Reykjavíkurborg býst við því að á næstu árum þurfi að bregðast við aukinni fólksfjölgun í Vesturbæ, Miðborg, Hlíðum, Laugardal og Háaleiti með því meðal annars að stækka leikskóla með viðbyggingum og nýjum leikskóladeildum sem ýmist verði í varanlegu húsnæði, eða færanlegu, sem nýta má til að mæta breytingum á þróun íbúafjölda í hverfum borgarinnar.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í svörum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Kjarnans, sem send var til þess að fá fram hvernig borgin sæi fyrir sér að skólamál í borginni þróuðust samfara uppbyggingu húsnæðis.
Áætlanir borgarinnar gera jú ráð fyrir því að á næstu árum byggist upp töluvert mikið af nýjum íbúðum inni í grónum hverfum borgarinnar – ekki síst umhverfis legu fyrirhugaðrar Borgarlínu – og væntanlega flytja þangað einhver börn.
Nýir grunnskólar í nýjum og stækkandi hverfum
Fyrirspurnin til borgarinnar laut bæði að leikskólum og grunnskólum. Hvað grunnskóla varðar segir borgin að nýir grunnskólar séu skipulagðir víða um borgina í tengslum við uppbyggingu húsnæðis. Þannig eru nýir grunnskólar á áætlunum í Skerjafirði, Vogabyggð, Ártúnshöfða og Bryggjuhverfi, en þetta eru þau svæði í borginni þar sem stendur til að byggja mest af nýjum íbúðum á næsta áratug eða svo.
Eins og Kjarninn rakti fyrr á árinu er gert ráð fyrir því að íbúðir í hinu nýja borgarhluta á Ártúnshöfða verði jafnvel um 6.000 talsins þegar hverfið verður að fullu uppbyggt, en það eru svipað margar íbúðir og eru í öllum Grafarvogi í dag. Landsvæðið í nýja borgarhlutanum er hins vegar rösklega fjórum sinnum minna.
Auk þess er tekið fram að borgin hafi keypt Vörðuskóla, sem stendur við Barónsstíg, við hlið Austurbæjarskóla. Tilgangur þeirra kaupa var að byggja upp safnskóla á unglingastigi í ljósi áætlaðrar fjölgunar íbúa til framtíðar á þessu svæði, en Austurbæjarskóli er eini grunnskólinn sem Reykjavíkurborg rekur í miðborginni í dag.
Borgin rekur í dag alls 36 almenna grunnskóla í hverfum borgarinnar, auk tveggja sérskóla. Til viðbótar eru sex einkareknir skólar í Reykjavík og alls stunda um 15.500 nemendur nám í þessum skólum í dag.
Leikskólar sumir að opna og aðrir á skipulagi
Hvað leikskólana varðar segir skóla- og frístundasvið í svörum til Kjarnans að nýir leikskólar séu skipulagðir víðsvegar um borgina.
Þar á meðal er gert ráð fyrir leikskólum á uppbyggingarsvæðum í Skerjafirði, Vogabyggð og einnig í Völvufelli í Breiðholti „á allra næstu árum“ en lengra er í að leikskólar sem eru í skipulagi á Ártúnshöfða og í Bryggjuhverfi verði byggðir og teknir í notkun.
Aðrir leikskólar eru nær því að opna og sagðir gera það á „komandi misserum“ en þeir eru hinn svokallaði „miðborgarleikskóli“ við Njálsgötu, leikskólinn við Kleppsveg (Brákarborg-Sund), auk þess sem leikskólar eiga að opna í Safamýri, á Kirkjusandi og í Bríetartúni.
Ævintýraborgir til að brúa bilið
Leikskólamálin eru málaflokkur sem núverandi borgarstjórnarmeirihluti sagðist ætla sér að taka föstum tökum í upphafi yfirstandandi kjörtímabils. „Við viljum brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með fjölgun ungbarnadeilda og byggingu nýrra leikskóla, auk þess að skoða aðgerðir til að fjölga dagforeldrum,“ segir auk annars í meirihlutasáttmála Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og VG.
Nokkur gagnrýni hefur þó verið á að innritun á leikskóla sé ekki í takt við markmið borgaryfirvalda, sem hafa verið að öll 18 mánaða börn eigi að geta gengið að leikskólaplássi vísu og hafa einsett sér að lækka þann aldur niður í 12 mánaða börn, svo hægt væri að bjóða upp á leikskólapláss um leið og fæðingarorlofi sleppir.
Í frétt Ríkisútvarpsins frá því í febrúar kom fram að um 200 börn sem orðin væru 18 mánaða biðu eftir því að komast að á leikskólum og að rúmlega 540 börn sem hefðu náð eins árs aldri væru að auki á biðlista eftir plássi.
Til viðbótar, sagði Helgi Grímsson sviðsstjóri, voru um 400 börn á biðlistum eftir því að fá færslu á annan leikskóla, til dæmis leikskóla sem væru nær heimili eða vinnustað foreldra. Það væri því ýmislegt til að leysa úr, í leikskólamálunum.
Nýlega kynnti borgin til sögunnar tímabundnar lausnir til þess að fjölga leikskólaplássum. Þetta verða nýir færanlegir leikskólar, sem borgin kallar Ævintýraborgir.
Þær verða staðsettar við Eggertsgötu, Nauthólsveg, Vörðuskóla og í Vogabyggð og eiga að verða tilbúnar til notkunar á allra næstu mánuðum, samkvæmt svörum skóla- og frístundasviðs. Alls eiga þetta að verða um 340 ný leikskólapláss.
Alls rekur skóla- og frístundasvið 63 leikskóla þar sem dvelja um 5.200 börn. Að auki eru sautján sjálfstætt starfandi leikskólar eru í borginni og alls eru leikskólabörnin um 6.450 talsins, samkvæmt upplýsingum á vef borgarinnar.
Boða að bætt verði í Brúum bilið
Samkvæmt svörum sviðsins er í leikskólamálunum unnið eftir aðgerðaáætluninni Brúum bilið hvað leikskólamálin varðar, en sú ætlun sem samþykkt var undir lok árs 2020 gerði ráð fyrir því að fjölga leikskólaplássum um 700-750 fram til ársloka 2023.
„Nú er verið að endurskoða þá áætlun og fjölga enn frekar plássum til að mæta auknum íbúafjölda og verður sú áætlun kynnt fyrir áramót. Þá er verið að vinna áætlun til næstu ára varðandi viðbyggingar við leikskóla og grunnskóla og endurskoða áætlun um grunn- og leikskóla sem tengjast nýjum hverfum,“ segir í svari skóla- og frístundasviðs borgarinnar.