Mun kleinuhringurinn bjarga okkur?
Flest þau umhverfisvandamál sem heimurinn stendur frammi fyrir má rekja til þess efnahagskerfis sem við búum við í dag. Það er hins vegar umdeilt hvort núverandi hagkerfi geti einnig komið okkur úr vandanum eða hvort þörf sé á að breyta kerfinu. Breski hagfræðingurinn Kate Raworth, höfundur kleinuhringjahagkerfisins, er talskona þess síðarnefnda. Kenning hennar um kleinuhringinn hefur átt fylgi að fagna á undanförnum árum og hafa borgir víðsvegar um heim nú ákveðið að taka upp kleinuhringjamódelið í sinni stefnumótun.
Hagvöxtur er gjarnan notaður sem mælikvarði á hversu mikil velsæld ríkir í tilteknu samfélagi.
Það er hins vegar ljóst að neyslan – sem er að mestu leyti uppistaða hagvaxtar – hefur leitt til ofnýtingar á náttúruauðlindum sem óhjákvæmilega leiðir til umhverfis- og loftslagsvandamála.
Í dag gengur mannkynið á auðlindir jarðar meira en nokkru sinni fyrr. Árið 1970 var hráefnavinnsla (e. material extraction) rúmlega 27 milljarðar tonna. Hráefnavinnsla hefur aukist að meðaltali um 2,6 prósent á ári síðan þá og vinnur mannkynið nú um 90 milljarða tonna af hráefnum á ári. Ef núverandi neysluhegðun heldur áfram gera spár ráð fyrir því að árið 2050 mun mannkynið grafa eftir og vinna allt að 180 milljarða tonna af hráefnum. Það er tvöfalt meira en í dag og nánast fjórum sinnum meira en talið er sjálfbært.
Löngum hefur verið varað við stöðugum vexti hagkerfisins og notkunar á vergri landsframleiðslu sem mælieiningu á velsæld samfélagsins. Það eru 50 ár síðan Rómarklúbburinn gaf út tímamótaskýrsluna Endimörk Vaxtar (e. Limits to Growth), þar sem meðal annars er bent á að stærð hagkerfa sé háð náttúrulegum takmörkunum. Hagkerfið geti einfaldlega ekki vaxið stanslaust á jörðu með tæmandi auðlindir.
Ýmsar hugmyndir og kenningar eru uppi um það hvernig hægt er að byggja upp sjálfbært hagkerfi, sem tekur tillit til náttúrulegra takmarka. Sú hugmynd sem hefur átt hvað mestu fylgi að fagna er kleinuhringjahagfræði (e. doughnut economics) breska hagfræðingsins Kate Raworth.
Leiðarvísir fyrir 21. öldina
Árið 2017 gaf Kate Raworth út metsölubókina Doughnut Economics: Seven Ways to Think Like a 21st-Century Economist sem hefur nú verið þýdd á yfir 20 tungumál. Raworth hóf nám í hagfræði við Oxford háskóla árið 1990 en varð þess fljótt áskynja að fræðin voru ekki í takt við tímann þar sem þau útilokuðu að mestu leyti umhverfismál og samfélagslega ábyrgð. Að mati Raworth voru það einmitt umhverfis- og samfélagsmálin sem yrðu helstu áskoranir framtíðarinnar. Raworth vann meðal annars fyrir mannúðarsamtökin Oxfam og árið 2011 bjó hún til kenninguna um kleinuhringinn, sem ætlað er að vera leiðarvísir að sjálfbærri framtíð.
Raworth vill meina að hagfræði tuttugustu aldarinnar hafi verið byggð á hugmyndum um mannlega hegðun sem er í grundvallaratriðum röng. Hún nefnir sem dæmi að hugmyndin um skynsama og hagsýna manninn (e. the rational economic man), sem hugsar ávallt um eigin hag og reiknar út kosti og galla allra ákvarðana, segir meira um hagfræðingana sem búa til kenningarnar en um það hvernig raunverulegar manneskjur hugsa og hegða sér.
Raworth bendir á að þrátt fyrir miklar samfélagslegar breytingar á síðustu áratugum hefur áhersla stjórnvalda á hagvöxt lítið breyst. Ekki er spurt hvort að nauðsyn sé á frekari vexti, hvort hann sé æskilegur eða jafnvel mögulegur.
Markmið hagvaxtar er meðal annars að auka lífsgæði og velferð einstaklinga og er það vissulega framförum á þessu sviði að þakka að margir lifa við þau lífskjör sem raun ber vitni. Hins vegar hefur áherslan á hagvöxt einnig leitt til gríðarlegrar auðlindanotkunar og tilheyrandi umhverfisvandamála.
Áskoranir 21. aldarinnar
Ef ekki tekst að ná tökum á auðlindanotkun mun mannkynið raska vistkerfum með óafturkræfum afleiðingum. Á hverjum degi er 150 dýrategundum útrýmt, á hverri mínútu eru skógar höggnir niður á við tuttugu og sjö fótboltavelli, jörðin hefur hlýnað um 1,2°C miðað við fyrir iðnbyltingu og áætlað er að árið 2050 verði meira af plasti en fiski í sjónum. Á sama tíma er ójöfnuður, fátækt, atvinnuleysi og hungur viðvarandi vandamál. Á hverri mínútu deyja ellefu manns úr hungri, á sama tíma og mannkynið hendir þriðjungi af öllum mat sem er framleiddur. Ójöfnuður vex en ríkasta eitt prósent mannkyns á í dag tvisvar sinnum meiri auð en fátækustu 7 milljarðar jarðarbúa til samans.
Vaxtarforsendan sem stefnumótendur, stjórnmálamenn og hagfræðingar gefa sér ýtir enn frekar undir þessar áskoranir. Jarðarbúar eru 8 milljarðar í dag og spár gera ráð fyrir því að mannkyninu muni fjölga í 10 milljarða fyrir árið 2050. „Business as usual” hagspár gera ráð fyrir því að hagkerfið vaxi um 3% á ári. Sem dæmi þýðir það að ef miðað er við árið 2014 mun hagkerfið tvöfaldast að stærð árið 2037, og þrefaldast árið 2050, með tilheyrandi neyslu og ágangi á auðlindir jarðar.
Raworth bendir á að til að takast á við þessar stóru áskoranir, þ.e. uppfylla grunnþarfir allra án þess að raska vistkerfum jarðar, þurfi hagkerfið að breytast. Nauðsynlegt sé að hörfa frá hugmyndum um línulegt vaxtarhagkerfi. Þess í stað þurfi að byggja upp hagkerfi sem gerir sér grein fyrir náttúrulegum þolmörkum jarðar en sér á sama tíma til þess að að allir borgarar hafi í sig og á. Með kenningu sinni um kleinuhringinn útskýrir Raworth hvernig slíkt hagkerfi lítur út.
Kleinuhringurinn í hnotskurn
Kleinuhringur er myndrænn en Raworth bendir á í bók sinni að áhrifaríkustu hugmyndir eru yfirleitt þær sem hægt er að sjá fyrir sér. Kleinuhringurinn er í grunninn myndlíking fyrir hagkerfi sem hefur vistfræðileg og félagsleg mörk.
Innri mörk kleinuhringsins endurspegla grunnþarfir fólks til að lifa mannsæmandi og sómasamlegu lífi. Félagslegu grunnþarfirnar byggja á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og er m.a. um að ræða menntun, húsaskjól, hreint vatn, aðgang að rafmagni og aukinn jöfnuð. Í miðju kleinuhringsins, þ.e. holunni, er þessum grunnþörfum ekki mætt.
Þegar farið er út fyrir jaðar kleinuhringsins er hins vegar byrjað að þrýsta á þolmörk jarðarinnar og gengið á mikilvæg „hnattræn mörk“ (e. planetary boundaries). Árið 2009 skilgreindi hópur vísindamanna níu hnattræn mörk sem nauðsynlegt er að virða til að koma í veg fyrir óafturkræfar breytingar á vistkerfum jarðar. Ytri mörk kleinuhringsins byggja á þessum níu hnattrænu mörkum þ.e. loftslagsbreytingar, súrnun sjávar, eyðing ósonlagsins, röskun á náttúrulegri hringrás niturs og fosfórs, ferskvatnsnotkun, landnotkun, tap líffræðilegrar fjölbreytni, loftmengun og efnamengun. Mannkynið hefur nú þegar farið yfir þolmörkin í fjórum flokkum; tap líffræðilegrar fjölbreytni, loftslagsbreytingar, landnotkun og röskun á náttúrulegri hringrás niturs og fosfórs.
Á milli félagslegu og vistfræðilegu þolmarkanna er svæði þar sem sjálfbært efnahagskerfi getur þrifist, sem uppfyllir lífsþarfir allra án þess að þrýsta á þolmörk jarðarinnar. Þessi staður, þ.e. kleinuhringurinn sjálfur, er það sem Raworth kallar „öruggt og réttlátt svæði fyrir mannkynið” (e. safe and just space for humanity).
