Þrátt fyrir sögulegan pólitískan stöðugleika, sérstaklega ef miðað er við lönd í sunnanverðri Evrópu, ganga Portúgalar að kjörkössum á sunnudag, einu og hálfu ári á undan áætlun. Forseti Portúgals, Marcelo Rebelo de Sousa, leysti upp þingið og boðaði til kosninga seint á síðasta ári eftir að Sósíalistaflokkur Antonio Costa náði ekki að koma fjárlögum í gegnum þingið.
Ástæðan fyrir því að fjárlagafrumvarpið var fellt í þinginu er sú að Kommúnistaflokkurinn og vinstri blokkin, sem stóðu á bak við minnihlutastjórn Sósíalistaflokksins, studdu það ekki. Þetta var í fyrsta sinn sem fjárlagafrumvarp er fellt í Portúgal síðan lýðræði var tekið upp í landinu 1974 - þegar landið losnaði undan hinu fasíska Estado Novo (Nýja Ríkinu), sem stýrt var af einræðisherranum Antonio Salazar.
Sósíalistar dala í skoðanakönnunum
Fylgi við flokk Antiono Costa hefur dalað í skoðanakönnunum undanfarnar vikur, úr 39% fylgi niður í 37%, en flokkurinn fékk 36,4% í síðustu kosningum. Helsti andstæðingur Sósíalistaflokksins, Sósíaldemókratar, bæta við sig fylgi og fara úr rúmum 27 í síðustu kosningum í 33%. Sósíalistar eiga því langt í land með að ná meirihluta þingsæta, en til þess þarf á bilinu 42-45% atkvæða samkvæmt portúgölskum lögum. Á sama tíma hefur Vinstri blokkin misst eitt prósentustig af fylgi sínu frá því síðustu skoðanakönnun og mælist nú með sama fylgi og Kommúnistaflokkurinn, eða 5%. Margir telja að kjósendur muni refsa þessum tveimur vinstri flokkum fyrir að steypa minnihlutastjórninni.
Antonio Costa er þó af flestum talinn hæfari leiðtogi en formaður Sósíaldemókrata, Rui Rio, en sundrung hefur ríkt innan flokksins undanfarin ár. Þrisvar sinnum á síðustu fjórum árum hafa meðlimir Sósíaldemókrata reynt að steypa honum úr formannsstóli án árangurs en margir hafa kallað eftir því að hann verði róttækari gagnvart Antonio Costa og Sósíalistum.
„Costa er fæddur leiðtogi og í augum kjósenda er hann betur undirbúinn en Rui Rio,“ sagði stjórnmálafræði prófessorinn Marina Costa Lobo í samtali við France 24.
Chega komið með nóg
Það sem vekur sérstaka athygli er að tiltölulega nýr stjórnmálaflokkur, Chega (sem þýðir „Nóg“) gæti bætt við sig allt að 9 nýjum þingmönnum en flokkurinn fékk ekki nema eitt af 230 þingsætum í síðustu kosningum og yrði því þriðji stærsti flokkurinn í Portúgal samkvæmt skoðanakönnunum. Chega hallast mikið til hægri miðað við aðra portúgalska stjórnmálaflokka og hafa sumir stjórnmálaskýrendur gengið svo langt að kalla hann öfga-hægriflokk. Ólíkt því sem gerst hefur í mörgum öðrum Suður-Evrópuríkjum hefur öfga-hægristefna ekki náð fótfestu í landinu fyrr en nú.
Erfitt er að útskýra nákvæmlega af hverju þessi popúlíski flokkur er að fá slíkan meðbyr en stjórnmálaskýrendur telja að það megi rekja til ýmissa þátta. Lokun veitingastaða og samdráttur í atvinnulífinu hefur eflaust haft sitt að segja. Á sama tíma hefur borið á nostalgíu, aðdáun á fyrri tímum þegar að Portúgal átti nýlendur og var talið heimsveldi. „Guð, land, fjölskylda og atvinna,“ er slagorð Chega, en margir hafa illan bifur á slagorðinu og minna á að í Nýja Ríki Salazar var það „Guð, land og fjölskylda“.
Formaður Chega, André Ventura, er því verulega umdeildur. Flokkurinn telur fátæka minnihlutahópa vera á spena portúgölsku millistéttarinnar og því verði að ljúka, segir André Ventura. Sjálfur var hann nýlega kærður fyrir að kalla portúgalska fjölskyldu af afrískum uppruna „glæpagengi“ en fjölskyldan var fest á mynd með forseta Portúgals. Chega brást við þessum ásökunum með mótmælum undir nafninu „Portúgal er ekki rasískt land“ þar sem því var haldið fram að vinstri vængurinn í portúgölskum stjórnmálum notaði rasisma sem verkfæri til að grafa undan Chega. Þrátt fyrir þennan aukna meðbyr innan Portúgal búast fáir við því að aðrir flokkar vilji mynda stjórnarmeirihluta með Chega, þrátt fyrir að Sósíaldemókratar hafi þó ekki staðfest það. .
Nýlega sagði André Ventura í ræðu sem hann flutti að það „yrði ekki mynduð ríkisstjórn til hægri án Chega.“. André Ventura er fyrrverandi félagi í flokki Sósíaldemókrata en hann sagði sig úr flokknum árið 2018 og stofnaði Chega. Sjálfur bauð hann sig fram til forseta í fyrra og hlaut um það bil 12% atkvæða.
Erfitt að mynda ríkisstjórn
Því gæti það reynst flokkunum á portúgalska þinginu erfitt að mynda ríkisstjórn. Antonio Costa sjálfur segist ætla að mynda stjórn með hjálp minni stjórnmálaflokka en stjórnmálaskýrendum í Portúgal þykir það fjarlægur möguleiki án hjálpar frá Kommúnistaflokknum og vinstri blokkinni. Antonio Costa hefur hafnað því að mynda bandalag með þeim aftur. Þarf hann því að leita til enn minni flokka, eins og græna flokksins PAN sem mælist með 2% atkvæða samkvæmt skoðannakönnunum. Frjálslyndi flokkurinn IL mælist með 5% atkvæða meðan að hægri flokkurinn CDS-PP og Græningjaflokkurinn L mælast báðir með um 2% atkvæða.
Búist er við dræmri kjörsókn en einungis 48.6% kjósenda kusu í síðustu kosningum, 7,2% færri en kusu árið 2015 og gæti Covid-19 faraldurinn spilað þar inn í. Rétt eins og annars staðar í heiminum hefur Portúgal þurft að glíma við Omíkron-afbrigðið sem gæti haft enn frekari áhrif á kosningaþátttöku þrátt fyrir að landið sé með eitt hæsta bólusetningarhlutfall í heimi. Þegar þetta er skrifað eru samt sem áður um það bil 600.000 manns í einangrun eða sóttkví en þeim verður þó leyft að mæta á kjörstaði milli klukkan 18:00 og 19:00 á kjördag. Meira en 300.000 manns hafa skráð sig til að kjósa í utankjörfundaratkvæðagreiðslu, en þær hófust sunnudaginn 23. janúar.