Ný gullöld kaffivélarinnar og Melitta Bentz

Sam­kvæmt tölum danskrar neyt­enda­stofu seld­ust sam­tals 220 þúsund kaffi­vélar í Dan­mörku á árinu 2014, það svaraði til þess að tólfta hvert heim­ili í land­inu hafi eign­ast slíkt tæki. Af þeim voru tæp­lega 30 þús­und af gerð­inni Melitta.

rsz_h_00886305.jpg
Auglýsing

Kjarn­inn end­ur­birtir nú valda pistla Borg­þórs Arn­gríms­sonar sem sam­hliða eru gefnir út sem hlað­varps­þætt­ir. Frétta­skýr­ingar Borg­þórs njóta mik­illa vin­sælda og sú sem er end­ur­birt hér að neðan var upp­haf­lega birt þann 20. sept­em­ber 2015. Nálg­ast má hlað­varpið á slóð­inni að ofan og á helstu hlað­varpsveit­um.

Þegar Melitta Bentz, 35 ára hús­móðir í Dres­den í Þýska­landi, stóð yfir eld­hús­vask­inum á heim­ili sínu vorið 1908 og hreins­aði korg­inn úr kaffi­könn­unni, fór hún að velta fyrir sér hvort ekki væri mögu­legt að losna við korg­inn, ekki bara úr könn­unni heldur líka úr kaff­inu. Hús­bónd­inn Hugo var vænt­an­legur heim í kaffi og Melitta hafði skellt í eina epla­köku. Þegar hús­bónd­inn kom inn úr dyr­un­um, stóð heima að epla­kakan var til­búin og kaffið sömu­leið­is.

Meðan þau hjónin sátu yfir kaff­inu, og epla­kök­unni, fór Melitta að segja bónda sínum frá hug­mynd sem hún hefði feng­ið. Hugo skildi ekki alveg útkýr­ing­arnar en lýsti sig fylgj­andi hverju því sem fjar­lægt gæti korg­inn úr kaff­in­u.  Melitta lét ekki sitja við orðin tóm, með nagla gerði hún lítið gat á botn­inn á lít­illi blikk­dós, fékk svo stórt blað úr stíla­bók sonar síns og kom því fyrir í dósinni. Í þessa heima­til­búnu kaffi­trekt setti Melitta kaffi og hellti svo sjóð­andi vatni í „trekt­ina“ sem hún hafði sett bolla und­ir. Kaffið var nokkra stund að drjúpa niður í boll­ann en sér til mik­illar ánægju fann frú Melitta að í kaff­inu var ekki vottur af korgi. Henni var ljóst að hún hafði þarna dottið niður á aðferð við að búa til korg­laust kaffi. Lík­lega hefur hana þó ekki órað fyrir að heilli öld síðar væri upp­finn­ing henn­ar, í bók­staf­legri merk­ingu, á allra vörum og kaffi­vélar byggðar á þess­ari hugmynd seldar um allan heim ásamt trektum og þar til gerðum papp­írs­pokum (papp­írs­filt).

Pok­arnir frá Melittu. Mynd: Wikipedi­a.

Fékk einka­leyfi á upp­finn­ing­unni

Melitta Bentz hélt áfram að þróa hug­mynd­ina sem hún hafði fengið og 8. júlí 1908 fékk hún skráð einka­leyfi á „trekt­ar­á­haldi klæddu filt­papp­ír“ eins og það var kall­að. Mán­uði síðar stofn­aði hún fyr­ir­tæki sem bar nafn henn­ar, Melitta. Fyr­ir­tækið var í upp­hafi smátt í sniðum og Melitta fór ekki út fyrir tún­garð­inn í leit að starfs­fólki. Hugo bóndi hennar sagði upp sinni vinnu og tveir synir þeirra hjóna hófu störf hjá fyr­ir­tæk­inu. Fyrst í stað voru kaffi­trekt­irnar ekki trekt­laga heldur lík­astar þeim nið­ur­suðu­dósum sem eru kall­aður heildósir og úr blikki. Þótt Melitta hafi kannski ekki þekkt orðið vöru­þróun hélt hún áfram að bæta gæði trekt­ar­inn­ar, sem um 1930 var orðin trekt­laga og þar að auki komin með rifflur að inn­an.

