Mynd: Birgir Þór

Engin starfhæf ríkisstjórn sýnileg

Staðan í íslenskum stjórnmálum er ekki að verða neitt minna flókin nú þegar rúmar þrjár vikur eru í kosningar. Ríkisstjórnin tapar fylgi og Sósíalistaflokkurinn heldur áfram að kroppa af öðrum félagshyggjuflokkum. Erfitt er að sjá starfhæfa meirihlutastjórn út úr stöðu mála samkvæmt kosningaspá Kjarnans.

Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna mælist  47,1 prósent í nýjustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar. Hún tapar 1,6 prósentustigi frá því fyrir helgi og afar ósennilegt er að hún myndi halda meirihluta á þingi, þar sem níu flokkar myndu væntanlega ná inn manni. 

Reykjavíkurmódelið svokallaða færist fjær því að verða raunhæfur möguleiki í ríkisstjórnarsamstarfi þar sem flokkarnir fjórir sem stýra höfuðborginni: Samfylking, Vinstri græn, Píratar og Viðreisn mælast samanlagt með 45 prósent stuðning. Litlu myndi skipta ef Viðreisn yrði skipt út fyrir Framsóknarflokkinn því einungis 0,3 prósentustig myndu bætast við. Ef félagshyggjuflokkarnir vilja mynda ríkisstjórn saman þá þyrfti að bæta fimmta flokknum í samstarfið. Ásamt áðurnefndum gæti Sósíalistaflokkur Íslands verið sá flokkur.

Ef tekið er tillit til þess að Samfylking og Píratar hafa útilokað stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki og Miðflokki þá eru engir möguleikar á þriggja flokka stjórn í kortunum utan mögulega þeirrar sem nú situr og ekki væri hægt að mynda fjögurra flokka stjórn án aðkomu Sjálfstæðisflokks. 

Þannig fengi hægristjórn sem skipuð væri Sjálfstæðisflokki, Viðreisn, Framsóknarflokki og Miðflokki 52 prósent atkvæða auk þess sem sá möguleiki er fyrir hendi að bæta annað hvort Viðreisn eða Miðflokki við núverandi stjórnarsamstarf. 

Niðurstöður kosningaspárinnar 30. ágúst 2021

Allt eru þetta þó erfiðir valkostir til að láta ganga upp málefnalega og ljóst að staðan í íslenskum stjórnmálum er ekkert að verða neitt minna flókin nú þegar nær allir flokkar í framboði hafa kynnt kosningaáherslur sínar. Í kvöld fara hins vegar fram fyrstu kappræður forsvarsmanna flokkanna í sjónvarpssal og sagan sýnir að góð, eða slök, frammistaða þar getur breytt stöðunni hratt.

Þeir sem eru á uppleið

Sósíalistaflokkur Íslands er sá flokkur sem vaxið hefur skarpast undanfarnar vikur. Í byrjun júlí mældist fylgi hans 5,1 prósent en hefur síðan risið í nánast hverri einungis kosningaspá sem hefur verið keyrð. Það mælist nú 8,1 prósent og hefur aldrei mælst hærra. Á tveimur mánuðum hefur fylgi Sósíalistaflokksins aukist um 59 prósent. Nokkuð ljóst er hvaðan flokkurinn er að sækja viðbótarfylgi sitt. Frá byrjun júlí hafa Vinstri græn, Píratar og Samfylking tapað 3,3 prósentustigum.

Auglýsing

Viðreisn hefur aðeins verið að hressast og nær sé nú aftur upp fyrir tveggja stafa tölu í fylgi. Alls segjast 10,6 prósent kjósenda að þeir myndu kjósa flokkinn. Það er aðeins meira fylgi en Viðreisn fékk í fyrstu kosningum sínum árið 2016 sem myndi þýða að um besta árangur flokksins frá upphafi væri að ræða. 

Samfylkingin bætir lítillega við sig eftir að hafa dalað hægt og rólega allan ágústmánuð. Flokkurinn mælist nú með 11,5 prósent stuðning sem er enn undir kjörfylgi. 

Þróun fylgis framboða í kosningaspánni
Kosningaspáin er unnin í aðdraganda kosninga til Alþingis 2021.
B C D F M P S V Aðrir

Flokkur fólksins er alveg við það að stíga yfir fimm prósent þröskuldinn sem myndi tryggja flokknum jöfnunarþingmenn, en fylgið mælist nú 4,9 prósent. Erfitt er að draga aðra ályktun en að það myndi skila að minnsta kosti einum kjördæmakjörnum þingmanni inn á þing og um leið væri ríkisstjórnin fallin þar sem þá þingmaður kæmi úr hennar röðum. 

Miðflokkurinn bætir lítillega við sig en virðist vera fastur í fylgi sem mælist milli sex og sjö prósent. Hann hefur ekki mælst yfir efri mörkum þess í kosningaspánni síðan í maí og nú segjast alls 6,5 prósent landsmanna að þeir ætli að kjósa flokkinn. 

Þeir sem eru á niðurleið

Vinstri græn tapa mestu fylgi frá síðustu kosningaspá, og lækka alls um 0,8 prósentustig. Flokkur forsætisráðherra mælist nú með 12,2 prósent fylgi en það hefur ekki mælst jafn lítið síðan í lok apríl. Vinstri græn eru samt sem áður næst stærsti flokkur landsins samkvæmt mælingum. 

Bjarni Benediktsson og Sjálfstæðisflokkurinn kynntu kosningaáherslur sínar um liðna helgi. Flokkurinn hefur vart haggast í kosningapánni vikum saman.
Mynd: Sjálfstæðisflokkurinn

Píratar dala líka vel og tapa 0,7 prósentustigum. Fylgi Pírata hefur ekki mælst jafn lítið, 10,7 prósent, í neinni kosningaspá sem gerð hefur verið á þessu ári.

Framsóknarflokkurinn tapar líka og er nú kominn í nánast kjörfylgi með 10,9 prósent stuðning. 

Sjálfstæðisflokkurinn, stærsti flokkur landsins, stendur svo nokkurn veginn í stað með 24 prósent fylgi. Mikil stöðugleiki virðist vera í fylgi hans sem hefur mælst 24 til 24,1 prósent í kosningaspánni allan ágústmánuð.

Auglýsing

Þær kannanir sem liggja til grundvallar nýjustu kosningaspánni eru eftirfarandi:

  • Skoðanakönnun MMR í samstarfi við Morgunblaðið 18 - 24. ágúst (vægi 28,0 prósent)
  • Skoðanakönnun Maskínu í samstarfi við Fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis 13 – 23. ágúst (15,2 prósent)
  • Þjóðarpúls Gallup 16. ágúst-29. ágúst (vægi 56,8 prósent)

Hvað er kosn­inga­spá­in?

Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.

Auglýsing

Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.

Þar kemur kosningaspáin til sögunnar.

Kosn­­inga­­spálíkan Bald­­urs Héð­ins­­sonar miðar að því að setja upp­­lýs­ing­­arnar sem skoð­ana­kann­­anir veita í sam­hengi. Fyr­ir­liggj­andi skoð­ana­kann­­anir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosn­­inga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar hér á Kjarnanum reglulega í aðdraganda kosninga.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar