Dómstólar í Tyrklandi hafa samþykkt að flytja eigi réttarhöld vegna morðsins á sádi-arabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi, sem myrtur var í sádi-arabíska sendiráðinu í Istanbúl árið 2018, til Sádi-Arabíu. Mannréttindasamtök telja þannig alla von úti um að réttlæti náist vegna málsins.
Blaðamaðurinn Jamal Khashoggi sást aldrei aftur eftir að hann gekk inn í sendiráð Sádi-Arabíu 2. Október 2018 þangað sem hann var mættur til þess að sækja pappíra svo hann gæti kvænst tyrkneskri unnustu sinni, Hatice Chengiz. Síðar kom í ljós að hann hafði verið myrtur og sundurbútaður í sendiráðinu og að morðið hafi jafnvel verið fyrirskipað af Mohammed bin Salman, krónprinsi Sádi-Arabíu, en Khashoggi hafði flúið heimalandið árið 2017 og meðal annars skrifað greinar fyrir Washington Post þar sem hann gagnrýndi aukna valdboðsstefnu krónprinsins. Lík blaðamannsins hefur aldrei fundist.
Þrátt fyrir að réttarhöldin í Tyrklandi vegna málsins hafi í reynd aðeins verið táknræn, þar sem Sádi-Arabía hafði neitað að framselja neinn þeirra grunuðu í málinu, hafði í það minnsta staðið vonir til þess að þau myndu varpa betra ljósi á það sem raunverulega gerðist í aðdraganda morðsins og í sendiráðinu þennan örlagaríka dag, sem og hverjir raunverulega hafi borið ábyrgð á því sem þar gerðist. Meðal annars var vonast til að upptaka sem tyrkneska leyniþjónustan á af athæfinu, sem og ráðagerðum ráðamanna um yfirhylmingu morðsins, yrði gerð opinber. Nú er hins vegar talið ólíklegt að svo geti orðið.
Aðaldómari í málinu, sem las upp ákvörðun dómsins um að flytja ætti málið til Sádi-Arabíu, var aðeins skipaður nýlega og hefur hann aðeins setið þrjár áheyrnir tengdar málinu, að því er segir í umfjöllun New York Times, og er talið að skipun hans hafi verið pólitísk þar sem Tyrkland vinni nú að því að bæta samband sitt við Sádi-Arabíu og að ákvörðunin um að flytja réttarhöldin séu liður í þeirri áætlun.
Ekkert réttlæti fyrirfinnist í Sádi-Arabíu
Stjórnvöld í Tyrklandi hafa neitað því að um pólitíska ákvörðun hafi verið að ræða og að gengið verði úr skugga um að réttarhöldunum verði haldið áfram í Sádi-Arabíu. Það þykir hins vegar afar ólíklegt, en Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforsseti, ásamt öðrum háttsettum embættismönnum þar í landi, hefur áður sagt að ekkert réttlæti fyrirfinnist í Sádi-Arabíu. Þá hafa nokkrir þeirra sem gegna réttarstöðu grunaðra í vegna málsins í Tyrklandi þegar verið sýknaðir vegna þess í Sádi-Arabíu.
Sádi-Arabía hélt sín eigin réttarhöld vegna málsins árið 2019 og dæmdi þar fimm til dauða og þrjá til viðbótar til fangelsisvistar vegna málsins. Dómur þeirra fimm sem hlotið höfðu dauðadóm var hins vegar breytt í fangelsisvist ári síðar eftir að einn sona Khashoggi var sagður hafa fyrirgefið banamönnum föður síns. Mennirnir sem hlutu dóma í málinu hafa hins vegar aldrei verið nafngreindir og voru réttarhöldin yfir þeim, ásamt dómunum sem þar féllu, liður í herferð sádi-arabískra stjórnvalda í að reyna að hylma yfir aðkomu æðri stjórnvalda þar í landi og að stimpla morðið sem einhvers konar óheimila aðgerð (e. rogue operation) nokkurra manna.
Lögmaður Hatice Chengiz, unnustunnar sem Khashoggi hugðist kvænast, og fór því þessa örlagaríku ferð í sendiráðið í Istanbúl 2. október 2018, hefur gefið út að ákvörðun tyrkneskra dómstóla um að málið verði flutt til Sádi-Arabíu verði áfrýjað.