Papp­ír­inn varð jafn­framt betri með árun­um. Einka­leyfið hélt ekki að eilífu og fyrir miðja síð­ustu öld voru fjöl­mörg fyr­ir­tæki farin að fram­leiða bæði trektar og poka, í ýmsum stærð­um. Ennþá var vatnið hitað í katli eða potti og svo hellt yfir kaffið í trekt­inni. Einu til­brigðin við þessa aðferð voru hvort bunan úr katl­inum skyldi vera mjó, hvort best væri að bleyta fyrst aðeins í kaff­inu og hvort vatnið ætti að bull­sjóða eða vera aðeins undir suðu­marki. Þessi atriði öll, eða hvert um sig, voru og eru jafn­vel enn iðu­lega deilu­efni. Ekki hlupu allir upp til handa og fóta yfir þessum nýmóð­ins kaffi­trektum en héldu áfram að hella uppá með sömu aðferð og lengi hafði tíðkast. Taupoki (gamlir nær­bolir sagðir best­ir) og blikk­kanna voru þar í aðal­hlut­verki.

Raf­magnið kemur í kaffi­könn­urnar

Á árunum eftir síð­ari heims­styrj­öld komu fram fjöl­margar nýj­ungar til þess ætl­aðar að gera lífið auð­veld­ara, þar á meðal í eld­hús­inu. Ein þess­ara nýj­unga var kaffi­vélin sem svo er nefnd. Það var þýskt fyr­ir­tæki, Wigoman sem árið 1954 setti á mark­að­inn tæki sem byggði á upp­finn­ingu Melittu Bentz, en bætti þó ýmsu við. Trektin var á sínum stað og pok­inn líka en hins vegar var það raf­magns elem­ent sem hit­aði vatnið og leiddi það í eins konar leiðslu yfir trekt­ina og svo niður í gegnum kaffið og í könnu sem fylgdi kaffi­vél­inni. Þetta voru tíma­mót í kaffi­gerð.

Auglýsing
Frú Melitta Bentz var þá ekki lengur á lífi, hún lést í lok júní 1950 en hafði  skráð sig á spjöld sög­unnar eins og það er kall­að. Melitta fyr­ir­tækið er hins­vegar enn til og fram­leiðir kaffi­vél­ar, raf­magns­katla, trektir og trek­ta­poka. Starf­semin fer fram víða um heim og starfs­menn í dag eru um fjögur þús­und.

Kaffi­vélar verða almenn­ings­eign

Á næstu árum komu tugir teg­unda slíkra kaffi­véla á mark­að­inn, þar á meðal frá Melitta. Vélar þessar voru hver annarri lík­ar, grund­vall­ar­tæknin ætíð sú sama en útlitið örlítið mis­mun­andi. Ekki verður tölu komið á allar þær teg­undir kaffi­véla sem á þessum árum litu dags­ins ljós. Tækni­þró­unin var lít­il, sumar voru með sér­stakri hita­hellu til að halda upp­á­hell­ingnum heit­um, aðrar með mis­mun­andi hita­still­ingum á þessum hellum en grund­vall­ar­tæknin óbreytt. Kaffi­brennslur buðu flestar, eða all­ar, uppá mjög svipað kaffi, milli­brennt, og á Íslandi var það jafn­vel talið fara eftir póli­tík hvaða kaffi var drukkið á heim­ilum lands­manna. Fram­sókn­ar- og vinstri­menn sagðir drekka Braga kaffi, í gulum pok­um, úr kaup­fé­lag­inu en Sjálf­stæð­is­menn Rio kaffi frá Kaaber í blá- og hvítrönd­óttum pok­um.

Kaffivélar í stórri raftækjaverslun í Kaupmannahöfn. Mynd: Borgþór Arngrímsson

Kaffi­vél­arnar voru til­tölu­lega ódýrar enda tæknin ein­föld. Reyndar voru til margs­konar önnur tæki til kaffi­gerð­ar, til dæmis ítalskar hellukönnur og pressukönn­urnar sem upp­haf­lega komu senni­lega frá Frakk­landi en ekk­ert þess­ara tækja komst í hálf­kvisti við upp­á­hell­ing­ar­vél­arnar hvað vin­sældir og útbreiðslu varð­aði. Ekki má heldur gleyma skyndi­kaff­inu (oft­ast kallað Nes­kaffi) sem fyrst kom á mark­að­inn um 1940 og er til í mörgum og mis­mun­andi teg­und­um.

Breytt kaffi­tíska

Um 1990 urðu miklar breyt­ingar í kaffi­drykkju­sið­um. Nú var eng­inn maður með mönnum nema að eiga „al­vöru“ kaffi­vél sem gæti töfrað fram gæða­kaffi og jafn­vel malað baun­irnar jafn­óðum og hitað mjólk útí kaff­ið. Tugir eða hund­ruð teg­unda slíkra véla komu á mark­að­inn, mis­jafnar bæði hvað varð­aði verð og gæði. Enn jókst svo sam­keppnin þegar hinar svo­nefndu Nes­presso vélar komu á mark­að­inn, þar var kaffið í formi síróps og margar bragð­teg­undir í boð­i. Loks komu púð­arn­ir, eða kodd­arnir eins og sumir kalla fyr­ir­bær­ið. Þar var kaffi­duftið í litlum poka, sem settur var í þartil­gerða vél, ýtt á takka og þá bun­aði kaffið í boll­ann. Gömlu kaffi­vél­arnar voru þó áfram á mark­aðnum þótt ýmsum þætti það heldur hall­æris­legt að bjóða uppá slíkan upp­á­hell­ing. Einn og einn hélt sig líka við hand­virku upp­á­hell­ing­ar­að­ferð­ina, vatnið hitað í katli og hellt yfir kaffi í trekt.

Ný gullöld

Þótt gömlu hefð­bundnu kaffi­vél­arnar hafi aldrei horfið og átt sína tryggu not­endur dróst sala þeirra mjög saman í flestum löndum á síð­asta ára­tug lið­innar aldar og allt fram til 2013. En tími þeirra var ekki lið­inn. Upp­á­hellt kaffi kom­st, ef svo má segja, aftur í tísku. Eng­inn veit bein­línis ástæð­una en ýmsir kaffi­drykkju­spek­ingar telja að margir séu hrein­lega orðnir leiðir á því að drekka kaffi­bland­aða mjólk, eins og sumir kalla vin­sæla kaffi­drykki. Margt ungt fólk vilji ein­fald­lega kaffi en ekki kaffi­bland. Hver svo sem ástæðan er er stað­reyndin sú að sala á hefð­bundnum upp­á­hell­ing­ar­vélum hef­ur víða um lönd auk­ist stór­lega á síð­ustu tveimur árum. Skrif­ari þessa pistils lagði leið sína í stóra raf­tækja­verslun í Kaup­manna­höfn fyrir nokkrum dög­um. Þar taldi hann 58 mis­mun­andi gerðir kaffi­véla, rúmur helm­ingur þeirra hefð­bundnar upp­á­hell­inga­vél­ar. Sam­kvæmt tölum danskrar neyt­enda­stofu seld­ust sam­tals 220 þúsund kaffi­vélar í Dan­mörku í fyrra, það svarar til þess að tólfta hvert heim­ili í land­inu hafi eign­ast slíkt tæki. Af þessum 220 þús­und vélum voru tæp­lega 30 þús­und af gerð­inni Melitta.

Frétta­skýr­ingin birt­ist fyrst 20. sept­em­ber 2015. Hún er nú end­ur­birt í tengslum við hlað­varpsum­fjöllun um hana.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Kaupfélag Skagfirðinga hefur hagnast um 18 milljarða króna á fjórum árum
Eigið fé Kaupfélags Skagfirðinga, samvinnufélags í eigu 1.465 félagsmanna með höfuðstöðvar á Sauðárkróki, hefur þrefaldast frá árinu 2010 og er 49,5 milljarðar. Eignir félagsins eru metnar á tæplega 80 milljarða. Verðmætasta bókfærða eignin er kvóti.
Kjarninn 15. ágúst 2022
Áfengi spilar afar stjórt hlutverk í danskri unglingamenningu.
Danskir menntaskólar endurhugsi drykkjumenninguna
Danska heilbrigðisstofnunin hefur sent menntaskólum landsins bréf þar sem óskað er eftir því að hætt verði að gera áfengi hátt undir höfði á viðburðum á vegum skólanna.
Kjarninn 14. ágúst 2022
Vilja gera óperuna aðgengilega fyrir Íslendinga
Kammeróperan ætlar að flytja meistarverkið Così fan tutte eftir Mozart íslensku á óperukvöldverði í Iðnó. Safnað er fyrir verkefninu á Karolina fund.
Kjarninn 14. ágúst 2022
Korn frá Úkraínu loks á leið til Afríku á barmi hungursneyðar
Flutningaskip á vegum Sameinuðu þjóðanna er á leið til Afríku með fullan farm af korni frá Úkraínu. Um er að ræða fyrstu kornflutninga frá Úkraínu til Afríku síðan Rússland réðst inn í Úkraínu.
Kjarninn 14. ágúst 2022
Vindmyllurnar sem yrðu notaðar í vindorkuverið í Hvalfirði yrðu um 250 metrar á hæð. Þær yrðu á fjalli sem er 647 metrar á hæð og því sjást mjög víða að.
Vindorkuverið hefði „veruleg áhrif á ásýnd“ Hvalfjarðar og nágrennis
Hvalfjörður er þekktur fyrir fjölbreytt og fallegt landslag. Stofnanir segja „mjög vandasamt“ að skipuleggja svo stórt inngrip sem vindorkuver er á slíku svæði og að það yrði „mikil áskorun“ að ná sátt um byggingu þess.
Kjarninn 14. ágúst 2022
Mikið var látið með HBO Max þegar streymisþjónustan var kynnt til leiks vorið 2020 og hún auglýst gríðarlega.
Bylting á HBO Max veldur því að veitan kemur seinna til Íslands og efnisframboð minnkar
Bið Íslendinga eftir HBO Max mun lengjast um rúm tvö ár. Ástæðan er sameining móðurfélags HBO við fjölmiðlarisann Discovery. Ný stjórn er í brúnni og allt virðist vera gert til að spara pening.
Kjarninn 14. ágúst 2022
Kristjanía er eins konar undraland í miðri Kaupmannahöfn.
Kristjaníubúar fá tilboð
Danska ríkið hefur gert íbúum Kristjaníu tilboð sem felur í sér umtalsverðar breytingar frá núverandi skipulagi. Íbúum „fríríkisins“ myndi fjölga talsvert ef breytingarnar ganga eftir. Samningaviðræður milli íbúanna og ríkisins standa yfir.
Kjarninn 14. ágúst 2022
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands birti samkomulag um sátt við FX Iceland í liðinni viku.
Fékk 2,7 milljóna króna sekt fyrir margháttuð og alvarleg brot á peningaþvættislögum
Annmarkar voru á flestum þáttum starfsemi gjaldeyrisskiptamiðstöðvar sem hóf starfsemi snemma árs 2020. Fyrirtækið stundaði meðal annars áfram viðskipti við aðila eftir að peningaþvættiseftirlitið hafði sent tilkynningu um grunsamleg viðskipti þeirra.
Kjarninn 13. ágúst 2022
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar