Þrettán ríki Bandaríkjanna munu geta bannað þungunarrof um leið og Hæstiréttur Bandaríkjanna samþykkir að snúa við dómi Roe gegn Wade frá 1973, dómi þar sem kveðið er á um stjórnarskrárvarinn rétt kvenna til þungunarrofs.
Mikil ólga hefur verið í bandarísku samfélagi frá því á mánudag þegar meirihlutaáliti frá Hæstarétti Bandaríkjanna var lekið fjölmiðla þar sem fram kemur að dómurinn hefur samþykkt drög að meirihlutaáliti þess efnis að taka til umfjöllunar að snúa við dómi Roe gegn Wade og skerða þannig stjórnarskrárvarinn rétt kvenna til þungunarrofs. Ólgan nær jafnt til þeirra sem styðja rétt kvenna til þungunarrofs og þeirra sem eru honum mótfallin.
Þetta er í fyrsta sinn sem gögnum frá Hæstarétti Bandaríkjanna er lekið í fjölmiðla. John G. Roberts, forseti hæstaréttar, segir lekann „svívirðilegt brot á trausti“ og hefur hann farið fram á að sérstök rannsókn fari fram á því hvernig fjölmiðillinn Politico komst yfir meirihlutaálitið. Ekki liggur ljóst fyrir hvort að lög hafi verið brotin þegar álitinu var lekið til fjölmiðla.
Umræðan um hvort hæstiréttur taki dóminn frá 1973 til umfjöllunar er hins vegar ekki ný af nálinni. Lengi hefur verið vitað að sá möguleiki sé fyrir hendi. Hið óvænta er hins vegar að meirihlutaálitinu var lekið og kom því bæði þeim sem eru hlynntir rétti kvenna til þungunarrofs og þeim sem eru honum mótfallnir á óvart.
Lagasetning til staðar sem auðveldar bann við þungunarrofi
Ríkisþing þrettán ríkja hafa nú þegar samþykkt sérstaka löggjöf (e. trigger law) sem leiðir til þess að um leið og dómnum verður snúið við tekur bann við þungunarrofi gildi. Þá má búast við að um 10-12 ríki til viðbótar hefji lagasetningu sem bannar þungunarrof alfarið eða dregur mjög úr rétti kvenna til þungunarrofs.
En hver eru þessi þrettán ríki sem geta, og vilja ólm, banna þungunarrof um leið og færi gefst?
Ríkin sem um ræðir eru Idaho, Wyoming, Utah, Norður-Dakóta, Suður-Dakóta, Missouri, Oklahoma, Arkansas, Kentucky, Tennessee, Texas, Louisiana og Mississippi. Meirihluti ríkjanna er í suðurhluta Bandaríkjanna.
Í Kentucky, Louisiana, Oklahoma og Suður-Dakóta mun bann við þungunarrofi taka gildi um leið og dómnum verður snúið við. Í öðrum ríkjum, líkt og Idaho, tekur bannið gildi 30 dögum eftir ákvörðun hæstaréttar.
Í öðrum ríkjum þarf að falast eftir löggildingu hjá ríkissaksóknara eða ríkisþingi áður en bannið verður að lögum, sem getur tekið nokkrar vikur.
Bannið nær ekki til tilfella þar sem lífi eða heilsu konu er ógnað, en í mörgum tilfellum eru ekki gerðar undantekningar ef kona ákveður að fara í þungunarrof vegna nauðgunar.
Þá eru fimm ríki, til viðbótar við þau þrettán sem geta bannað þungunarrof tiltölulega hratt, með löggjöf sem hefur legið í dvala frá því að stjórnarskrárvarinn réttur kvenna til þungunarrofs var staðfestur fyrir 51 ári. Löggjöfina verður hægt að endurvekja, samþykki hæstiréttur að snúa dómnum við.
Þessi ríki eru Arizona, Wisconsin, Michigan, Alabama og Vestur-Virginía. Í tveimur þeirra, Michigan og Wisconsin, eru demókratar ríkisstjórar og hafa lýst yfir opinberum stuðningi við rétt kvenna til þungunarrofs. Talið er líklegt að bann við þungunarrofi verði tekið upp að nýju í Vestur-Virginíu. Í Arizona hefur Doug Ducey ríkisstjóri gefið það út að miðað þungunarrof verði ekki heimilt eftir 15 vikna meðgöngu. Lagafrumvarp sem kveður á um algjört bann við þungunarrofi, sem var undirbúið 2019, mun að öllum líkindum taka gildi í Alabama verði dómnum snúið við.
Í heildina má búast við að þungunarrof verði bannað eða réttur til þess skertur verulega í 28 ríkjum.
Að minnsta kosti 15 ríki sem hyggjast styðja rétt kvenna til þungunarrofs
Það kveður við annan tón í fimmtán ríkjum þar sem í gildi eru lög sem verja rétt kvenna til þungunarrofs. Þau ríki eru Kalifornía, Connecticut, Delaware, Hawaii, Illinois, Maine, Maryland, Massachusetts, Nevada, New Jersey, New York, Oregon, Rhode Island, Vermont og Washington. Gavin Newsom, ríkisstjóri í New York, brást fljótt við eftir að meirihlutaáliti hæstaréttar var lekið og hét því að styrkja rétt kvenna til þungunarrofs enn frekar.
„Við getum ekki treyst [Hæstarétti] til að standa vörð um réttinn til þungunarrofs þannig að við gerum það sjálf,“ segir Newsom í færslu á Twitter. Þá fer hann fyrir breytingartillögu á stjórnarskrá Kaliforníuríkis þar sem réttur kvenna til að ráða yfir eigin líkama er undirstrikaður.
California will not stand by as women across America are stripped of their rights.
— Office of the Governor of California (@CAgovernor) May 3, 2022
With @SenToniAtkins and @Rendon63rd, we are proposing an amendment to enshrine the right to choose in the California constitution. #RoeVsWade pic.twitter.com/CAS7m11VRk
Ákvörðun Hæstaréttar Bandaríkjanna mun liggja fyrir í lok júní eða byrjun júlí. Joe Biden Bandaríkjaforseti segir mikilvægt að almenningur geri sér grein fyrir að um drög sé að ræða og því liggi ekki endanlega ljóst fyrir hvort dómnum verði í raun snúið við og réttur kvenna til þungunarrofs skerturr. Næstu vikur munu því einkennast af vangaveltum þess efnis hvernig almenningur sér lífið fyrir sér ef dómi í máli Roe gegn Wade verði snúið við.