Á þriðjudaginn hittast utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkjanna á fundi í Brussel. Þar á að reyna að ná samkomulagi og móta stefnu varðandi flóttamannastrauminn til Evrópu. ESB ríkin hafa ekki áður staðið frammi fyrir jafn flóknu úrlausnarefni segir Martin Lidegaard utanríkisráðherra Danmerkur. Hann telur að mjög erfitt muni reynast að ná samkomulagi um svonefnda kvótahugmynd um jafnari skiptingu hælisleitenda innan ESB ríkjanna.
Utanríkisráðherra Frakklands sagði eftir mikil fundahöld í Brussel í síðustu viku að það væri mála sannast að ríki Evrópu stæðu nánast ráðþrota frammi fyrir flóttamannavandanum. „Allir skilja vandann og vilja finna einhverja lausn, en það veit bara enginn hver sú lausn á að vera,“ sagði þessi ráðherra.
Þessi lýsing ráðherrans er ekki orðum aukin því að á síðasta ári komu að minnsta kosti 700 þúsund flóttamenn til Evrópu. Í þessum tölum er ekki gerður greinarmunur á flóttamanni og hælisleitanda heldur er orðið flóttamaður notað um fólk sem flúið hefur heimaland sitt. Ýmislegt bendir til að talan 700 þúsund sé of lág og nærri ein milljón muni vera nærri lagi. Stærsti hópurinn kom frá Sýrlandi og næstflestir frá Írak. Afganistan og Eritrea komu svo þar á eftir.
Martin Lidegaard utanríkisráðherra Danmerkur. Mynd: EPA
Talið að ein milljón flýi frá Líbíu á þessu ári
Það sem af er þessu ári er það flóttafólk frá Líbíu sem er fjölmennast og Frontex (Landamærastofnun Evrópu) telur að allt að ein milljón manna muni reyna að flýja landið á þessu ári. Inni í þessari tölu er fjöldi fólks frá öðrum löndum en Líbíu, fólk sem hefur Líbíu sem viðkomustað, ef svo má að orði komast.
Í viðtali við danskt dagblað nýlega sagði Martin Lidegaard utanríkisráðherra að í Líbíu ríki algjört stjórnleysi. Það væri að hluta til vegna þess að erlenda herliðið hefði allt of fljótt yfirgefið landið eftir fall Gaddafis. Það hefðu verið alvarleg mistök.
Sérfræðingar Frontex telja að þótt flóttamannastraumurinn til Evrópu hafi í fyrra verið meiri en nokkru sinni fyrr muni fjöldinn í ár verða mun meiri. Þetta er sá vandi sem ESB löndin standa nú frammi fyrir og verða að takast á við.
Vilja reyna að draga úr straumnum yfir Miðjarðarhaf
Innan Evrópusambandsins hafa komið fram margar hugmyndir í því skyni að draga úr fólksstraumnum yfir Miðjarðarhafið. Meðal annars auknu eftirliti (svonefnd Tríton áætlun) og nýjasta hugmyndin er að eyðileggja skip og báta þeirra sem stunda fólksflutningana. Líka hefur verið rætt um að fara sömu leið og Ástralar, hleypa einfaldlega engum í land. Bent hefur verið á að slíkt stríði gegn alþjóðasamþykktum sem ESB löndin hafi samþykkt.
Í viðtali við danskan sérfræðing í málefnum Afríkuríkja kom fram að á næstu 15 árum muni íbúum Afríku fjölga um 500 milljónir. Ef í álfunni ríki sama upplausnarástand og gert hefur um árabil og takist ekki að finna leiðir til að stemma stigu við flóttamannastraumnum verði hann algjörlega óviðráðanlegur.
Flóttamenn frá Libíu á gúmmíbát á Miðjarðarhafi. Mynd: EPA
Hugmyndin um kvótakerfið
Öllum er ljóst að straumur flóttafólks verður ekki stöðvaður, þótt það takist ef til vill að takmarka hann. Þá vaknar spurningin hvað verði um það fólk sem kemur til Evrópu og sækir um hæli. Hver á að taka við því? Þetta hefur lengi verið deilumál innan ESB.
Í fyrra sóttu 626 þúsund um hæli í löndum Evrópusambandsins, það var 44 prósenta aukning frá árinu 2013. Þegar tölurnar eru skoðaðar kemur í ljós að sex lönd; Þýskaland, Svíþjóð, Ítalía, Frakkland, Ungverjaland og Bretland fengu rúmlega 80 prósent allra umsókna. Nafn Ungverjalands á þessum lista kemur kannski á óvart en það skýrist af miklum fjölda umsókna frá Kosovo, en þeim umsóknum var nær öllum hafnað.
Í fyrra fengu 104 þúsund hæli í ESB löndunum og 60 þúsund til viðbótar svokallað tímabundið dvalarleyfi. Þýskaland veitti samtals um 48 þúsund manns leyfi til landvistar, í Svíþjóð fengu 33 þúsund slíkt leyfi, Frakkar og Ítalir hvorir um sig 20 þúsund, aðrar þjóðir veittu færri leyfi.
Með hinu svonefnda kvótakerfi er hugmyndin sú að móttaka hælisleitenda dreifist jafnar innan ESB en nú er raunin. Þá myndu öll ríki axla sinn hlut með jafnari hætti en nú er. Þetta er það sem á að ræða, og helst taka ákvörðun um í Brussel á þriðjudaginn.
Danmörk með fyrirvara
Nokkur lönd innan ESB eru með svokallaða fyrirvara í aðildarsamningi sínum. Danmörk er til dæmis með slíkan fyrirvara um móttöku flóttamanna og hælisleitenda. Slíkir fyrirvarar (eða undanþágur) eru reyndar nokkuð umdeildir og í Danmörku stendur til að kjósa um þá á næsta ári. Ástæða þessara fyrirvara er sú að Danir felldu Maastricht samkomulagið 1992, en samþykktu síðar, eftir að fyrirvararnir voru settir.
Margir stjórnmálaskýrendur telja alls óvíst að samkomulag náist um kvótahugmyndina. Flest ríki telja að þá beri þeim að taka við fleira fólki og fæstir kæra sig um það. Líka hefur verið nefnt að með þessu fyrirkomulagi geti það til dæmis orðið þannig að manni sem fær um sitt mál fjallað í Svíþjóð fái hæli í Ungverjalandi, sem hann kæri sig alls ekki um.
Eitt eru þó allir sammála um; lausn verður að finnast.