Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði á ársfundi Landsvirkjunar í dag að hann vilji setja á stofn sérstakan orkuauðlindasjóð hér á landi. Hluti af tekjum af orkuauðlindum þjóðarinnar myndi renna í sjóðinn þegar vel árar en hægt væri að nýta fjármunina í sjóðnum þegar illa áraði. Sjóðurinn yrði þannig nokkurs konar varasjóður.
Bjarni sagði rétta tímann til að stofna slíkan sjóð núna, og ætlar að leita stuðnings hjá þinginu fyrir stofnun sjóðs af þessu tagi. Þetta er þó langt frá því að vera í fyrsta skipti sem hugmyndin um auðlindasjóð kemur fram á Íslandi. Ýmsar hugmyndir þess efnis hafa komið upp undanfarin ár, þótt aldrei hafi þeim verið hrint í framkvæmd.
Þverpólitísk auðlindanefnd lagði til „þjóðarsjóð“ árið 2000
Alþingi ákvað árið 1998 að setja á fót auðlindanefnd sem svo skilaði af sér niðurstöðum í september árið 2000, en sú nefnd fjallaði ítarlega um gjaldtöku af nýtingu náttúruauðlinda. Sú nefnd lagði til að stofnaður yrði þjóðarsjóður, þangað sem tekjur af gjöldum af auðlindum í þjóðareign yrðu settar. „Margt mælir með því að hluti þeirra [tekna, innsk. blaðamanns] gangi til að mynda sjóð sem almenningur eigi aðild að og varið yrði til að efla þjóðhagslegan sparnað og uppbyggingu,“ stóð í niðurstöðum nefndarinnar. Gjaldtöku af auðlindum væri meðal annars ætlað að tryggja þjóðinni sýnilega hlutdeild í þeim umframarði sem nýting auðlinda í þjóðareign skapaði.
Nefndin var þverpólítísk og kosin af Alþingi en í henni sátu Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri, sem var formaður, Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Eiríkur Tómasson, prófessor, Guðjón Hjörleifsson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, Lúðvík Bergvinsson, alþingismaður, Margrét Frímannsdóttir, alþingismaður, Ragnar Árnason, prófessor, Styrmir Gunnarsson, ritstjóri og Svanfríður Jónasdóttir, alþingismaður.
Þegar Jón Sigurðsson var iðnaðarráðherra, árið 2007, lagði hann fram frumvarp á Alþingi um breytingar á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, en frumvarpið byggðist meðal annars á störfum auðlindanefndarinnar. Í því frumvarpi var miðað við að meginreglan yrði sú að tekið væri upp gjald fyrir afnot á auðlindum í eigu almennings, bæði í jörðu og í vatnsafli. Frumvarpið náði hins vegar aldrei fram að ganga.
Jón Sigurðsson ræddi líka um mögulega stofnun auðlindasjóðs á Sprotaþingi sem haldið var árið 2007, þar sem hann sagðist telja að slíkur sjóður gæti tekið virkan þátt í eflingu nýsköpunar- og sprotakerfis, sem íslenska þjóðin þyrfti á að halda. Þannig yrði arði af auðlindum varið til að byggja upp til framtíðar auk þess að greiða beint til almennings.
Víglundur, Björgólfur og Sigurjón lögðu líka til stofnun sjóðs
Í millitíðinni, árið 2006, hafði Víglundur Þorsteinsson, sem þá var stjórnarformaður BM Vallár, lagt til stofnun Íslenska auðlindasjóðsins ohf., sem allir íslenskir ríkisborgarar yrðu hluthafar í og fengju greiddan arð úr. Inni í sjóðnum yrðu allar sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar og Landsvirkjun.
Á aðalfundi Landsbankans í apríl 2008 sagði Björgólfur Guðmundsson, þáverandi formaður bankaráðs bankans, að Íslendingar ættu að koma sér upp einhvers konar þjóðarsjóði til að tryggja sig betur, mæta sveiflum og skapa stöðugleika í efnahags- og fjármálaumhverfi landsins. Sjóðurinn ætti að hafa tekjur af auðlindum lands og hugviti. Nokkrum dögum síðar fjallaði Fréttablaðið um tækifærin í orkumálum. Þar tók Sigurjón Árnason, þáverandi bankastjóri Landsbankans, í sama streng og Björgólfur og sagði að ein hugmynd væri stofnun auðlindasjóðs, sem yrði svipaður olíusjóði Norðmanna. Þannig ætti að vera hægt að skapa meiri stöðugleika í efnahagsmálum en hefði verið.
Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem þá voru forsætis- og utanríkisráðherrar Íslands, tóku vel í hugmynd Landsbankamanna. Geir taldi hugmyndina allrar athygli verða og Ingibjörg sagðist telja að slíkur sjóður gæti skipt miklu máli þegar takast þyrfti á við áföll í efnahagsmálum. Innheimta ætti almennt auðlindagjald fyrir nýtingu.
Líka lagt til um og eftir hrun
Í greinum í Morgunblaðinu í lok september 2008 lagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, til að stofnaður yrði sérstakur auðlindasjóður, sem næði yfir olíurétt, vatns- og hitaréttindi og réttinn til að nýta fiskveiðistofna landsins. Þetta var hluti af hugmyndum hans um það sem gera mætti til að styrkja efnahagslífið. „Þannig yrði tryggt að arðurinn af nýtingu þeirra rynni í sameiginlegan sjóð en einkaaðilar gætu séð um nýtinguna, hvort sem er fiskveiðar, vatnsútflutning eða orkuvinnslu.“
Í samstarfsyfirlýsingu Samfylkingar og Vinstri grænna árið 2009 var lagt til að stofna auðlindasjóð sem „fer með ráðstöfun fiskveiðiréttinda í eigu þjóðarinnar. Arður af rekstri sjóðsins renni til atvinnuuppbyggingar.“
Þá var einnig stofnaður stýrihópur um mótun heildstæðrar orkustefnu sem skilaði tillögum árið 2011 sem voru lagðar fyrir þingið. Oddný Harðardóttir, sitjandi iðnaðarráðherra, mælti svo fyrir skýrslunni í febrúar 2012. Í tillögunum kom fram að setja ætti á fót sérstakan sjóð þar sem haldið yrði utan um allar orkuauðlindir ríkisins. „Sjóðurinn muni bjóða út nýtingarsamninga til tiltekins hóflegs tíma í senn og í skýrslunni er lagt til að sá tími verði til dæmis til 25–30 ára eða eftir eðli hvers virkjunarkosts að teknu tilliti til upphafsfjárfestingar og afskriftatíma,“ sagði Oddný.
Síðasta ríkisstjórn setti einnig á fót nefnd um stefnumörkun í auðlindamálum ríkisins, auðlindastefnunefnd, árið 2011, en hún skilaði tillögum haustið 2012. Sú nefnd lagði til stofnun auðlindasjóðs, til þess „að tryggja að auðlindaarður og meðferð hans verði sýnileg.“
Og forsetinn, auðvitað
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands hefur líka talað um sérstakan auðlindasjóð, í tengslum við mögulegan olíufund. Í viðtali við Bloomberg árið 2012 sagði hann að í bígerð væri að setja á stofn sérstakan auðlindasjóð sem í myndu renna tekjur tengdar olíu, þar sem Íslendingar líti á þá auðlind sem þjóðarauðlind. Það væri almenn stefna.
Stofnun auðlindasjóðs hefur einnig komið til tals á þessu þingi. Ólína Þorvarðardóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, spurði Sigrúnu Magnúsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra um málið og hvort hún teldi til bóta að slíkur sjóður yrði stofnaður. Sigrún sagðist ekki telja það lykilatriði að búa til sérstakan sjóð.
Ólína ræddi líka stofnun auðlindasjóðs við Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra í umræðum um náttúrupassa. Hún sagði þá að ef „menn hefðu haft þá framsýni fyrir þó nokkru að stofna auðlindasjóð og samræma nýtingu allra auðlinda í landinu“ væri ekki nauðsynlegt að standa í umræðu um að taka gjöld af einstaklingum í gegnum náttúrupassa. Ragnheiður Elín sagði þetta vera „nákvæmlega málið. Ég man reyndar ekki eftir umræðum um að stofna einhvern auðlindasjóð“ sagði ráðherrann, og sagðist ekki muna eftir því að Ólína hafi lagt til á síðasta kjörtímabili stofnun slíks sjóðs. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingkona VG, og Birgitta Jónsdóttir, þingkona Pírata, tóku undir að ráðast ætti í stofnun auðlindasjóðs.