Seðlabankinn hafnar því að aflétta leynd um ESÍ á grundvelli almannahagsmuna
Árið 2019 var ákvæði bætt við lög um Seðlabanka Íslands sem veitir bankanum heimild til að víkja frá þagnarskylduákvæði ef hagsmunir almennings af birtingu gagna vega þyngra en hagsmunir sem mæla með leynd. Á grundvelli ákvæðisins hefur Kjarninn reynt að nálgast gögn um Eignarsafn Seðlabanka Íslands, en án árangurs. Seðlabankinn hafnar því að í ákvæðinu felist efnisleg lagaheimild til að knýja á afhendingu gagna. Þess í stað sé um að ræða „heimild til birtingar upplýsinga að frumkvæði Seðlabankans, t.d. í tengslum við fréttir á vef bankans, skýrslur eða annað efni sem bankinn gefur út.“
Á árunum 2009 til 2017 starfaði félag sem hét Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ). Hlutverk þess var að koma eignum og kröfum sem Seðlabankinn sat uppi með eftir bankahrunið í verð. Umfangið var gríðarlegt, eignir og kröfur voru metnar á 490 milljarða króna.
Um allskyns eignir var að ræða, verðbréf, mörg hundruð fasteignir og ýmislegt annað. Á starfstíma sínum starfrækti ESÍ svo tvö dótturfélög, annars vega Sölvhól sem hafði það hlutverk að selja eignirnar, og hins vegar Hildu, sem ESÍ fékk í fangið árið 2011. Vegna eðlis starfseminnar hefur ESÍ oft verið nefnt „ruslakista Seðlabankans“.
Samkvæmt ársreikningum ESÍ var einn hluthafi í félaginu, Seðlabanki Íslands. Árið 2009, sem var fyrsta starfsár félagsins, sátu í stjórn þess þáverandi seðlabankastjóri, yfirlögfræðingur bankans og lykilstjórnandi innan hans. Enginn vafi er því á að félagið var undir stjórn Seðlabanka Íslands.
Mikil leynd hefur ríkt yfir því hvernig eignum ESÍ var ráðstafað, og til hverra. Þeir sem stýrðu því gátu iðkað þá leynd meðal annars á grunni þess að forsætisráðuneytið veitti ESÍ undanþágu frá upplýsingalögum. Hún rann hins vegar út í desember 2018 og hefur ekki verið endurnýjuð.
Slitaferli ESÍ, og dótturfélaga þess, hófst árið 2017 og lauk endanlega árið 2019.
Hafa aldrei viljað svara sértækum spurningum um ESÍ
Kjarninn hefur árum saman reynt að nálgast upplýsingar um hvaða eignir hafi verið settar inn í ESÍ, hvenær hver eign var seld, á hvaða verði þær voru seldar, hverjir milliliðir við sölu eignanna voru, hverjar þóknanir þeirra voru og hverjir kaupendurnir voru.
Seðlabankinn, og ESÍ á meðan að félagið starfaði, hafa aldrei viljað svara þessum spurningum og vísað annað hvort í þagnarskylduákvæði laga um Seðlabanka Íslands eða áðurnefnda undanþágu frá upplýsingalögum, sem rann út fyrir næstum fjórum árum síðan.
Í vor ákvað Kjarninn að gera aðra tilraun til að nálgast þessar upplýsingar. Tilefnið þá var ákvörðun Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, að leggja „sjálfstætt mat“ á almannahagsmuni af birtingu lista yfir þá sem fengu að kaupa hluti í Íslandsbanka í lokuðu útboði í mars 2022. Þegar Bjarni lagði það mat á birtinguna lá þegar fyrir lögfræðiálit unnið fyrir Bankasýslu ríkisins sem mælti gegn birtingunni.
Beiting „sjálfstæðs mats“ var því ný tegund af stjórnsýsluframkvæmd.
Forsætisráðuneytið beðið um að leggja „sjálfstætt mat“ á birtingu
Á grundvelli þess fór Kjarninn fram á að forsætisráðuneytið, sem Seðlabankinn heyrir að mestu undir, myndi leggja sambærilegt „sjálfstætt mat“ á birtingu gagna um ráðstafanir eigna út úr ESÍ. Kjarninn vísaði einnig í tilkynningu formanna sitjandi stjórnarflokka sem birtist á vef stjórnarráðsins 19. apríl síðastliðinn, þar sem stóð að traust og gagnsæi verði að ríkja um sölu á eignum ríkisins. Í þeirri tilkynningu sagði orðrétt: „Almenningur á skýra og óumdeilda kröfu um að allar upplýsingar séu uppi á borðum um slík áform, markmið þeirra og áhrif.“
Í maí svaraði ráðuneytið því til að það teldi það ekki sitt hlutverk að leggja mat á hvort hagsmunir almennings af birtingu gagna um ESÍ vegi þyngra en þeir hagsmunir sem mæli með leynd. Það þyrfti Seðlabankinn sjálfur að gera.
Í svari ráðuneytisins var hins vegar bent á að með nýjum lögum um Seðlabanka Íslands, sem sett voru árið 2019, hafi verið bætt við ákvæði þar sem bankanum er veitt heimild til að víkja frá þagnarskylduákvæði, „enda vegi hagsmunir almennings af birtingunni þyngra en hagsmunir sem mæla með leynd.“
Í athugasemdum með frumvarpinu sem varð að lögunum sagði að áður en ákvörðun sé tekin um slíka afhendingu þurfi að liggja fyrir greining á þeim hagsmunum sem vegast á í hverju tilviki fyrir sig. „Þá beri við mat á hagsmunum almennings af birtingu upplýsinga m.a. að líta til þess hvort þær varði ráðstöfun opinberra hagsmuna, sem almenningur eigi almennt ríkan rétt til að kynna sér hvernig staðið er að.“
Forsætisráðuneytið var því þeirrar skoðunar að Seðlabanki Íslands ætti að líta til þess hvort umræddar upplýsingar varði ráðstöfun opinberra hagsmuna, sem almenningur eigi almennt ríkan rétt til að kynna sér hvernig staðið er að og að bankinn eigi að leggja mat á það hvort hagsmunir almennings af birtingu upplýsinganna vegi þyngra en þeir hagsmunir sem mæla með leynd.
Kjarninn sendi í kjölfarið fyrirspurn til Seðlabankans þar sem hann var beðinn um að leggja mat á hagsmuni almennings af birtingu gagnanna og að rökstyðja það mat.
Einblínt á þagnarskyldu
Fyrsta svar Seðlabankans barst 24. maí. Í því sagði að bankinn mæti það sem svo að nýja ákvæðið, sem kallaði á að hagsmunir almennings af birtingu gagna yrðu metnir, hefði ekkert gildi ef lögmenn bankans teldu að þagnarskylda ætti að gilda um þær upplýsingar sem spurt væri um. „Að mati Seðlabankans er nægjanlegt að umbeðnar upplýsingar falli að þagnarskylduákvæði [...] þ.e. að þær varði hagi viðskiptamanna bankans, viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila, tengdra aðila eða annarra og málefni bankans sjálfs, svo og önnur atriði sem leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls, til að upplýsingaréttur almennings verði takmarkaður á grundvelli ákvæðisins.“
Auk þess kom fram að Seðlabankinn, sem var eini hluthafinn í ESÍ, teldi félagið sér alls óviðkomandi. „Fyrir slit félagsins var það ekki Seðlabankans að svara beiðnum um gögn og upplýsingar sem beint var til þess. Slíkum beiðnum var eðli máls samkvæmt beint til félagsins sjálfs. Þó því hafi nú verið slitið og það afskráð færir það, að mati Seðlabankans, ekki skylduna til að svara slíkri beiðni til bankans.“
Lofuðu loks efnislegri meðferð
Kjarninn óskaði því eftir að Seðlabankinn myndi endurskoða svar sitt og ef eini hluthafinn í ESÍ teldi sig ekki bera skyldu til að svara spurningum um starfsemi dótturfélags síns var óskað eftir upplýsingum um hvert ætti að beina slíkum spurningum, meðal annars nafni þess einstaklings sem færi með málefni ESÍ.
Auk þess var óskað eftir frekari skýringum á því hvernig Seðlabanki Íslands gæti ákveðið einhliða að viðbótarákvæði sem sett var inn í lög um starfsemi hans, og átti að tryggja ríkari rétt almennings til upplýsinga, væri marklaust. Í fyrirspurn Kjarnans stóð að sú túlkun bankans væri „sennilega fréttnæm fyrir þá ráðherra og þingmenn sem stóðu að breytingunni á lögunum og ætluðu ákvæðinu að hafa raunverulega virkni þar sem hagsmunir almennings á að fá að vita yrðu raunverulega metnir.“
130 dagar frá því að kæra barst
Þetta er ekki eina málið þar sem Seðlabanki Íslands hefur neitað að afhenda Kjarnanum gögn sem fjölmiðilinn telur að eigi skýrt erindi við almenning, og bankinn eigi þar af leiðandi að vega á grundvelli nýja ákvæðisins frá 2019. Þann 5. maí 2022 óskaði Kjarninn eftir aðgengi að stöðugleikasamningunum sem gerðir voru við slitabú föllnu bankanna. Tólf dögum síðar, 17. maí, óskaði Kjarninn eftir upplýsingum um nöfn þeirra sem fengu að nýta sér fjárfestingarleið Seðlabankans frá febrúar 2012 til febrúar 2015. Kjarninn hefur reynt að nálgast þær upplýsingar með upplýsingabeiðnum sem settar voru fram á árunum 2016 til 2018, án árangurs.
Síðastnefnda upplýsingabeiðnin rataði til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem staðfesti ákvörðun Seðlabankans með úrskurði 31. janúar 2019. Síðan þá hefur áðurnefndu ákvæði, sem leggur auknar kröfur á Seðlabankann um upplýsingagjöf, hins vegar verið bætt við lög um starfsemi hans. Því lét Kjarninn á það reyna hvort bankinn ætti að afhenda upplýsingarnar á grundvelli þess og kærði nýjustu synjun Seðlabankans til úrskurðarnefndarinnar 8. júní síðastliðinn.
Seðlabankinn fékk ríflegan frest, tvær vikur, til að skila umsögn um kæruna. Í aðdraganda þeirrar dagsetningar óskaði bankinn eftir viðbótarfresti til 8. júlí til að fá að skila umsögn sinni og vísaði til „sumarleyfa og mikilla anna vegna annarra verkefna“. Kjarninn lagðist gegn því að viðbótarfresturinn yrði veittur en nefndin ákvað samt sem áður að veita hann.
Tveimur dögum áður en fresturinn rann út óskaði Seðlabankinn eftir enn einum frestinum, nú til 15. júlí, vegna veikinda barna lögfræðings og sumarleyfa.
Úrskurðarnefndin féllst á að veita frestinn en tók fram að engir frekari frestir myndu fást. Í tölvupósti starfsmanns nefndarinnar til lögfræðings Seðlabankans var tekið fram að ekki væri unnt að veita frekari frest umfram það. „Hafi umsögn bankans ekki borist innan þess tíma verður litið svo á að Seðlabankinn hyggist ekki veita umsögn um málið. Kæran verður þá tekin til afgreiðslu óháð því hvort afstaða Seðlabankans liggi fyrir eða ekki þegar þar að kemur.
Umsögnin barst loks 15. júlí og í henni eru endurtekin fyrri rök bankans fyrir því að afhenda ekki umrædd gögn.
Í lok júní fengust þær upplýsingar að málið væri það 44. elsta í málaskrá úrskurðarnefndarinnar. Síðan þá hefur hún fundað tvívegis og úrskurðað í níu málum. Samkvæmt lögum á nefndin að birta úrskurð í málum að jafnaði innan 150 daga frá því að kæra er móttekin. Árið 2020 náði nefndin því að meðalmálsmeðferðatíminn var 142 dagar. Í dag eru 130 dagar siðan að úrskurðarnefndinni barst kæra Kjarnans.
Þann 7. júní barst svar frá Seðlabankanum þess efnis að með vísan til nýfallins úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamála myndi bankinn taka fyrirspurnina til efnislegrar meðferðar. Sá úrskurður snerist um fyrirspurn sagn- og lögfræðingsins Björns Jóns Bragasonar um úkraínska apótekakeðju sem var á meðal eigna ESÍ um tíma. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að Björn Jón ætti að fá umræddar upplýsingar en Seðlabankinn hefur enn ekki afhent honum þær, og segist ekki hafa þær undir höndum.
Ekki bankans að svara fyrirspurn um félag sem hann átti
Sú efnislega meðferð leiddi til þess að lögfræðingur hjá Seðlabankanum sendi svar 22. júlí 2022 sem fól efnislega í sér sömu svör og upplýsingafulltrúi bankans hafði veitt tveimur mánuðum fyrr. Að það væri ekki Seðlabankans að svara fyrir ESÍ, þar sem hann hefði ekki gert það fyrir slit félagsins. Engar upplýsingar voru veittar um hver ætti að svara fyrirspurnunum.
Þess í stað vísaði Seðlabankinn í svar við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, sem hann beindi til Bjarna Benediktssonar í september. Sigurður Ingi var þá í stjórnarandstöðu en hafði setið í ríkisstjórninni á undan, sem sat 2013 til 2016, þegar ESÍ var enn á fullu í að ráðstafa eignum sínum. Sigurður Ingi hefur auk þess starfað í ríkisstjórn með Bjarna frá því skömmu eftir að fyrirspurninni var svarað og fram til dagsins í dag. Spurningar Sigurðar Inga er hægt að sjá hér að neðan.
- Hversu margar eignir/kröfur hefur Seðlabanki Íslands selt, beint eða í gegnum dótturfélög, svo sem ESÍ, frá því að honum var falin umsjón þeirra eftir bankahrunið árið 2008, hvert var söluandvirðið í heild og sundurliðað eftir árum, hverjir keyptu og á hvaða kjörum, sundurliðað ár fyrir ár?
- Í hvaða tilvikum var lánað fyrir kaupunum, við hversu hátt lánshlutfall var miðað, hvaða skilyrði voru sett um tryggingar fyrir greiðslu kaupverðs, hver var stefnan um vaxtakjör, var í einhverjum tilvikum vikið frá henni og ef svo er, hvers vegna?
- Hefur Seðlabankinn, beint eða í gegnum dótturfélög, keypt eignir/kröfur eða fengið framseldar með öðrum hætti, svo sem í skiptum fyrir aðrar eignir/kröfur, frá bankahruni, hvaða eignir/kröfur voru það, sundurliðað ár fyrir ár, voru þær skráðar á markaði, hvaða ástæður voru fyrir kaupunum og á hvaða lagaheimild byggði Seðlabankinn eða dótturfélög kaupin?
- Hafa eignir/kröfur verið seldar aftur og ef svo er, hver er munurinn á kaup- og söluverði, hverjir voru kaupendur og seljendur í þeim viðskiptum og hefur Seðlabankinn eða dótturfélög fengið framseldar til sín eignir sem rýrnað hafa í verði eða jafnvel tapast frá því að þeirra var aflað?
- Fyrir hvaða sérfræðiþjónustu, hverjum og hve mikið, hefur Seðlabanki Íslands, beint eða í gegnum dótturfélög, greitt vegna sölu á eignum/kröfum frá og með árinu 2013 til dagsins í dag, var þjónustan auglýst og/eða boðin út, hvernig var staðið að ráðningu á þjónustuaðilum, hver voru sjónarmið til grundvallar ráðningum og hvernig skiptust greiðslur milli aðila?
- Var sala á eignarhlutum/kröfum Seðlabanka Íslands eða dótturfélaga bankans ávallt auglýst, hvernig var staðið að útboði/sölu í þeim tilvikum, við hvaða reglur var miðað, voru viðmiðin sambærileg í öllum tilvikum og ef ekki, hvers vegna?
Bjarni svaraði fyrirspurn Sigurðar Inga með ítarlegu svari, en þó var ekki svarað efnislega og sértækt, þeim atriðum sem spurt var út í. Í svarinu var vísað til þagnarskyldu Seðlabankans um verkefni ESÍ og að bankinn myndi skila af sér skýrslu um ESÍ og starfsemi þess, þegar vinnu við slit væri lokið.
Skýrslan sem hefur ekki skilað sér fjórum árum eftir að hún átti að koma út
Skýrslan sem Seðlabanki Íslands átti að vinna um ESÍ, og átti að skila til bankaráðs hans fyrir árslok 2018, er enn ekki komin út. Skýrslan átti að varpa heildarmynd á starfsemi ESÍ og dótturfélaga þess og taka átti saman hvert endanlegt tjón bankans verður af veðlánastarfsemi hans.
Þegar Viðskiptablaðið leitaði eftir upplýsingum um hvenær skýrslan ætti að koma út fyrir tæpum tveimur árum fengust þau svör að viðbrögð við heimsfaraldrinum hefðu valdið því að hlé hafi orðið á skýrslugerðinni. Nokkurra mánaða vinna væri eftir við gerð hennar.
Í apríl síðastliðnum fengust þau svör hjá Seðlabankanum að miklar annir við önnur verkefni hefði valdið því að skýrslan væri ekki komin út. Bankinn gæti ekki gefið neinar upplýsingar um væntanlegan útgáfudag. Í sumar fengust hins vegar þær upplýsingar frá bankanum að vinna við gerð skýrslunnar væri hafin að nýju. Það bendir til þess að gögn varðandi starfsemi ESÍ séu til í bankanum, þvert á þau svör sem hann hefur gefið fjölmiðlum.
Margir vöruðu við því að setja upp eignasölufélag á borð við ESÍ eftir bankahrunið. Það gerðu meðal annars hagfræðingarnir Gauti B. Eggertsson og Jón Steinsson í grein sem birtist í Morgunblaðinu í mars 2009. Þar sagði meðal annars: „Það eru ýmsir ókostir á eignasölufélögum í eigu ríkisins. Stærsti ókosturinn er hætta á spillingu. Reynslan hefur kennt Íslendingum – og raunar öðrum þjóðum – að þegar ríkið selur eignir er mikil hætta á því að umsjónarmenn söluferlisins selji vinum, ættingjum eða jafnvel sjálfum sér verðmætar eignir á undirverði.“
Kjarninn sendi nýja fyrirspurn á Seðlabankann 22. júlí og fór fram á fá skýrari svör frá Seðlabankanum. Enn og aftur varð mikill dráttur á svörum og það afsakað með því að starfsfólk bankans væri í sumarleyfi.
Svar barst loks 17. ágúst. Í því sagði að það væri túlkun bankans að ákvæðið sem bætt var við lög um Seðlabankann árið 2019, þar sem honum var veitt heimild til að víkja frá þagnarskylduákvæði ef hagsmunir almennings af birtingunni vega þyngra en hagsmunir sem mæla með leynd, fælist ekki „efnisleg lagaheimild til að knýja á um afhendingu gagna heldur sé þar um að ræða heimild til birtingar upplýsinga að frumkvæði Seðlabankans, t.d. í tengslum við fréttir á vef bankans, skýrslur eða annað efni sem bankinn gefur út.“
Auk þess var aftur sagt að Seðlabankinn sæi ekki annað en að í svarinu við fyrirspurn Sigurðar Inga frá því í september 2017 væri að finna þær upplýsingar sem Kjarninn væri að óska eftir.
Kjarninn svaraði því til að sú ályktun væri röng. Ef upplýsingarnar væru þar að finna væri miðillinn ekki að óska eftir þeim.
Síðasta svar Seðlabankans barst 13. september. Þar var fyrirspurnum Kjarnans enn og aftur ekki svarað á grundvelli þagnarskylduákvæðis í lögum um starfsemi bankans. Þar sagði enn fremur: „Frekari birting gagna og upplýsinga verður til umræðu þegar umrædd skýrsla um starfsemi ESÍ verður gefin út. Telur bankinn þar með að ekki verði lengra komist með nefnda fyrirspurn þína að sinni.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði