Ein umfangsmesta ákvörðun sem Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, stendur frammi fyrir er hvort hann ákveður að úthluta makrílkvóta varanlega til þeirra útgerða sem hafa aflareynslu af veiðum á makríl.
Veiðar og vinnsla á makríl er ein skýringin á góðri afkomu stóru sjávarútvegsfyrirtækjanna sem hafa lagt stund á makrílveiðar á síðustu árum. Makríll veiddist fyrst sem meðafli á síldveiðum en svo smám saman jókst magn hans innan lögsögunnar, og hefur makríllinn verið mikil himnasending fyrir íslenska hagkerfið frá hruni fjármálakerfisins og krónunnar.
Kom sér vel
Þetta kom sér best fyrir þau fyrirtæki sem lögðu stund á uppsjávarveiðar enda eru þau með lang mesta aflareynslu frá því makrílveiðar hófust fyrir einungis fáum árum síðan. Öðrum útgerðarflokkum líkt og frystitogurum, ísfiskskipum og smábátum hefur þó einnig verið skammtaður hluti hins árlega kvóta undanfarin ár. Úthlutunin til skipa í mismunandi útgerðarflokkum fer einungis fram árlega og kvótanum hefur því ekki ennþá verið úthlutað varanlega.
Frá því kvótakerfið var sett á laggirnar árið 1984 hefur svo verðmæt tegund sem makríllinn augljóslega er ekki bæst við inní kerfið. Þó hafa aðrar tegundir verið kvótasettar á undangengnum árum, nýjasta dæmið er blálanga. Sigurði Inga er því vandi á höndum í ljósi þess hve mikil verðmæti eru í spilunum.
Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra sjávarútvegs og landbúnaðarmála, stendur frammi fyrir stórum ákvörðunum þegar kemur að makrílveiðum.
Færeyingar bjóða kvóta til leigu
Samningar um makrílveiðar hafa ennþá ekki náðst fram á milli þjóðanna í N-Atlantshafi eins og þekkt er. Þrátt fyrir þetta hefur færeyska heimastjórnin boðið út hluta af sínum makrílkvóta til leigu til árs í senn. Grænlenska heimastjórnin hefur umtalsverðar tekjur af sínum makrílkvóta og rukka ákveðna krónutölu á hvert veitt kíló.Mikil verðmæti
Á núverandi fiskveiðiári er þorskígildisstuðullinn fyrir makríl 0,41. Stuðullinn hefur farið hækkandi á síðustu árum enda er makríll verðmæt tegund og stærstur hluti nýttur til manneldis. Þetta hefur skilað sér í afburða góðri afkomu fyrirtækja sem veiða, vinna og selja makríl á alþjóðamarkað.Til samanburðar er stuðullinn fyrir kolmuna 0,10 og 0,29 fyrir norsk-íslenska síld.
Samkvæmt heimildum Kjarnans er verð á þorskkvóta um það bil 2.500 kr/kg í nýlegum viðskiptum. Miðað við þessar forsendur er einfalt að finna út að verðmæti makrílkvótans, ef hann verður úthlutaður varanlega án endurgjalds til sjávarútvegsfyrirtækjanna, gæti verið á bilinu 150 til 170 milljarðar. Að sjálfsögðu fer verðmætið eftir því hversu kvótinn er stór hverju sinni og eflaust eru þorskígildisstuðlar ekki hinn endanlega rétti mælikvarði. Þessi einfaldi útreikningur gefur þó vísbendingu um að ákvörðun Sigurðar Inga er umfangsmikil mælt í krónum og aurum, og miklir hagsmunir í húfi fyrir bæði almenning og útgerðirnar sem hafa hagnast vel á makrílgengdinni undanfarin ár.
Makríll | |||
Úthlut. Kvóti | Verð á þorski | Þorskígildisstuðull | Verðmæti kvóta |
Þús. tonn | kr/kg | m.kr. | |
167,8 | 2.500 | 0,41 | 171.995 |
147,7 | 2.500 | 0,41 | 151.393 |