Í ársreikningi Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins og tengdra miðla er tilgangi félagsins lýst. Þar stendur að hann sé „að styðja frjálst viðskiptalíf og efla heilbrigðan hugsunarhátt í öllum þjóðfélagsmálum, og yfir höfuð beita sér fyrir hverju því, er miðar til sannra framfara í hvívetna.“
Hvað sé heilbrigður hugsunarháttur og sannar framfarir er afar huglægt mat. En ljóst er að eigendur Árvakurs hljóta að telja félagið vera að ná tilgangi sínum. Eigendahópurinn hefur nefnilega sett yfir milljarð króna af sínum eigin peningum í þennan elsta starfandi fjölmiðli landsins, sem stofnaður var 1913.
Samhliða þessari miklu fjárfestingu eigendahópsins, en nánast allir í honum eru með sjávarútveg sem aðalstarf, hefur Árvakur fengið gríðarlega mikið af skuldum felldar niður hjá viðskiptabanka sínum. Þegar nýju eigendurnir tóku við árið 2009 voru skuldir félagsins færðar niður um 3,5 milljarða króna. Það dugði ekki til og því voru skuldirnar færðar niður um einn milljarð króna í árslok 2011. Árvakur er því eitt fárra fyrirtækja á Íslandi sem hefur farið tvisvar í gegnum skuldaniðurfellingarþvottavélina frá bankahruni.
Þessar skuldaniðurfellingar hafa hins vegar ekki leitt til þess að rekstur félagsins hafi náð viðsnúningi. Samanlagt tap Árvakurs frá 2009 og út árið 2014 er tæplega 1,3 milljarðar króna. Á þessu sex ára tímabili hefur hið 102 ára félag einungis einu sinni skilað hagnaði. Hann var upp á sex milljónir króna árið 2013. Það þykir ekki mikið fyrir félag sem er með árlega veltu yfir þrjá milljarða króna.
Þegar Árvakur ætlaði að sameinast 365
Lengst af var Árvakur í eigu afkomenda Hallgríms Benediktssonar og fjölskyldu Huldu Valtýsdóttur. Árið 2005 varð breyting þar á þegar Björgólfur Guðmundsson og tengdir aðilar hófu að kaupa hluti í Árvakri og komust loks í ráðandi stöðu innan þess. Til viðbótar við Morgunblaðið átti Árvakur á vefmiðilinn mbl.is, sem hafði verið stofnsettur 1998 fyrstur fréttamiðla og hefur nær sleitulaust verið mest sótta vefsíða landsins síðan þá, og prentsmiðju.
Við bankahrunið hurfu peningar Björgólfs og hann fór skömmu síðar í stærsta persónulega gjaldþrot sem átt hefur sér stað á Íslandi. Þegar skiptum á búi hans lauk kom í ljós að Björgólfur hafði átt 35 milljónir króna upp í 85 milljarða króna kröfur.
Ef af samruni Árvakurs og 365 hefði orðið að veruleika hefði ein viðskiptablokk, sem stýrt var af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, ráðið yfir nánast öllum frjálsum fjölmiðlum á Íslandi.
Hann hafði því enga getu lengur til að styðja við Árvakur eftir bankahrunið og reksturinn varð, vægast sagt, þungur. Fríblaðið 24 stundir, sem Árvakur hafði keypt til að keppa við Fréttablaðið á fríblaðamarkaði, var lagt niður fjórum dögum eftir að Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, bað guð að blessa Ísland og samhliða var tilkynnt um þá fyrirætlun eigenda Árvakurs og 365 að renna Fréttablaðinu inn í Árvakur gegn því að 365 myndi eignast 36,5 prósenta eignarhlut.
Þær fréttir vöktu mikla athygli, enda hefðu þær þýtt að einu starfandi dagblöð landsins legðust saman í sæng. Sameiningin hefði einnig þýtt að 365 myndi eiga þorra þeirra fjölmiðla á Íslandi sem hefðu einhverjar tekjur af auglýsingasölu á þeim tíma.
Samruninn var rökstuddur með þeim aðstæðum sem ríktu í samfélaginu. Samhliða efnahagsáfalli hefði auglýsingamarkaðurinn hrunið og tugprósenta gengisfall íslensku krónunnar gert innkaup á pappír í blöðin gríðarlega þung. Auk þess var þeim rökum beitt að Árvakur myndi ekki lifa af nema samruninn yrði samþykktur. Fjárhagserfiðleikar félagsins væru einfaldlega það miklir að þetta væri eina leiðin til þess. Ef af samrunanum hefði ein viðskiptablokk, sem stýrt var af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, ráðið yfir nánast öllum frjálsum fjölmiðlum á Íslandi.
Samkeppniseftirlitið stóð hins vegar fast í lappirnar í þessu máli og hafnaði samrunanum. Í ákvörðun eftirlitsins, sem birt var í byrjun febrúar 2009, sagði að það væri „mat Samkeppniseftirlitsins að samruni Árvakurs hf., Fréttablaðsins ehf. og Pósthússins ehf. muni skapa alvarleg samkeppnisleg vandamál og hindra þar með virka samkeppni á öllum mörkuðum málsins þar sem áhrifa gætir [...] Sökum þess er það mat Samkeppniseftirlitsins að ógilda beri samrunann“.
Gríðarlegir rekstrarerfiðleikar
Raunar hafði verið ljóst um nokkurra mánaða skeið að Samkeppniseftirlitið ætlaði ekki að samþykkja samruna 365 og Árvakurs og aðrar leiðir til að viðhalda rekstri félagsins voru því skoðaðar.
Ekki bar að vanmeta þann rekstrarvanda sem Árvakur glímdi við á þessum tíma. Útgáfufélagið var rekið með 570 milljóna króna halla árið 2008. Áætlanir sem unnið var eftir höfðu gert ráð fyrir 340 milljóna króna hagnaði og því var raunveruleikinn 910 milljónum krónum verri en upphaflegt plan. Auk þess skuldaði félagið 4,4 milljarða króna.
Fyrir utan þær miklu skuldir sem hvíldu á félaginu, og voru aðallega við Glitni og síðar Íslandsbanka, var lausafjárstaða þess þröng. Raunar var hún mun þrengri en upplýst var opinberlega um. Sjálft flaggskip útgáfunnar, Morgunblaðið, átti nefnilega í miklum rekstrarlegum erfiðleikum. Áskrifendum hafði fækkað töluvert með tilkomu Fréttablaðsins og staða þess á auglýsingamarkaði veikst gríðarlega. Samhliða hafði ekki verið ráðist í nægilega miklar hagræðingaraðgerðir innan blaðsins til að mæta þessum nýja veruleika.
Átti ekki fyrir launum starfsmanna
Í desember 2008 hafði hlutafé fyrrum eigenda verið þurrkað út og Árvakur var algjörlega upp á náð og miskunn Íslandsbanka kominn, en hann hafði verið reistur á grunni Glitnis. Í upphafi þess mánaðar átti að liggja fyrir framtíðarlausn á fjármálum félagsins.
Íslandsbanki hélt á örlögum Árvakurs, og þar með Morgunblaðsins, í höndum sér.
Á sama tíma átti Árvakur ekki fyrir launum starfsmanna og pappírsbirgðir félagsins, sem voru nauðsynlegar til að Morgunblaðið gæti komið áfram út, voru á þrotum. Innan Íslandsbanka virtist um tíma ekki vera vilji til að fleyta útgáfunni yfir þessa brekku. Árvakur, og þar með Morgunblaðið, stefndi einfaldlega í þrot og yfirstjórnendur félagsins voru farnir að undirbúa sig undir að tilkynna um slíkt opinberlega. Engu breytti þótt um 80 manns hefði verið sagt upp störfum hjá félaginu frá bankahruni. Skyndileg breyting varð hins vegar á afstöðu Íslandsbanka sem féllst á að veita félaginu skammtímafjármögnun og setja það í söluferli til að kanna hvort áhugi væri einhvers staðar gagnvart því að koma að félaginu gegn því að endurfjármagna það og styðja við reksturinn til framtíðar.
