Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, fór fram í 66. sinn um síðustu helgi, að þessu sinni í Tórínó á Ítalíu. Allt var eins og það átti að vera: Fjörug framlög þar sem öllu var til tjaldað, kraftmiklar ballöður, búningaskipti, vandræðalegir kynnar og Eurovision-hækkarnir (sem voru reyndar óvenju fáar í ár). Og svo má ekki gleyma pólitíkinni sem var svo sannarlega til staðar í ár.
Sigur Úkraínu í Eurovision kom fáum, ef einhverjum, á óvart. Úkraínu hafði verið spáð sigri af veðbönkum frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst 24. febrúar. Úkraína hafði þá þegar valið framlag, lagið Stefania í flutningi þjóðlaga-rappsveitarinnar Kalush Orchestra.
„Hvers konar sigur, frá hvaða hlið sem er, skiptir Úkraínu miklu máli,“ sögðu liðsmenn Kalush Orchestra þegar þeir lyftu glerhljóðnemanum á loft. Sigurinn þykir gríðarlega táknrænn, hann sýnir ótvíræðan stuðning Evrópubúa við Úkraínu og kröfu þeirra um að stríðinu í Úkraínu ljúki sem fyrst. En þessi ótvíræði stuðningur sannar líka það sem löngum hefur verið þrætt fyrir: Eurovision er pólitísk keppni.
Enginn samúðarsigur
Úkraína fékk 631 stig í heildina, þar af 438 stig í símakosningunni, af 480 mögulegum. Það þýðir að nánast hvert einasta land af þeim 40 sem tóku þátt i símakosningu, fyrir utan sjálfa Úkraínu sem ekki gat kosið eigið land, gáfu Úkraínu 12 stig.
Aðeins Salvador Sobral, sem sigraði með framlagi Portúgala árið 2017, hefur fengið fleiri stig, 758, eftir að núgildandi stigagjöf var tekin í notkun árið 2016 þar sem stig dómnefnda eru aðskilin frá stigum úr símakosningu og tilkynnt í sitthvoru lagi til að auka spennu í keppninni.
En Úkraína sló metið í fjölda stiga í símakosningu en Sobral átti einmitt fyrra metið, 376 stig. Samstaðan í stigagjöfinni vakti verðskuldaða athygli, meðal annars hjá fyrrverandi Eurovision-faranum Páli Óskar Hjálmtýssyni, sem deildi mynd á Facebook daginn eftir sigur Úkraínu þar sem sjá má hvernig atkvæðin féllu. „Þetta er það fallegasta sem ég fæ að sjá í dag,“ skrifaði Páll Óskar í færslu sinni..
Sigur Úkraínu er enginn samúðarsigur. Úkraína hefur átt góðu gengi að fagna í keppninni frá því landið tók fyrst þátt árið 2003 og er í hópi örfárra landa sem hafa alltaf komist áfram á úrslitakvöldið eftir að slíkt fyrirkomulag var tekið upp árið 2004. Það ár vann Úkraína einmitt keppnina þegar Ruslana tryllti Evrópu með „Wild Dances“. Úkraína hrósaði aftur sigri árið 2016 þegar Jamala flutti lagið „1944“ en sigurinn í ár er sá táknrænasti. Gengi Úkraínu í keppninni er um margt áhugaverður en landið er það fyrsta á þessari öld sem vinnur keppnina þrisvar sinnum og fyrsta Austur-Evrópuþjóðin sem tekst það frá upphafi.
„Eurovision er ópólitísk keppni“
Skipuleggjendur Eurovision hafa frá upphafi lagt áherslu á að Eurovision sé ópólitísk keppni og að tilgangur hennar sé að sameina Evrópu, ekki sundra. Pólitíkin hefur þó aldrei verið langt undan. Þátttaka Ísraels hefur til að mynda orðið umdeildari með tímanum og þekkt er orðið þegar liðsmenn Hatara, sem kepptu fyrir Íslands hönd fyrir þremur árum, drógu upp trefla í fánalitum Palestínu í græna herberginu. RÚV var í kjölfarið sektað um 5000 evrur af Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU). Upphæðin nam um 700 þúsund krónum á þeim tíma og er lágmarkssekt sem EBU leggur á sjónvarpsstöðvar gerist þær brotlegar við reglur keppninnar.
Systur, sem fluttu framlag Íslands í ár, voru með úkraínska fánann á hljóðfærum sínum við, veifuðu fánanum í græna herberginu, lýstu yfir stuðningi við Úkraínu að loknum flutningi sínum og Elín Eyþórsdóttir, ein systranna, var með úkraínsku fánalitina málaða á handarbakið sem sást glögglega í flutningnum. Það þótti hins vegar ekki tilefni til sektar að þessu sinni, þar sem Úkraína er ekki flokkuð, samkvæmt reglum keppninnar, sem landsvæði sem ágreiningur ríkir um (e. Contested territory), ólíkt Palestínu.
Þar fyrir utan hefði það reynst EBU ómögulegt að ætla að sekta alla keppendur sem sýndu Úkraínu stuðning. Keppnishaldarar virtust auk þess setja tóninn í upphafi kvölds þegar upphafsatriðið var lag eins þekktasta friðarsinna síðustu aldar, Johns Lennon, „Give Peace a Chance“.
Hávær krafa um endurskoðun pólitískra reglna
Í reglum keppninnar segir meðal annars að Eurovision sé „ópólitískur viðburður“ og að allar sjónvarpsstöðvar sem senda þátttökuþjóðir, þar á meðal þjóðin sem heldur keppnina, verði að ábyrgjast að pólitískum skilaboðum verði ekki komið á framfæri af flytjendum. Engin leið var að virða þessa klausu í keppninni í ár sökum stríðsins í Úkraínu og heyrast nú háværar raddir þess efnis að EBU endurskoði pólitískar reglur og gildi keppninnar.
Sama hvort það verði gert af alvöru eða ekki þá sýnir afgerandi sigur Úkraínu í keppninni í ár að Evrópubúar eru tilbúnir að nota menningarlegan vettvang til að senda pólitísk skilaboð. Og það virkaði í þetta skipti.
En sigur Úkraínu vekur upp margar pólitískar spurningar um keppnina að ári. Hvar verður hún haldin? Volodomír Zelenskí, forseti Úkraínu, vill að keppnin verði haldin í Mariupol, borg sem rússneskar hersveitir hafa nánast lagt í rúst. Zelenskí lofar því að eftir ár verði borgin „frjáls, friðsæl og endurbyggð.“
Verði það ekki möguleiki verður þó lítið mál að finna samastað fyrir keppnina en Ítalir eru í góðri æfingu eftir keppnina í ár og hafa boðist til að halda hana aftur að ári. Þá hafa Svíþjóð og Spánn einnig boðist til að halda Eurovision 2023.