Evrópusambandsríkin standa ráðþrota frammi fyrir flóttamannastraumnum frá Afríku og löndum fyrir botni Miðjarðarhafs og tókst ekki að ná samkomulagi um aðgerðir á átakafundi í Brussel fyrir helgi. Angela Merkel kanslari Þýskalands segir þetta erfiðasta úrlausnarefni sem hún hafi staðið frammi fyrir síðan hún tók við kanslaraembættinu fyrir tíu árum. Vandi ESB-ríkjanna virðist þó lítill samanborið við Tyrkland en þar eru nú um þrjár milljónir flóttafólks.
Í maí lagði Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins það til, með óformlegum hætti að aðildarríki ESB myndu taka á móti 20 þúsund manns sem dvelja í flóttamannabúðum Sameinuðu Þjóðanna utan Evrópu og að ESB ríkin myndu jafnframt skuldbinda sig til að taka á móti, eftir eins konar kvótakerfi, þeim 40 þúsund flóttamönnum frá Sýrlandi og Eritreu sem hafast við á Ítalíu og í Grikklandi. Þessi óformlega tillaga Framkvæmdastjórnarinnar féll í grýttan jarðveg, fulltrúar marga aðildarríkja ESB höfðu í apríl, þegar hugmyndin var fyrst rædd, sagt að ekki kæmi til greina að fallast á slíkt fyrirkomulag. Löndin yrðu að sjálf að ráða hve mörgu fólki þau gætu, og vildu, taka á móti.
Átakafundur
Framkvæmdastjórnin sat þó við sinn keip og tillagan var rædd á fundi leiðtoga Evrópusambandsríkjanna á fundi sem haldinn var í Brussel á fimmtudaginn og stóð fram á nótt. Þótt þjóðarleiðtogarnir séu alla jafna orðvarir og gæti fyllstu kurteisi i samskiptum sínum var þó annað upp á teningnum að þessu sinni. Hörð orð voru látin falla og meðal annars hafði ítalski forsætisráðherrann Matteo Rensi harðlega gagnrýnt það samstöðuleysi sem einkenndi fundinn og spurði hvort þetta væri sú Evrópa sem alla dreymdi um. „Hver höndin upp á móti annarri og hver og einn hugsar bara um sig,“ sagði ítalski forsætisráðherrann og var heitt í hamsi. Aðrir lýstu óánægju sinni með að framkvæmdastjórnin kæmi fram með tillögu sem vitað væri að ekki yrði samþykkt. Meðal þeirra landa sem ekki vildu fallast á að taka á móti tilteknum fjölda flóttafólks (kvótakerfi) voru Bretland, Tékkland, Litháen og Spánn. Í hópi þeirra sem gjarna vildu slíka skuldbindingu voru Ítalía, Svíþjóð, Austurríki, Belgía og Holland. Danir eru með fyrirvara varðandi mál flóttafólks og taka því ekki afstöðu í málum af þessu tagi.
Hvert land fyrir sig ákveður fjöldann
Niðurstaða fundarins varð sú að hvert land fyrir sig ákveður fjölda þess flóttafólks sem tekið verður á móti. Leiðtogarnir samþykktu að þeir 40 þúsund flóttamenn (hælisleitendur) sem nú eru á Ítalíu og í Grikklandi ásamt 20 þúsund manns sem dvelja í flóttamannabúðum Sameinuðu þjóðanna fái leyfi til að setjast að í löndum Evrópusambandsins en nánari útfærsla var ekki ákveðin. Þetta á að gerast á næstu tveimur árum. Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnarinnar, kallaði þessa niðurstöðu „takmarkaðan árangur“ þegar hann ræddi við fréttamenn eftir fundinn.