Hann reyndist heldur betur vera til staðar.
Kaupendahópur myndaður
Til að byrja með voru ýmsir nefndir til sögunnar í fjölmiðlum sem mögulegir kaupendur. Hópur í kringum Árna Hauksson, sem hafði áður átt hlut í 365 og Húsasmiðjunni, var einn þeirra. Þá reyndu nokkrir starfsmenn Árvakurs að setja saman tilboð og útgáfufélagið Birtíngur lýsti einnig yfir áhuga. Strax í desember var farið að kvisast út að Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Ísfélags Vestmannaeyja, hefði áhuga fyrir hönd eigenda fyrirtækisins. Gunnlaugur Sævar er afar handgenginn ákveðnum kreðsum innan Sjálfstæðisflokksins sem eflaust er auðveldast að kenna við fyrirferðamesta einstaklinginn innan þeirra, Davíð Oddsson.
Þegar fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka setti loks Árvakur í formlegt söluferli bárust þrjú skuldbinandi tilboð í félagið. Eitt þeirra var frá almenningsfélagi undir forystu Vilhjálms Bjarnasonar, þá framkvæmdastjóra Samtaka fjárfesta og nú þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Um þúsund manns höfðu skráð sig fyrir hlutafé í félaginu. Hugmynd hópsins var að skrá Árvakur á markað ef tilboði þeirra yrði tekið.
Þá bauð Óskar Magnússon, sem hafði meðal annars verið forstjóri Hagkaupa, Íslandssíma og Tryggingamiðstöðvarinnar, í félagið fyrir hönd hóps sem hann var sagður leiða. Óskar vildi á þessum tímapunkti ekki upplýsa hverjir væru með honum í hópnum. Þriðja tilboðið var síðan frá litríkum áströlskum fjárfesti, Steve Cosser, sem hafði dúkkað upp á Íslandi síðla árs 2008 og viðrað alls kyns hugmyndir um fjárfestingar.
Grundvöllur kaupanna „viðskiptalegs eðlis“
Þann 26. febrúar 2009 var tilkynnt að hópur Óskars, sem hafði stofnað félagið Þórsmörk ehf. utan um tilboðið, myndi eignast Árvakur með yfirtöku skulda og nýju hlutafé. Auk Óskars tilheyrðu Guðbjörg Matthíasdóttir, Gísli Baldur Garðarsson, Gunnar B. Dungal, Pétur H. Pálsson, Þorgeir Baldursson í Odda og útgerðarkóngurinn Þorsteinn Már Baldvinsson, kenndur við Samherja, hópnum. Augljós sjávarútvegskeimur var af félaginu og margir eigendur þess höfðu náin tengsl við Sjálfstæðisflokkinn.
Óskar sagði við Morgunblaðið að þessu tilefni að markmiðið með kaupunum væri „fyrst og fremst það að reka góðan, traustan og trúverðugan fjölmiðil sem Morgunblaðið hefur verið og koma honum upp úr því fari sem hann hefur verið í að undanförnu[...]Við teljum að það megi gera úr þessu góðan og arðvænlegan rekstur. Það er aðalmarkmið þeirra fjárfesta sem hafa komið til liðs við mig í þessu verkefni til þessa. Svo eru sjálfsagt mismunandi ástæður hjá hverjum og einum. Eflaust bera allir einhverjar tilfinningar til Morgunblaðsins, hafa áhuga á þessu merka fyrirbæri í íslenskri fjölmiðlasögu og vilja af ýmsum ástæðum að það blað verði gefið út áfram. Grundvöllurinn er samt sem áður viðskiptalegs eðlis“.
Kaupverðið ekki gefið upp
Til að eignast Árvakur þurfti ekki að borga Íslandsbanka neitt. Það þurfti einfaldlega að yfirtaka einhverjar skuldir og leggja til nýtt hlutafé. Samkvæmt tilkynningu Íslandsbanka um málið kom fram að um 200 milljónum króna hefði munað á tilboði Þórsmerkur og næsthæsta tilboðinu, sem var frá félagi í eigu Steve Cosser og viðskiptafélaga hans Everhard Visser. Kaupverðið var hins vegar ekki gefið upp.
Ólafur Stephensen, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins.
Nýir eigendur réðust ekki í neinar sérstakar breytingar innanhúss fyrst um sinn. Ólafur Stephensen, sem hafði verið ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins sumarið 2007, hélt stóli sínum og engar stórvægilegar uppsagnir voru boðaðar. Það breyttist allt um miðjan september þegar Ólafi var sagt upp störfum. Ólafur, sem er yfirlýstur Evrópusambandssinni, hafði haldið á lofti stefnu í þeim málaflokki sem var nýjum eigendum ekki að skapi. Auk þess voru þeir ekki ánægðir með afstöðu sem birtist í ritstjórnarskrifum blaðsins í Icesave-málinu, sem þá var farið að taka á sig býsna hatramma mynd. Í þeim skrifum hafði samningaleið verið gert hátt undir höfði. Ítrekað hafði verið þrýst á Ólaf að skipta um kúrs í þessum málum, en hann hafði ávallt neitað.
Í stað Ólafs voru tveir nýir ritstjórar ráðnir. Þeir voru Haraldur Johannessen, fyrrum ritstjóri Viðskiptablaðsins, og Davíð Oddsson, fyrrum forsætisráðherra, seðlabankastjóri og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Ný stefna mótuð með nýjum ritstjórum
Með ráðningu þeirra Davíðs og Haraldar voru send skýr skilaboð um breytta stefnu blaðsins. Sú stefna hefur alla tíð síðan einkennst af nokkrum ráðandi þáttum: Andstöðu við vinstristjórnina sem sat frá 2009 - 2013, Evrópusambandið, Icesave-samninganna og andstöðu við breytingar á kvótakerfinu og aukna gjaldtöku sem lögð var á sjávarútvegsfyrirtæki. Þessi stefna birtist sérstaklega í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins.
Líkt og áður sagði var kaupverðið á Árvakri aldrei gefið upp. Hlutafé Þórsmerkur í félaginu var hins vegar metið á 300 milljónir króna í ársreikningi félagsins fyrir árið 2009. Því verður að teljast líklegt að það sé sú upphæð sem greidd hafi verið fyrir það. Til viðbótar settu nýir eigendur Árvakurs strax 150 milljónir króna inn í reksturinn á árinu 2009. Alls greiddu þeir 650 milljónir króna í hlutafé inn í Þorsmörk, svo ljóst var að þeir ætluðu sér að hafa borð fyrir báru. Í lok árs 2009 voru enn rúmlega 200 milljónir króna til að draga á frá eigendunum.
Davíð Oddsson var ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins í september 2009. Hann situr enn á ritstjórastóli blaðsins.
4,5 milljarða skuldir afskrifaðar og 1,2 milljarðar settir í móðurfélagið
Ekki leið á löngu þar til að það fé var uppurið og hluthafarnir greiddu 540 milljónir króna í nýtt hlutafé inn í Árvakur árið 2012. Skömmu áður hafði Árvakur farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu, númer tvö frá árinu 2009, á árinu 2011. Þá afskrifaði viðskiptabanki þess um einn milljarð króna af skuldum þess og gerði Árvarkur að frekar skuldléttu félagi. Samanlagt hafði því um 4,5 milljarðar króna af skuldum félagsins verið afskrifaðar.
