Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna talaði bæði til formanns Samfylkingarinnar og leiðtoga samstarfsflokka sinna í ríkisstjórn er fulltrúar tíu flokka ræddu um loftslagsmál í sjónvarpssal Ríkisútvarpsins í kvöld, sem var fyrsta málefnið á dagskrá í þættinum.
Hún vísaði gagnrýni þess fyrstnefnda á bug og kom því á framfæri við félaga sína við ríkisstjórnarborðið að Vinstri græn vildu ganga lengra í loftslagsmálum en ríkisstjórnin hefur gert til þessa.
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar hafði gagnrýnt stjórnvöld fyrir metnaðarleysi í loftslagsmálum og sagt að áskoranir framtíðar í loftslagsmálum þyrftu á meira samstíga ríkisstjórn að halda en þeirri sem Katrín hefur leitt síðustu síðustu ár, til þess að hægt væri að sættast á eitthvað meira en minnsta samnefnara.
Katrín sagði hins vegar að með aðkomu Vinstri grænna að ríkisstjórn hefði Ísland náð miklum árangri í loftslagsmálum, en um leið að VG væru búin að fara yfir skýrslu IPCC um loftslagsmál og væru nú búin að segja að það þyrfti að ganga lengra.
Flokkurinn boðaði nú, rétt eins og Samfylkingin, að draga ætti úr losun um 60 prósent fram til ársins 2030. „Við þurfum að tryggja að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir 2045,“ sagði forsætisráðherra.
Þarf að virkja meira?
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins gaf ekki mikið fyrir spurningu Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur þáttarstjórnanda Ríkisútvarpsins, sem snerist um það hvort loftslagsmálin væru helsti átakapunkturinn á milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins og virtist hálf hvumsa yfir þeirri framsetningu. „Ég myndi ekki segja það, alls ekki,“ sagði Bjarni.
Hann sagði heiminn æpa á lausnir í loftslagsmálum og að Íslandi ætti mikið af snillingum á sviði jarðvarma- og vatnsafls. „Við erum tilbúin til þess að virkja meira og við eigum marga ónýtta virkjanakosti í nýtingarflokki. Vindorkan er valkostur sem við þurfum að fara að skoða af mikilli alvöru,“ sagði Bjarni, sem telur Ísland geta orðið leiðandi á þessu sviði.
Vísaði hann sérstaklega til fréttar sem birtist á forsíðu Fréttablaðsins í dag um möguleikann á vetnisverksmiðju á vegum franska fyrirtækisins Qair á Grundartanga, sem Tryggvi Þór Herbertsson fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins er í forsvari fyrir hér á landi.
„Ef við ætlum í alvöru orkuskipti og hætta að kaupa olíu af Norðmönnum og fá hana hingað í tankskipum, segja nei takk við því, þá verður eitthvað að koma í staðinn og þá verður að vera vilji til þess að nýta aflið í landinu,“ sagði Bjarni en komst ekki mikið lengra, þar sem Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fulltrúi Pírata í kappræðunum stökk inn í orðræðu hans og sagði að ekki þyrfti að virkja meira til þess að orkuskipti gætu átt sér stað.
Viðreisn vill að stjórnvöld beiti á sig svipu en Framsókn síður
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar sagði að flokkurinn vildi flétta umhverfismálin inn í alla málaflokka. Hún sagði að ný ríkisstjórn ætti að setja nýja fram tölusetta aðgerðaáætlun í loftslagsmálum á hverju ári, setja svipuna á sig sjálf svo að stjórnmálamenn gætu ekki komið fyrir kosningar og lofað einhverjum fagurgala. Stjórnvöld þyrftu að búa til kerfi sem setti stjórnvöldin sjálf í spennitreyju, auk þess sem nota ætti hugvitið til þess að hjálpa Íslandi að verða forystuþjóð í loftslagsmálum á heimsvísu.
Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins sagði er röðin kom að honum að flokkurinn vildi leggja áherslu á fjárfestingu þegar kæmi að loftslagsmálum, en minni á „boð og bönn“.
Hann ræddi um gríðarleg tækifæri vegna endurnýjanlegrar orku og að flokkur sinn vildi hraða orkuskiptum eins hratt og hægt er. Hann sagði að atvinnulífið, almenningur, frjáls félagasamtök og háskólarnir þyrftu að koma að borðinu ef árangur ætti að nást.
Orkuskipti láglaunahópa
Nokkuð var tekist á um það á milli stjórnmálaleiðtoganna sem kallað er réttlát umskipti í loftslagsmálum, sem felur í sér að þeim byrðum sem fylgja umbreytingunum sem fyrirséð er að gera þurfi til þess að ná loftslagsmarkmiðum sé dreift með réttlætum hætti á milli þjóðfélagshópa. Katrín Jakobsdóttir sagði í þessari umræðu mikilvægt að tryggja réttlát umskipti, en sagði um leið að ljóst væri að rétta leiðin væri ekki að lækka álögur á bensín og díselolíu.
Inga Sæland formaður Flokks fólksins sagði að Flokkur fólksins myndi ekki sætta sig við það að grænum sköttum yrði beitt til þess að ná fram loftslagsmarkmiðum. Þeir sem menguðu mest ættu að borga mest.
Hún spurði aðra leiðtoga í sjónvarpssal að því hvernig þau ætluðu að aðstoða fólk sem fengi 250-280 þúsund krónur útborgað á mánuði með að kaupa rafbíl og spurði hvort það ætti ef til vill ekki að verða fyrir fátækasta fólkið í landinu að eiga bíl; hvort þau ættu bara að taka Borgarlínu og vera á hjóli.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fékk orðið á eftir Ingu og sagðist sammála henni um það að það væru þeir sem menguðu mest sem ættu að borga mest. Hún hins vegar beindi orðum sínum að yfirlýsingum forsætisráðherra um metnaðarfullar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og sagði það „vandræðalega metnaðarlaust“ að bera þær saman við „stóriðjustjórnir“ síðustu áratuga.
Hún sagði Pírata boða mjög róttækar og mikilvægar aðgerðir í loftslagsmálum strax. „Við ætlum ekki að prútta við móður jörð um þær aðgerðir sem þarf að grípa til,“ sagði Þórhildur Sunna og gagnrýndi síðan ríkisstjórnarflokkana fyrir að hafa hvorki fallist á að hækka sjálfstæð markmið Íslands um losun né að leggja bann við olíuleit í efnahagslögsögu Íslands, eins og lagt hafi verið til á þingi.
Gunnar Smári Egilsson fulltrúi Sósíalistaflokksins skaut á nálgun Sjálfstæðisflokksins í loftslagsmálum og sagði að ástæðan fyrir því að Bjarni og aðrir í hans flokki væru að tala um loftslagsmál og orkuskipti væri sú að menn væru búnir að „kveikja á því að líklega væri hægt að nota ríkissjóð til þess að styrkja fyrirtækin“ í tengslum við fjárfestingar í orkuskiptum. Hann sagði að það hefði „klingt í peningakassanum“ á flokksþingi Sjálfstæðisflokksins sem fór fram um liðna helgi.
Sósíalistinn sagði að loftslagskrísuna mætti að miklu leyti rekja til starfsemi fyrirtækja, sem hefðu fengið að menga náttúruna óáreitt og að Sósíalistaflokkurinn teldi að vandinn yrði ekki leystur með fyrirtæki við stýrið. Hann tók síðan undir með Ingu Sæland, um hvernig byrðar aðgerða í loftslagsmálum lentu ójafnt á tekjuhópum, betur settir fengu styrki til að kaupa umhverfisvæna bíla beint úr kassanum en lágtekjufólk fengi enga styrki.
„Vandamálið er það að þeir sem eru á elstu bílunum sem menga mest eru fátækasta fólkið, við viljum styrkja það í orkuskiptum, til að það geti ferðast um án þess að menga svona mikið,“ sagði Gunnar Smári og var spurður af Ingu um leið: „Af hverju ert þú ekki í Flokki fólksins?“
Gunnar Smári sagði að það væru aðrar ástæður fyrir því, þrátt fyrir að hann væri sammála Ingu um þetta atriði.
Röng nálgun, segir Sigmundur
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins sagði að það væri verið að nálgast þessi mál á algjörlega rangan hátt. Hann talaði til formanns Sjálfstæðisflokksins og sagði að Ísland ætti að nota orkuna hérlendis til þess að framleiða meira. Það hjálpaði loftslaginu og bætti lífskjör í landinu.
Hann sagði núverandi stefnu stjórnvalda draga úr lífsgæðum og hélt því fram að bæði Sigurður Ingi og Bjarni stæðu í stafni ríkisstjórnar sem hefði rekið slíka stefnu í loftslagsmálum undanfarin ár og myndi gera það áfram.
Róttæk hugmynd Glúms
Glúmur Baldvinsson frambjóðandi Frjálslynda lýðræðisflokksins, sem býður fram í fyrsta sinn núna, gagnrýndi nálgun Þórhildar Sunnu og annarra, sagðist vera orðinn þreyttur á dómsdagsspám um loftslagsmál, sem hann sagði að minntu sig á kjarnorkuvánna sem hann sjálfur hefði alist upp við.
Hann kom fram með tillögu sem hann taldi geta gert mikið varðandi loftslagsmálin, fleiri störf án staðsetningar, þannig að fólk þyrfti ekki að ferðast til vinnu.