Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur beðist afsökunar á að hafa verið viðstaddur um þrjátíu manna veislu í Downingstræti 10, 20 maí 2020, þegar útgöngubann vegna útbreiðslu COVID-19 var í gildi. Veisluhöldin fóru fram í garði Downingstræti og var hundrað boðsgestum meðal annars bent á að „hafa eigið áfengi meðferðis til að njóta góða veðursins eins best væri á kosið“. Um 30 manns þekktust boðið, þar á meðal Johnson sjálfur og Carrie Johnson, eiginkona hans.
Johnson sagðist skilja reiði almennings á þátttöku hans í veisluhöldunum en hann sagðist hafa verið sannfærður um að „um vinnutengdan viðburð hafi verið að ræða“.
Rannsókn Sue Gray, sérstaks saksóknara, felst í að meta eðli og tilgang veisluhaldanna ásamt því að taka saman hverjir voru viðstaddir. Um innri rannsókn er að ræða frekar en sjálfstæða rannsókn og er hún fyrirskipuð af Johnson sjálfum. Krafist er hlutleysi af hálfu Gray og ber henni að skila niðurstöðum sínum til forsætisráðherra.
Auglýsing
16 samkomur á vegum stjórnvalda til skoðunar
Sue Gray er eins og gefur að skilja ein umtalaðasta manneskjan í breskum fjölmiðlum þessa dagana. Gray starfar á vegum ríkisstjórnarinnar og því hefur hæfi hennar verið dregið í efa. Hún hefur sinnt starfi sínu um árabil og unnið bæði með Íhaldsflokknum og Verkamannaflokknum.
Í desember tók Gray við af Simon Case sem sérstökum saksóknara, sem sagði af sér eftir að upp komst um gleðskap sem haldinn var á skrifstofu hans á tímum samkomutakmarkana. Rannsókn Gray beinist einmitt að fleiri samkomum en einungis garðveislunni eða gleðskap á skrifstofu fyrrverandi sérstaks saksóknara. Alls er um sextán samkomur að ræða en tímalína veisluhalda á vegum stjórnvalda á tímum samkomutakmarkana er á þessa leið:
10. maí 2020:
Boris Johnson kynnir fyrstu skref afléttinga eftir útgöngubann sem hafði verið í gildi frá því í mars. Hann ráðlagði almenningi hins vegar að fara áfram eftir reglum um fjarlægðartakmarkanir og til að framfylgja þeim reglum var komið á sektum „fyrir þann smáa minnihluta sem brýtur þær“. Samkvæmt gildandi reglum mátti aðeins fara út fyrir hússins dyr af brýnni nauðsyn og aðeins mátti hitta eina manneskju utandyra.
15. maí 2020:
Mynd sem tekin var fyrr í mánuðinum sýnir forsætisráðherrann og starfsfólk hans gæða sér á víni og ostum í garði Downingstrætis. Aðspurður sagði Johnson að þarna hafi verið á ferðinni fólk á vinnutíma að tala um vinnutengd mál.
20. maí 2020:
Um 100 manns var boðið í garðveislu í Downingstrætií boði forsætisráðherra og einkaritara hans, Martin Reynolds. Um 30 manns mættu, þar á meðal Boris Johnson, sem hefur viðurkennt að hafa verið viðstaddur í um 25 mínútur og að hann hafi talið að „um vinnutengdan viðburð“ hafi verið að ræða.
5. nóvember 2020:
COVID-19 smitum fer fjölgandi og Johnson biður fólk „enn á ný að halda sig heima“. Útgöngubann tekur aftur gildi.
13. nóvember 2020:
BBC hefur eftir heimildamönnum að starfsfólk Downingstrætis hafi komið saman ásamt Carrie Johnson í íbúð hjónanna. Talsmaður Johnson þvertekur fyrir að samkoman hafi átt sér stað.
27. nóvember 2020:
Kveðjuhóf í tilefni af starfslokum Cleo Watson, starfsmanni Downingstrætis. Áfengi var haft um hönd og Johnson hélt ræðu að sögn heimildamanna.
10. desember 2020:
Menntamálaráðuneytið viðurkenndi að hafa haldið gleðskap til að þakka starfsfólki fyrir verðugt framlag í heimsfaraldrinum. Drykkir og léttar veitingar voru í boði en engir gestir aðrir en starfsfólk ráðuneytisins voru leyfðir. Útgöngubanni var aflétt 2. desember en fleiri en tveir máttu ekki koma saman.
14. desember 2020:
Íhaldsflokkurinn viðurkennir að hafa haldið „óheimila samkomu“ á skrifstofu flokksins í Westminster.
15. desember 2020:
Sunday Mirror birtir mynd frá „jólaspurningakeppni“ sem haldin var fyrir starfsfólk Downingstrætis. Þegar Johnson var spurður út í viðburðinn um ári seinna sagðist hann ekki hafa brotið neinar reglur en að atvikið væri til skoðunar.
17. desember 2020:
Annað kveðjuhóf, nú til að kveðja yfirmann Covid-aðgerða.
16. apríl 2021:
Enn og aftur er um kveðjuhóf starfsmanna Downingstrætis að ræða. Í þetta sinn tvö talsins og er umrætt kvöld kvöldið fyrir útför Filippusar drottningarmanns. Samkvæmt reglunum var óheimilt að umgangast annað fólk innandyra að undanskildum þeim sem búa á sama heimili. Leyfilegt var að koma saman utandyra í sex manna hópum.
20. desember 2021:
Johnson þvertekur fyrir veisluhöld í Downingstræti 15. maí 2020, þegar útgöngubann var í gildi. „Ég á heima hér og ég starfa hér. Þetta voru fundir á vinnutíma sem fjölluðu um vinnuna.“
Ekki í verkahring Gray að meta lögbrot
Gray hefur rætt við sitjandi og fyrrverandi þingmenn, meðal annars Dominic Cummings, fyrrverandi ráðgjafa Johnson, sem segist hafa varað hann við því að veisluhöldin brytu gegn gildandi reglum. Sjálfur hefur Johnson sagt að hann hafi ekki verið varaður við og því ekki verið meðvitaður um möguleg brot þar sem hann taldi að um vinnutengdan viðburð var að ræða.
Johnson sagði í afsökunarbeiðni sinni fyrir þinginu í síðustu viku að hann væri reiðubúinn að ræða við Gray um aðkomu sína að veisluhöldunum. Ráðherrar í stjórn Johnson, sem og hann sjálfur, hafa óskað eftir því við þingmenn Íhaldsflokksins að þeir bíði eftur skýrslu Gray áður en framtíð Johnson hjá flokknum, eða í stjórnmálum almennt, verði tekin.
Búast má við að skýrsla Gray verði almenn samantekt á atburðarásinni frekar en að ásakanir á hendur ákveðnum einstaklingum um sóttvarnabrot verði settar fram. Það verður því ekki í höndum Gray að meta hvort lög hafi verið brotin. Niðurstöður skýrslunnar geta hins vegar leitt til þess að einstaklingum verði birtar ákærur um brot á sóttvarnalögum.