Frá byrjun árs 2019 hefur verið hagkvæmara að taka óverðtryggð lán á Íslandi en verðtryggð. Lág verðbólga framan af tímabilinu samhliða því að vextir voru lækkaðir skarpt skóp þessa stöðu.
Í nóvember 2019 hélt Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri erindi á Peningamálafundi Viðskiptaráðs Íslands. Þar sagði hann meðal annars að Seðlabankinn hefði getað lækkað vexti en samt gert ráð fyrir hjaðnandi verðbólgu. „Ísland er því að verða eins og venjuleg þjóð í því hvernig við beitum peningastefnunni.“
Sumarið 2020, þegar stýrivextir voru eitt prósent og verðbólga 2,6 prósent, sagði Ásgeir í viðtali við Fréttablaðið að verðtryggingin hefði upphaflega verið sett til að Íslendingar gætu ráðið við verðbólgu. „Núna eru tímarnir breyttir. Í fyrsta sinn er það raunverulegur valkostur fyrir heimilin að skipta yfir í nafnvexti og þannig afnema verðtrygginguna að eigin frumkvæði af sínum lánum. Þetta eru mikil tímamót og fela í sér að verðtryggingin mun deyja út.“
Nú er staðan önnur. Stýrivextir eru komnir í sex prósent sem skilað hefur óverðtryggðum íbúðalánavöxtum í að fara að nálgast átta prósent að jafnaði og óverðtryggðir vextir stærstu bankanna þriggja, sem halda á 72 prósent af útistandandi íbúðalánum, hafa ekki verið jafn háir síðan 2010. Verðbólgan stendur í 9,6 prósentum.
Í nýjustu mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) kemur fram að ef verðbólguspá Seðlabanka Íslands, sem spáir því að hún muni hjaðna niður í 4,4 prósent næsta árið, gengur eftir og vextir á húsnæðislánum haldist óbreyttir þá „ borgar sig nú frekar að taka verðtryggt lán en óverðtryggt og hefur sú verið raunin frá því í júní síðastliðnum.“
Hins vegar eru óverðtryggð lán enn hagkvæmari ef verðbólga á eftir að hjaðna hægar en í spánni.
Ekki ráðlegging
HMS tekur sérstaklega fram að í þessu felist ekki ráðlegging um lántökur. Það geti borgað sig að taka óhagkvæmara lán þegar tekið sé tillit til annarra þátta. Þar er sérstaklega nefnt að verðtryggð lán geri fólki kleift að kaupa dýrari íbúðir en óverðtryggð. „Meiri eignamyndun vegna hækkandi íbúðaverðs getur vegið á móti hærri fjármagnskostnaði. Þetta á sérstaklega við um fólk sem hefur tök á að kaupa sér íbúð með verðtryggðu láni en ekki með óverðtryggðu því það ræður ekki við greiðslubyrðina.“
Því er morgunljóst að verðtryggingin er ekki dauð. Þvert á móti eru verðtryggð lán að sækja í sig veðrið.
Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands hafði lýst yfir áhyggjum af þessari mögulegu þróun í júlí síðastliðnum. Í fundargerð hennar frá þeim tíma sagði að nefndin teldi þá auknar líkur á að heimilin væru að leita í verðtryggð lán til að lækka greiðslubyrði til skamms tíma. „Töldu nefndarmenn að sú þróun gæti verið varasöm. [...] Verðbólgan legðist beint ofan á höfuðstól lánanna sem gæti dregið verulega úr viðnámsþrótti skuldsettra lántakenda.“
Yfir 100 prósent hækkun á greiðslubyrði
Ástæða þess að fólk leitar í verðtryggð lán er, líkt og áður sagði, meðal annars sú að þá getur það keypt dýrari íbúð en fyrir óverðtryggt en samt staðist greiðslumat. Það er vegna þess að í verðtryggðum lánum er greiðslubyrðin lægri en á móti leggjast verðbætur á höfuðstól lánsins sem þýðir að það greiðist mun hægar niður.
Þegar vextir voru í sögulegu lágmarki á Íslandi á árunum 2019 og fram til maímánaðar í fyrra, þegar stýrivextir stóðu í 0,75 prósent, flykktust heimili landsins í óverðtryggð lán.
Það hefur lækkað hlutdeild verðtryggðra lána af útistandandandi lánum en samkvæmt nýjustu útgáfu ritsins Peningamál, sem Seðlabanki Íslands heldur úti, er hún samt sem áður en um 56 prósent. Meirihluti útistandandi lána er því verðtryggður.
Stór hluti heimila með verulega aukinn kostnað
Um fjórðungur allra íbúðalána eru óverðtryggð og á breytilegum vöxtum. Sá hópur tekur því á sig þessar vaxtahækkanir af fullum þunga.
Í skýrslu HMS kemur fram að greiðslubyrði óverðtryggðra lána væri 63.600 krónur fyrir hverjar tíu milljónir króna sem teknar eru að láni. Það þýðir að fyrir þann sem er með 50 milljón króna lán er greiðslubyrðin á mánuði 318.000 krónur. Í maí í fyrra, þegar stýrivextir voru í sögulegu lágmarki, var greiðslubyrði af láni upp á sömu upphæð 188.500 krónur. Hún hefur því hækkað um 129.500 krónur á einu og hálfu ári, eða um 69 prósent. Það er aukin greiðslubyrði upp á rúmlega 1,5 milljónir króna á ári.
Ef horft er styttra aftur í tímann, til maí 2022, hefur greiðslubyrðin af ofangreindu láni hækkað um 89.500 krónur á mánuði, eða um 39 prósent.
Ofan á þetta eru 4.451 heimili með óverðtryggð lán á föstum vöxtum sem komi til endurskoðunar næsta árið. Fjöldi heimila lýkur líka fastvaxtatímabili sínu á árinu 2024 en alls koma 340 milljarðar króna í óverðtryggðum íbúðalánum til vaxtaendurskoðunar á þessum tveimur árum. Á árinu 2025 koma svo lán upp á 250 milljarða króna í viðbót til endurskoðunar, en þorri þeirra lána eru óverðtryggð.
Því er ljóst að stór hluti heimila í landinu annað hvort býr við verulega aukinn húsnæðiskostnað eða sér fram á verulega aukningu.