Almenningur í Frakklandi heldur á kjörstað öðru sinni á morgun, sunnudag, til þess að kjósa í síðari umferð forsetakosninga. Mun valið standa á milli tveggja frambjóðenda sem urðu hlutskarpastir í fyrri umferðinni sem fram fór fyrir tveimur vikum, en það voru sitjandi forsetinn Emmanuel Macron annars vegar og Marine Le Pen hins vegar. Um er að ræða þriðja framboð þeirrar síðarnefndu til forseta Frakklands, en hún hefur lengst af þótt of öfgafull til þess að þykja líkleg til þess að bera sigur úr býtum.
Þrátt fyrir það var hún einnig annar atkvæðahæsti frambjóðandinn í forsetakosningunum 2017 og atti þar kappi við Emmanuel Macron í annarri umferð kosninganna, þar sem Macron hlaut mikinn meirihluta, eða rúmlega 66% atkvæða og var þar með kjörinn forseti landsins.
Hlaut stjórnmálaskoðanir í arf
Marine Le Pen fæddist í Frakklandi árið 1968 og þegar hún var fjögurra ára gömul stofnaði faðir hennar, Jean-Marie Le Pen, öfgahægri stjórnmálaflokkinn National Front. Le Pen erfði stjórnmálaáhuga og -skoðanir föður síns og gekk formlega í flokkinn 18 ára gömul. Eftir framhaldsskóla lagði hún stund á lögfræði og starfaði sem slíkur um nokkurt skeið samhliða stjórnmálunum.
Helstu stefnumál National Front hafa löngum einkennst af mikilli þjóðernishyggju og útlendingaandúð og hefur franska þjóðin haft takmarkaðan áhuga á stjórn slíkra öfgahægrimanna. Jean-Marie Le Pen, faðir núverandi forsetaframbjóðandans, bauð sig nokkrum sinnum fram til forseta en náði loks árangri árið 2002 þegar hann komst óvænt áfram í aðra umferð forsetakosninganna. Það féll frönsku þjóðinni ekki í skaut og hvöttu nær allir stjórnmálaflokkar almenning til þess að kjósa gegn Le Pen, meira að segja franski sósíalistaflokkurinn sem var annars helsti gagnrýnandi og andstæðingur sitjandi forsetans og keppinautar Le Pen í kosningunum, Jacques Chirac. Svo fór að Chirac fór með stærsta sigur í sögu forsetakosninga í Frakklandi og hlaut 82,2% atkvæða. Þá var einnig um að ræða síðasta skipti sem sitjandi franskur forseti hlaut endurkjör. Það gæti breyst á morgun, fari Macron með sigur af hólmi.
Það er hins vegar ekki næsta víst, enda mælist andstæðingur hans, Le Pen, talsvert nálægt honum í könnunum. Eins og áður segir hefur Le Pen hingað til ekki þótt mjög raunverulegur valkostur í forsetakosningum, enda hefur stefna hennar yfirleitt beinst að harðlínumálum og hana skort heildræna stefnu, svo sem í efnahagsmálum. Nú hefur hún hins vegar breytt um aðferð og talað mikið fyrir auknum kaupmætti frönsku þjóðarinnar, svo sem með lækkun skatta, og lítið talað um þau stefnumál sín sem almenningur hefur, að minnsta kosti hingað til, átt erfiðara með að sætta sig við. Þar má nefna skoðanir Le Pen á veru Frakklands í Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu, sem og á útlendingamálum, svo fátt eitt sé nefnt. Það þýðir hins vegar ekki að hún hafi breytt um skoðun, og óttast margir að hljóti hún kjör muni það hafa afgerandi áhrif ekki einungis fyrir Frakkland heldur fyrir Evrópu og vestrænt samstarf almennt, en til að mynda hefur Le Pen lagt áherslu á gott samband Rússlands og Frakklands. Hinum megin borðsins situr svo Macron sem hefur fyllt í skarð Angelu Merkel, fyrrverandi kanslara Þýskalands, sem leiðtogi Evrópusambandsins á alþjóðasviðinu. Þá hefur hann beitt sér mjög gegn innrás Rússlands í Úkraínu og jafnvel sakað Le Pen um að vera á launaskrá hjá Vladimír Pútín Rússlandsforseta, en stjórnmálaflokkur hennar tók lán hjá rússneskum banka til að fjármagna kosningabaráttuna.
Rak föður sinn úr flokknum
Annað sem talið er að hafi haft mikil áhrif á auknar vinsældir Le Pen er persónuleg ímyndarbreyting þar sem lögð hefur verið áhersla á að gera hana viðkunnalegri. Lengst af lagði hún áherslu á að aðskilja einkalífið og stjórnmálaferilinn, ekki síst kannski vegna þess hve hún og fjölskylda hennar hafa verið mikið í sviðsljósinu og yfirleitt ekki af eftirsóknarverðum ástæðum. Brá Le Pen á það ráð að reka föður sinn úr flokknum sem hann stofnaði og endurnefna hann, en hann er þekktur fyrir útlendingaandúð, gyðingahatur og fyrir að gera lítið úr helförinni, í tilraun til þess að bæta ímynd flokksins. Þá hefur hún lagt mikla áherslu á líf sitt sem einstæð móðir og einnig sem einhleyp kona með ketti á heimilinu. Þar reynir hún að spila á óvinsældir Macron, sem hefur löngum þótt yfirlætisfullur og ótengdur almenningi í Frakklandi.
En hvort kjósendur láti afvegaleiðast af vinsamlegri Le Pen og láti öfgafyllri stefnumál hennar liggja á milli hluta kemur í ljós í kjörklefunum á morgun. Hljóti Le Pen kjör verður hún fyrsti kvenkyns forseti Frakklands, en það mun hafa veigamiklar afleiðingar bæði á innlendum og alþjóðlegum vettvangi.