Mynd: Birgir Þór

Engin starfhæf ríkisstjórn sýnileg

Staðan í íslenskum stjórnmálum er ekki að verða neitt minna flókin nú þegar rúmar þrjár vikur eru í kosningar. Ríkisstjórnin tapar fylgi og Sósíalistaflokkurinn heldur áfram að kroppa af öðrum félagshyggjuflokkum. Erfitt er að sjá starfhæfa meirihlutastjórn út úr stöðu mála samkvæmt kosningaspá Kjarnans.

Sam­an­lagt fylgi rík­is­stjórn­ar­flokk­anna mælist  47,1 pró­sent í nýj­ustu kosn­inga­spá Kjarn­ans og Bald­urs Héð­ins­son­ar. Hún tapar 1,6 pró­sentu­stigi frá því fyrir helgi og afar ósenni­legt er að hún myndi halda meiri­hluta á þingi, þar sem níu flokkar myndu vænt­an­lega ná inn mann­i. 

Reykja­vík­ur­mód­elið svo­kall­aða fær­ist fjær því að verða raun­hæfur mögu­leiki í rík­is­stjórn­ar­sam­starfi þar sem flokk­arnir fjórir sem stýra höf­uð­borg­inni: Sam­fylk­ing, Vinstri græn, Píratar og Við­reisn mæl­ast sam­an­lagt með 45 pró­sent stuðn­ing. Litlu myndi skipta ef Við­reisn yrði skipt út fyrir Fram­sókn­ar­flokk­inn því ein­ungis 0,3 pró­sentu­stig myndu bæt­ast við. Ef félags­hyggju­flokk­arnir vilja mynda rík­is­stjórn saman þá þyrfti að bæta fimmta flokknum í sam­starf­ið. Ásamt áður­nefndum gæti Sós­í­alista­flokkur Íslands verið sá flokk­ur.

Ef tekið er til­lit til þess að Sam­fylk­ing og Píratar hafa úti­lokað stjórn­ar­sam­starf með Sjálf­stæð­is­flokki og Mið­flokki þá eru engir mögu­leikar á þriggja flokka stjórn í kort­unum utan mögu­lega þeirrar sem nú situr og ekki væri hægt að mynda fjög­urra flokka stjórn án aðkomu Sjálf­stæð­is­flokks. 

Þannig fengi hægri­st­jórn sem skipuð væri Sjálf­stæð­is­flokki, Við­reisn, Fram­sókn­ar­flokki og Mið­flokki 52 pró­sent atkvæða auk þess sem sá mögu­leiki er fyrir hendi að bæta annað hvort Við­reisn eða Mið­flokki við núver­andi stjórn­ar­sam­starf. 

Niðurstöður kosningaspárinnar 30. ágúst 2021

Allt eru þetta þó erf­iðir val­kostir til að láta ganga upp mál­efna­lega og ljóst að staðan í íslenskum stjórn­málum er ekk­ert að verða neitt minna flókin nú þegar nær allir flokkar í fram­boði hafa kynnt kosn­inga­á­herslur sín­ar. Í kvöld fara hins vegar fram fyrstu kapp­ræður for­svars­manna flokk­anna í sjón­varps­sal og sagan sýnir að góð, eða slök, frammi­staða þar getur breytt stöð­unni hratt.

Þeir sem eru á upp­leið

Sós­í­alista­flokkur Íslands er sá flokkur sem vaxið hefur skarp­ast und­an­farnar vik­ur. Í byrjun júlí mæld­ist fylgi hans 5,1 pró­sent en hefur síðan risið í nán­ast hverri ein­ungis kosn­inga­spá sem hefur verið keyrð. Það mælist nú 8,1 pró­sent og hefur aldrei mælst hærra. Á tveimur mán­uðum hefur fylgi Sós­í­alista­flokks­ins auk­ist um 59 pró­sent. Nokkuð ljóst er hvaðan flokk­ur­inn er að sækja við­bót­ar­fylgi sitt. Frá byrjun júlí hafa Vinstri græn, Píratar og Sam­fylk­ing tapað 3,3 pró­sentu­stig­um.

Auglýsing

Við­reisn hefur aðeins verið að hress­ast og nær sé nú aftur upp fyrir tveggja stafa tölu í fylgi. Alls segj­ast 10,6 pró­sent kjós­enda að þeir myndu kjósa flokk­inn. Það er aðeins meira fylgi en Við­reisn fékk í fyrstu kosn­ingum sínum árið 2016 sem myndi þýða að um besta árangur flokks­ins frá upp­hafi væri að ræða. 

Sam­fylk­ingin bætir lít­il­lega við sig eftir að hafa dalað hægt og rólega allan ágúst­mán­uð. Flokk­ur­inn mælist nú með 11,5 pró­sent stuðn­ing sem er enn undir kjör­fylg­i. 

Þróun fylgis framboða í kosningaspánni
Kosningaspáin er unnin í aðdraganda kosninga til Alþingis 2021.
B C D F M P S V Aðrir

Flokkur fólks­ins er alveg við það að stíga yfir fimm pró­sent þrösk­uld­inn sem myndi tryggja flokknum jöfn­un­ar­þing­menn, en fylgið mælist nú 4,9 pró­sent. Erfitt er að draga aðra ályktun en að það myndi skila að minnsta kosti einum kjör­dæma­kjörnum þing­manni inn á þing og um leið væri rík­is­stjórnin fallin þar sem þá þing­maður kæmi úr hennar röð­u­m. 

Mið­flokk­ur­inn bætir lít­il­lega við sig en virð­ist vera fastur í fylgi sem mælist milli sex og sjö pró­sent. Hann hefur ekki mælst yfir efri mörkum þess í kosn­inga­spánni síðan í maí og nú segj­ast alls 6,5 pró­sent lands­manna að þeir ætli að kjósa flokk­inn. 

Þeir sem eru á nið­ur­leið

Vinstri græn tapa mestu fylgi frá síð­ustu kosn­inga­spá, og lækka alls um 0,8 pró­sentu­stig. Flokkur for­sæt­is­ráð­herra mælist nú með 12,2 pró­sent fylgi en það hefur ekki mælst jafn lítið síðan í lok apr­íl. Vinstri græn eru samt sem áður næst stærsti flokkur lands­ins sam­kvæmt mæl­ing­um. 

Bjarni Benediktsson og Sjálfstæðisflokkurinn kynntu kosningaáherslur sínar um liðna helgi. Flokkurinn hefur vart haggast í kosningapánni vikum saman.
Mynd: Sjálfstæðisflokkurinn

Píratar dala líka vel og tapa 0,7 pró­sentu­stig­um. Fylgi Pírata hefur ekki mælst jafn lít­ið, 10,7 pró­sent, í neinni kosn­inga­spá sem gerð hefur verið á þessu ári.

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn tapar líka og er nú kom­inn í nán­ast kjör­fylgi með 10,9 pró­sent stuðn­ing. 

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn, stærsti flokkur lands­ins, stendur svo nokkurn veg­inn í stað með 24 pró­sent fylgi. Mikil stöð­ug­leiki virð­ist vera í fylgi hans sem hefur mælst 24 til 24,1 pró­sent í kosn­inga­spánni allan ágúst­mán­uð.

Auglýsing

Þær kann­anir sem liggja til grund­vallar nýj­ustu kosn­inga­spánni eru eft­ir­far­andi:

  • Skoð­ana­könnun MMR í sam­starfi við Morg­un­blaðið 18 - 24. ágúst (vægi 28,0 pró­sent)
  • Skoð­ana­könnun Mask­ínu í sam­starfi við Frétta­stofu Stöðvar 2, Bylgj­unnar og Vísis 13 – 23. ágúst (15,2 pró­sent)
  • Þjóð­ar­púls Gallup 16. ágúst-29. ágúst (vægi 56,8 pró­sent)

Hvað er kosn­­inga­­spá­in?

Fyrir hverjar kosn­ingar um allan heim birta fjöl­miðlar gríð­ar­legt magn af upp­lýs­ing­um. Þessar upp­lýs­ingar eru oftar en ekki töl­fræði­leg­ar, byggðar á skoð­ana­könn­unum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upp­lifir stjórn­málin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórn­mála­fræð­ingar og fjöl­miðlar kepp­ast svo við að túlka nið­ur­stöð­urnar og veita almenn­ingi enn meiri upp­lýs­ingar um stöð­una í heimi stjórn­mál­anna.

Auglýsing

Allar þessar kann­anir og allar mögu­legar túlk­anir á nið­ur­stöðum þeirra kunna að vera rugl­andi fyrir hinn almenna neyt­anda. Einn kannar skoð­anir fólks yfir ákveðið tíma­bil og annar kannar sömu skoð­anir á öðrum tíma og með öðrum aðferð­um. Hvor könn­unin er nákvæm­ari? Hverri skal treysta bet­ur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vand­inn er að hinn almenni kjós­andi hefur ekki for­sendur til að meta áreið­an­leika hverrar könn­un­ar.

Þar kemur kosn­inga­spáin til sög­unn­ar.

Kosn­­­inga­­­spálíkan Bald­­­urs Héð­ins­­­sonar miðar að því að setja upp­­­lýs­ing­­­arnar sem skoð­ana­kann­­­anir veita í sam­hengi. Fyr­ir­liggj­andi skoð­ana­kann­­­anir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosn­­­inga. Nið­ur­stöður spálík­ans­ins eru svo birtar hér á Kjarn­anum reglu­lega í aðdrag­anda kosn­inga.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar