Rúmlega helmingur alls nýs auðs sem varð til í fyrra fór til ríkustu Íslendinganna
Þau tíu prósent landsmanna sem höfðu mestar tekjur í fyrra tóku til sín 54,4 prósent allrar aukningar sem varð á eigin fé landsmanna á árinu 2021, eða 331 milljarð króna. Efsti fimmtungurinn tók til sín þrjár af hverjum fjórum nýjum krónum. Umtalsvert hærra hlutfall af nýjum auð lenti hjá ríkustu hópunum í fyrra en að meðaltali áratuginn á undan. Sem þýðir að misskipting eigna jókst.
Á árinu 2021 urðu til 608 nýir milljarðar króna í eigið fé hjá íslenskum heimilum. Sá hópur landsmanna sem tilheyrir þeim tíu prósentum sem höfðu hæstu tekjurnar jók eign sína á árinu um 331 milljarð króna. Það þýðir að 54,4 prósent af nýjum auð sem varð til í fyrra lenti hjá þessum hópi, sem telur 23.040 fjölskyldur.
Þegar þróun á eignum og skuldum þjóðarinnar er skoðað aftur í tímann kemur í ljós að á árunum 2010 til 2020, á einum áratug, tók þessi efsta tíund að meðaltali til sín 43,5 prósent af öllum nýjum auð sem varð til á ári. Því átti sú þróun sér stað á síðasta ári að ríkustu tíu prósent landsmanna tóku til sín mun hærra hlutfall af nýjum auð en hópurinn hefur að jafnaði gert áratuginn á undan.
Þetta má lesa úr nýjum tölum sem Hagstofa Íslands birti í morgun um eignir og skuldir landsmanna.
Þessi þróun á sér stað vegna þess að fjármagnstekjur ruku upp á síðasta ári. Þær hækkuðu um 65 milljarða króna. Alls fóru 81 prósent allra fjármagnstekna til efstu tekjutíundarinnar. Aðgerðir sem stjórnvöld og Seðlabanki Íslands gripu til vegna efnahagslegra afleiðinga kórónuveirufaraldursins spila stærsta rullu í þróuninni. Peningar voru gerðir ódýrari og tækifæri þeirra sem áttu fjármagn til að ávaxta, til dæmis í hlutabréfum og fasteignum, til að hagnast gríðarlega urðu fjölmörg.
Hægt að græða mikið á fasteignabraski
Alls áttu íslensk heimili tæplega 6.125 milljarða króna í eigið fé um síðustu áramót, samkvæmt skattframtölum þeirra. Hrein eign þeirra hefur aukist gríðarlega frá árinu 2010, eða um 4.560 milljarða króna. Fyrir vikið líta allar hagtölur mun betur út. Skuldastaða íslenskra heimila hefur í heild batnað gríðarlega. Ráðandi stjórnmálamenn stæra sig af þeirri þróun og segja hana til merkis um mikið heilbrigði í efnahagsmálum.
Flestir landsmenn eiga eina tegund eigna sem hefur vaxið mikið í virði, fasteignina sem þeir búa í. Það er enda þannig að tæplega 76 prósent af þeirri aukningu sem orðið hefur á aukningu á tímabilinu er vegna hækkandi fasteignaverðs. Slík hækkun eru ekki peningar í hendi hjá þeim sem eiga eina eign, og þurfa að búa í henni, þótt auður verði til á blaði samhliða miklum hækkunum. Flestir þurfa að kaupa sér nýja eign ef þeir selja gömlu, og nýju eignirnar hafa líka hækkað að jafnaði jafn mikið í virði.
Þeir sem eiga hins vegar fleiri en eina fasteign, og stunda áhættufjárfestingar með slíkar, geta hagnast vel á svona ástandi. Samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands eru það á fimmta þúsund einstaklingar og lögaðilar, sem eiga á milli sín um 53 þúsund íbúðir. Í lok síðasta árs áttu alls 71 einstaklingar og 382 lögaðilar fleiri en sex íbúðir, 155 einstaklingar og 101 lögaðilar eiga fimm íbúðir og 579 einstaklingar og 165 lögaðilar eiga fjórar íbúðir. Fjöldi þeirra einstaklinga sem eiga þrjár íbúðir er 2.974 og fjöldi lögaðila sem eiga sama magn íbúða er 285. Þá eiga 16.501 einstaklingur og 688 lögaðilar tvær íbúðir.
Afar sennilegt er að þorri þessa hóps tilheyri þeim tíu prósent landsmanna sem eru með hæstu tekjurnar. Sá hópur hefur aukið eigið fé sitt í fasteignum um 1.551 milljarð króna frá árinu 2010. Það þýðir að 45 prósent af allri aukningu á eigin fé heimila vegna hækkunar á fasteignaverði fór til þessa hóps.
Tæplega 90 prósent til tæplega þriðjungs
Af þeim 608 nýju milljörðum króna sem urðu til í fyrra fóru, líkt og áður sagði, 331 milljarður króna til efstu tíundarinnar. Það er hlutfallslega mun meira en ríkasta lagið hefur tekið til sín áður. Hagstofan birtir ekki frekara niðurbrot á því hvernig þessi nýi auður skiptist innan efstu tekjutíundarinnar frekar en fyrri ár. Þess í stað hefur tíðkast að stjórnarandstöðuþingmenn hafa þurft að kalla eftir því niðurbroti og eftir nokkra mánuði svarar svo fjármála- og efnahagsráðherra fyrirspurn um hvernig eignir og skuldir efstu 0,1 prósent, 1 prósent og 5 prósent þjóðarinnar þróuðust á síðasta ári.
Ef horft er á hversu stór hluti af þessum 608 milljörðum króna lenti hjá ríkustu 20 prósent landsmanna kemur í ljóst að þrjár af hverjum fjórum nýjum krónum sem urðu til fóru í vasa þess hóps. Alls 88 prósent fór til efstu þriggja tekjutíundanna.
Fátækari helmingur landsmanna var samtals með neikvæða eiginfjárstöðu upp á 66,8 milljarða króna í árslok 2020. Hún batnaði um fjóra milljarða króna í fyrra en var samt enn neikvæð um 62,8 milljarða króna um síðustu áramót, að uppistöðu vegna þess að eiginfjárstaða neðstu tekjutíundarinnar versnaði umtalsvert.
Alls hafa 4.560 milljarðar króna orðið hefur til í samfélaginu síðan 2010. Af þeim fóru 2.051 milljarðar króna til þeirra tíu prósenta þjóðarinnar voru með hæstar tekjur á hverjum tíma, eða 45 prósent. Ef horft er á hversu stór hluti endaði hjá ríkasta fimmtungnum kemur í ljós að þangað rötuðu 2.975 milljarðar króna, eða 65 prósent af öllum nýjum auð.
Verðbréfaeign vanmetin
Síðustu tvö ár, 2020 og 2021, voru afar sérstök vegna kórónuveirufaraldursins. Stjórnvöld og Seðlabanki Íslands gripu til margháttaðra aðgerða sem hleyptu súrefni inn í hagkerfið. Afleiðingarnar hafa verið meðal annars verið þær að fasteignaverð og virði verðbréfa hefur hækkað mikið, og eigendur slíkra eigna á sama tíma ávaxtað fé sitt vel.
Í tölum Hagstofu Íslands um eigið fé landsmanna er ekki tekið tillit til eigna þeirra í lífeyrissjóðum landsins, sem sameiginlega halda á 6.422 milljörðum króna af eignum landsmanna, og eiga stóran hluta af öllum verðbréfum sem gefin eru út hérlendis.
Þá er virði hlutabréfa í innlendum og erlendum hlutafélögum líka reiknað á nafnvirði, ekki markaðsvirði. Það þýðir t.d. að ef einstaklingur keypti hlut í skráðu félagi sem hefur tífaldast í verði fyrir einhverjum árum á 100 milljón króna þá er það virðið sem reiknað er inn í tölur Hagstofunnar, ekki einn milljarður króna, sem er verðið sem viðkomandi myndi fá ef hann seldi hlutabréfin. Þetta skekkir eðlilega mjög allar uppgefnar tölur um eigið fé, enda verðbréf að meginuppistöðu í eigu þess hluta þjóðarinnar sem á mestar eignir.
Það sást skýst í greiningu á álagningu opinberra gjalda einstaklinga eftir tekjutíundum sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi 22. júní síðastliðinn.
Þar kom fram að þau tíu prósent landsmanna sem höfðu mestar fjármagnstekjur á síðasta ári tóku til sín 81 prósent allra fjármagnstekna einstaklinga á árinu 2021. Alls höfðu einstaklingar 181 milljarð króna í fjármagnstekjur í fyrra og því liggur fyrir að efsta tíundin, sem telur nokkur þúsund fjölskyldur, var með tæplega 147 milljarða króna í fjármagnstekjur á síðasta ári.
Heildarfjármagnstekjur einstaklinga hækkuðu um 57 prósent milli ára, eða alls um 65 milljarða króna. Mest hækkaði söluhagnaður hlutabréfa sem var 69,5 milljarðar króna á árinu 2021. Ljóst má vera að þorri þeirrar aukningar lenti hjá efstu tekjutíundinni, sem er sá hópur sem á meginþorra hlutabréfa í eigu einstaklinga á Íslandi.
Ráðstöfunartekjur efstu tekjutíundar hækkuðu mest
Fjármagnstekjur dreifast mun ójafnar en launatekjur. Þær lendi mun frekar hjá tekjuhæstu hópum landsins, sem eiga mestar eignir.
Í minnisblaði um áðurnefnda greiningu sem lagt var fyrir ríkisstjórn er þetta staðfest. Þar kemur fram að hækkandi skattgreiðslur efstu tekjutíundarinnar séu fyrst og síðast tilkomnar vegna þess að fjármagnstekjur þeirra hafa stóraukist, enda greiðir þessi hópur 87 prósent af öllum fjármagnstekjuskatti. Þessar auknu tekjur gerðu það að verkum að innheimtur fjármagnstekjuskattur jókst um 73 prósent, eða 16,3 milljarða króna, milli áranna 2020 og 2021.
Heildartekjur, hvort sem þær eru laun vegna vinna eða fjármagnstekjur mynda, auk bóta, ráðstöfunartekjur einstaklinga. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hækkaði að meðaltali um 5,1 prósent á árinu 2021 og náði sú aukning yfir allar tekjutíundir. Í minnisblaði ráðuneytisins segir hins vegar: „Mikil aukning fjármagnstekna gerir það að verkum að meðaltal efstu tíundarinnar hækkar mest.“
Þessar upplýsingar, að meðaltal ráðstöfunartekna hafi hækkað mest hjá tekjuhæstu tíu prósent þjóðarinnar, var ekki að finna í umfjöllun um greininguna á vef stjórnarráðsins. Þess í stað voru birtar upplýsingar um miðgildi kaupmáttar ráðstöfunartekna, sem sýndu allt aðra mynd en meðaltal myndi sýna.
Í umfjölluninni var heldur ekki minnst á að 81 prósent allra fjármagnstekna hafi ratað til efstu tekjutíundarinnar á árinu 2021.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði