Lars Løkke Rasmussen formaður Venstre flokksins kynnti fyrir stundu nýja ríkisstjórn Danmerkur. Stjórnin er minnihlutastjórn, minni minnihlutastjórn eins og nýi forsætisráðherrann komst að orði. Í nýju stjórninni sitja sautján ráðherrar, fimm konur og tólf karlar.
Það tekur stundum á sig einkennilega mynd lýðræðið. Í nýafstöðnum þingkosningum í Danmörku tapaði Venstre flokkurinn mestu fylgi, missti 13 þingmenn og hefur nú 34 fulltrúa af þeim 179 sem sitja á danska þinginu. Sósíaldemókratar sem voru í forystu fráfarandi stjórnar eru stærsti flokkur landsins, hefur 47 þingmenn, þremur fleiri en á nýliðnu kjörtímabili. Tap annarra stjórnarflokka olli hinvegar því að ríkisstjórnin féll. Naumlega.
Lars Løkke fékk umboðið
Þegar ljóst var að stjórn Helle Thorning-Schmidt væri fallin kallaði Margrét Þórhildur drottning formenn flokkanna á sinn fund. Þar bentu fulltrúar flokkanna sem tilheyra bláu blokkinni svokölluðu, sem áður voru í stjórnarandstöðu, á Lars Løkke Rasmussen og drottning fól honum myndun meirihlutastjórnar. Lars Løkke var í þeirri einkennilegu stöðu að flokkur hans var ekki lengur stærsti flokkurinn á hægri væng danskra stjórnmála, þann sess hafði nú Danski Þjóðarflokkurinn hreppt eftir geysimikla fylgisaukningu í kosningunum, flokkurinn bætti við sig 15 þingmönnum og hefur nú 37 fulltrúa á þingi.
Lars Løkke var í þeirri einkennilegu stöðu að flokkur hans var ekki lengur stærsti flokkurinn á hægri væng danskra stjórnmála, þann sess hafði nú Danski Þjóðarflokkurinn hreppt eftir geysimikla fylgisaukningu í kosningunum, flokkurinn bætti við sig 15 þingmönnum og hefur nú 37 fulltrúa á þingi
Formaður Danska Þjóðarflokksins hafði lýst því yfir fyrir kosningar að flokkur sinn stefndi ekki að stjórnarsetu hver sem kosningaúrslitin yrðu. Lars Løkke tilkynnti drottningu, eftir að hafa rætt við forystumenn annarra flokka bláu blokkarinnar að hann gæti ekki myndað meirihlutastjórn hægri og miðjuflokka, til þess væri allt of margt sem flokkana greindi á um og mörg lykilatriði sem flokkarnir gætu ekki sammælst um.
Þá veitti Margrét Þórhildur honum nýtt umboð til stjórnarmyndunar, svonefnt allsherjarumboð. Það umboð takmarkaðist semsé ekki við meirihlutastjórn. Eftir að hafa rætt aftur og aftur við forystumenn Danska Þjóðarflokksins, Frjálsræðisbandalagsins og Íhaldsflokksins var eini möguleiki Lars Løkke sá að mynda minnihlutastjórn Venstre flokksins. Það var stjórnin sem hann kynnti Margréti Þórhildi drottningu í gær og hún lagði blessun sína yfir. Lars Løkke Rasmussen kynnti ráðherra sína í morgun, eins og venjan býður þegar ný stjórn tekur við.
Sautján ráðherrar
Ráðherrarnir verða samtals sautján. Tíu þeirra hafa áður gegnt ráðherraembættum. Reyndasti maðurinn í hópnum er Bertel Haarder sem fyrsta var kjörinn á þing árið 1975. Hann verður menningar-og kirkjumálaráðherra. Claus Hjort Frederiksen verður fjármálaráðherra, hann gegndi sama embætti í stjórn Lars Løkke frá 2009-2011 en hafði þá verið atvinnumálaráðherra frá 2001. Kristian Jensen varaformaður Venstre verður utanríkisráðherra, Søren Pind, einn nánasti samstarfsmaður Lars Løkke verður dómsmálaráðherra og Inger Stöjberg, sem einnig er í innsta valdahring flokksins verður ráðherra útlendinga-innflytjenda og húsnæðismála.
Í stjórninni verður sérstakur ráðherra málefna aldraðra, því embætti gegnir Sophie Løhde sem jafnframt verður heilbrigðisráðherra. Nokkra athygli vekur að ekki verður í nýju stjórninni sérstakur Evrópumálaráðherra en Lars Løkke hefur margoft lýst yfir nauðsyn þess að Danmörk eigi sterkan málsvara til vinna að málum Dana innan Evrópusambandsins. Einn nýju ráðherranna á ekki sæti á þingi, það er atvinnumálaráðherrann Jørn Neergaard Larsen, fyrrverandi framkvæmdastjóri samtaka danskra atvinnurekenda.
Danskir stjórnmálaskýrendur eru sammála um að þessi nýja ríkisstjórn sé afar veik, hefur aðeins 34 þingmenn af 179 og verður því að reiða sig á stuðning annarra flokka í hverju einasta máli sem hún vill koma í gegnum þingið. "Lars Løkke verður að sitja við sikk sakk saumavélina dag og nótt til koma málum áfram og semja út og suður um nánast hvað sem er” sagði blaðamaður Berlingske. Danskar minnihlutastjórnir hafa sjaldnast orðið langlífar og stjórnmálaskýrendur dönsku fjölmiðlanna spá því að þessi nýja stjórn lifi í hæsta lagi tvö ár.