Bandaríkjamenn boðuðu í síðustu viku frekara viðskiptabann gegn Rússum en á “nýja” bannlistanum er meðal annars að finna rússneska einstaklinga og rússnesk fyrirtæki sem sökuð eru um að hafa brotið gegn NPT-sáttmálanum svokallaða með aðkomu sinni að útbreiðslu á kjarnavopnum til Írans, Norður-Kóreu og Sýrlands.
Í fréttatilkynningu frá rússneska utanríkisráðuneytinu, sem birt var í rússneskum fjölmiðlum fljótlega eftir að nýjasta útspil Bandaríkjamanna var kunngjört, eru aðgerðir Bandaríkjamanna fordæmdar og ennfremur ítrekað að Rússar muni svara í sömu mynt.
Rússnesk stjórnvöld gera sér raunar engar grillur um að viðskiptabönn -og viðskiptaþvinganir Bandaríkjamanna og Evrópusambandsins séu á undanhaldi á næstunni. Þvert á móti telja Rússar mun meiri líkur á því að frekari viðskiptabönn séu á döfinni ef marka má orð Sergei Ryabkov, aðstoðar utanríkisráðherra Rússlands. “Við reiknum með því að viðskiptabönnin séu komin til að vera til lengri tíma og munu eflaust færast í aukana. Það gerir alla vega enginn hér í utanríkisráðuneytinu ráð fyrir því að viðskiptabönnin verði dregin til baka í bráð,” sagði Ryabkov í viðtali við TASS fréttastofuna á miðvikudag.
Utanríkisráðuneyti Rússlands í Moskvu, er tilkomumikil bygging. Mynd: Ómar.
Hertar aðgerðir rússneskra stjórnvalda
Rússnesk stjórnvöld hafa undanfarið jafnt og þétt verið að auka eftirlit og þyngja refsiaðgerðir gegn ólöglegum innflutningi á matvælum sem hafa verið bönnuð í kjölfarið á viðskiptabönnum sem sett voru ágúst 2014 og svo frekar útvíkkuð í ágúst síðastliðnum.
Dúman, neðri deild rússneska þingsins, er meðal annars sögð vera að undirbúa lagasetningu sem mun þyngja til muna dóma gegn smyglurum sem gerast sekir um ólögmætan innfluttning á vestrænum matvælum. Samkvæmt heimildum rússneska dagblaðsins Izvestia mun refsingin fyrir dæmda smyglara hljóða upp á allt að tólf ár í fangelsi.
Fregnir bárust svo af því í rússneskum fjölmiðlum í lok ágúst að rússneska lögreglan hafi náð að handsama alþjóðlegan hóp smyglara sem hafði verið að flytja inn osta sem eru á bannlista, til sölu í Moskvu og Pétursborg. Rússnesk yfirvöld lögðu hald á tæplega 500 tonn af ólöglegum osti sem var samkvæmt reglum í Rússlandi eyðilagður af matvælastofnuninni Rosselkhoznadzor.
Reiði vegna eyðileggingar matvæla
Rosselkhoznadzor hóf skipulagða eyðileggingu á innfluttum matvælum sem brjóta gegn viðskiptabanni Rússa þann 6. ágúst síðastliðinn eftir tilskipun frá Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Á heimasíðu Rosselkhoznadzor má sjá skýrslur yfir hversu miklu magni af ólöglegum matvælum hafi verið eytt tiltekna daga síðan aðgerðirnar hófust.
Alexander Tkachev, landbúnaðarráðherra Rússlands, fullyrti í nýlegu viðtali við sjónvarpsstöðina Rossiya 24 að hertar aðgerðir stjórnvalda væru að skila tilsettum árangri. “Aðgerðirnar miðuðu fyrst og fremst að því að vernda heilsu almennings í Rússlandi gegn varningi sem er bæði ólöglegur og óvottaður af rússneskum eftirlitsstofnunum. Ennfremur reiknuðum við með því að hertar aðgerðir myndu valda því að smyglararnir myndu draga úr ólöglegum innfluttningi sínum vegna aukinnar hættu á að verða fyrir fjárhagslegu tjóni og það virðist einmitt vera raunin. Á rétt rúmum mánuði hefur tilfellum af ólöglegum innfluttningi tífalt fækkað og því mun minna af ólöglegum vörum sem þarf að eyðileggja,” sagði Tkachev.
Aðgerðirnar sem slíkar hafa aftur á móti vakið hörð viðbrögð meðal almennings í Rússlandi sem finnst illa farið með matvælin, þótt ólögleg séu. Í því samhengi nægir að minnast vöruskortsins og taumlausra verðhækkanna sem margir Rússar bjuggu við á tímum fyrir fall Sovétríkjanna. Ennfremur lifa nú til dags um fjórtán prósent íbúa í Rússlandi undir fátækramörkum, samkvæmt áætluðum útreikningum Alþjóðabankans.
