Íslenska ríkið reiknar með því að fá um 71 milljarð króna fyrir 30 prósent hlut sinn í Landsbankanum. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi ársins 2016. Þar stendur: „Hlutafé, eignarhlutir í fyrirtækjum og stofnunum og erlent stofnfé í árslok 2014 nam 351 mia.kr. og áætlað er að þessar eignir verði svo til óbreyttar í lok árs 2015 eða 352 mia.kr. Á árinu 2016 er gert ráð fyrir að þessar eignir lækki um 71 mia.kr. og nemi 281 mia.kr. í lok ársins. Lækkun frá yfirstandandi ári skýrist af sölu á hluta af eignarhluta ríkissjóðs í Landsbankanum.“
Heimild til að selja hlut í Landsbankanum hefur verið í lögum frá því á árinu 2011. Ljóst er að mikill vilji hefur verið hjá hluta af núverandi ríkisstjórn, sérstaklega Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra, að nýta þá heimild. Í fjárlögum fyrir árið 2015 var gert ráð fyrir að 15 prósent hlutur í bankanum yrði seldur fyrir lok yfirstandandi árs og önnur 15 prósent um mitt ár 2016.
Í fjárlagafrumvarpi ársins 2016 kemur fram að undirbúningur sölunnar hafi tafist „af ýmsum ástæðum“ og hefur áformum um sölu allt að 30 prósent hlutar verið frestað fram á seinni hluta árs 2016.
Samhliða stendur til að skrá Landsbankann aftur á hlutabréfamarkað, en forveri hans var skráður þar áður en hann fór á hliðina í október 2008. Miðað við það verð sem ríkið reiknar með að fá fyrir 30 prósent hlut í bankanum má ætla að markaðsvirði bankans sé um 237 milljarðar króna að mati stjórnvalda. Það er nánast sama upphæð og Landsbankinn á í eigin fé, en um mitt þetta ár var eigið fé hans 240 milljarðar króna.
Vill borða kökuna og eiga hana
Bjarni var spurður út í söluna á Landsbankanum á Alþingi í gær og hvort honum væri alvara með því að rétt væri að hefja einkavæðingu á Landsbankanum á ný. Í svari sínu sagði fjármála- og efnahagsráðherra að hann hefði aldrei lagt það til að ríkið drægi sig alveg út sem eiganda í Landsbankanum. Hann sæi fyrir sér að ríkið yrði áfram aðaleigandi í Landsbankanum um langa framtíð. Bjarni hefur áður látið hafa eftir sér að hann sjái fyrir sér að ríkið muni í framtíðinni eiga 40 prósent hlut í bankanum.
„Það var enda alltaf hugmyndin frá því að endurreisn Landsbankans stóð fyrir dyrum að ríkið myndi draga úr eignahlut sínum.“ Þannig væri hægt að bæði borða kökuna og eiga hana. „Við verðum áfram berandi, ráðandi hluthafi," sagði Bjarni Benediktsson á Alþingi í gær.
Í þinginu í gær sagði Bjarni það geta verið Íslendingum til hagsbóta að draga úr hlut ríkisins í bankanum og hægt væri að nýta söluandvirðið til að borga niður skuldir og létta á vaxtakostnaði ríkisins. „Það var enda alltaf hugmyndin frá því að endurreisn Landsbankans stóð fyrir dyrum að ríkið myndi draga úr eignahlut sínum.“ Þannig væri hægt að bæði borða kökuna og eiga hana. „Við verðum áfram berandi, ráðandi hluthafi.“
Ágóðinn verður notaður til að greiða niður skuldabréfaflokk
Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir því að ágóðinn af sölu á 30 prósent hlut í Landsbankanum verði greiddur inn á ákveðinn ríkisskuldabréfaflokk, sem heitir RIKH18. Sá flokkur var gefinn út til að fjármagna eiginfjárframlag íslenska ríkisins til nýja Landsbankans, Arion banka og Íslandsbanka eftir bankahrunið 2008. Flokkurinn er á gjalddaga árið 2018 og sem stendur nemur útistandandi fjárhæð hans rúmlega 213 milljörðum króna.
Í frumvarpinu segir beinum orðum að „uppgreiðsla skuldabréfanna er verulega íþyngjandi í endurgreiðsluferli lána ríkissjóðs og því er gert ráð fyrir að nýta söluandvirði eignarhluta ríkissjóðs í Landsbankanum á árinu 2016 til þess að greiða inn á þennan skuldabréfaflokk. Vaxtagjöld af RIKH 18 eru verulegur hluti vaxtagjalda ríkissjóðs eða um 13 prósent á yfirstandandi ári en með sölu á hluta af eignarhlut ríkissjóðs í bankanum væri unnt að lækka þann kostnað um allt að 2 mia.kr. á ári frá og með árinu 2017.“
Miðað er við að eftirstöðvar skuldabréfaflokksins nemi 141,5 milljörðum króna í lok árs 2016, þegar búið verður að ráðstafa söluandvirði á 30 prósent hlut í Landsbankanum inn á hann, alls 71 milljarði króna.
Ein stærsta einkavæðing Íslandssögunnar
Salan á 30 prósent hlut í Landsbankanum verður ein stærsta einkavæðing Íslandssögunnar. Einungis salan á Símanum, sem fór fram árið 2005, var stærri í krónum talið. Kaupendur Símans, Exista, og viðskiptalegir meðreiðarsveinar þess áður stórtæka fjárfestingarfélags, keyptu Símann af íslenska ríkinu undir hatti félags sem fékk nafnið Skipti á upphæð sem í dag myndi vera um 140 milljarðar króna.
Til samanburðar má nefna að 24 milljarðar króna fengust fyrir Búnaðarbankann þegar hann var seldur S-hópnum í janúar 2003. Á verðlagi dagsins í dag er sú upphæð um 46 milljarðar króna. Þegar ríkið seldi Samson-hópnum 45,8 prósent síðla árs 2003 var kaupverðið 12,3 milljarðar króna, eða jafnvirði um 24 milljarða krona í dag að teknu tilliti til verðbólguþróunar.
Óvissa um hvernig salan fer fram
Íslendingar eru nokkuð brenndir af einkavæðingarferlum. Salan á eignarhlutum ríkisins í Búnaðarbankanum og Landsbankanum skömmu eftir aldarmót hefur alla tíð verið gagnrýnd fyrir spillingu, ógegnsæi og ófaglegheit. Með henni voru tvö stærstu fjármálafyrirtæki landsins seld til manna sem höfðu litla sem enga reynslu af fjármálastarfsemi og annar hópurinn, sá sem fékk að eignast Búnaðarbankann, var meðal annars skipaður mönnum úr innsta valdakjarna Framsóknarflokksins á þeim tíma.
Því skiptir miklu máli að vel takist til nú þegar sala á ríkiseignum er að hefjast á ný. En óvissa virðist uppi um hvernig salan muni fara fram, þótt fjármála- og efnahagsráðherra hafi sagt að hann vilji skrá bankann á markað og að vinna við það muni fara fram í vetur.
Ástæða þess að óvissa er uppi er sú að til er stofnun sem heitir Bankasýsla ríkisins. Hún var sett á fót af ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna og hlutverk hennar er að halda á hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum, meðal annars Landsbankanum.
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, sendi bréf til ráðherra þar sem hann boðar tillögu um sölumeðferð á hlut í Landsbankanum.
Bankasýslan lögð niður og hlutir færðir beint undir ráðherra
Í vor lagði Bjarni Benediktsson fram frumvarp til laga um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum þar sem gert er ráð fyrir því að Bankasýslan verði lögð niður. Þess í stað verða eignarhlutirnir í bönkunum færðir undir fjármála- og efnahagsráðherra sem setur sérstaka eigendastefnu vegna þeirra, skipar þriggja manna ráðgjafanefnd, án tilnefninga, til að veita honum ráðgjöf um meðferð eignarhluta í fjármálafyrirtækjum og undirbúa sölu og sölumeðferð þeirra eignarhluta.
Samkvæmt frumvarpinu eiga Ríkiskaup síðan að annast sölumeðferðina og skila ráðherranum rökstuddu mati á því hvaða tilboð sé best. Hann á hins vegar einn að taka ákvörðun um hvort að taka eigi tilboði í viðkomandi eignarhlut í banka eða ekki.
Frumvarpinu var vísað til fjárlaganefndar í maí eftir fyrstu umræðu og afgreitt þaðan í júní. Stefnt er að því að það verði að lögum fyrir árslok. Gangi það eftir munu lögin taka gildi um næstu áramót.
Í fjárlagafrumvarpi ársins 2016 er gengið út frá því að umrætt frumvarp verði að lögum og að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður. Henni eru því ætlaðar núll krónur á fjárlögum næsta árs. Þar segir síðan orðrétt: „Breytingin er til þess fallin að styrkja eigendahlutverk ráðuneytisins gagnvart fjármálafyrirtækjum og öðrum hlutafélögum sem og félögum utan ríkisins. Framtíðarfyrirkomulag á stjórnsýslu á þessu sviði verður áfram til skoðunar í haust og gert er ráð fyrir að niðurstaða þeirrar skoðunar muni liggja fyrir við lokaafgreiðslu frumvarpsins.“
Bankasýslan vill ekkert verða lögð niður
Vilji fjármála- og efnahagsráðherra og samflokksmanna hans er því nokkuð ljós í þessu máli. Það á að leggja niður Bankasýsluna og færa yfirráð yfir hlutum í bönkum beint undir ráðherrann.
Það kom þess vegna nokkuð á óvart þegar forstjóri og stjórnarformaður Bankasýslunnar sendu ráðherranum bréf, dagsett 9. september 2015, þess efnis að stofnunin muni skila af sér tillögu um sölumeðferð á 30 prósent eignarhlut ríkisins í Landsbankanum fyrir 31. janúar 2016. Sú tillaga gæti því borist 31 degi eftir að Bankasýslan verður lögð niður með lögum.
Í bréfi þeirra Jóns G. Jónssonar, forstjóra Bankasýslunnar, og Lárusar L. Blöndal, stjórnarformanns hennar, segir að stofnunin muni fram að 31. janúar ræða mögulega útfærslu á sölu við Landsbankann við stærstu stofnanafjárfesta innanlands eins og lífeyrissjóði og fjárfestingasjóði, og alþjóðlega fjárfeestingarbanka, sem stofnunin kann svo að kalla til ráðgjafar við formlegt söluferli. „Bankasýsla ríkisins mun leggja ríka áherslu á að upplýsa fjármála- og efnahagsráðuneytið með reglubundnum hætti um framvindu málsins og að eiga framúrskarandi gott samstarf við alla hagsmunaaðila, sem munu þurfa að koma að ferlinu,“ segir í lok bréfsins.
Ríkisstjórnin virðist ekki ganga í takti þegar kemur að sölu á hlut í Landsbankanum. Framsóknarflokkurinn hefur samþykkt ályktun á flokksþingi sem er beinlínis í andstöðu við þær hugmyndir að skrá bankann á markað.
Framsókn vill samfélagsbanka – í andstöðu við skráningu
Nokkuð ljóst er að ekki er eining milli stjórnarflokkanna um hver framtíð Landsbankans eigi að vera. Á flokksþingi Framsóknarflokksins í apríl síðastliðnum var eftirfarandi ályktun samþykkt: „Landsbankinn verði samfélagsbanki í eigu þjóðarinnar með það markmiði að þjóna samfélaginu í stað þess að hámarka hagnað. Til að bregðast við fákeppni á bankamarkaði er nauðsynlegt að Landsbankinn hafi þann tilgang að bjóða góða þjónustu á bestu kjörum til að efla samkeppni í bankaþjónustu á landsvísu. Landsbankinn verði bakhjarl sparisjóðakerfisins.“
Í viðtali í sjónvarpsþættinum Þjóðbraut, á sjónvarpsstöðinni Hringbraut, í sumar sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, meðal annast að leita þyrfti leiða til að endurvekja kröftuga sparisjóðastarfsemi í landinu og sagði hann í því efni vert að skoða hugmyndir flokksbróður síns, Frosta Sigurjónssonar um að breyta Landsbankanum í svokallaðan samfélagsbanka.
Í frétt Hringbrautar um viðtalið segir: „Almennt taldi hann [Sigmundur Davíð] að það sæist ekki á starfsemi Landsbankans að hann væri að meginhluta í eigu ríkisins, en illfært væri fyrir stjórnmálamenn að ráða þar nokkru um vegna armlengdarinnar sem menn hefðu kosið að hafa á milli stjórnmálanna og fjármálakerfisins, en því væri samt ekki að leyna að stundum hin seinni misserin hefði það óneitanlega verið svo að sér hefði fundist nauðsynlegt að geta gripið inn í atburðarásina í bankakerfinu hér á landi. En hann væri bara ekki í færum til þess, mætti það ekki.“
Ályktun flokksþings Framsóknarflokksins frá því í apríl, sem formaður flokksins hefur tekið undir opinberlega, er í beinni andstöðu við það að skrá Landsbankann á hlutabréfamarkað og selja allt að 60 prósent hlut í honum til fjárfesta, til dæmis lífeyrissjóða, sem munu gera arðsemiskröfu til hans og ekki sætta sig við að Landsbankinn sinni samfélagslegu hlutverki umfram það að hámarka hagnað. Það er beinlínis andstætt lögum um fjárfestingar lífeyrissjóða að
Ýmislegt gæti því enn gengið á áður en að hlutur í Landsbankanum verður seldur til einkaaðila.