Ríkisstjórnin ætlar ekki að greiða inn á ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar sínar á næsta ári. Þetta hefur Kjarninn fengið staðfest hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Samtals eru skuldbindingar umfram eignir hjá B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga (LH) tæplega 460 milljarðar króna. Allir fjármunir sjóðanna munu verða uppurnir árið 2030 og eftir það falla greiðslur til sjóðsfélaga beint á ríkissjóð.
Til að byrja með verður upphæðin um 28 milljarðar króna á ári samkvæmt áætlunum en mun síðan fara lækkandi áratugina á eftir.Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, sem lagt var fram í september, segir: „Í uppsiglingu er því mikið vandamál fyrir ríkissjóð ef ekkert verður að gert.“
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í blaðaviðtali í mars síðastliðnum að greiðslurnar myndu hefjast á næsta ári. Ríkisstjórnin hefur hins vegar ákveðið, samkvæmt því sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu, að gera ekkert í þessum málum á árinu 2016, þrátt fyrir að hún fái þá greitt stöðugleikaframlag frá slitabúum föllnu bankanna upp á 334 milljarða króna til viðbótar við reglulegar tekjur ríkissjóðs.
Greiðslum hætt eftir hrunið
Ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar hins opinbera hafa verið risastórt vandamál í lengri tíma. Árið 1997 var A-deild LSR stofnuð. Hún byggir á stigakerfi þar sem sjóðsfélagi ávinnur sér réttindi miðað við greidd iðgjöld. Kerfið byggir á sjóðssöfnun. Þ.e. LSR safnar iðgjöldum, ávaxtar þau og greiðir út í samræmi við áunnin réttindi. Ef sjóðurinn á ekki fyrir þeim hleypur ríkið undir bagga.
Á sama tíma var eldra kerfi sjóðsins, hin svokallaða B-deild, lokuð fyrir sjóðsfélögum. Í henni ávinna sjóðsfélagar sér tvö prósent réttindi á ári miðað við fullt starf. Reglur LH eru áþekkar B-deildinni. Þetta kerfi byggir að mestu á gegnumstreymi fjármagns, og einungis að hluta til á sjóðssöfnun. Ástæða þess að kerfið var lagt niður var sú að það blasti við að það gæti ekki staðið undir sér. Því var settur plástur á sárið og lokað á nýliðun í B-deildina. Það breytir því ekki að henni blæðir enn mikið. Það var alltaf morgunljóst að ríkið myndi þurfa að greiða háar fjárhæðir með þessu gamla kerfi.
Geir H. Haarde var fjármálaráðherra þegar greiðslur vegna bakábyrgðar ríkisins hófust árið 1999. Þeim var hætt eftir hrunið og síðan þá hefur umfang vandans fengið að magnast.
Þess vegna ákvað Geir H. Haarde, þáverandi fjármálaráðherra, árið 1999 að ríkissjóður skyldi hefja greiðslur til B-deildar LSR og LH umfram lagaskyldu. Markmiðið var að milda höggið sem framtíðarkynslóðir skattgreiðenda myndu þurfa að þola vegna þess og koma í veg fyrir að sjóðirnir tæmdust.
Árið 2008, eftir hrunið, var þessum viðbótargreiðslum hins vegar hætt. Þá hafði ríkissjóður, frá árinu 1999, alls greitt 90,5 milljarða króna inn á útistandandi skuld sína við B-deild LSR og LH. Um síðustu áramót var sú fjárhæð, uppfærð með ávöxtun sjóðanna, orðin 231,8 milljarðar króna. Því er ljóst að greiðslurnar skiptu verulegu máli. Ef ekki hefði komið til þessara greiðslna væru sjóðirnir tómir og allar greiðslur féllu nú þegar á ríkissjóð.
Staðan teiknuð upp á ríkisstjórnarfundi í ágúst
Þrátt fyrir þetta er vandamálið enn risavaxið. Á ríkisstjórnarfundi, sem fram fór 20. ágúst síðastliðinn, kynnti Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnhagsráðherra, samantekt um lífeyrisskuldbindingar vegna LSR. Samantektin var unnin í kjölfar funda með framkvæmdastjóra, formanni og varaformanni stjórnar LSR sem fram fór 30. júní 2015.
Í samantekinni kom fram að skuldbindingar B-deildar LSR eru 407,1 milljarðar króna umfram eignir deildarinnar. Hjá LH eru þær 50,6 milljarðar króna og því vantar samtals 457,7 milljarða króna í þessar tvær deildir til að þær eigi fyrir skuldbindingum sínum. Ríkissjóður er í bakábyrgð fyrir þessum greiðslum, sem þýðir að þær falla á hann þegar engar eignir eru lengur til í sjóðunum.
Fjallað er um þessa stöðu í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2016. Þar stendur: „Áætlað er að árið 2030 verði allir fjármunir sjóðanna uppurnir og falla þá allar greiðslur úr sjóðunum beint á ríkissjóð. Áætlað er að upphæðin muni nema um 28 mia.kr. fyrst í stað en fari síðan lækkandi næstu áratugi þar á eftir. Í uppsiglingu er því mikið vandamál fyrir ríkissjóð ef ekkert verður að gert.“
Þar segir einnig að nauðsynlegt verði að reka ríkissjóð með myndalegum afgangi á fjárlögum og losa um stórar ríkiseignir, til dæmis í Landsbankanum "til að greiða upp skuldir og eftir atvikum takast á við ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar".
Ríkið sleppur við greiðslur og fær skatttekjur á móti
Þegar verið er að meta skuldbindingar ríkissjóðs vegna opinberra starfsmanna verður að hafa í huga að ríkið „sleppur“ við að greiða lífeyrissjóðsgreiðslur úr almannatryggingakerfinu með því að borga þessar skuldir og hefur auk þess nokkuð háar skatttekjur af lífeyrisgreiðslum.
Stjórn LSR fékk í vor Benedikt Jóhannesson tryggingastærðfræðing til að meta þetta samspil. Niðurstaða hans er sú að ríkið spari sér 123 milljarða króna í lífeyrisgreiðslur og fái 204 milljarða króna í skatttekjur þegar það er búið að greiða upp skuldina. Til viðbótar komi sparnaður og skatttekjur vegna sjóðsfélaga í LH.
Þá stendur samt sem áður eftir bakábyrgð ríkissjóðs. Þ.e. beinharðir peningar sem þarf að greiða í skuldahítina og fást ekki aftur með sparnaði í almannatryggingakerfinu eða með skattgreiðslum. Á ríkisstjórnarfundinum í ágúst kom fram að þessi upphæð er áætluð, fyrir B-deild LSR og LH saman, 104,8 milljarðar króna. Inn á þessa skuld þarf að hefja greiðslur, annars sitja framtíðarkynslóðir uppi með tugmilljarða króna kostnað á ári frá 2030.
Í lok samantektarinnar sem kynnt var á ríkisstjórnarfundinum sagði enda að „brýnt er að taka ákvörðun um hvort slíkar greiðslur verði teknar upp aftur og þá í hvaða formi það yrði gert“.
Ef ekkert verður gert tæmast sjóðirnir árið 2030. Þá þarf ríkissjóður að greiða 28 milljarða króna, það árið eitt og sér, til að standa undir skuldbindingum þeirra. Þeirri fjárhagslegu byrði verður að óbreyttu velt á komandi kynslóðir.
Bjarni sagði að greiðslur myndu hefjast
Raunar hefur málið verið á dagskrá ríkisstjórnarinnar í nokkurn tíma. Og svo virtist sem að hún væri búin að taka ákvörðun um að hefja greiðslur inn á bakábyrgð ríkisins vegna þessarra skulda, sem eru ekki sýnilegar í ríkisreikningi, á ný.
Forsíða Morgunblaðsins 11. mars 2015. Í forsíðufréttinni er haft eftir Bjarna Benediktssyni að greiðslur inn á ófjármagnaðar skuldbindingar opinberra lífeyrissjóða muni hefjast árið 2016.
Bjarni Benediktsson var mjög afdráttarlaus í viðtali við Morgunblaðið þann 11. mars síðastliðinn. Fyrirsögn forsíðufréttar blaðsins, sem vísaði í viðtalið, var „Fyrirframgreiða lífeyrinn“. Í viðtalinu sagði Bjarni að ríkissjóður myndi á næsta ári, árið 2016, greiða inn á uppsafnaðar lífeyrisskuldbindingar opinberra starfsmanna í fyrsta sinn frá efnahagshruni. Jafnframt væri áformað að gera það árlega á næstu árum og að bætt staða ríkissjóðs gerði þetta mögulegt. „Verði þetta ekki gert mun falla á ríkissjóð árleg gjaldfærsla upp á um 20 milljarða eftir tíu ár. Með þessari greiðslu og frekari greiðslum á næstu árum er ætlunin að forða þessu og ýta því lengra inn í framtíðina,“ sagði Bjarni.
Það vakti því athygli þegar þessi greiðsla inn á bakábyrgðina var ekki sýnileg í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Kjarninn beindi fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og spurði hvort það væri réttur skilningur að ekki væri gert ráð fyrir greiðslum inn á skuldbindingar ríkissjóðs vegna B-deildar LSR og LH í fjárlagafrmuvarpi ársins 2016. Í svari ráðuneytisins segir að það sé réttur skilningur.
Þrátt fyrir að í uppsiglingu sé„mikið vandamál fyrir ríkissjóð ef ekkert verður að gert“, verður ekkert að gert.
Bráðabirgðaákvæði fellur úr gildi á næsta ári
Þetta er ekki eina málið sem snýr að opinbera lífeyrissjóðakerfinu sem þarf að taka á í nánustu framtíð. Það þarf einnig að grípa til aðgerða gagnvart A-deild LSR. Heildarstaða hans, að teknu tilliti til framtíðariðgjalda og skuldbindinga vegna þeirra, er neikvæð um 55,6 milljarða króna, eða um 9,6 prósent af heildareign hans. Í gildi er bráðabirgðarákvæði sem heimilar sjóðnum að virði eigna hans megi vera allt að 15 prósent minna virði en framtíðarskuldbindingar hans. Þetta bráðabirgðaákvæði, sem sett var í kjölfar hrunsins, fellur úr gildi á næsta ári. Þá verður munurinn að vera innan fimm prósenta.
Til að ná þessu marki er stjórn LSR skylt, samkvæmt lögum, að hækka iðgjald launagreiðenda úr 11,5 prósent í 13,4 prósent til að vera innan fimm prósenta marksins. Það þýddi að launagreiðandinn í lífeyrissjóðinn, íslenska ríkið, þyrfti að greiða 1,7 milljarð króna til viðbótar í iðgjöld á ári. Til að ná jafnvægi þyrfti að hækka iðgjaldið í 15,4 prósent, sem myndi þýða að ríkið greiddi 3,5 milljarða króna til viðbótar í sjóðinn.