Finnar hrósa sér iðulega af því að þeir séu óspillt þjóð enda hafa þeir, í mörgum könnunum, á undanförnum árum, oftar en ekki verið í hópi þeirra þjóða þar sem spilling er talin minnst. Þess vegna hrökk finnska þjóðin illilega við, fyrir tæpum tveim árum, þegar Jari Aarnio einn af æðstu yfirmönnum lögreglunnar í Helsinki var handtekinn. Ástæða handtökunnar var hvorki sú að hann hefði hnuplað sultukrukku í verslun né ekið yfir gatnamót á rauðu ljósi. Þessi laganna vörður var nefnilega grunaður um að vera umsvifamikill fíkniefnasali. Segja má að hann hafi þekkt vel til í fíkniefnaheiminum því hann var yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar, virtur maður innan stéttarinnar og hafði fengið opinberar viðurkenningar fyrir störf sín í þágu samfélagsins.
Símahleranir og sms skilaboð leiddu til handtökunnar
Finnska lögreglan hafði um margra mánaða skeið fylgst með símtölum og sms sendingum tveggja manna vegna viðskipta með fíkniefni. Lögreglan vissi vel hver annar mannanna, kaupandinn, var en gekk mjög illa að finna út hver seljandinn væri, sá sem útvegaði efnin. Innan fíkniefnadeildarinnar var hann kallaður „Sá snjalli“. Dagblaðið Helsinki Times hefur eftir ónafngreindum lögreglumanni að starfsmenn fíkniefnadeildarinnar hafi staðið agndofa þegar þeir komust að því að „Sá snjalli“ var yfirmaður þeirra, sjálfur Jari Aarnio.
Jari Aarnio, einn af æðstu yfirmönnum lögreglunnar í Helsinki, var handtekinn fyrir að vera umsvifamikill fíkniefnasali. Réttarhöldin yfir honum hófust í júní síðastliðnum.
Milljónir í garðinum
Jari Aarnio var handtekinn í nóvember 2013. Þá hafði lögreglan gert húsleit á heimili hans og meðal annars fundið, í skó í bílskúrnum, síma sem „Sá snjalli“ hafði notað. Þar höfðu líka verið handskrifuð skilaboð, sem sennilega hefði átt að senda síðar, með fyrirmælum um hvernig maður sem smyglaði efnum frá Hollandi til Finnlands skyldi bera sig að. Saksóknari sagði ennfremur að Jari Aarnio hefði skipulagt flutning á sex stórum tunnum af fíkniefnum frá Hollandi. Jari Aarnio sagði hinsvegar að þetta hafi verið liður í störfum sínum við að uppræta eiturlyfjasmygl.
Í desember 2011 fékk hollenska lögreglan vitneskju um að til stæði að senda tunnu með 150 kílóum af hassi til Finnlands. Jari Aarnio, sem vissi um málið, lét Peter Mikael-Fagerholm, sem kallaður var „sjómaðurinn“ og átti að taka við tunnunni, vita að lögreglu væri kunnugt um ferðir tunnunnar og sagði honum að reyna ekki að nálgast sendinguna. „Sjómaðurinn“ stóðst hinsvegar ekki freistinguna og var gripinn með tunnuna. Hann var dæmdur í níu ára fangelsi. Í von um mildari dóm lýsti hann sig reiðubúinn til að leysa frá skjóðunni og segja allt sem hann vissi um eiturlyfjasmygl og samstarfsmenn Jari Aarnios í eiturlyfjasölunni. Saksóknari sagði að Jari Aarnio hefði þá sent tvo harðsvíraða fíkniefnasala til fundar við „sjómanninn” með þau skilaboð að ef hann héldi sér ekki saman myndi það bitna á fjöskyldu hans.
Jari Aarnio bað líka lögreglumann sem hann þekkti að fara heim til konu sinnar og segja henni að „setja dálitla möl“ undir runna í garðinum. „Mölin“ reyndist vera pokar með peningum, samtals um 65 þúsund evrur (9,6 milljónir íslenskar krónur).
Sterkefnaður lögregluþjónn
Þótt yfirmenn hjá finnsku lögreglunni hafi þokkaleg laun höfðu ýmsir undrast hversu miklu Jari Aarnio tókst að öngla saman. Fyrir utan stórt einbýlishús átti hann átta bifreiðar, flestar mjög dýrar. Við réttarhöldin yfir honum hefur komið fram að tekjur hans af fíkniefnasölunni séu taldar hafa verið að minnsta kosti 500.000 evrur, um það bil sjötíu og sjö milljónir íslenskar krónur.
Var kallaður keisarinn
Jari Aarnio, sem er 58 ára gamall, var af starfsfélögum sínum kallaður „Keisarinn“. Þegar réttarhöldin yfir honum hófust í júní síðastliðnum sagði saksóknarinn að sá ákærði væri maður sem hefði yfirgripsmikla þekkingu á eiturlyfjamarkaðnum, sennilega meiri en nokkur annar Finni. Hann hefði starfað innan lögreglunnar um nær 30 ára skeið og þekkti þess vegna „öll trikkin í bransanum“ betur en flestir ef ekki allir aðrir.
Má búast við margra ára fangavist
Jari Aarnio hefur þegar verið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir mútuþægni og brot í opinberu starfi. Hann hefur hinsvegar ekki enn verið dæmdur fyrir 30 ákæruliði en sumir finnskir fjölmiðlar telja að hann muni að minnsta kosti verða dæmdur í 13 ára fangelsi, aðrir telja að hann fái mun þyngri dóm. Við réttarhöldin hefur Jari Aarnio staðfastlega neitað að hafa aðhafst nokkuð ólöglegt, allt sem hann sé nú ákærður fyrir hafi verið í þágu laga og réttar. Finnskir fjölmiðlar hafa ítrekað rifjað upp að í sjónvarpsviðtali árið 2000 sagði Jari Aarnio að þeir stóru og sterku í eiturlyfjaheiminum gæti þess vel að á þá sannist aldrei neitt. „þetta er eins og í skák, peðin vernda kónginn“. Í skák Jari Aarnios virðast peðin fallin og kóngurinn líka.