Seðlabankinn tekur beiðni Kjarnans um „ruslaskistu Seðlabankans“ til efnislegrar meðferðar
Nýlegur úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál skikkar Seðlabanka Íslands til að kanna hvort hann hafi gögn um Eignasafn Seðlabanka Íslands undir höndum og leggja í kjölfarið mat á hvort þau gögn séu háð þagnarskyldu. Áður hafði bankinn sagt að hann þyrfti ekki að svara fyrir félagið, sem var að öllu leyti í hans eigu, vegna þess að búið væri að slíta því.
Seðlabanki Íslands mun taka beiðni Kjarnans um aðgang að gögnum og upplýsingum um starfsemi Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ) til efnislegrar meðferðar. Það er gert með vísan til nýfallins úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem féll 1. júní síðastliðinn, í máli sem lögfræðingurinn og sagnfræðingurinn Björn Jón Bragason kærði til nefndarinnar.
Áður hafði bankinn sagt í svari við fyrirspurn Kjarnans seint í síðasta mánuði að hann telji sig ekki þurfa að svara beiðnum um gögn sem tengist ESÍ þar sem félagið sjálft hafi svarað slíkum beiðnum á starfstíma sínum. Nú þegar búið sé að slíta ESÍ – því var slitið 2019 – sé það ekki hlutverk Seðlabankans að taka við því hlutverki að svara fyrirspurnum til þess.
Þessu hafnaði úrskurðarnefndin í áðurnefndum úrskurði, en Björn Jón hafði farið fram á upplýsingar um allan lögfræðikostnað og kostnað við aðra sérfræðiráðgjöf sem ESÍ og dótturfélög þess greiddu á starfstíma sínum.
Mat úrskurðarnefndarinnar var að afgreiðsla Seðlabanka Íslands á beiðni kæranda hafi ekki samrýmst ákvæðum upplýsingalaga og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. „Þá hefur og komið fram í skýringum bankans að gagnabeiðnir kæranda hafi ekki verið teknar fyrir efnislega af hálfu bankans, þ.e. kannað hvort bankinn hafi gögn undir höndum sem falli að beiðnum kæranda og í framhaldinu hvort þau gögn séu háð þagnarskyldu. Beiðni kæranda hefur samkvæmt framangreindu ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni er fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir Seðlabanka Íslands að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar sem felur m.a. í sér að afmarka beiðni kæranda við gögn hjá bankanum sem liggja fyrir og heyra undir beiðni kæranda, og taka afstöðu til þess hvort kærandi eigi rétt til að fá aðgang að þeim gögnum, í heild eða að hluta.“
Átti að skila skýrslu 2018
Seðlabanki Íslands átti að vinna skýrslu um ESÍ og skila henni til bankaráðs hans fyrir árslok 2018. Skýrslan átti að varpa heildarmynd á starfsemi ESÍ og dótturfélaga þess og taka átti saman hvert endanlegt tjón bankans verður af veðlánastarfsemi hans. Hún er enn ekki komin út, meira en fjórum árum eftir að slitaferli ESÍ hófst.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans um afdrif skýrslunnar, sem barst í apríl síðastliðnum, sagði upplýsingafulltrúi Seðlabankans ástæðuna fyrir því að skýrslan væri ekki komin út vera „miklar annir við önnur verkefni“. Hann gat á þeirri stundu ekki gefið svar um væntanlegan útgáfudag.
Við meðferð úrskurðarnefndar um upplýsingamál í áðurnefndu kærumáli Björns Jóns óskaði nefndin eftir nánari skýringum frá Seðlabankanum um hver hefðu orðið afdrif gagna ESÍ og dótturfélaga þess eftir að félögunum var slitið. Í svari Seðlabankans sagði að við slit og afskráningu ESÍ, og félaga í eigu ESÍ, hefði Seðlabankinn ekki fengið afhent gögn félaganna. „Þá hefði Seðlabankinn ekki vitneskju um stöðu einstakra afskráðra félaga eða hvort skiptastjórar eða skilanefndir hefðu afhent Þjóðskjalasafni viðeigandi skjöl í samræmi við lög um opinber skjalasöfn.“
Úrskurðarnefndin óskaði eftir upplýsingum um það hjá Þjóðskjalasafni Íslands hvort ESÍ og dótturfélög þess hefðu afhent skjalasafninu gögn sín í samræmi við lög um opinber skjalasöfn. „Þjóðskjalasafnið staðfesti með pósti, dags. 8. apríl sama ár, að engar gögn hefðu borist frá þessum lögaðilum.“
Vandséð er hvernig Seðlabankinn geti unnið skýrslu sem varpa á heildarmynd á starfsemi ESÍ ef engin gögn eru til um félagið innan bankans.
Mörg hundruð milljarðar króna í „ruslakistunni“
ESÍ, sem oft var kallað „ruslakista Seðlabankans“ starfaði frá 2009 og út árið 2017. Inn í félagið var safnað eignum sem féllu Seðlabankanum í skaut vegna falls fjármálakerfisins. Um allskyns eignir var að ræða, verðbréf, mörg hundruð fasteignir og ýmislegt annað. Á starfstíma sínum starfrækti ESÍ svo tvö dótturfélög, annars vega Sölvhól sem hafði það hlutverk að selja eignirnar, og hins vegar Hildu, sem ESÍ fékk í fangið árið 2011.
Umfang eigna og krafna sem ESÍ hélt á eftir hrunið var 490 milljarðar króna samkvæmt svari þáverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, við fyrirspurn á þingi í september 2017.
Slitaferli félagsins, og dótturfélaga þess, hófst árið 2017 og lauk endanlega 2019.
Margir höfðu enda varað við því að ríkið setti upp eignasölufélög. Það gerðu meðal annars hagfræðingarnir Gauti B. Eggertsson og Jón Steinsson í grein sem birtist í Morgunblaðinu í mars 2009. Þar sagði meðal annars: „Það eru ýmsir ókostir á eignasölufélögum í eigu ríkisins. Stærsti ókosturinn er hætta á spillingu. Reynslan hefur kennt Íslendingum – og raunar öðrum þjóðum – að þegar ríkið selur eignir er mikil hætta á því að umsjónarmenn söluferlisins selji vinum, ættingjum eða jafnvel sjálfum sér verðmætar eignir á undirverði.“
Sigurður Ingi spurði Bjarna út í ESÍ
Fjölmiðlar hafa árum saman reynt að fá upplýsingar um hvaða eignir voru settar inn í ESÍ, hvernig þær voru seldar og hverjir fengu að kaupa þær. Þeim hefur öllum verið hafnað á grundvelli þagnarskylduákvæðis laga um Seðlabanka Íslands og þeirrar undanþágu frá upplýsingalögum sem ESÍ naut. Sú undanþága rann út í desember 2018.
Skriflega fyrirspurnin á Alþingi frá 2017, sem minnst var á hér að ofan, og beint var til Bjarna Benediktssonar, þá forsætisráðherra, í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, var lögð fram af manni sem Bjarni þekkir ágætlega og hefur starfað meira og minna með síðastliðinn tæpa áratug, Sigurði Inga Jóhannssyni. Hann hafði verið ráðherra í ríkisstjórninni sem sat 2013 til 2016 og endaði það kjörtímabil sem forsætisráðherra, eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þurfti að segja af sér.
Hann hefur svo starfað í ríkisstjórnarsamstarfi með Bjarna síðan 2017 og verið formaður Framsóknarflokksins. Fyrirspurnin, sem var ítarleg og bar öll þess merki að fyrirspyrjandinn þekkti vel til mála, var lögð fram á þeim nokkrum mánuðum á árinu 2017 sem Sigurður Ingi sat í stjórnarandstöðu.
Hún var eftirfarandi:
- Hversu margar eignir/kröfur hefur Seðlabanki Íslands selt, beint eða í gegnum dótturfélög, svo sem ESÍ, frá því að honum var falin umsjón þeirra eftir bankahrunið árið 2008, hvert var söluandvirðið í heild og sundurliðað eftir árum, hverjir keyptu og á hvaða kjörum, sundurliðað ár fyrir ár?
- Í hvaða tilvikum var lánað fyrir kaupunum, við hversu hátt lánshlutfall var miðað, hvaða skilyrði voru sett um tryggingar fyrir greiðslu kaupverðs, hver var stefnan um vaxtakjör, var í einhverjum tilvikum vikið frá henni og ef svo er, hvers vegna?
- Hefur Seðlabankinn, beint eða í gegnum dótturfélög, keypt eignir/kröfur eða fengið framseldar með öðrum hætti, svo sem í skiptum fyrir aðrar eignir/kröfur, frá bankahruni, hvaða eignir/kröfur voru það, sundurliðað ár fyrir ár, voru þær skráðar á markaði, hvaða ástæður voru fyrir kaupunum og á hvaða lagaheimild byggði Seðlabankinn eða dótturfélög kaupin?
- Hafa eignir/kröfur verið seldar aftur og ef svo er, hver er munurinn á kaup- og söluverði, hverjir voru kaupendur og seljendur í þeim viðskiptum og hefur Seðlabankinn eða dótturfélög fengið framseldar til sín eignir sem rýrnað hafa í verði eða jafnvel tapast frá því að þeirra var aflað?
- Fyrir hvaða sérfræðiþjónustu, hverjum og hve mikið, hefur Seðlabanki Íslands, beint eða í gegnum dótturfélög, greitt vegna sölu á eignum/kröfum frá og með árinu 2013 til dagsins í dag, var þjónustan auglýst og/eða boðin út, hvernig var staðið að ráðningu á þjónustuaðilum, hver voru sjónarmið til grundvallar ráðningum og hvernig skiptust greiðslur milli aðila?
- Var sala á eignarhlutum/kröfum Seðlabanka Íslands eða dótturfélaga bankans ávallt auglýst, hvernig var staðið að útboði/sölu í þeim tilvikum, við hvaða reglur var miðað, voru viðmiðin sambærileg í öllum tilvikum og ef ekki, hvers vegna?
Bjarni svaraði fyrirspurn Sigurðar Inga með ítarlegu svari, en þó var ekki svarað efnislega og sértækt, þeim atriðum sem spurt var út í. Í svarinu var vísað til þagnarskyldu Seðlabankans um verkefni ESÍ og að bankinn myndi skila af sér skýrslu um ESÍ og starfsemi þess, þegar vinnu við slit væri lokið.
Sú skýrsla er, líkt og áður segir, enn ekki komin fram í dagsljósið.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði