Á dögunum heimsótti Kjarninn höfuðstöðvar Spotify í Stokkhólmi við Birger Jarlsgötu. Það var skemmtilegt og áhugavert. Ekki síst af því að maður telur sig þekkja Spotify út og inn, það er þjónustuna sem slíka. Sem kúnni og notandi hugbúnaðarins á hverjum degi. En það var erfitt að ímynda sér hvað þetta er magnað fyrirtæki og hvað uppgangurinn hefur verið hraður.
Fyrir utan skrifstofurnar var skilti þar sem því var fagnað að fjöldi með Premium áskrift (áskrift sem veitir fullan aðgang að allri tónlist á Spotify) á heimsvísu væri nú 10 milljónir. Sé miðað við 10 dali í kostnað á mánuði fyrir hverja áskrift, þá gerir það fjárstreymi upp á 100 milljónir dala á mánuði, eða sem nemur um 12 milljörðum á mánuði. Það gerir 144 milljarðar á ári. Spotify samfélagið stækkar hratt og umfangið með.
Nokkrir punktar sitja í manni eftir þessa heimsókn, sem ég deili hér með ykkur. Spotify er eitt allra árangursmesta frumkvöðlafyrirtæki í sögu Norðurlandanna.
- Um 70 prósent af innkomunni fer til tónlistariðnaðarins. Útgáfufyrirtækin taka langmest til sín, á meðan tónlistarfólkið fær minna beint. Það hefur verið mikið debate í gangi um þetta, og verður eflaust alltaf. En heilt yfir þá er Spotify stofnað beinlínis vegna þess að það var fyrir hendi vandamál á markaði með tónlist vegna ólölegs niðurhals ekki síst og síminnkandi tekna af sölu á diskum og slíkum varningi.
- Fyrirtækið vinnur eftir þeirri aðferðarfræði að upplýsa alla starfsmenn mjög ítarlega um allt sem stjórnendur eru að hugsa og halda reglulega fundi í stórum sal (hann var hrikalega flottur!) þar sem farið er yfir hvar fyrirtækið er statt og hvert það er að fara. Sá sem fór með okkur um fyrirtækið sagði það vera magnað að allir héldu trúnað um þessi mál, og væru meðvitaðir um að margt sem væri verið að ræða og kynna væri viðkvæmt. Þetta hljómar kannski svipað og gert er í öðrum fyrirtækjum, en það er það ekki, eins og þessu var lýst fyrir okkur. Þetta er mun ítarlegra en gengur og gerist. Stjórnendurnir ná að hugsa upphátt, svo að segja. Stefnan verður lifandi og allir starfsmenn taka virkan þátt í henni.
- Starfsmannahópnum er skipt upp í teymi sem vinna saman að öllum markmiðum, og hafa sjálfstæði um hvernig farið er að, innan þess ramma sem verkefni þeirra marka. Þetta var mjög flott og setti mikinn svip á vinnustaðinn; teymi að störfum hér og þar, svolítið afmörkuð frá hinum stundum en opin fundarrými tengdu svæðið saman (hönnunin á öllu var auðvitað mögnuð, og mikið lagt í starfsaðstöðuna, leikherbergi fyrir krakka starfsmanna og slíkt. Ævintýralegt magn örbylgjuofna, Svíar eru víst óðir í örbylgjumat! Fólki verður að líða vel í vinnunni, góður frasi það).
- Spotify var launch-að í október 2008. Þá var svona dass óvissa á mörkuðum og óljóst rekstrarumhverfi. Nú, sex árum síðar, er ljóst að þetta var afar góð tímasetning og ekki tilviljun. Strategían var að vera on top of things þegar snjallsíma- og spjaldtölvubyltingin færi um heiminn; vaxa með henni. Svo má nú segja, að þó partýinu hafi lokið hjá bönkunum í október 2008 - eða í það minnsta hjá mörgum þeirra - þá hélt tónlistin áfram að hljóma. Fólk hefur alltaf áhuga á tónlist, það er aldrei nein kreppa í henni.
- Mikið er lagt upp úr því hjá Spotify að rétta fólkið sé ráðið í vinnu. Mjög miklar kröfur eru gerðar til forritara og strangt kerfi sett upp við ráðningar, sem á að passa upp á að gott fólk sé ráðið. Til marks um það, þá hefur fyrirtækið aldrei sagt upp starfsmanni! Ef hlutirnir eru ekki að ganga, þá er unnið með fólkinu og vandamálin greind. Styrkleikar fólks eru mismunandi og Spotify telur að fólkið hljóti að vera nógu gott fyrst það komst í gegnum nálaraugað. Starfsmannaveltan er því minni en gengur og gerist, þó vitaskuld hætti alltaf einhverjir, t.d. vegna flutninga, nýrra starfa eða náms. En þá er passað upp á að sá sem komi í staðinn sé jafn góður eða betri. Með þessu móti tekst að búa til gríðarlega þéttan hóp, góðan móral, metnað og samfélagslega hugsun; þá sömu og Spotify leggur upp með að viðskiptavinir finni fyrir; að þeir séu hluti af Spotify-samfélaginu.
- Eftir að heimsókninni lauk var ég mjög hugsi yfir því hvað þetta getur raunverulega orðið stórt fyrirtæki, einkum og sér í lagi útaf einu; gögnum og notendaupplýsingum. Spotify veit hvað umheimurinn er að hlusta á, við allar mögulegar aðstæður, út frá aldri, stöðu, áhugamálum, staðsetningu og fleiri smáatriðum. Margt smátt gerir eitt stórt þegar að kemur að gögnunum. Fyrirtækið er varla byrjað að nýta sér þetta að neinu marki, en það má rétt ímynda sér hvaða áhrif það getur haft á tónlistariðnaðinn til framtíðar, þegar byrjað er að greina Spotify-samfélagið ofan í dýpstu rætur. Núna eru starfsmenn að störfum á átján stöðum um allan heim og þeim fjölgar hratt. Það mun ekki líða á löngu þar til nýjar vörur koma fram á sjónarsviðið frá þessu magnaða fyrirtæki.
(Þessar pælingar birtust fyrst inn á Facebook síðunni minni, en það er alveg eins gott að deila þeim með lesendum Kjarnans. Ég læt hér fylgja með einn góðan Spotify-lagalista sem ég kalla mánudag. Mikilvægt að sá listi gefi réttan tón fyrir vikuna).