„Þetta er ákall frá okkur um að gera þetta saman. En við gætum gert þetta ein.“ Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á kynningarfundi vegna ákvörðunar peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands um að hækka stýrivexti um eitt prósentustig í 3,75 prósent.
Þar átti Ásgeir við baráttuna við að berja niður verðbólguna, sem mælist nú 7,2 prósent og uppfærðar spár bankans gera ráð fyrir að fari yfir átta prósent. Vaxtatækið er helsta vopn Seðlabankans í þeirri baráttu og hann hefur beitt því skarpt síðustu misseri, enda stýrivextir farið úr 0,75 í 3,0 prósent á einu ári. Í yfirlýsingu peningastefnunefndar sem birt var í morgun var boðað að taumhaldið yrði hert enn frekar á næstu mánuðum, sem þýðir að frekari vaxtahækkanir eru framundan. Sú fyrsta gæti komið í næsta mánuði, þegar næsti vaxtaákvörðunarfundur verður haldinn.
Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu bankans, sagði á fundinum að Seðlabankanum væri falið af Alþingi að halda verðbólgu við 2,5 prósent markmið og að bankinn hefði tækin til að ná henni niður. Það væri þó hægt að nota þau tæki, eins og vaxtahækkanir, minna ef aðrir tækju þátt í baráttunni við verðbólguna með bankanum. „Ef við förum yfir umræðuna eins og hún hefur verið þá held ég að það skipti verulega miklu máli að orðræðan á vinnumarkaði fari að snúast um að auka kaupmátt en ekki nafnlaun. Ég held að það geti haft veruleg áhrif á langtímaverðbólguvæntingar.“
Vonbrigði að hert skilyrði hafi ekki bitið
Einn stærsti þátturinn í verðbólgunni er húsnæðisliðurinn. Mikil hækkun á húsnæðisverði hefur því vigtað þungt í verðbólguskriðinu sem nú geisar, en án húsnæðisliðarins væri verðbólga um fimm prósent.
Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans hefur reynt að hemja þessar hækkanir með því að herða lánþegaskilyrði. Í september í fyrra ákvað hún að setja reglur um hámark greiðslubyrðar á fasteignalánum og endurvekja hinn svokallaða sveiflujöfnunarauka. Áður hafði nefndin lækkað hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda lækkað úr 85 í 80 prósent en hámarkshlutfall fyrir fyrstu kaupendur hélst óbreytt í 90 prósent.
Ásgeir sagði á fundinum í dag að það væru vonbrigði að hert lánþegaskilyrði hefðu ekki haldið betur aftur af húsnæðismarkaðnum en raun ber vitni, en árshækkun húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu mældist 22,2 prósent í mars. „Þetta er ákveðin tilraunastarfsemi. Þessi skilyrði hafa ekki áður verið þannig að við vitum ekki hvert samspil vaxtahækkana verður við þessi skilyrði. “
Hann sagði horfur á því að húsnæðisliðurinn yrði „akkeri“ fyrir verðbólguna þegar fram líða stundir. „Seðlabankinn ætti að hafa öll spil á hendi til að hafa hemil á þessum markaði. Það er bara spurning hversu fast við viljum kveða að orði í því.“
Óvissa um hvort það hægi á verðhækkun húsnæðis
Það mikla skrið sem húsnæðismarkaðurinn er á núna hófst eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á að Seðlabankinn lækkaði vexti niður í sögulega lágar lægðir. Samhliða jók hann útlánagetu banka með því að afnema tímabundið sveiflujöfnunaraukann og bankarnir ákváðu að nýta það svigrúm aðallega til að lána til húsnæðiskaupa. Á sama tíma var geta landsmanna til að eyða peningum skert verulega vegna þeirra takmarkana sem faraldurinn setti og sparnaður jókst því gríðarlega samhliða því að ráðstöfunartekjur jukust, meðal annars vegna mikilla launahækkana. Lægri vextir, mikill uppsafnaður sparnaður og meiri ráðstöfunartekjur auðvelduðu kaup á stærra húsnæði og gerðu fleiri fyrstu kaupendum kleift að kaupa sína fyrstu eign.
Í nýjasta riti Peningamála, sem birt var í dag, er farið nokkuð ítarlega yfir stöðuna á húsnæðismarkaði. Þar er farið yfir þann mikla samdrátt á framboði á markaðnum sem ýtt hefur undir verðhækkanir en bent á að byggingaframkvæmdir hafi verið að glæðast að undanförnu sem ætti að auka framboð húsnæðis og létta á verðþrýstingi á markaði.
Samkvæmt grunnspá bankans eru horfur á að það hægi á verðhækkun húsnæðis á seinni hluta þessa árs en nokkur óvissa er þó til staðar. „Þannig hafa stríðsátök í Evrópu leitt til mikillar verðhækkunar fjölda hrávara og skortur gæti orðið á aðföngum. Það gæti gert byggingarverktökum erfitt fyrir og leitt til bakslags í framboði húsnæðis og frekari hækkunar húsnæðiskostnaðar. Þá er einnig nokkur óvissa um áhrif komandi kjarasamninga og efnahagshorfur almennt. Mikil fjölgun innflytjenda og aukin skammtímaleiga húsnæðis fyrir erlenda ferðamenn gæti einnig sett meiri þrýsting á húsnæðisverð en nú er gert ráð fyrir.“