Fleiri Íslendingar hafa flutt af landi brott en til landsins á fyrstu níu mánuðum ársins. Alls hafa 490 fleiri íslenskir ríkisborgarar flutt frá landinu en til þess á umræddu tímabili. Á sama tíma hefur fjöldi erlendra ríkisborgara sem flutt hafa til Íslands aukist um 8.270 umfram þá sem hafa flutt frá því.
Þar af voru aðfluttir erlendir ríkisborgarar 3.510 fleiri en brottfluttir á öðrum ársfjórðungi 2022 og 3.410 á þriðja ársfjórðungi. Einungis einu sinni áður í Íslandssögunni hafa aðfluttir erlendir ríkisborgarar umfram brottflutta verið fleiri þrjú þúsund á einum ársfjórðungi. Það var á öðrum ársfjórðungi 2017 þegar þeir voru 3.130 talsins.
Þetta má lesa út úr nýbirtum tölum Hagstofu Íslands um mannfjölda á Íslandi.
2022 er metár
Mesti fjöldi aðfluttra erlendra ríkisborgara umfram brottflutta sem hafði komið til landsins innan heils árs kom á árinu 2017. Þá var fjöldinn alls 7.910. Það liggur því fyrir að fjöldi erlendra sem kom til landsins umfram þá sem fluttu burt á fyrstu níu mánuðum yfirstandandi árs er umfram þá tölu. Nýtt met hefur þegar verið sett á þessu ári. Fátt bendir til þess að samdráttur verði í aðflutningi á síðustu þremur mánuðum ársins og því verður árið 2022 að öllum líkindum nýtt metár í innflutningi erlendra ríkisborgara til Íslands.
Alls eru erlendu ríkisborgarar sem búa á Íslandi nú 62.990 talsins, eða 16,3 prósent allra íbúa landsins. Í lok september 2012 voru þeir 20.820 talsins og 6,5 prósent íbúa. Þeim hefur því fjölgað um 42.170 á sléttum áratug. Það eru 2.520 fleiri en búa í næst fjölmennasta sveitarfélagi landsins, Kópavogi, en íbúar þess voru 39.650 í lok síðasta mánaðar.
Flestir í Reykjavík en fáir í Garðabæ
Flestir erlendu ríkisborgararnir búa í höfuðborginni Reykjavík, en þeir eru 27.460 talsins, eða 19,8 prósent íbúa borgarinnar. Alls búa 56,4 prósent allra íbúa höfuðborgarsvæðisins í Reykjavík en 69,6 prósent allra erlendra ríkisborgara sem búa á svæðinu. Ef Kjósahreppur, þar sem 280 manns búa, er undanskilin búa fæstir erlendir ríkisborgarar sem sest hafa að á höfuðborgarsvæðinu á Seltjarnarnesi, eða 450 talsins. Þeir eru alls 9,6 prósent íbúa þess sveitarfélags. Hitt sveitarfélag höfuðborgarsvæðisins sem er með hlutfall erlendra ríkisborgara undir tíu prósentum er Garðabær. Þar búa alls 1.100 erlendir ríkisborgar sem eru 5,8 prósent allra íbúa.
Hjá þeim sveitarfélögum sem eru með fleiri en þúsund íbúa er hlutfall erlendra ríkisborgara af heildinni hæst í Reykjanesbæ, þar sem 28,8 prósent íbúa eru fæddir annarsstaðar en á Íslandi.
Pólverjar sex prósent íbúa landsins
Flestir þeirra sem hér búa og eru með annað ríkisfang en íslenskt koma frá Póllandi. Þeir voru 22.888 talsins í byrjun október samkvæmt tölum frá Þjóðskrá. Það þýðir að um sex prósent íbúa landsins eiga rætur að rekja til Póllands. Því búa fleiri Pólverjar á Íslandi en búa í heild í fjórða stærsta sveitarfélagi landsins, Reykjanesbæ, en íbúa þess eru 21.840 alls.
Alls hefur þeim sem eiga rætur að rekja til Póllands fjölgað um 1.697 á fyrstu níu mánuðum yfirstandandi árs. Þeim hefur fjölgað meira en nokkrum öðrum hópi erlendra ríkisborgara, þar með talið þeirra sem hafa komið til landsins sem flóttafólk frá Úkraínu vegna stríðsins sem þar geisar.
Aukningin hefur þó hlutfallslega verið langmest í þeim hópi. Alls voru 239 með rætur í Úkraínu hérlendis í byrjun desember í fyrra. Þeim hefur síðan fjölgað um 696 prósent, eða um 1.664 talsins og er nú 1.903. Þessi mikla fjölgun hefur gert það að verkum að ríkisborgarar Úkraínu eru nú í fimmta sæti yfir fjölmennustu erlendu ríkisborgarahópanna sem skráðir eru með búsetu á Íslandi. Í desember voru þeir sem eru með úkraínskt ríkifang í 31. sæti yfir fjölmennustu erlendu hópanna sem hér búa.