Ungverjar hafa í hótunum
Fyrr í vikunni hótuðu Ungverjar að hætta skráningu flóttafólks sem þangað kæmi en þeir myndu einfaldlega senda það áfram til annarra Evrópulanda. Þegar þessar fréttir bárust reiddust Austurríkismenn og hótuðu að þeir myndu þá gera slíkt hið sama. Ungverjar tilkynntu þá að þeir sem ESB ríki myndu í einu og öllu fylgja reglum Evrópusambandsins en greindu hinsvegar frá því að þeir myndu reisa fjögurra metra háan vegg á landamærunum að Serbíu.„Við getum ekki beðið eftir að Evrópusambandið finni lausnir“ sagði ungverski utanríksiráðherrann Péter Szijjártó þegar hann tilkynnti þessa ákvörðun. Frakkar hafa lokað landamærum sínum að Ítalíu, þeir saka Ítali um að senda flóttafólk til Frakklands án þess að skrá það eins og reglur ESB gera ráð fyrir.
ESB fréttamaður Danska útvarpsins sagði í viðtali við dagblaðið Berlingske að sannleikurinn væri sá að leiðtogar Evrópusambandsins vissu ekki sitt rjúkandi ráð og stæðu nánast ráðþrota frammi fyrir vandanum. Það segði allt um ástandið að Angela Merkel Þýskalandskanslari hefði sagt við fréttamenn að þetta verkefni væri það erfiðasta sem hún hafi staðið frammi fyrir á þeim tíu árum sem hún hefur gegnt kanslaraembættinu. „Erfiðara en efnahagskreppan“ spurði þýskur fréttamaður. „Miklu erfiðara“ var svar kanslarans.
Þrjár milljónir flóttafólks í Tyrklandi
Flóttamannavandi Evrópusambandsríkjanna bliknar þó í samanburði við Tyrkland. Skrifstofustjóri í tyrkneska utanríkisráðuneytinu sem var í Kaupmannahöfn fyrir nokkrum dögum sagði fréttamönnum að í Tyrklandi væru tvær milljónir flóttafólks frá Sýrlandi og mörg hundruð þúsund til viðbótar frá Írak, Afganistan og fleiri löndum. Samtals um þrjár milljónir.
„Við erum í standandi vandræðum og vitum ekkert hvað við eigum að gera og getum gert“ sagði skrifstofustjórinn. Hann fullyrti að kostnaður Tyrkja vegna flóttafólksins næmi 42 milljörðum danskra króna (833 milljörðum íslenskum) og sú aðstoð sem Tyrkir hafa fengið frá öðrum ríkjum næmi aðeins fimm til sex prósentum af þeim kostnaði. „Við Tyrkir viljum auðvitað gera allt sem við getum fyrir þetta fólk, sem leitar hingað en getum ekki einir og óstuddir tekist á við þetta gríðarmikla verkefni“ sagði skrifstofustjórinn. Hann benti jafnframt á að ríkisstjórnir í Evrópu hefðu mörg orð um nauðsyn þess að flóttafólk dvelji sem næst heimalandinu og auk þess sé það ódýrara.
„Þetta er gott og blessað en þá þurfa líka þær þjóðir sem fjær búa að aðstoða þær þjóðir sem takist á hendur það erfiða hlutverk að skjóta skjólshúsi yfir flóttafólkið. Það hefur bara ekki gerst, við sitjum uppi með vandann“ sagði tyrkneski skrifstofustjórinn. Hann benti líka á að í Sýrlandi hefðu um sjö milljónir fólks, fyrir utan þá sem hafa flúið land, hrakist frá heimilum sínum og væri á vergangi. Ekki væri ósennilegt að stór hluti þessa hóps myndi reyna að komast til Tyrklands. „Slíkt yrði okkur Tyrkjum algjörlega ofviða“ sagði skrifstofustjórinn og bætti við „Því miður hillir ekki undir neina lausn í Sýrlandi og við Tyrkir getum ekki annað en biðlað til annarra ríkja um aðstoð. Öðruvísi getum við ekki risið undir ábyrgðinni“.