Mynd: Bára Huld Beck Blaðamannafundur – Aðgerðir vegna COVID-19 þann 21. mars 2020
Ríkisstjórn Íslands kynnti nokkra efnahagspakka til að örva efnahagslífið á meðan að á kórónuveirufaraldrinum stóð.
Mynd: Bára Huld Beck

Rúmlega helmingur alls nýs auðs sem varð til í fyrra fór til ríkustu Íslendinganna

Þau tíu prósent landsmanna sem höfðu mestar tekjur í fyrra tóku til sín 54,4 prósent allrar aukningar sem varð á eigin fé landsmanna á árinu 2021, eða 331 milljarð króna. Efsti fimmtungurinn tók til sín þrjár af hverjum fjórum nýjum krónum. Umtalsvert hærra hlutfall af nýjum auð lenti hjá ríkustu hópunum í fyrra en að meðaltali áratuginn á undan. Sem þýðir að misskipting eigna jókst.

Á árinu 2021 urðu til 608 nýir millj­arðar króna í eigið fé hjá íslenskum heim­il­um. Sá hópur lands­manna sem til­heyrir þeim tíu pró­sentum sem höfðu hæstu tekj­urnar jók eign sína á árinu um 331 millj­arð króna. Það þýðir að 54,4 pró­sent af nýjum auð sem varð til í fyrra lenti hjá þessum hópi, sem telur 23.040 fjöl­skyld­ur. 

Þegar þróun á eignum og skuldum þjóð­ar­innar er skoðað aftur í tím­ann kemur í ljós að á árunum 2010 til 2020, á einum ára­tug, tók þessi efsta tíund að með­al­tali til sín 43,5 pró­sent af öllum nýjum auð sem varð til á ári. Því átti sú þróun sér stað á síð­asta ári að rík­ustu tíu pró­sent lands­manna tóku til sín mun hærra hlut­fall af nýjum auð en hóp­ur­inn hefur að jafn­aði gert ára­tug­inn á und­an.

Þetta má lesa úr nýjum tölum sem Hag­stofa Íslands birti í morgun um eignir og skuldir lands­manna. 

Þessi þróun á sér stað vegna þess að fjár­magnstekjur ruku upp á síð­asta ári. Þær hækk­uðu um 65 millj­arða króna. Alls fóru 81 pró­sent allra fjár­magnstekna til efstu tekju­tí­und­ar­inn­ar. Aðgerðir sem stjórn­völd og Seðla­banki Íslands gripu til vegna efna­hags­legra afleið­inga kór­ónu­veiru­far­ald­urs­ins spila stærsta rullu í þró­un­inni. Pen­ingar voru gerðir ódýr­ari og tæki­færi þeirra sem áttu fjár­magn til að ávaxta, til dæmis í hluta­bréfum og fast­eign­um, til að hagn­ast gríð­ar­lega urðu fjöl­mörg.

Hægt að græða mikið á fast­eigna­braski

Alls áttu íslensk heim­ili tæp­lega 6.125 millj­arða króna í eigið fé um síð­ustu ára­mót, sam­kvæmt skatt­fram­tölum þeirra. Hrein eign þeirra hefur auk­ist gríð­ar­lega frá árinu 2010, eða um 4.560 millj­arða króna. Fyrir vikið líta allar hag­tölur mun betur út. Skulda­staða íslenskra heim­ila hefur í heild batnað gríð­ar­lega. Ráð­andi stjórn­mála­menn stæra sig af þeirri þróun og segja hana til merkis um mikið heil­brigði í efna­hags­mál­um.

Flestir lands­menn eiga eina teg­und eigna sem hefur vaxið mikið í virði, fast­eign­ina sem þeir búa í. Það er enda þannig að tæp­lega 76 pró­sent af þeirri aukn­ingu sem orðið hefur á aukn­ingu á tíma­bil­inu er vegna hækk­andi fast­eigna­verðs. Slík hækkun eru ekki pen­ingar í hendi hjá þeim sem eiga eina eign, og þurfa að búa í henni, þótt auður verði til á blaði sam­hliða miklum hækk­un­um. Flestir þurfa að kaupa sér nýja eign ef þeir selja gömlu, og nýju eign­irnar hafa líka hækkað að jafn­aði jafn mikið í virði.

Þeir sem eiga hins vegar fleiri en eina fast­eign, og stunda áhættu­fjár­fest­ingar með slík­ar, geta hagn­ast vel á svona ástandi. Sam­kvæmt tölum frá Þjóð­skrá Íslands eru það á fimmta þús­und ein­stak­lingar og lög­að­il­ar, sem eiga á milli sín um 53 þús­und íbúð­ir. Í lok síð­asta árs áttu alls 71 ein­stak­l­ingar og 382 lög­­að­ilar fleiri en sex íbúð­ir, 155 ein­stak­l­ingar og 101 lög­­að­ilar eiga fimm íbúðir og 579 ein­stak­l­ingar og 165 lög­­að­ilar eiga fjórar íbúð­­ir. Fjöldi þeirra ein­stak­l­inga sem eiga þrjár íbúðir er 2.974 og fjöldi lög­­að­ila sem eiga sama magn íbúða er 285. Þá eiga 16.501 ein­stak­l­ingur og 688 lög­­að­ilar tvær íbúð­­ir. 

Afar senni­legt er að þorri þessa hóps til­heyri þeim tíu pró­sent lands­manna sem eru með hæstu tekj­urn­ar. Sá hópur hefur aukið eigið fé sitt í fast­eignum um 1.551 millj­arð króna frá árinu 2010. Það þýðir að 45 pró­sent af allri aukn­ingu á eigin fé heim­ila vegna hækk­unar á fast­eigna­verði fór til þessa hóps. 

Tæp­lega 90 pró­sent til tæp­lega þriðj­ungs

Af þeim 608 nýju millj­örðum króna sem urðu til í fyrra fóru, líkt og áður sagði, 331 millj­arður króna til efstu tíund­ar­inn­ar. Það er hlut­falls­lega mun meira en rík­asta lagið hefur tekið til sín áður. Hag­stofan birtir ekki frekara nið­ur­brot á því hvernig þessi nýi auður skipt­ist innan efstu tekju­tí­und­ar­innar frekar en fyrri ár. Þess í stað hefur tíðkast að stjórn­ar­and­stöðu­þing­menn hafa þurft að kalla eftir því nið­ur­broti og eftir nokkra mán­uði svarar svo fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra fyr­ir­spurn um hvernig eignir og skuldir efstu 0,1 pró­sent, 1 pró­sent og 5 pró­sent þjóð­ar­innar þró­uð­ust á síð­asta ári. 

Ef horft er á hversu stór hluti af þessum 608 millj­örðum króna lenti hjá rík­ustu 20 pró­sent lands­manna kemur í ljóst að þrjár af hverjum fjórum nýjum krónum sem urðu til fóru í vasa þess hóps. Alls 88 pró­sent fór til efstu þriggja tekju­tí­und­anna. 

Fátæk­ari helm­ingur lands­manna var sam­tals með nei­kvæða eig­in­fjár­stöðu upp á 66,8 millj­arða króna í árs­lok 2020. Hún batn­aði um fjóra millj­arða króna í fyrra en var samt enn nei­kvæð um 62,8 millj­arða króna um síð­ustu ára­mót, að uppi­stöðu vegna þess að eig­in­fjár­staða neðstu tekju­tí­und­ar­innar versn­aði umtals­vert. 

Alls hafa 4.560 millj­­arðar króna orðið hefur til í sam­­fé­lag­inu síðan 2010. Af þeim fóru 2.051 millj­arðar króna til þeirra tíu pró­senta þjóð­ar­innar voru með hæstar tekjur á hverjum tíma, eða 45 pró­sent. Ef horft er á hversu stór hluti end­aði hjá rík­asta fimmt­ungnum kemur í ljós að þangað röt­uðu 2.975 millj­arðar króna, eða 65 pró­sent af öllum nýjum auð. 

Verð­bréfa­eign van­metin

Síð­­­ustu tvö ár, 2020 og 2021, voru afar sér­­­stök vegna kór­ón­u­veiru­far­ald­­ur­s­ins. Stjórn­­völd og Seðla­­banki Íslands gripu til marg­hátt­aðra aðgerða sem hleyptu súr­efni inn í hag­­kerf­ið. Afleið­ing­­arnar hafa verið meðal ann­­ars verið þær að fast­eigna­verð og virði verð­bréfa hefur hækkað mik­ið, og eig­endur slíkra eigna á sama tíma ávaxtað fé sitt vel.

Í tölum Hag­­stofu Íslands um eigið fé lands­­manna er ekki tekið til­­lit til eigna þeirra í líf­eyr­is­­sjóðum lands­ins, sem sam­eig­in­­lega halda á 6.422 millj­­örðum króna af eignum lands­­manna, og eiga stóran hluta af öllum verð­bréfum sem gefin eru út hér­­­lend­­is. 

Þá er virði hluta­bréfa í inn­­­lendum og erlendum hluta­­fé­lögum líka reiknað á nafn­virði, ekki mark­aðsvirði. Það þýðir t.d. að ef ein­stak­l­ingur keypti hlut í skráðu félagi sem hefur tífald­­ast í verði fyrir ein­hverjum árum á 100 milljón króna þá er það virðið sem reiknað er inn í tölur Hag­­stof­unn­­ar, ekki einn millj­­arður króna, sem er verðið sem við­kom­andi myndi fá ef hann seldi hluta­bréf­in. Þetta skekkir eðli­­lega mjög allar upp­­­gefnar tölur um eigið fé, enda verð­bréf að meg­in­­upp­i­­­stöðu í eigu þess hluta þjóð­­ar­innar sem á mestar eign­­ir. 

Það sást skýst í grein­ingu á álagn­ingu opin­berra gjalda ein­stak­l­inga eftir tekju­­tí­undum sem Bjarni Bene­dikts­­son, fjár­­­mála- og efna­hags­ráð­herra, kynnti á rík­­is­­stjórn­­­ar­fundi 22. júní síð­­ast­lið­inn. 

Þar kom fram að þau  tíu pró­­sent lands­­manna sem höfðu mestar fjár­­­magnstekjur á síð­­asta ári tóku til sín 81 pró­­sent allra fjár­­­magnstekna ein­stak­l­inga á árinu 2021. Alls höfðu ein­stak­l­ingar 181 millj­­arð króna í fjár­­­magnstekjur í fyrra og því liggur fyrir að efsta tíund­in, sem telur nokkur þús­und fjöl­­skyld­­ur, var með tæp­­lega 147 millj­­arða króna í fjár­­­magnstekjur á síð­­asta ári. 

Heild­­ar­fjár­­­magnstekjur ein­stak­l­inga hækk­­uðu um 57 pró­­sent milli ára, eða alls um 65 millj­­arða króna. Mest hækk­­­aði sölu­hagn­aður hluta­bréfa sem var 69,5 millj­­­arðar króna á árinu 2021. Ljóst má vera að þorri þeirrar aukn­ingar lenti hjá efstu tekju­­tí­und­inni, sem er sá hópur sem á meg­in­þorra hluta­bréfa í eigu ein­stak­l­inga á Íslandi.

Ráð­­stöf­un­­ar­­tekjur efstu tekju­­tí­undar hækk­­uðu mest

Fjár­­­magnstekjur dreifast mun ójafnar en launa­­tekj­­ur. Þær lendi mun frekar hjá tekju­hæstu hópum lands­ins, sem eiga mestar eign­­ir. 

Í minn­is­­blaði um áður­nefnda grein­ing­u sem lagt var fyrir rík­­is­­stjórn er þetta stað­­fest. Þar kemur fram að hækk­­andi skatt­greiðslur efstu tekju­­tí­und­­ar­innar séu fyrst og síð­­­ast til­­komnar vegna þess að fjár­­­magnstekjur þeirra hafa stór­­aukist, enda greiðir þessi hópur 87 pró­­sent af öllum fjár­­­magnstekju­skatti. Þessar auknu tekjur gerðu það að verkum að inn­­heimtur fjár­­­magnstekju­skattur jókst um 73 pró­­sent, eða 16,3 millj­­arða króna, milli áranna 2020 og 2021. 

Heild­­ar­­tekj­­ur, hvort sem þær eru laun vegna vinna eða fjár­­­magnstekjur mynda, auk bóta, ráð­­stöf­un­­ar­­tekjur ein­stak­l­inga. Kaup­máttur ráð­­stöf­un­­ar­­tekna hækk­­aði að með­­al­tali um 5,1 pró­­sent á árinu 2021 og náði sú aukn­ing yfir allar tekju­­tí­und­­ir. Í minn­is­­blaði ráðu­­neyt­is­ins segir hins veg­­ar: „Mikil aukn­ing fjár­­­magnstekna gerir það að verkum að með­­al­­tal efstu tíund­­ar­innar hækkar mest.“

Þessar upp­­lýs­ing­­ar, að með­­al­­tal ráð­­stöf­un­­ar­­tekna hafi hækkað mest hjá tekju­hæstu tíu pró­­sent þjóð­­ar­inn­­ar, var ekki að finna í umfjöllun um grein­ing­una á vef stjórn­­­ar­ráðs­ins. Þess í stað voru birtar upp­­lýs­ingar um mið­­gildi kaup­máttar ráð­­stöf­un­­ar­­tekna, sem sýndu allt aðra mynd en með­­al­­tal myndi sýna.

Í umfjöll­un­inni var heldur ekki minnst á að 81 pró­­sent allra fjár­­­magnstekna hafi ratað til efstu tekju­­tí­und­­ar­innar á árinu 2021.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar