Kjarninn endurbirtir nú valda pistla Borgþórs Arngrímssonar sem samhliða eru gefnir út sem hlaðvarpsþættir. Fréttaskýringar Borgþórs njóta mikilla vinsælda og sú sem er endurbirt hér að neðan var upphaflega birt þann 20. september 2015. Nálgast má hlaðvarpið á slóðinni að ofan og á helstu hlaðvarpsveitum.
Þegar Melitta Bentz, 35 ára húsmóðir í Dresden í Þýskalandi, stóð yfir eldhúsvaskinum á heimili sínu vorið 1908 og hreinsaði korginn úr kaffikönnunni, fór hún að velta fyrir sér hvort ekki væri mögulegt að losna við korginn, ekki bara úr könnunni heldur líka úr kaffinu. Húsbóndinn Hugo var væntanlegur heim í kaffi og Melitta hafði skellt í eina eplaköku. Þegar húsbóndinn kom inn úr dyrunum, stóð heima að eplakakan var tilbúin og kaffið sömuleiðis.
Meðan þau hjónin sátu yfir kaffinu, og eplakökunni, fór Melitta að segja bónda sínum frá hugmynd sem hún hefði fengið. Hugo skildi ekki alveg útkýringarnar en lýsti sig fylgjandi hverju því sem fjarlægt gæti korginn úr kaffinu. Melitta lét ekki sitja við orðin tóm, með nagla gerði hún lítið gat á botninn á lítilli blikkdós, fékk svo stórt blað úr stílabók sonar síns og kom því fyrir í dósinni. Í þessa heimatilbúnu kaffitrekt setti Melitta kaffi og hellti svo sjóðandi vatni í „trektina“ sem hún hafði sett bolla undir. Kaffið var nokkra stund að drjúpa niður í bollann en sér til mikillar ánægju fann frú Melitta að í kaffinu var ekki vottur af korgi. Henni var ljóst að hún hafði þarna dottið niður á aðferð við að búa til korglaust kaffi. Líklega hefur hana þó ekki órað fyrir að heilli öld síðar væri uppfinning hennar, í bókstaflegri merkingu, á allra vörum og kaffivélar byggðar á þessari hugmynd seldar um allan heim ásamt trektum og þar til gerðum pappírspokum (pappírsfilt).
Fékk einkaleyfi á uppfinningunni
Melitta Bentz hélt áfram að þróa hugmyndina sem hún hafði fengið og 8. júlí 1908 fékk hún skráð einkaleyfi á „trektaráhaldi klæddu filtpappír“ eins og það var kallað. Mánuði síðar stofnaði hún fyrirtæki sem bar nafn hennar, Melitta. Fyrirtækið var í upphafi smátt í sniðum og Melitta fór ekki út fyrir túngarðinn í leit að starfsfólki. Hugo bóndi hennar sagði upp sinni vinnu og tveir synir þeirra hjóna hófu störf hjá fyrirtækinu. Fyrst í stað voru kaffitrektirnar ekki trektlaga heldur líkastar þeim niðursuðudósum sem eru kallaður heildósir og úr blikki. Þótt Melitta hafi kannski ekki þekkt orðið vöruþróun hélt hún áfram að bæta gæði trektarinnar, sem um 1930 var orðin trektlaga og þar að auki komin með rifflur að innan.
Pappírinn varð jafnframt betri með árunum. Einkaleyfið hélt ekki að eilífu og fyrir miðja síðustu öld voru fjölmörg fyrirtæki farin að framleiða bæði trektar og poka, í ýmsum stærðum. Ennþá var vatnið hitað í katli eða potti og svo hellt yfir kaffið í trektinni. Einu tilbrigðin við þessa aðferð voru hvort bunan úr katlinum skyldi vera mjó, hvort best væri að bleyta fyrst aðeins í kaffinu og hvort vatnið ætti að bullsjóða eða vera aðeins undir suðumarki. Þessi atriði öll, eða hvert um sig, voru og eru jafnvel enn iðulega deiluefni. Ekki hlupu allir upp til handa og fóta yfir þessum nýmóðins kaffitrektum en héldu áfram að hella uppá með sömu aðferð og lengi hafði tíðkast. Taupoki (gamlir nærbolir sagðir bestir) og blikkkanna voru þar í aðalhlutverki.
Rafmagnið kemur í kaffikönnurnar
Á árunum eftir síðari heimsstyrjöld komu fram fjölmargar nýjungar til þess ætlaðar að gera lífið auðveldara, þar á meðal í eldhúsinu. Ein þessara nýjunga var kaffivélin sem svo er nefnd. Það var þýskt fyrirtæki, Wigoman sem árið 1954 setti á markaðinn tæki sem byggði á uppfinningu Melittu Bentz, en bætti þó ýmsu við. Trektin var á sínum stað og pokinn líka en hins vegar var það rafmagns element sem hitaði vatnið og leiddi það í eins konar leiðslu yfir trektina og svo niður í gegnum kaffið og í könnu sem fylgdi kaffivélinni. Þetta voru tímamót í kaffigerð.
Kaffivélar verða almenningseign
Á næstu árum komu tugir tegunda slíkra kaffivéla á markaðinn, þar á meðal frá Melitta. Vélar þessar voru hver annarri líkar, grundvallartæknin ætíð sú sama en útlitið örlítið mismunandi. Ekki verður tölu komið á allar þær tegundir kaffivéla sem á þessum árum litu dagsins ljós. Tækniþróunin var lítil, sumar voru með sérstakri hitahellu til að halda uppáhellingnum heitum, aðrar með mismunandi hitastillingum á þessum hellum en grundvallartæknin óbreytt. Kaffibrennslur buðu flestar, eða allar, uppá mjög svipað kaffi, millibrennt, og á Íslandi var það jafnvel talið fara eftir pólitík hvaða kaffi var drukkið á heimilum landsmanna. Framsóknar- og vinstrimenn sagðir drekka Braga kaffi, í gulum pokum, úr kaupfélaginu en Sjálfstæðismenn Rio kaffi frá Kaaber í blá- og hvítröndóttum pokum.
Kaffivélarnar voru tiltölulega ódýrar enda tæknin einföld. Reyndar voru til margskonar önnur tæki til kaffigerðar, til dæmis ítalskar hellukönnur og pressukönnurnar sem upphaflega komu sennilega frá Frakklandi en ekkert þessara tækja komst í hálfkvisti við uppáhellingarvélarnar hvað vinsældir og útbreiðslu varðaði. Ekki má heldur gleyma skyndikaffinu (oftast kallað Neskaffi) sem fyrst kom á markaðinn um 1940 og er til í mörgum og mismunandi tegundum.
Breytt kaffitíska
Um 1990 urðu miklar breytingar í kaffidrykkjusiðum. Nú var enginn maður með mönnum nema að eiga „alvöru“ kaffivél sem gæti töfrað fram gæðakaffi og jafnvel malað baunirnar jafnóðum og hitað mjólk útí kaffið. Tugir eða hundruð tegunda slíkra véla komu á markaðinn, misjafnar bæði hvað varðaði verð og gæði. Enn jókst svo samkeppnin þegar hinar svonefndu Nespresso vélar komu á markaðinn, þar var kaffið í formi síróps og margar bragðtegundir í boði. Loks komu púðarnir, eða koddarnir eins og sumir kalla fyrirbærið. Þar var kaffiduftið í litlum poka, sem settur var í þartilgerða vél, ýtt á takka og þá bunaði kaffið í bollann. Gömlu kaffivélarnar voru þó áfram á markaðnum þótt ýmsum þætti það heldur hallærislegt að bjóða uppá slíkan uppáhelling. Einn og einn hélt sig líka við handvirku uppáhellingaraðferðina, vatnið hitað í katli og hellt yfir kaffi í trekt.
Ný gullöld
Þótt gömlu hefðbundnu kaffivélarnar hafi aldrei horfið og átt sína tryggu notendur dróst sala þeirra mjög saman í flestum löndum á síðasta áratug liðinnar aldar og allt fram til 2013. En tími þeirra var ekki liðinn. Uppáhellt kaffi komst, ef svo má segja, aftur í tísku. Enginn veit beinlínis ástæðuna en ýmsir kaffidrykkjuspekingar telja að margir séu hreinlega orðnir leiðir á því að drekka kaffiblandaða mjólk, eins og sumir kalla vinsæla kaffidrykki. Margt ungt fólk vilji einfaldlega kaffi en ekki kaffibland. Hver svo sem ástæðan er er staðreyndin sú að sala á hefðbundnum uppáhellingarvélum hefur víða um lönd aukist stórlega á síðustu tveimur árum. Skrifari þessa pistils lagði leið sína í stóra raftækjaverslun í Kaupmannahöfn fyrir nokkrum dögum. Þar taldi hann 58 mismunandi gerðir kaffivéla, rúmur helmingur þeirra hefðbundnar uppáhellingavélar. Samkvæmt tölum danskrar neytendastofu seldust samtals 220 þúsund kaffivélar í Danmörku í fyrra, það svarar til þess að tólfta hvert heimili í landinu hafi eignast slíkt tæki. Af þessum 220 þúsund vélum voru tæplega 30 þúsund af gerðinni Melitta.
Fréttaskýringin birtist fyrst 20. september 2015. Hún er nú endurbirt í tengslum við hlaðvarpsumfjöllun um hana.