Á meðal mótvægisaðgerða almennings má nefna undirskriftasöfnun sem aktivistinn Olga Savelieva efndi til á vefsíðunni change.org - en þar hafa nú þegar rúmlega fjögur hundruð þúsund manns skorað á Rússlandsforseta að fella niður lög um eyðileggingu ólöglegra matvæla og gefa þau þess í stað til fátækra og annarra sem minna mega sín í Rússlandi.
Dorogomilovsky-markaðurinn er einn af ótal mörgum útimörkuðum í Mosvku þar sem gera má góð kaup á ýmsum matvælum. Jafnvel kemur fyrir að bönnuð matvæli séu þar á boðstólunum enda erfitt að vera með fullt eftirlit á slíkum stöðum. Í bakgrunni má sjá háar byggingar viðskiptahverfis borgarinnar. Mynd: Ómar.
Biðla til almennings um aðstoð við eftirlit
Þrátt fyrir ágreining um hvað skuli gera við hin ólöglegu matvæli þá hafa rússnesk stjórnvöld engu að síður biðlað til almennings í Rússlandi um aðstoð í baráttunni gegn ólöglegum innflutningi og sölu á hinum bönnuðu vestrænu matvælum.
Þannig hafi rússneskir eftirlitsaðilar oft staðið í ströngu við að hafa upp á vörum frá löndum sem eru í viðskiptabanni þar sem vörurnar komi inn til Rússlands á fölsuðum pappírum í gegnum þriðja aðila. Það er að segja land sem er ekki á bannlista Rússa. Þá geti einnig reynst erfitt fyrir eftirlitsaðila að hafa hemil á sölu á ólöglegum vörum á hinum fjölmörgu útimörkuðum í Rússlandi sem búa ekki við sömu rekstrarkröfur og matvöruverslanirnar.
Opnað hefur því verið fyrir vaktstöðvar sem taka símleiðis við ábendingum um sölu á ólöglegum matvælum og Rússar hvattir á þjóðernislegum nótum til að leggja sitt af mörkum. Stjórnvöld hafa þannig gefið almenningi í Rússlandi rullu í baráttunni gegn vestrinu. Á sama tíma og höfðað er til neytenda að velja frekar rússneskar vörur og efla þar með innlenda framleiðslu.
Camembert frá Krasnodar og Parmesan frá Pétursborg
Þegar rússnesk stjórnvöld boðuðu viðskiptabann á völdum vestrænum matvælum var talað um að aðgerðirnar myndu veita innlendum landbúnaði svigrúm til þess að blómstra. Sérstaklega áttu aðgerðirnar að vera jákvæðar fyrir rússneska ostaframleiðendur því á meðal matvöru á bannlista voru franskir Camembert ostar og ítalskir Parmesan -og Mozzarella ostar.
Staðreyndin er reyndar sú að mikil vöruþróun og framleiðniaukning hefur átt sér stað hjá innlendum ostaframleiðendum síðan viðskiptabannið skall á, samkvæmt tölfræði rússnesku hagstofunnar Rosstat. Þar kemur fram að fjórfalt fleiri tegundir af rússneskum ostum séu nú framleiddar miðað við það sem var fyrir viðskiptabannið. Þá var framleiðniaukning á rússneskum ostum upp á tæplega þrjátíu prósent fyrir fyrstu fjóra mánuðina árið 2015 samanborið við fyrstu fjóra mánuðina árið 2014.
Ekki eru þó allir sammála um að uppsveifluna í innlendri ostaframleiðslu megi rekja beint til viðskiptabannsins. Mennta -og rannsóknarstofnunin RANEPA hefur meðal annars bent á að fall rúblunnar sé raunar miklu líklegri skýring á framleiðslu -og söluaukningu á rússneskum ostum. Neytendur í Rússlandi hafi nú einfaldlega mun minna milli handana vegna kreppunnar og velji því frekar ódýrari rússneska framleiðslu heldur en innfluttar vörur sem undanfarið hafa rokið upp í verði.
Mikil uppsveifla hefur átt sér stað í bæði vöruþróun -og framleiðslu á rússneskum ostum undanfarið. Hér má sjá Camembert ost sem framleiddur er í Krasnodar og Parmesan ost frá Pétursborg í Rússlandi. Mynd: Ómar.
Það verður þó ekki horft framhjá því að viðskiptabannið hafi vissulega hjálpað innlendum ostaframleiðendum, sem og öðrum innlendum framleiðendum landbúnaðarvöru, að styrkja markaðsstöðu sína í Rússlandi. Það verður hins vegar fróðlegt að sjá hvað gerist ef rúblan styrkist og/eða viðskiptabanni á erlendum landbúnaðarvörum verði aflétt. Hvort innlend landbúnaðarframleiðsla í Rússlandi muni þá hrynja jafn fljótt og hún hefur rokið upp? Hvernig sem því líður þá er í augnablikinu fátt sem bendir til þess að viðskiptabönnum verði aflétt í bráð. Gjáin á milli austurs og vesturs virðist raunar heldur vera að breikka.
Höfundur er sagn- og viðskiptafræðingur, búsettur í Moskvu.