Bruninn í Notre Dame kirkjunni 15. apríl 2019 var einn af stórviðburðum ársins. Fólk víða um heim fylgdist, á sjónvarpsskjánum, þegar þetta stóra guðshús, eitt þekktasta kennileiti Parísar, varð eldinum að bráð. Fjölmargir íbúar Parísar, með tárin í augunum, fylgdust klukkustundum saman með baráttu slökkviliðsins við eldinn.
Eldurinn kom upp í þaki kirkjunnar þar sem unnið var að viðgerðum og breiddist hratt út. Fljótlega varð slökkviliðinu ljóst að það fengi lítt við eldinn ráðið og einbeitti sér að því að verja turnana tvo á framhlið kirkjunnar og bjarga þeim fjölmörgu verðmætu gripum sem í kirkjunni voru. Miklu tókst að bjarga, þar á meðal gullhúðaðri þyrnikórónu. Sú er sögð geyma leifar úr þyrnikórónu Krists, sem hann bar á krossinum.
Blýið og turnspíran
Notre Dame, eða Maríukirkjan eins og hún er iðulega nefnd á íslensku, var byggð á árunum 1163 -1345. Turnarnir tveir og allir útveggir kirkjunnar, sem er 4.800 fermetrar, að innanmáli, eru úr steini en þakhvelfingin úr timbri og þakið klætt blýi. Eitt af einkennum kirkjunnar var 93 metra há turnspíra úr timbri. Hún var reist á árunum 1844 -1849 þegar miklar, og á sínum tíma umdeildar, viðgerðir fóru fram á kirkjunni.
Viðgerðir og endurbygging
Sama dag og bruninn varð lýsti Emmanuel Macron forseti Frakklands því yfir að kirkjan yrði endurbyggð. Hann sagði að það myndi kosta mikið fé en vanda yrði til verka og að verkið myndi taka nokkur ár, hugsanlega allmörg. Byrja yrði á sjálfu húsinu, veggjum og þaki, áður en skipulag innandyra í kirkjuskipinu sjálfu yrði ákveðið. Forsetinn viðraði líka hugmyndir um nýtt útlit turnspírunnar, í takt við tímann, eins og hann komst að orði. Slíkar hugmyndir fengu dræmar undirtektir og bent á að kirkjan væri á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og því kæmu miklar breytingar, að minnsta kosti að utan, vart til greina.
Ekki kom annað til greina en að turnspíran yrði á sínum stað. Margar hugmyndir komu hinsvegar fram um hvernig hún skyldi líta út. Fljótt kom þó í ljós að almenningur í Frakklandi tæki ekki annað í mál en að spíran yrði eins og hún var áður. Margir sérfræðingar höfðu mælt með að burðarvirkið yrði gert úr stáli, þær hugmyndir mæltust illa fyrir.
Á endanum var ákveðið að spíran og burðarvirki þaksins yrðu úr tré, á sama hátt og gert var á sínum tíma. Í kjölfar þeirrar ákvörðunar hófst leit að heppilegum trjám víða um Frakkland. Að lokum fundust nægilega mörg 1.000 ára gömul eikartré sem notuð verða í burðarvirki og spíru.
Hugmyndir um breytingar innandyra
Umræða um breytingar innandyra í kirkjuskipinu var löngu hafin áður en bruninn varð. Margir kirkjunnar menn höfðu lýst sig fylgjandi slíkum breytingum. Í kirkjunni eru 14 kapellur með skriftastólum og rætt hefur verið um að fjarlægja þá úr sex eða sjö kapellanna, þeir eru nú á dögum mjög lítið nýttir. Sömuleiðis hafa verið uppi hugmyndir um að einfalda skreytingar á altörum í kapellunum, fækka eða fjarlægja stóra kertastjaka og styttur sem gerðar voru á nítjándu öld. Stytturnar gerði Viollet-le-Duc en hann var arkitekt og umsjónarmaður breytinganna sem gerðar voru á kirkjunni á nítjándu öld. Hugmyndir kirkjunnar manna eru ennfremur að skipta hluta kirkjubekkjanna út fyrir stóla. Í álitsgerð presta og kennimanna, sem kynnt var í síðustu viku, var minnst á hugsanlegt sýningahald í kirkjunni en fyrir brunann komu þangað árlega um 12 milljónir manna, ferðamenn og Parísarbúar.
Kosningatitringur
Forsetakosningar fara fram í Frakklandi í apríl á næsta ári. Emmanuel Macron forseti hyggst gefa kost á sér á ný en hann verður ekki sjálfkjörinn. Meðal þeirra sem vel geta hugsað sér húsbóndastólinn í Élýsée höllinni er hægri róttæklingurinn Éric Zemmour. Í opnu bréfi í frönsku dagblaði sakaði hann forsetann um að ætla sér að gjörbreyta Notre Dame. „Ég elska menningu okkar og get þess vegna ekki þagað yfir þessari hræðilegu tilraun til að skemma eina mest heimsóttu byggingu heims, miðpunkt kristindómsins og tákn þjóðarinnar,“ segir í bréfinu.
Í bréfinu vísar Éric Zemmour til hugmyndanna sem kynntar voru í síðustu viku. Forsetaframbjóðandinn tilvonandi er ekki einn um þessa gagnrýni. Þekktur franskur arkitekt, Maurice Culot sagði í viðtali við breska blaðið Daily Telegraph að sér litist illa á hugmyndir um að hleypa Disney inn í Notre Dame. „Hverjum dytti í hug að gera slíkar breytingar á Westminster Abbey eða Péturskirkjunni í Róm? Engum. Að gera Notre Dame að skemmtigarði er barnalegt og lágkúrulegt.“ Rétt er að taka fram að engar ákvarðanir um breytingar innandyra hafa verið teknar. Emmanuel Macron forseti hefur lagt mikla áherslu á að framkvæmdum verði hraðað. Hann vill gjarnan að öllum viðgerðum á kirkjunni, utan dyra og innan, verði lokið þegar Ólympíuleikarnir árið 2024 fara fram í París.
Victor Hugo, Maríukirkjan og Quasimodo
Þótt það tengist ekki brunanum í Notre Dame er við hæfi að minnast aðeins á hina frægu bók Victor Hugo Maríukirkjuna í París, sem einnig er iðulega kölluð Hringjarinn frá Notre Dame. Bókin var skrifuð 1831 og er meðal þekktustu verka höfundarins. Nokkrar kvikmyndir (sú fyrsta árið 1939) leikrit og söngleikir sem byggja á sögunni hafa verið gerðar í gegnum árin. Hringjarinn í kirkjunni, kroppinbakurinn Quasimodo, er ein af lykilpersónum sögunnar, og án efa sú þekktasta í hugum margra.
Lengi vel var talið að kroppinbakurinn hafi verið hugarfóstur Victor Hugo eins og aðrar persónur sögunnar.
Æviminningarnar á háaloftinu
Fyrir 22 árum fannst á háalofti í Penzance á Cornwall handrit, í sjö bindum, að æviminningum manns að nafni Henry Sibson. Hann var myndskeri og hafði verið fenginn til að gera við eitt og annað í Notre Dame á sama tíma og Victor Hugo vann að undirbúningi sögunnar um Hringjarann í Notre Dame. Handrit Henry Sibson var komið í geymslu á safni í Bretlandi en árið 2010 fór Adrian Glew, sérfræðingur á safninu að fletta í handriti Henry Sibson, sem er mjög ítarlegt, og rak augun í nokkuð sem honum þótti athyglisvert. Henry Sibson segir frá því að í Notre Dame hafi, á sama tíma og hann var þar, unnið steinhöggvari með herðakistil. Kroppinbakurinn er aldrei nefndur með nafni, Henry Sibson segir frá „le bossu“ og Adrian Glew segir engan vafaleika á um að „le bossu“ sé fyrirmynd hringjarans Quasimodo.
Í lokin má geta þess að í handriti Henry Sibson er ennfremur lýst öðrum manni sem líka vann að viðgerðum í kirkjunni samtímis Henry Sibson. Sá hét Trajan, og líkist mjög Jean Valjean, aðalpersónunni í bók Victor Hugo, Vesalingunum. Í frumdrögum að sögunni heitir aðalpersónan Trajan, eins og vinnufélagi Henry Sibson.