Að komast inn í kleinuhringinn
Til þess að komast í örugga svæði kleinuhringsins þarf samkvæmt Raworth að endurhugsa og endurskilgreina hvað efnahagslegur árangur sé. Hingað til hefur markmið stjórnvalda og hagfræðinga fyrst og fremst verið hagvöxtur, óháð afleiðingum á umhverfið. Raworth - líkt og reyndar fjölmargir hagfræðingar - bendir á að hagvöxtur segi í raun ekkert um marga þætti sem hafa áhrif á velsæld. Verg landsframleiðsla segir til dæmis ekkert um skiptingu þess auðs sem framleiðslan skapar, hún tekur ekki tillit til virði heimilis- eða umönnunarstarfa, sjálfboðastarfa, umhverfisáhrifa eða félagslegra þátta eins og öryggis eða heilsu. Robert F. Kennedy sagði einu sinni að verg landsframleiðsla mælir í stuttu máli allt, nema það sem gefur lífinu gildi.
Markmið efnahagskerfisins ætti að snúast um að mæta grunnþörfum allra án ósjálfbærs ágangs á plánetuna. Þannig ætti markmiðið um að „komast inn í kleinuhringinn“ að taka við af markmiði stjórnvalda um hagvöxt. Raworth segir að heilbrigt hagkerfi eigi ekki að vaxa heldur þrífast.
Það er mikilvægt að nefna að Raworth er ekki andvíg hagvexti eða telji að hann sé óþarfur. Það eru ýmsir geirar og greinar sem nauðsynlega þurfa að vaxa. Jafnframt þurfa fátækari lönd á hagvexti að halda til að komast upp í félagslegu mörk kleinuhringsins. Hagvexti þarf hins vegar að vera beitt til að ná félagslegu markmiðunum án ósjálfbærs ágangs á jörðina en ekki sem markmið í sjálfu sér.
Hvernig er staðan í dag?
Í dag er ekkert land í heiminum sem nær að uppfylla félagslegar grunnþarfir borgara sinna án þess að ganga á vistfræðileg þolmörk. Í grófum dráttum eru ríkari lönd fyrir ofan vistfræðilegu þolmörkin en fátækari lönd ná hins vegar ekki að uppfylla félagslegu grunnþarfirnar. Víetnam er það land sem kemst næst því að uppfylla félagslegar grunnþarfir borgara sinna án ósjálfbærs ágangs á auðlindir landsins, samkvæmt útreikningum Raworth og félaga.
Raworth, ásamt hópi fræðimanna, hafa útbúið vefsíðu þar sem hægt er að bera saman árangur landa þegar kemur að því uppfylla markmið kleinuhringsins. Ef Svíþjóð er borin saman við Víetnam má sjá hvernig Svíþjóð tekst að uppfylla nánast allar félagslegar grunnþarfir en fer hins vegar yfir nánast öll vistfræðileg þolmörk. Víetnam fer einungis yfir vistfræðileg þolmörk þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda en tekst ekki að uppfylla ákveðna félagslega þætti eins og jafnrétti kynja og pólitísk áhrif almennings. Rannsóknarteymið hefur því miður ekki reiknað út kleinuhringinn fyrir Ísland.
Kleinuhringurinn í praktík
Hugmyndin um kleinuhringjahagkerfið hefur fengið lof úr ýmsum áttum og hafa borgir víðsvegar um heim nú tekið upp kleinuhringjamódelið í sinni stefnumótun. Í apríl árið 2020, í fyrstu bylgju Covid-19 faraldursins, ákvað Amsterdam að tileinka sér kleinuhringinn í stefnumótun sinni og byggja þannig upp sjálfbært efnahagskerfi eftir heimsfaraldurinn. Kaupmannahöfn hefur ákveðið að fylgja fordæmi Amsterdam og hafa Barselóna, Brussel, og Nanaimo í Kanada gert slíkt hið sama.
Frans páfi hefur meðal annars hælt hugmyndinni og forseti Írlands, Micheal D. Higgins, hefur sagt að meginmarkmið mannkynsins ætti að vera að lifa inn í kleinuhringnum.
Sjónvarpsmaðurinn og náttúrufræðingurinn David Attenborough tileinkaði kleinuhringnum kafla í bók sinni A Life on Our Planet og sagði kleinuhringinn vera „leiðarvísi að sjálfbærri framtíð“.