Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra ákvað í dag kvóta fyrir helstu nytjategundir í íslenskri lögsögu fyrir næsta fiskveiðiár (2015/2016). Ráðherra fór í öllum aðalatriðum eftir ráðgjöf Hafró sem sett var fram á dögunum. Ráðherrar síðustu ára hafa farið að ráðgjöf Hafró þegar kvóti helstu tegunda er ákveðinn. Margir mikilvægir nytjastofnar eru í góðu ástandi, þar ber hæst þorskstofninn. Gott ástand helstu tegunda teljast gleðitíðindi fyrir sjávarútvegsfyrirtækin út um land sem halda áfram að styrkjast eftir gott árferði í greininni undangengin ár.
Þorskstofninn á uppleið
Þorskkvótinn verður 239 þús. tonn á næsta fiskveiðiári og eykst um 10% frá núverandi fiskveiðiári. Ýsukvótinn verður aukinn um 6 þús. tonn og munar talsvert um það. Fram kemur í tilkynningu ráðuneytisins að alls gæti verðmætaaukning vegna kvótaaukningar komandi árs numið 7-8 milljörðum króna, haldist afurðaverð svipað því sem af er ári.
Kvóti hlýsjávartegunda dregst saman
Eins og vitað var er enn óvissa um nokkrar mikilvægar uppsjávarfisktegundir líkt og norsk-íslenska síld og loðnu en kvóti verður ákveðinn síðar fyrir þær tegundir. Hið eina neikvæða í kvótaákvörðun ráðherra og nýlegri ástandsskýrslu Hafró eru versnandi horfur í keilu, löngu, blálöngu,skötusel, langlúru, humri og fleiri tegundum sem að mestu halda sig í hlýjum sjó við suður- og vesturströndina.
Risa makrílúthlutun
Athygli vekur að makrílkvóti íslenskra skipa verður 173 þús. tonn sem er aukning frá metárinu í fyrra. Hlutfallsleg skipting makrílkvótans á milli flokka (uppsjávar-, frysti- ísfiskskip og smábátar) er með sama hætti og árið 2014. Kvótinn í ár er sá stærsti frá upphafi veiða í íslensku lögsögunni. Í fyrra nam útflutningsverðmæti makríls 24 milljörðum króna. Í ljósi þess hve kvótinn er mikill í ár má búast við því að útflutningsverðmætið verði áfram hátt. Þó er óvissa um afurðaverð á makrílafurðum vegna ástandsins í Rússlandi. Helsta óvissan um makrílveiðina í ár er þó hvort breytingar verði á göngumynstri makríls í íslenska lögsögu. Það skýrist á næstu vikum. Vegna þess að sjórinn í lögsögunni er óvenjulega kaldur er óvissan um makrílgengd í ár meiri en á síðustu árum. Makrílveiði íslenskra skipa hefur hafist í lok júní á síðustu árum. Mesta veiðin hefur farið fram í júlí og ágúst ár hvert.