Kjarninn hefur ársreikning Þórsmerkur vegna ársins 2014 undir höndum. Þar kemur fram að eigendur félagsins hafi alls sett 1.221 milljónir króna inn í Þórsmörk, en eina eign félagsins er Árvakur og Landsprent, félag utan um rekstur prentsmiðju félagsins. Á síðasta ári var hlutafé í Árvakri aukið um 80 milljónir króna. Ef þeir peningar hefðu ekki verið settir inn í Árvakur hefði tap félagsins á síðasta ári verið yfir 120 milljónir króna.
Árvakur hefur tapað 1,3 milljörðum á sex árum
Raunar er taprekstur eitthvað sem eigendur Árvarkurs eru orðnir býsna vanir. Rekstrartap félagsins var 667 milljónir króna árið 2009. Árið eftir tapaði það 330 milljónum króna alls og árið 2011 nam tapið 205 milljónum króna. Tapið 2012 var 47 milljónir króna. Árið 2013 skilaði Árvakur sex milljóna króna hagnaði en í fyrra var reksturinn aftur kominn öfugu megin við núllið. Þá tapaði félagið 43 milljónum króna. Samtals nemur tap Árvakurs á tímabilinu 2009 til loka árs 2014, eða þann tíma sem uppistaðan í núverandi eigendahópi hefur átt félagið, númið tæplega 1,3 milljarði króna.
Skuldir Árvakurs hafa lækkað umtalsvert undanfarin ár, sérstaklega vegna skuldaniðurfellinga viðskiptabanka félagsins, og eru nú um 1,1 milljarður króna. Langtímaskuldir þess eru að minnka hratt og eru nú um 536 milljónir króna.
Nánast að öllu leyti í eigu sjávarútvegsins
En hverjir eru þessir eigendur og hvaða hag hafa þeir af því að reka félag í taprekstri ár eftir ár?
Í stuttu máli eru helstu eigendurnir stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins. Alls félög tengd sjávarútvegi 79,37 prósent af útgefnu hlutafé í Þórsmörk, eiganda Árvakurs. Flestir forsvarsmenn félaganna hittast víðar en á hluthafafundum Árvakurs. Þeir sitja nær allir í stjórn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), sem áður hét Landssamband íslenskra útgerðarmanna (LÍÚ).
Nánast allur eigendahópur Árvakurs tengist sjávarútvegi.
Óskar Magnússon, sem leiddi kaupin á Árvakri árið 2009 og starfaði sem útgefandi félagsins árum saman, hætti störfum þar í fyrra. Hlutur hans í Þórsmörk, alls 12,37 prósent, var keyptur af Legalis sf., félagi sem Sigurbjörn Magnússon veitir forstöðu. Sigurbjörn situr í stjórn Ísfélags Vestmannaeyja. Þegar sá hlutur er lagður við aðra hluti sjávarútvegsfyrirtækja í Árvakri er eignarhald aðila tengdum þeim atvinnuvegi 91,74 prósent. Þegar við bætist hlutur sem Halldór Kristjánsson, tengdasonur fyrrum eigenda Stálskipa, fer þetta hlutfall upp í 95,84 prósent.
Aðrir eigendur eru Þorgeir Baldursson, forstjóri Odda ( á 0,08 prósent), Jón Pálmason, sem á m.a. Ikea á Íslandi ásamt bróður sínum og er bróðir Ingibjargar Pálmadóttur, aðaleiganda 365 miðla (á 2,05 prósent) og Ásgeir Bolli Kristinsson, fjárfestir sem oftast hefur verið kenndur við tískuvöruverslunina Sautján (2.05 prósent).
Í umboði Þórsmerkur sitja fimm manns í stjórn. Sigurbjörn Magnússon er stjórnarformaður en auk hans sitja Ásdís Halla Bragadóttir (fyrrum bæjarstjóri Garðabæjar fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins og einn aðaleiganda heimaþjónustunnar Sinnum), Bjarni Þórður Bjarnason (framkvæmdastjóri Arctica Finance), Katrín Pétursdóttir (forstjóri Lýsis) og Friðbjörn Orri Ketilsson (fyrrum ritstjóri og ábyrgðarmaður vefsins amx.is, sem hætti starfsemi 1. október 2013).