutdeild muni í framtíðinni byggja á henni er ljóst að umtalsverð verðmæti verða til fyrir viðkomandi útgerðir. Of snemmt er að segja til um hvernig þau mál þróast þar sem makrílfrumvarp sjávarútvegsráðherra er í mikilli óvissu á þinginu.
Hlutdeild smábáta nálægt 5% af heild
Útgerðarmenn smábáta hafa á síðustu árum náð sífellt betri tökum á veiðum á makríl á sérstaklega útbúin veiðarfæri. Aflahæstu bátarnir hafa veitt nokkur hundruð tonn á hverri vertíð og aflinn hefur nánast allur farið til manneldisvinnslu. Útgerðarmenn bátanna hafa smám saman þróað og fjárfest fyrir umtalsverðar fjárhæðir í veiðarfærum fyrir veiðarnar með góðum árangri. Hlutdeild smábáta í heildar makrílkvótanum hefur hækkað á undangengnum árum og nam í fyrra tæpum 5 prósent en þá veiddu smábátar um 7.400 tonn. Líkt og hjá stóru uppsjávarskipunum hefur tilkoma makríls verið mikil lyftistöng fyrir margar byggðir og hafa margar smábátaútgerðir fengið umtalsvert meiri verkefni á sína báta fyrir vikið.
Landssamband smábátaeiganda ósátt við ráðherra
Athygli vekur að stjórn Landssambands smábátaeigenda segist verulega ósátt við þessa úthlutun á makrílkvóta niður á einstaka báta og telur ákvörðun Sigurðar Inga forkastanlega í tilkynningu. Stjórn Landssambandsins vill hafa fyrirkomulagið óbreytt frá fyrra ári – þ.e.a.s. „ólympískt“ fyrirkomulag en vill að heildarkvóti smábátaflokksins verði stóraukinn og hefur horft til þess að í Noregi nemur hlutdeild smábáta í heildar makrílveiðinni um 16 prósentum. Þá telur stjórnin að með þessari reglugerð ráðherra muni kvótasetningin sérstaklega gagnast þeim útgerðum smábáta sem allra mest hafa veitt á undangengnum árum en síður þeim sem síðar hófu veiðarnar og hafa nýlega fjárfest í dýrum veiðarfæraútbúnaði.
Makrílfrumvarpið í óvissu
Þessi reglugerð um fyrirkomulag við veiðar smábáta hefur verið gefin út þótt óvíst sé nú hvernig makrílfrumvarp sjávarútvegsráðherra muni á endanum líta út. Frumvarpið hefur nú um nokkurt skeið verið í meðförum atvinnuveganefndar og ýmsar breytingartillögur hafa verið ræddar en niðurstaða liggur ekki fyrir. Svo gæti farið að frumvarpið næði einfaldlega ekki fram að ganga. Ef svo verður mun veiðunum verða stýrt með útgáfu reglugerða sem gilda til árs í senn líkt og verið hefur undanfarin ár.
Tuttugu stærstu með um 50% kvótans
Smábátar af Snæfellsnesi eru fyrirferðarmiklir á listanum yfir þá sem fá mestan kvóta fyrir komandi vertíð enda hafa þeir náð mjög góðum árangri við makrílveiðarnar á síðustu árum. Sá bátur sem fær mestan makrílkvóta smábáta fyrir vertíðina í ár er Fjóla GK með 331 tonn. Fjóla er með heimahöfn í Sandgerði. Útgerðarmaður þess báts er Davíð F. Jónsson. Vísir.is greindi nýlega frá því að Davíð hefði átt sæti í sjávarútvegsnefnd Framsóknarflokksins. Bátarnir Sæhamar SH og Litli Hamar SH, báðir í eigu Kristins J. Friðþjófssonar ehf. á Rifi , fá samtals 445 tonnum úthlutað eða 6,3% af heildarkvótanum. Þá fær Tryggvi Eðvarðsson SH á Rifi 131 tonnum úthlutað en hann er í eigu fjölskyldu Ásbjarnar Óttarssonar fyrrverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins.
Heildarsöluandvirði vegna makríls í fyrra nam meira en tuttugu milljörðum í fyrra, en helsti markaður fyrir makríl er Austur-Evrópa, einkum Rússland.
Makrílúthlutun smábáta 2015 | |||||
Nafn | Útgerð | Heimahöfn | Úthlutun, tonn | Hlutdeild í smábátaflokki í % | |
1 | Fjóla GK | Arctic ehf | Sandgerði | 331 | 4,72% |
2 | Siggi Bessa SF | Erpur ehf | Hornafjörður | 306 | 4,36% |
3 | Sæhamar SH | Kristinn J. Friðþjófsson ehf | Rif | 260 | 3,71% |
4 | Álfur SH | Útgerðarfélagið Álfar ehf | Arnarstapi | 216 | 3,07% |
5 | Brynja II SH | Bjartsýnn ehf | Ólafsvík | 199 | 2,84% |
6 | Litli Hamar SH | Kristinn J. Friðþjófsson ehf | Rif | 185 | 2,63% |
7 | Ólafur HF | Rjúpnafell ehf | Hafnarfjörður | 176 | 2,50% |
8 | Særif SH | Melnes ehf | Rif | 163 | 2,32% |
9 | Ingibjörg SH | Ingibjörg ehf | Rif | 159 | 2,27% |
10 | Dögg SU | Ölduós ehf | Stöðvarfjörður | 158 | 2,24% |
11 | Pálína Ágústsdóttir GK | K & G ehf | Sandgerði | 155 | 2,21% |
12 | Ísak AK | Eiður Ólafsson ehf | Akranes | 149 | 2,12% |
13 | Mangi á Búðum SH | Útgerðarfélagið okkar ehf | Ólafsvík | 149 | 2,12% |
14 | Fjóla SH | Þórishólmi ehf | Stykkishólmi | 144 | 2,05% |
15 | Tryggvi Eðvarðs SH | Nesver ehf | Rif | 131 | 1,86% |
16 | Addi afi GK | Útgerðarfélag Íslands ehf | Sandgerði | 119 | 1,69% |
17 | Blíða SH | Royal Iceland ehf | Stykkishólmi | 116 | 1,65% |
18 | Máni II ÁR | Máni ÁR 70 ehf | Eyrarbakki | 116 | 1,65% |
19 | Hlöddi VE | Búhamar ehf | Vestmannaeyjar | 112 | 1,59% |
20 | Strekkingur HF | Stormur Seafood ehf | Hafnarfjörður | 108 | 1,54% |
21 | Herja ST | Hlökk ehf | Hólmavík | 102 | 1,46% |
Samtals | 3.554 | 50,6% | |||
Heimild: Landssamband smábátaeigenda |