„Við höfum lagt á það áherslu við bankana að gerðar yrðu breytingar á eignarhaldi stóru greiðslukortafyrirtækjanna, þ.e. að bankarnir komi ekki saman að eignarhaldi í greiðslukortafyrirtækjunum. Í því ljósi telur Samkeppniseftirlitið jákvætt að Landsbankinn hafi nú selt sig út úr Borgun. Breytingin er til þess fallin að auka samkeppni á greiðslukortamarkaði. Samkeppniseftirlitið tekur hins vegar ekki afstöðu til þess hvaða bankar fari með eignarhald í greiðslukortafyrirtækjunum eða hvort Landsbankinn hafi vegna eignarhalds ríkisins á honum átt að setja hlutinn í opið söluferli,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, um sölu Landsbankans á 31,2 prósent hlut í Borgun til Eignarhaldsfélags Borgunar slf., en tilkynnt var um það 25. nóvember síðastliðinn að Landsbankinn hefði selt umræddan hlut fyrir tæplega 2,2 milljarða króna.
Bak við luktar dyr
Ekkert opið eða gagnsætt söluferli fór fram áður en viðskiptin voru formgerð með samningi og voru fjárfestarnir sem eru eigendur Eignarhaldsfélags Borgunar því einu aðilarnir sem fengu möguleikann á því að kaupa. Bankaráðið samþykkti viðskiptin áður en þau voru kláruð, en það staðfesti Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðsins, við Kjarnann í gær.
Samkvæmt skýringum Landsbankans var ástæðan meðal annars sú að bankinn hefði viljað losa um eignarhlutinn hratt og að hann hefði verið undir þrýstingi, meðal annars frá Samkeppniseftirlitinu, um að selja hlutinn.
Breytingar
Páll Gunnar segir að samkeppniseftirlitið hafi knúið á um breytingar á eignarhaldi hjá greiðslukortafyrirtækjunum á undanförnum mánuðum, og sett sig upp á móti því að fulltrúar frá bönkunum öllum, sem eru eigendur greiðslukortafyrirtækjanna, geti átt með sér samstarf eða samráð á vettvangi þessara fyrirtækja, hvort sem það er í stjórn eða með annarri aðkomu.
Þrjú stærstu greiðslukortafyrirtækin á Íslandi eru Valitor, Borgun og Kreditkort. Stærstu eigendur Borgunar eru Íslandsbanki með 62 prósent hlut og Eignarhaldsfélag Borgunar slf. með 31,2 prósent hlut. Aðrir eigendur, með óverulega hluti hver, eru Arion banki, BPS ehf., Sparisjóður Vestmannaeyja, Sparisjóður Norðfjarðar og síðan á Borgun hf. lítið eitt af eigin hlutum.
Valitor hf. er 99 prósent í eigu Valitor Holding hf., sem eru í eigu banka að mestu leyti. Arion banki er stærsti eigandinn með 60,78 prósent hlut og Landsbankinn er með 38 prósent hlut. Sparisjóðir og smærri fjármálafyrirtæki eiga síðan afganginn, tæplega tvö prósent.
Kreditkort er síðan í eigu Íslandsbanka að nær öllu leyti.
Þessi sala á 31,2 prósent hlutnum í Borgun til Eignarhaldsfélags Borgunar er því að öllum líkindum aðeins toppurinn á ísjakanum þegar að kemur að breytingum á eignarhaldi greiðslukortafyrirtækjanna, sé heildarmyndin á markaðnum skoðuð og hún sett í samhengi við kröfur Samkeppniseftirlitsins um að bankarnir dragi sig úr eigendahópi greiðslukortafyrirtækjanna.
Stofnfé Eignarhaldsfélags Borgunar nemur 500 þúsund krónum sem skiptist í þrjá flokka, 100 þúsund í A flokki, 395 þúsund í B flokki og fimm þúsund í C flokki. Í A og B flokki eru eigendur stofnfjár með takmarkaða ábyrgð en í C flokki er ótakmörkuð ábyrgð.
B flokkurinn langstærstur
Einu eigendur A flokks stofnfjár er félagið Orbis Borgunar slf. Eigendur B flokks hlutabréfa Eignarhaldsfélags Borgunar eru þrettán talsins, samkvæmt samningi um samlagsfélagið sem Kjarninn hefur undir höndum. Stærsti einstaki eigandinn er Stálskip ehf., þar sem Guðrún Lárusdóttir hefur stýrt ferðinni í áratugi, með 29,43 prósent hlut. Þá á félagið P126 ehf. 19,71 prósent hlut, en eigendur þess eru Einar Sveinsson og sonur hans Benedikt Einarsson, í gegnum móðurfélagið Charamino Holdings Limited sem skráð er á Lúxemborg.
Þá á Pétur Stefánsson ehf. 19,71 prósent hlut, en forsvarsmaður þess var Sigvaldi Stefánsson á stofnfundi. Samanlagður eignarhlutur þessara þriggja stærstu eigenda nemur 68,85 prósentum af B flokki stofnfjár.
Á eftir þessum stærstu eigendum kemur félagið Vetrargil ehf. með 5,14 prósent hlut og TD á Íslandi ehf. 5,15 prósent. Afganginn eiga AB 426 ehf (2,86%)., þar sem Sigurþór Stefánsson er í forsvari, Eggson ehf. (0,86%), þar sem Anna Birgitta Geirfinnsdóttir er í forsvari, Bústoð ehf. (0,86%), þar sem Anna Birgitta er einnig í forsvari, Framtíðarbrautin ehf. (4,43%), þar sem B. Jakobína Þráinsdóttir er í forsvari, Iðusteinar ehf., þar sem Magnús Pálmi Örnólfsson er í forsvari, Holt og hæðir ehf., þar sem Sigríður V. Halldórsdóttir er í forsvari, Spectabilis ehf., þar sem Óskar V. Sigurðsson er í forsvari, og Mens Manus ehf., þar sem Hjalti Þ. Kristjánsson er í forsvari.
Stofnfundur í október
Samkvæmt stofnfundargerð félagsins, frá 23. október síðastliðnum, voru fjórir einstaklingar mættir fyrir hönd félaganna Orbis Borgunar slf. og Orbis GP ehf. Þau félög eru þau einu sem eru í eigendur stofnfjár í C flokki með ótakmarkaða ábyrgð. Þau sem mættu á fundinn fyrir hönd félaganna voru Magnús Magnússon, Óskar V. Sigurðsson, Jóhann Baldursson og Margrét Gunnarsdóttir.