Landsvirkjun

Búrfellslundur gæti orðið fyrsta vindorkuverið sem rís á Íslandi

Er Alþingi ákvað að setja virkjanakostinn Búrfellslund í nýtingarflokk rammaáætlunar var stigið stærsta skrefið til þessa í átt að því að reisa fyrsta vindorkuverið á Íslandi. Ef tilskilin leyfi fást gætu framkvæmdir hafist innan fárra missera. Tugir vindorkuvera vítt og breitt um landið eru á teikniborðum framkvæmdaaðila og sveitarfélaga án þess að fyrir liggi skýr rammi stjórnvalda um hvar eigi að ráðast í slík verkefni. En þrýstingurinn er hafinn í krafti háværrar umræðu um orkuþörf til orkuskipta. Orkuþörf sem er umdeild en jafnvel er sögð skipta þúsundum megavatta – margfaldri þeirri framleiðslu sem á sér stað í virkjunum landsins í dag.

Hnota­steinn, Hrút­múli og Hauka­dal­ur. Mos­fells­heiði, Mýrar og Með­al­land. Breið­dal­ur, Búr­fell og Butra. Sól­heimar, Vind­heimar og Alviðra.

Það er engu lík­ara en að skrúfað hafi verið frá krana, svo mikil er ákefðin í að reisa virkj­anir á Íslandi skyndi­lega orð­in. Umræða um að hraðar hendur þurfi að hafa í orku­skiptum vegna lofts­lags­breyt­inga af manna­völdum knýr fram­kvæmda­gleð­ina en það er þó ekki vatn sem flestir vilja nú virkja heldur vind­ur.

Áhug­inn varð ber­sýni­legur í vinnu fjórða áfanga ramma­ætl­un­ar, áætl­unar um vernd og nýt­ingu land­svæða sem ætlað er að flokka eftir marg­vís­legum þáttum hug­myndir fram­kvæmda­að­ila um virkj­an­ir.

34 hug­myndir um vind­orku­ver

Verk­efn­is­stjórn 4. áfang­ans, sem starf­aði á árunum 2017-2021, bár­ust 34 vind­orku­kostir til umfjöll­un­ar. Síðan hafa ein­hverjar hug­myndir dottið upp fyr­ir, að minnsta kosti í bili, en aðrar að sama skapi bæst í stafl­ann. Því á meðan eng­inn er ramm­inn frá stjórn­völdum um hvort og þá hvar skuli reisa vind­orku­ver er allt landið und­ir. Dal­ir, heið­ar, fjöll og víð­erni. Lág­lendi og hálendi. Blóm­legar sveitir og öræfi. Bók­staf­lega alls staðar þar sem vindur blæs. Og við vitum að það gerir hann sann­ar­lega víða.

Ísland er af þessum sökum orðið eins og spila­borð í Mata­dor þar sem sá sem fyrstur lendir á svæð­inu setur þar niður ein­hvers konar tákn um vind­myllu. Ein­hverjir hafa líkt þessu við villta vestrið en sam­lík­ing við land­náms­öld er mun nær­tæk­ari. Að fyr­ir­tæki séu að helga sér virkj­un­ar­svæði. Vinna svo úr alls konar ágrein­ings­efn­um, m.a. hvað skipu­lags­mál og mat á umhverf­is­á­hrifum varð­ar. Til­búin að fara af stað ef og þegar grænt ljós verður gef­ið.

En miðað við áherslur í stjórn­ar­sátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar, sem nýskip­aður starfs­hópur á að vinna út frá, verða vind­orku­ver ekki reist um allar koppa­grundir heldur á afmörk­uðum svæð­um, nærri tengi­virkjum og flutn­ings­lín­um, „svo unnt verði að tryggja afhend­ingar­ör­yggi og lág­marka umhverf­is­á­hrif“. Mörgum árum eftir að virkj­un­ar­að­ilar fóru af stað í sína veg­ferð er loks komið að þess­ari mik­il­vægu grein­ingu. Og henni á ekki að ljúka fyrr en í byrjun næsta árs. Þá mun taka við annar fasi: Póli­tísk umræða. Sem eng­inn getur vitað á þess­ari stundu hvernig fer.

Á Náttúrukorti Landverndar má sjá marga þeirra vindorkukosta sem settir hafa verið fram.
Natturukortid.is

Ramma­á­ætlun hefur í tvo ára­tugi verið það stjórn­tæki sem nýtt er til þess að kom­ast að sam­komu­lagi og sátt – svo langt sem hún nær – um hvar skuli reisa virkj­an­ir. Verk­efn­is­stjórn og nokkrir fag­hópar skip­aðir fjöl­mörgum sér­fræð­ingum á ýmsum svið­um, rýna í inn­sendar virkj­ana­hug­myndir og leggja á þær mat út frá mögu­legum áhrifum á nátt­úru, sam­fé­lag, efna­hag og fleiri þætti. Þetta er tíma­frekt ferli, ekki síst vegna margra ára tafa á afgreiðslu Alþing­is, sem allar virkj­ana­hug­myndir 10 MW að afli og yfir hafa þurft að fara í gegnum frá því að ráð­ist var í bygg­ingu Kára­hnjúka­virkj­un­ar.

Það hefur verið umdeilt hvort að vind­orku­kostir heyri undir lög um ramma­á­ætl­un. Orku­stofnun var til dæmis lengi vel á þeirri skoðun að það gerðu þeir ekki en ráðu­neyti umhverf­is­mála taldi þvert á móti að svo væri.

En rík­is­stjórn Katrínar Jak­obs­dóttur hefur það á stefnu­skránni að setja sér­stök lög um nýt­ingu vind­orku með það að mark­miði, líkt og fram kemur í stjórn­ar­sátt­mál­an­um, að ein­falda upp­bygg­ingu vind­orku­vera. Þetta er annar þáttur sem nýja starfs­hópnum er gert að skoða ofan í kjöl­inn.

Örfáar vindmyllur eru á Íslandi í dag. Tvær þeirra eru í Hafinu, á þeim slóðum sem Landsvirkjun vill reisa Búrfellslund.
Landsvirkjun

„Ís­lend­ingar standa á tíma­mótum varð­andi nýt­ingu orku­auð­linda því virkjun vind­orku er að hefj­ast af fullum kraft­i,“ skrif­aði Guð­rún Pét­urs­dótt­ir, for­maður verk­efn­is­stjórnar fjórða áfanga ramma­á­ætl­un­ar, í drögum að loka­skýrslu fyrir rúmu ári. „Þótt vind­ur­inn sé óþrjót­andi er land undir vind­orku­ver það ekki. Landið er hin tak­mark­aða auð­lind í þessu til­felli. Vind­myllur eru nú um 150 m háar og fara hækk­andi. Þær eru því afar áber­andi í lands­lagi og sjást víða að. Vind­orku­ver munu valda miklum breyt­ingum á ásýnd lands­ins ef ekki verður var­lega far­ið.“

Þeir 34 virkj­un­ar­kostir sem lagðir voru fyrir verk­efn­is­stjórn Guð­rúnar voru sam­tals 3.235 MW að afli. Til sam­an­burðar er Kára­hnjúka­virkj­un, langstærsta virkjun lands­ins, 690 MW. Búr­fells­virkj­un, sú næst­stærsta, er 270 MW.

Sífellt hærri og afl­meiri

Vind­myllur hafa líkt og Guð­rún bendir á tekið stór­kost­legum breyt­ingum á aðeins örfáum árum. Sam­tímis því að verða hærri hafa þær orðið kraft­meiri eftir því sem tækn­inni til að virkja vind­inn hefur fleygt fram.

Rann­sókn­ar­vind­myll­urnar tvær sem Lands­virkjun reisti á virkj­un­ar­svæð­inu ofan Búr­fells­virkj­unar árið 2013 eru 77 metra háar, aðeins hærri en Hall­gríms­kirkju­turn (74,5 m). Myll­urnar tvær sem reistar voru í Þykkvabæ um árið, og illa fór fyrir í elds­voða árið 2017, voru 70 metra háar. Þær myllur sem not­aðar eru í dag eru mun hærri, jafn­vel 200 metr­ar. Og fara hækk­andi. Til sam­an­burðar er Eif­fel-­turn­inn í París 300 metra hár. Myllur fram­tíð­ar­innar slaga því orðið upp í hann.

Miðað við skýrslur sem vind­orku­fyr­ir­tæki hafa lagt fram síð­ustu miss­eri er afl hverrar myllu á bil­inu 3,7-5,6 MW. Það þýðir að vind­orku­verin 34 sem gögn voru send inn til afgreiðslu í 4. áfanga ramma­á­ætl­unar myndu telja á bil­inu 580-875 vind­myll­ur.

Margar saman eða út um allt?

Nokkuð víst er að þessi vind­orku­ver sem áformuð eru um landið munu ekki öll verða að veru­leika. En ekki er fjar­stæðu­kennt að áætla að gríð­ar­legur fjöldi vind­mylla rísi ef fara á í þá umfangs­miklu orku­öflun sem stjórn­völd boða, m.a. með til­liti til nið­ur­stöðu svo­kall­aðrar græn­bókar sem unnin var að beiðni umhverf­is-, orku- og lofts­lags­ráð­herra fyrr á árinu. Nið­ur­stöðu sem skiptar skoð­anir eru sann­ar­lega um.

En hvar þær munu rísa, í miklum þyrp­ingum á nokkrum stöð­um, jafn­vel nokkur hund­ruð sam­an, eða hér og hvar og alls staðar er meðal þess sem starfs­hóp­ur­inn nýi á að skoða og gera til­lögur um.

Hæð vindmylla í samanburði við Hallgrímskirkju. Sú hæsta á teikningunni er 150 metrar, jafnhá og Landsvirkjun taldi myllurnar í Búrfellslundi þurfa að vera er gert var umhverfismat árið 2016.
Landsvirkjun

Verk­efn­is­stjórn­inni sem Guð­rún veitti for­stöðu vannst ekki tími til að skila loka­skýrslu heldur aðeins drög­um. Hún taldi aðeins nægj­an­leg gögn fylgja fimm vind­orku­kostum og flokk­aði þrjá þeirra í nýt­ing­ar­flokk en tvo í bið­flokk.

Meðal þeirra sem höfn­uðu í síð­ar­nefnda flokknum er Búr­fellslundur Lands­virkj­un­ar.

Verk­efn­is­stjórn 3. áfang­ans hafði kom­ist að sömu nið­ur­stöðu hvað þennan kost varð­ar. Rökin voru þau að 200 MW vind­orku­ver á hraun- og sand­s­létt­unni austan Þjórs­ár, á sama svæði og tvær rann­sókn­ar­myllur standa nú sem og sjö vatns­afls­virkj­an­ir, yrði á rösk­uðu svæði sem hafi lágt vernd­ar­gildi en áhrif hans á ferða­mennsku og úti­vist á mörgum verð­mætum ferða­svæðum yrðu hins vegar mikil og nei­kvæð. Vind­myll­urnar myndu sjást langt að. „Allir ferða­menn sem eru á leið um Sprengisands­leið eða Fjalla­bak munu sjá vind­myll­urnar í Búr­fellslundi og því hafa þær áhrif á mörg ferða­svæði sem tengj­ast Sprengisands­leið, svo og á mörg mjög verð­mæt ferða­svæði á sunn­an­verðu hálend­inu, svo sem Land­manna­laug­ar, Heklu, Veiði­vötn og Eld­gjá,“ sagði í nið­ur­stöðu verk­efn­is­stjórnar 3. áfanga.

Lagt var hins vegar til að Blöndu­lund­ur, annar vind­orku­kostur Lands­virkj­un­ar, færi í nýt­ing­ar­flokk.

Ríkisstjórnin vill að vindorkugarðar séu á afmörkuðum svæðum þar sem tenging við raforkukerfið er þegar fyrir hendi.

Er Alþingi afgreiddi loks þings­á­lykt­un­ar­til­lögu um áfang­ann í byrjun sum­ars ákvað það að færa Búr­fellslund úr bið­flokki í orku­nýt­ing­ar­flokk. Þetta var m.a. gert á þeim rökum að áformin hefðu breyst, virkj­un­ar­svæðið yrði minna og vind­myll­urnar færri. Þannig væri tekið til­lit til athuga­semda sem fram hefðu kom­ið.

„Meiri­hlut­inn bendir á að í umsögnum hafa komið fram ábend­ingar um að fyr­ir­hug­aður vind­orku­kostur kunni ekki að hafa þau víð­tæku áhrif á ferða­mennsku sem nið­ur­staða fag­hóps 2 byggði á,“ sagði m.a. í rök­stuðn­ingi í áliti meiri­hluta umhverf­is- og sam­göngu­nefnd­ar­innar snemm­sum­ars sem tók þannig fylli­lega undir sjón­ar­mið virkj­un­ar­að­il­ans, Lands­virkj­un­ar. „Auk þess hafi það sýnt sig að við­kom­andi svæði henti afar vel til vind­orku­fram­leiðslu og að nýtni þeirra vind­mylla sem reistar hafi verið til rann­sókna á svæð­inu sé eins og best ger­ist á heims­vís­u.“

Svona gæti Búrfellslundur litið út. Bláu punktarnir tákna mögulega staðsetningu vindmyllanna við Sultartangalón.
Landsvirkjun

Í fyrsta sinn eru vind­orku­kostir komnir í orku­nýt­ing­ar­flokk ramma­á­ætl­un­ar, báðir á vegum Lands­virkj­un­ar. Umhverf­is­mati Búr­fellslundar lauk árið 2016 og ný útfærsla rúm­ast innan þess, segir Magnús Þór Gylfa­son, for­stöðu­maður sam­skipta upp­lýs­inga­miðl­unar hjá Lands­virkj­un, við Kjarn­ann. Gagna­söfnun vegna umhverf­is­mats Blöndu­lundar stendur yfir. Breyta þyrfti aðal­skipu­lagi sveit­ar­fé­laga sem virkj­an­irnar yrðu byggðar á og gefa út fram­kvæmda­leyfi og virkj­un­ar­leyfi. „Búr­fellslundur er kom­inn mun lengra í und­ir­bún­ingi og því lík­legra að sá kostur komi fyrr til fram­kvæmd­ar,“ segir Magn­ús. Verið sé að vinna að fulln­að­ar­hönnun hans og „ef til­skilin leyfi liggja fyrir væri hægt að hefja fram­kvæmdir á næstu árum“.

Lík­legt er því að Búr­fellslundur verði fyrsta vind­orku­verið á Íslandi. Það stenst þau áform stjórn­valda að byggja slíkar virkj­anir í nálægð við raf­orku­inn­viði, það er þegar komið í orku­nýt­ing­ar­flokk ramma­á­ætl­unar og umhverf­is­mati er lok­ið.

En hvað er Búr­fellslund­ur?

Sam­kvæmt breyttri útfærslu á Búr­fellslundi Lands­virkj­unar yrðu reistar um 30 vind­myllur í stað 67 og gæti afl þeirra sam­an­lagt orðið um 120 MW í stað 200. Vind­myll­urnar yrðu rétt sunnan við Sult­ar­tanga­stíflu og því nær núver­andi orku­mann­virkjum en fyrri áform gerðu ráð fyrir og á um 18 fer­kíló­metra svæði í stað 33. Við end­ur­hönn­un­ina var lögð áhersla á að lág­marka sjón­ræn áhrif vers­ins og hefur ný útfærsla að sögn Lands­virkj­unar í för með sér „tals­vert minni sýni­leika frá ferða­manna­leiðum og nær­liggj­andi ferða­manna­stöð­u­m“.

Í loka­skýrslu verk­efn­is­stjórnar 3. áfanga ramma­á­ætl­unar var tekið undir þau sjón­ar­mið að svæðið sem Búr­fellslundur er fyr­ir­hug­aður á er þegar raskað af mörgum virkj­un­um, uppi­stöðu­lón­um, raf­línum og veg­um. Hins vegar var bent á að sjón­ræn áhrif vind­mylla væru önnur en vatns­afls­virkj­ana þar sem vind­myllur eru mun sýni­legri í lands­lag­inu og sjást langt að. „Því má búast við að vind­orku­ver hafi mikil áhrif á upp­lifun ferða­manna og að ein­hverju leyti ann­ars konar áhrif en þau orku­ver sem reist hafa verið hér á landi hingað til,“ sagði í skýrsl­unni. Búr­fellslundur og Blöndu­lundur yrðu rétt við hálend­is­brún lands­ins, sá fyrr­nefndi rétt innan mið­há­lend­is­lín­unnar og sá síð­ar­nefndi rétt utan henn­ar. „Aðal­að­drátt­ar­afl hálend­is­ins fyrir ferða­menn felst í upp­lifun á víð­ernum og óspilltri nátt­úru og er hætta á að vind­orku­verin hefðu nei­kvæð áhrif á þá upp­lif­un.“

Mögulegur sýnileiki Búrfellslundar frá bílastæðinu við Háfoss. Efri mynd sýnir útfærslu frá 2016 en sú neðri útfærslu sem nú er unnið að.
Landsvirkjun

Lands­virkjun gerði á sínum tíma athuga­semd við þessa nið­ur­stöðu og sagði um ofmat á áhrifum Búr­fellslundar á ferða­mennsku að ræða. Fyr­ir­tækið sagð­ist draga í efa að skil­grein­ing fag­hóps­ins á áhrifa­svæði virkj­un­ar­kosts­ins stæð­ist skoðun og fór fram á að áhrif hans á ferða­þjón­ustu yrðu metin „með fag­legum hætt­i“. Rann­sóknir hefðu sýnt að áhrifin yrðu ekki í sam­ræmi við nið­ur­stöður fag­hóps­ins og að vind­orku­ver geti „hæg­lega haft jákvæð áhrif á ferða­mennsku“.

Þetta er gömul rök­semda­færsla og ný. Að virkj­anir geti haft jákvæð áhrif á ferða­mennsku, m.a. vegna þess að vegir eru lagðir og þar með aðgengi fleiri að svæð­inu bætt.

Fag­hóp­ur­inn sem gagn­rýn­inni var beint að yfir­fór mat sitt á virkj­ana­kost­inum en það leiddi ekki til mark­tækrar breyt­ingar á ein­kunna­gjöf.

Skipu­lags­stofnun vakti athygli á því í umsögn sinni um skýrslu verk­efn­is­stjórn­ar­innar að í gögnum þeim sem send hefðu verið til mats í ramma­á­ætlun kæmi fram að vind­myll­urnar í Búr­fellslundi yrðu 135 metrar á hæð. Í gögnum vegna umhverf­is­mats Búr­fellslundar sem þá stóð yfir væri miðað við allt að 150 metra. Enn í dag er óvíst hversu háar myll­urnar kæmu til með að vera.

Mögulegur sýnileiki vindmylla í Búrfellslundi frá Áfangagili. Efri myndin sýnir eldri útfærslu en sú neðri þá sem nú er unnið að.
Landsvirkjun

En svo sat til­laga að ramma­á­ætlun föst í þing­inu í tæp­lega sex ár. Lands­virkjun ákvað í milli­tíð­inni að laga sig að athuga­semdum og Búr­fellslundur skrapp sam­an. Það er að segja þau áform sem nú eru á teikni­borð­inu sem gætu allt eins verið fyrsti áfangi að stærra vind­orku­veri eða jafn­vel verum á þessum slóð­um.

Vind­myllur eru hindr­anir fyrir fugla

Bláu punktarnir tákna flug hafarna yfir vindmyllusvæði árið 2020. Mynd: Náttúrufræðistofnun Íslands

En það er fleira en sýni­leik­inn sem telst til helstu umhverf­is­á­hrifa vind­orku­virkj­ana. Áflug fugla er einnig áhættu­þáttur sem taka þarf til­lit til. Lands­virkjun hefur látið rann­saka umferð fugla á hinu fyr­ir­hug­aða virkj­ana­svæði Búr­fellslundar í tvígang, fyrst árið 2014 er til stóð að svæðið yrði stærra og vind­myll­urnar fleiri og svo aftur árið 2019 er útfærsl­unni hafði verið breytt.

68-153 fuglar myndu fljúga á myll­urnar

Síð­ari rann­sóknin var unnin af Nátt­úru­stofu Norð­aust­ur­lands í sam­starfi við Háskól­ann í Árósum með því að setja upp rat­sjár frá byrjun apríl til loka nóv­em­ber. Gögn­in, þ.e. mynd­irn­ar, voru svo not­aðar til grund­vallar í mati á áflugs­hættu sam­kvæmt ákveðnu reikni­lík­ani.

Nið­ur­staðan sýndi fram á að allt að 68 fuglar myndu fljúga á myll­urnar í Búr­fellslundi frá apríl til októ­ber miðað við að 99 pró­sent fugla nái að forða sér frá árekstri. Stærsti hlut­inn væru heiða­gæsir (41), næst mest heið­lóur (19) en minnst af álft (8). Ef gert er ráð fyrir forðun fugla upp á 97,75 pró­sent hækkar matið í 153 fugla fyrir þetta tíma­bil, 93 heiða­gæs­ir, 43 heið­lóur og 17 álft­ir. Nið­ur­stöð­urnar benda til mun hærri affalla en gert var ráð fyrir í fyrri útfærslu að Búr­fellslundi, byggt á rann­sóknum árið 2014 – þeim rann­sóknum sem lágu flokkun verk­efn­is­stjórnar 3. áfanga ramma­á­ætl­unar til grund­vall­ar.

Haförn á flugi.
Fuglavernd/Jóhann Óli Hilmarsson

Fuglíf á Íslandi er ein­stakt á margan máta. Heima­slóðir rán­fugls­ins stór­feng­lega, haf­arn­ar­ins, eru t.d. í nágrenni nokk­urra vind­orku­vera sem áformuð eru á Vest­ur­landi. Og ein­hver þeirra yrðu bein­línis á helstu flug­leiðum arn­anna.

Tvö þess­ara vera, annað við Hróð­nýj­ar­staði og hitt við Sól­heima, bæði í Dala­byggð, urðu á dög­unum fyrstu vind­orku­verin sem gert er ráð fyrir í aðal­skipu­lagi sveit­ar­fé­laga. Á flug­leiðir haf­arn­anna var ítrekað bent í athuga­semdum við aðal­skipu­lags­breyt­ing­arn­ar. Á það hefur einnig verið bent að áflugs­hætta hafarna er sér­stak­lega mik­il. Þeir eru jú stórir en þeir horfa líka oft niður fyrir sig á flugi. Og þá kann að vera um seinan að sveigja frá ónátt­úru­legri hindrun í veg­in­um.

Fyrstu vind­orku­á­formin í aðal­skipu­lagi

„Vind­orku­ver í Dala­byggð, að Hróð­nýj­ar­stöðum og í landi Sól­heima, eru fyrstu stóru vind­orku­verin sem heyra undir ramma­á­ætlun og eru stað­fest í aðal­skipu­lag­i,“ segir Egill Þór­ar­ins­son, sviðs­stjóri á sviði umhverf­is­mats hjá Skipu­lags­stofn­un, við Kjarn­ann. „Þau eru skil­greind sem iðn­að­ar­svæði en jafn­framt sem var­úð­ar­svæði, sem er ákveðin tak­mörkun á land­notkun og þýðir að um þau gildir eins og þau væru í bið­flokki ramma­á­ætl­unar þó svo að þau hafi ekki hlotið með­ferð sam­kvæmt lögum um ramma­á­ætlun og því ekki verið flokkuð sem slík.“

Báðir kost­irnir voru sendir inn til með­ferðar í þriðja áfanga ramma­á­ætl­un­ar. Verk­efn­is­stjórnin taldi ekki nægj­an­leg gögn fylgja virkjun að Hróð­nýj­ar­stöðum en lagði til í drögum sínum að Sól­heima­virkjun yrði sett í bið­flokk. Mat á umhverf­is­á­hrifum beggja virkj­ana­hug­mynda er langt kom­ið.

Sveit­ar­stjórn Dala­byggðar er áfram um að fá vind­orku­ver líkt og skipu­lags­breyt­ing­arnar bera með sér. En þeir sem fara með stjórn Hörg­ár­byggð­ar, svo dæmi sé tek­ið, hafa afþakkað þau pent.

Ein þeirra vind­orku­hug­mynda sem fékk grænt ljós í með­ferð verk­efn­is­stjórnar 4. áfanga ramma­á­ætl­unar og rataði í nýt­ing­ar­flokk í til­lögu­drögum hennar var Vind­heima­virkjun í Hörg­ár­dal. „Sveit­ar­stjórn sam­þykkti að hafna öllum slíkum áformum um vind­orku­ver í Hörg­ársveit,“ sagði í fund­ar­gerð sveit­ar­stjórnar á síð­asta ári.

Andri Teits­son, fram­kvæmda­stjóri Fall­orku sem stendur fyrir áformun­um, sagði í skrif­legum svörum til Kjarn­ans fyrr á þessu ári að vissu­lega hefði stjórn­endum Fall­orku þótt það mik­ill áfangi og sterk við­ur­kenn­ing á verk­efn­inu að verk­efn­is­stjórnin legði til að það færi í orku­nýt­ing­ar­flokk. Að sveit­ar­stjórnin skyldi hafna upp­bygg­ingu vind­orku með öllu kom honum þó ekki alveg á óvart. „Í ljósi þess­arar álykt­unar sveit­ar­stjórn­ar­innar lagði Fall­orka til hliðar í bili alla vinnu við Vind­heima­virkj­un, svo sem samn­inga við land­eig­endur og fjár­frekar vind­rann­sókn­ir,” sagði Andri. „Við ætlum að sjá til hvort umræða í þjóð­fé­lag­inu á lands­vísu eða þá umræða til dæmis á vett­vangi sveit­ar­fé­lag­anna við Eyja­fjörð geti breytt við­horf­in­u.“

Ákveð­inn upp­taktur er þegar haf­inn í nafni orku­skipta og nú síð­ustu vikur vegna „yf­ir­vof­andi orku­krísu“ ann­ars staðar í heim­in­um. Um að nýta þurfi nátt­úr­una íslensku og krafta hennar til að bjarga henni. Bjarga okk­ur. Heim­in­um. Fyr­ir­sagnir á borð við „Hröð þróun í virkjun vind­orku“ og „Auk­inn áhugi á að kaupa orku héðan“ blasa við nær dag­lega. „Vind­orka inn­an­lands er ræki­lega komin á dag­skrá,“ segir Bjarni Bene­dikts­son fjár­mála­ráð­herra, til dæmis í Frétta­blað­inu í vik­unni. Í sömu frétt var­aði for­sæt­is­ráð­herrann, Katrín Jak­obs­dótt­ir, við því að „einka­að­ilar fái að helga sér lönd í vind­orku­skyn­i“.

En hvaða fyr­ir­tæki eru þetta sem nú geys­ast fram á völl­inn með kyndil í nafni grænn­ar, end­ur­nýj­an­legrar orku á lofti – upp í fjalls­hlíð­ar, inn á heiðar – og vilja virkja vind­inn?

Og hvernig ríma fram­komnar hug­myndir um vind­orku­ver, hvar svo sem þær eru fram­settar á land­inu, við þau áform rík­is­stjórn­ar­innar að slíkar virkj­anir verði byggðar upp á afmörk­uðum svæð­um?

Um þetta og fleira þessu tengt mun Kjarn­inn fjalla á næst­unni.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar