Mynd: Bára Huld Beck

Seðlabankinn tekur beiðni Kjarnans um „ruslaskistu Seðlabankans“ til efnislegrar meðferðar

Nýlegur úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál skikkar Seðlabanka Íslands til að kanna hvort hann hafi gögn um Eignasafn Seðlabanka Íslands undir höndum og leggja í kjölfarið mat á hvort þau gögn séu háð þagnarskyldu. Áður hafði bankinn sagt að hann þyrfti ekki að svara fyrir félagið, sem var að öllu leyti í hans eigu, vegna þess að búið væri að slíta því.

Seðla­banki Íslands mun taka beiðni Kjarn­ans um aðgang að gögnum og upp­lýs­ingum um starf­semi Eigna­safn Seðla­banka Íslands (ESÍ) til efn­is­legrar með­ferð­ar. Það er gert með vísan til nýfall­ins úrskurðar úrskurð­ar­nefndar um upp­lýs­inga­mál sem féll 1. júní síð­ast­lið­inn, í máli sem lög­fræð­ing­ur­inn og sagn­fræð­ing­ur­inn Björn Jón Braga­son kærði til nefnd­ar­inn­ar. 

Áður hafði bank­inn sagt í svari við fyr­ir­spurn Kjarn­ans seint í síð­asta mán­uði að hann telji sig ekki þurfa að svara beiðnum um gögn sem teng­ist ESÍ þar sem félagið sjálft hafi svarað slíkum beiðnum á starfs­­tíma sín­­um. Nú þegar búið sé að slíta ESÍ – því var slitið 2019 – sé það ekki hlut­verk Seðla­­bank­ans að taka við því hlut­verki að svara fyr­ir­­spurnum til þess.

Þessu hafn­aði úrskurð­ar­nefndin í áður­nefndum úrskurði, en Björn Jón hafði farið fram á upp­lýs­ingar um allan lög­fræði­kostnað og kostnað við aðra sér­fræði­ráð­gjöf sem ESÍ og dótt­ur­fé­lög þess greiddu á starfs­tíma sín­um.

Mat úrskurð­ar­nefnd­ar­innar var að afgreiðsla Seðla­banka Íslands á beiðni kær­anda hafi ekki sam­rýmst ákvæðum upp­lýs­inga­laga og rann­sókn­ar­reglu stjórn­sýslu­laga. „Þá hefur og komið fram í skýr­ingum bank­ans að gagna­beiðnir kær­anda hafi ekki verið teknar fyrir efn­is­lega af hálfu bank­ans, þ.e. kannað hvort bank­inn hafi gögn undir höndum sem falli að beiðnum kær­anda og í fram­hald­inu hvort þau gögn séu háð þagn­ar­skyldu. Beiðni kær­anda hefur sam­kvæmt fram­an­greindu ekki fengið þá efn­is­legu með­ferð á lægra stjórn­sýslu­stigi sem úrskurð­ar­nefnd­inni er fært að end­ur­skoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efn­is­legum ann­mörkum sem eru að mati nefnd­ar­innar svo veru­legir að ekki verður hjá því kom­ist að fella hana úr gildi og leggja fyrir Seðla­banka Íslands að taka málið til nýrrar og lög­mætrar með­ferðar sem felur m.a. í sér að afmarka beiðni kær­anda við gögn hjá bank­anum sem liggja fyrir og heyra undir beiðni kær­anda, og taka afstöðu til þess hvort kær­andi eigi rétt til að fá aðgang að þeim gögn­um, í heild eða að hluta.“

Átti að skila skýrslu 2018

Seðla­banki Íslands átti að vinna skýrslu um ESÍ og skila henni til banka­ráðs hans fyrir árs­lok 2018. Skýrslan átti að varpa heild­­ar­­mynd á starf­­semi ESÍ og dótt­­ur­­fé­laga þess og taka átti saman hvert end­an­­legt tjón bank­ans verður af veð­lána­­starf­­semi hans. Hún er enn ekki komin út, meira en fjórum árum eftir að slita­ferli ESÍ hófst. 

Már Guðmundsson var seðlabankastjóri á meðan að ESÍ starfaði.
Mynd: Bára Huld Beck

Í svari við fyr­ir­­spurn Kjarn­ans um afdrif skýrsl­unn­­ar, sem barst í apríl síð­ast­liðn­um, sagði upp­­lýs­inga­­full­­trúi Seðla­­bank­ans ástæð­una fyrir því að skýrslan væri ekki komin út vera „miklar annir við önnur verk­efn­i“. Hann gat á þeirri stundu ekki gefið svar um vænt­an­­legan útgáfu­dag. 

