Reitir, stærsta fasteignafélag landsins, lauk hlutafjárútboði sínu á dögunum og hefur Arion banki umsjón með útboðinu. Samkvæmt tilkynningu félagsins í morgun varð mikil umframeftirspurn í útboðinu en markaðsvirði félagsins, samkvæmt meðalgenginu í viðskiptum með bréfin, nemur um 48 milljörðum króna. Bæði almenningi og fagfjárfestum bauðst að kaupa bréf í félaginu en nú er ljóst að fjárfestar fá ekki eins mörg bréf og þeir hefðu viljað.
Söluandvirði nemur 6,4 milljörðum króna, en um 3.600 fjárfestar óskuðu eftir að kaupa hlutabréf í Reitum, samkvæmt tilkynningu frá í morgun. Heildareftirspurn var 25,5 milljarðar, en Arion banki seldi sem nemur 13,25 prósent af heildarhlutafé í félaginu.
Verðmætt eignasafn
Eignasafn Reita saman stendur af mörgum af verðmætustu fasteignum landsins. Mikilvægasta einstaka eign félagsins er Kringlan en félagið á einnig margar verðmætar eignir miðsvæðis í Reykjavík. Félagið á stórt eignasafn í verslunarhúsnæði til viðbótar við Kringluna, t.d. Holtagarða, Spöngina, Mjóddina og Eiðistorg. Þá á félagið t.a.m. tvær stórar Icelandair hóteleignir; Hilton Reykjavík hótel og Icelandair Natura.
Tilkoma Reita verður annað fasteignafélagið sem bætist í hóp félaga í Kauphöllinni. Þar er fyrir fasteignafélagið Reginn og von er á Eik fasteignafélagi í Kauphöllina á næstunni. Ef allt gengur að óskum verða bréfin í Reitum tekin til viðskipta í Kauphöllinni þann 9. apríl næstkomandi.
Fjárhagslegri endurskipulagningu Reita lauk endanlega fyrir skemmstu og komu nokkrir af helstu lífeyrissjóðum landsins með nýtt hlutafé inní félagið. Fjárhagslega stendur félagið sterkt eftir þessa endurskipulagningu.
Bankar selja lítið
Athygli vekur að af íslensku bönkunum er það einungis Arion banki sem selur hlut af sínum eignarhlut í útboðinu. Það tengist því líklega, án þess að það sé fullyrt hér, að Arion banki er umsjónaraðili útboðsins. Arion banki átti fyrir um 22% í Reitum en seldi 13,25% í útboðinu og halda eftir 8,7%. Landsbankinn á 17,7% hlutafjár í Reitum en seldi ekkert í útboðinu. Íslandsbanki á 3,9% hlut í Reitum og seldi heldur ekkert í útboðinu. Loks á Glitnir hf (slitabú) 6,25% hlutafjár í félaginu og seldi heldur ekkert af sínum hlut.
Reitir hf | |||||
hlutafjáreign bankanna 16/3/2015 | |||||
Eign fyrir útboð | Eign eftir útboð | ||||
Arion banki | 21,97% | 8,72% | |||
Landsbankinn | 17,66% | 17,66% | |||
Íslandsbanki | 3,86% | 3,86% | |||
Glitnir (+ Haf Funding) | 6,25% | 6,25% | |||
Samtals bankar og slitabú Glitnis | 49,74% | 36,49% | |||
Í takt við reglur Samkeppniseftirlitsins?
Samkvæmt tilmælum Samkeppniseftirlitsins eiga fjármálafyrirtæki að selja eignarhluti í félögum í óskyldum rekstri svo fljótt sem auðið er, en meginreglan í lögum um fjármálafyrirtæki er sú að bankar eigi ekki að stunda óskyldan rekstur. Fjármálaeftirlitið getur síðan veitt undanþágur frá lagaákvæðum um þetta, og hefur verið duglegt við það, jafnvel þó nú séu brátt sjö ár frá hruni og sérstökum aðstæðum sem þá sköpuðust í kjölfarið, þar sem bankar urðu hluthafar í mörgum fyrirtækjum.
Í ljósi mikillar umframeftirspurnar er augljóst að endurreistu bankarnir þrír, Arion banki, Landsbankinn og Íslandsbanki, hefðu allir getað selt mun meira af sínum eignarhlut, en vilja greinilega freista þess að eiga eignahlutina lengur, og fá meira fyrir þá.