Við með­ferð úrskurð­ar­nefndar um upp­lýs­inga­mál í áður­nefndu kæru­máli Björns Jóns óskaði nefndin eftir nán­ari skýr­ingum frá Seðla­bank­anum um hver hefðu orðið afdrif gagna ESÍ og dótt­ur­fé­laga þess eftir að félög­unum var slit­ið. Í svari Seðla­bank­ans sagði að við slit og afskrán­ingu ESÍ, og félaga í eigu ESÍ, hefði Seðla­bank­inn ekki fengið afhent gögn félag­anna. „Þá hefði Seðla­bank­inn ekki vit­neskju um stöðu ein­stakra afskráðra félaga eða hvort skipta­stjórar eða skila­nefndir hefðu afhent Þjóð­skjala­safni við­eig­andi skjöl í sam­ræmi við lög um opin­ber skjala­söfn.“

Úrskurð­ar­nefndin óskaði eftir upp­lýs­ingum um það hjá Þjóð­skjala­safni Íslands hvort ESÍ og dótt­ur­fé­lög þess hefðu afhent skjala­safn­inu gögn sín í sam­ræmi við lög um opin­ber skjala­söfn. „Þjóð­skjala­safnið stað­festi með pósti, dags. 8. apríl sama ár, að engar gögn hefðu borist frá þessum lög­að­il­u­m.“

Vand­séð er hvernig Seðla­bank­inn geti unnið skýrslu sem varpa á heild­ar­mynd á starf­semi ESÍ ef engin gögn eru til um félagið innan bank­ans.

Mörg hund­ruð millj­arðar króna í „ruslakist­unni“

ESÍ, sem oft var kallað „rusla­­kista Seðla­­bank­ans“ starf­aði frá 2009 og út árið 2017. Inn í félagið var safnað eignum sem féllu Seðla­­bank­­anum í skaut vegna falls fjár­­­mála­­kerf­is­ins. Um allskyns eignir var að ræða, verð­bréf, mörg hund­ruð fast­­eignir og ýmis­­­legt ann­að. Á starfs­­tíma sínum starf­­rækti ESÍ svo tvö dótt­­ur­­fé­lög, ann­­ars vega Sölv­hól sem hafði það hlut­verk að selja eign­irn­­ar, og hins vegar Hildu, sem ESÍ fékk í fangið árið 2011. 

Umfang eigna og krafna sem ESÍ hélt á eftir hrunið var 490 millj­­arðar króna sam­­kvæmt svari þáver­andi for­­sæt­is­ráð­herra, Bjarna Bene­dikts­­son­­ar, við fyr­ir­­spurn á þingi í sept­­em­ber 2017

Slita­­ferli félags­­ins, og dótt­­ur­­fé­laga þess, hófst árið 2017 og lauk end­an­­lega 2019. 

Margir höfðu enda varað við því að ríkið setti upp eigna­­sölu­­fé­lög. Það gerðu meðal ann­­ars hag­fræð­ing­­arnir Gauti B. Egg­erts­­son og Jón Steins­­son í grein sem birt­ist í Morg­un­­blað­inu í mars 2009. Þar sagði meðal ann­­ars: „Það eru ýmsir ókostir á eigna­­sölu­­fé­lögum í eigu rík­­is­ins. Stærsti ókost­­ur­inn er hætta á spill­ingu. Reynslan hefur kennt Íslend­ingum – og raunar öðrum þjóðum – að þegar ríkið selur eignir er mikil hætta á því að umsjón­­ar­­menn sölu­­ferl­is­ins selji vin­um, ætt­­ingjum eða jafn­­vel sjálfum sér verð­­mætar eignir á und­ir­verð­i.“

Sig­urður Ingi spurði Bjarna út í ESÍ

Fjöl­miðlar hafa árum saman reynt að fá upp­­lýs­ingar um hvaða eignir voru settar inn í ESÍ, hvernig þær voru seldar og hverjir fengu að kaupa þær. Þeim hefur öllum verið hafnað á grund­velli þagn­­ar­­skyld­u­á­­kvæðis laga um Seðla­­banka Íslands og þeirrar und­an­þágu frá upp­­lýs­inga­lögum sem ESÍ naut. Sú und­an­þága rann út í des­em­ber 2018.

Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson hafa, ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, leitt ríkisstjórn Íslands frá árinu 2017.
Mynd: Bára Huld Beck

Skrif­­lega fyr­ir­­spurnin á Alþingi frá 2017, sem minnst var á hér að ofan, og beint var til Bjarna Bene­dikts­­son­­ar, þá for­­sæt­is­ráð­herra, í tíð rík­­is­­stjórnar Sjálf­­stæð­is­­flokks, Við­reisnar og Bjartrar fram­­tíð­­ar, var lögð fram af manni sem Bjarni þekkir ágæt­­lega og hefur starfað meira og minna með síð­­ast­lið­inn tæpa ára­tug, Sig­­urði Inga Jóhanns­­syni. Hann hafði verið ráð­herra í rík­­is­­stjórn­­inni sem sat 2013 til 2016 og end­aði það kjör­­tíma­bil sem for­­sæt­is­ráð­herra, eftir að Sig­­mundur Davíð Gunn­laugs­­son þurfti að segja af sér.

Hann hefur svo starfað í rík­­is­­stjórn­­­ar­­sam­­starfi með Bjarna síðan 2017 og verið for­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins. Fyr­ir­­spurn­in, sem var ítar­­leg og bar öll þess merki að fyr­ir­­spyrj­­and­inn þekkti vel til mála, var lögð fram á þeim nokkrum mán­uðum á árinu 2017 sem Sig­­urður Ingi sat í stjórn­­­ar­and­­stöð­u. 

Hún var eft­ir­far­and­i: 

  1. Hversu margar eign­ir/­­­kröfur hefur Seðla­­­banki Íslands selt, beint eða í gegnum dótt­­­ur­­­fé­lög, svo sem ESÍ, frá því að honum var falin umsjón þeirra eftir banka­hrunið árið 2008, hvert var sölu­and­virðið í heild og sund­­­ur­liðað eftir árum, hverjir keyptu og á hvaða kjörum, sund­­­ur­liðað ár fyrir ár?
  2. Í hvaða til­­­vikum var lánað fyrir kaup­un­um, við hversu hátt láns­hlut­­­fall var mið­að, hvaða skil­yrði voru sett um trygg­ingar fyrir greiðslu kaup­verðs, hver var stefnan um vaxta­­­kjör, var í ein­hverjum til­­­vikum vikið frá henni og ef svo er, hvers vegna?
  3. Hefur Seðla­­­bank­inn, beint eða í gegnum dótt­­­ur­­­fé­lög, keypt eign­ir/­­­kröfur eða fengið fram­­­seldar með öðrum hætti, svo sem í skiptum fyrir aðrar eign­ir/­­­kröf­­­ur, frá banka­hruni, hvaða eign­ir/­­­kröfur voru það, sund­­­ur­liðað ár fyrir ár, voru þær skráðar á mark­aði, hvaða ástæður voru fyrir kaup­unum og á hvaða laga­heim­ild byggði Seðla­­­bank­inn eða dótt­­­ur­­­fé­lög kaup­in?
  4. Hafa eign­ir/­­­kröfur verið seldar aftur og ef svo er, hver er mun­­­ur­inn á kaup- og sölu­verði, hverjir voru kaup­endur og selj­endur í þeim við­­­skiptum og hefur Seðla­­­bank­inn eða dótt­­­ur­­­fé­lög fengið fram­­­seldar til sín eignir sem rýrnað hafa í verði eða jafn­­­vel tap­­­ast frá því að þeirra var aflað?
  5. Fyrir hvaða sér­­­fræð­i­­­þjón­ustu, hverjum og hve mik­ið, hefur Seðla­­­banki Íslands, beint eða í gegnum dótt­­­ur­­­fé­lög, greitt vegna sölu á eign­um/­­­kröfum frá og með árinu 2013 til dags­ins í dag, var þjón­ustan aug­lýst og/eða boðin út, hvernig var staðið að ráðn­­­ingu á þjón­ust­u­að­il­um, hver voru sjón­­­­­ar­mið til grund­vallar ráðn­­­ingum og hvernig skipt­ust greiðslur milli aðila?
  6. Var sala á eign­­­ar­hlut­u­m/­­­kröfum Seðla­­­banka Íslands eða dótt­­­ur­­­fé­laga bank­ans ávallt aug­lýst, hvernig var staðið að útboð­i/­­­sölu í þeim til­­­vik­um, við hvaða reglur var mið­að, voru við­miðin sam­­­bæri­­­leg í öllum til­­­vikum og ef ekki, hvers vegna?

Bjarni svar­aði fyr­ir­­­spurn Sig­­­urðar Inga með ítar­­­legu svari, en þó var ekki svarað efn­is­­­lega og sér­­­tækt, þeim atriðum sem spurt var út í. Í svar­inu var vísað til þagn­­­ar­­­skyldu Seðla­­­bank­ans um verk­efni ESÍ og að bank­inn myndi skila af sér skýrslu um ESÍ og starf­­­semi þess, þegar vinnu við slit væri lok­ið.

Sú skýrsla er, líkt og áður seg­ir, enn ekki komin fram í dags­­ljós­ið.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar