Siðanefnd skoðar ekki ummæli Björns Levís um að Ásmundur hafi dregið að sér fé
Fyrir tveimur árum komst siðanefnd og forsætisnefnd Alþingis að þeirri niðurstöðu að þingmaður Pírata hefði brotið siðareglur fyrir að nota orðalagið „rökstuddur grunur“. Annar þingmaður flokksins tilkynnti sjálfan sig til forsætisnefndar fyrir sama orðalag um sama mál. Hún vill ekki taka það fyrir.
Forsætisnefnd Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé tilefni til þess að taka til umfjöllunar innan hennar eða hjá ráðgefandi siðanefnd Alþingis hvort að Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hafi gerst brotlegur við siðareglur Alþingis. Björn Leví hafði sjálfur sent erindi til nefndarinnar og óskað eftir áliti hennar á ummælum sem hann lét falla í pistli í Morgunblaðinu. Þar sagði hann að „rökstuddur grunur“ væri um að „Ásmundur Friðriksson hafi dregið að sér fé, almannafé og við erum ekki að sjá viðbrögð þess efnis að það sé verið að setja á fót rannsókn í þeim efnum.“
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, var talin hafa brotið gegn siðareglum þingmanna, að mati forsætisnefndar og ráðgefandi siðanefndar, þegar hún notaði sama orðalag, að „rökstuddur grunur“ væri uppi um að Ásmundur hefði dregið að sér fé með endurgreiðslum úr ríkissjóði vegna aksturs síns, í niðurstöðu sem var birt árið 2019.
Í niðurstöðu forsætisnefndar nú segir að í erindi Björns Levís felist „beiðni um að fjallað verði um sama álitaefni öðru sinni. Fellur slíkt utan tilgangs siðareglna fyrir alþingismenn. Það er því niðurstaða forsætisnefndar að erindi þitt gefi ekki nægilegt tilefni til athugunar.“
Þórhildur Sunna fyrst til að brjóta siðareglur
Fyrir rúmum tveimur árum síðan, nánar tiltekið 10. janúar 2019, óskaði Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks eftir því að tekið yrði til skoðunar hvort þingmenn Pírata, Björn Leví Gunnarsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, hefðu með ummælum sínum á opinberum vettvangi um endurgreiðslur þingsins á aksturskostnaði Ásmundar brotið í bága við siðareglur Alþingis.
Siðanefnd komst að þeirri niðurstöðu, í maí sama ár, að ummæli þingflokksformanns Pírata, Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, sem hún lét falla þann 25. febrúar 2018 í Silfrinu hafi ekki verið í samræmi við siðareglur fyrir alþingismenn. Sama gilti um ummæli sem hún lét falla á í stöðuuppfærslu á Facebook í kjölfarið. Siðanefndin taldi aftur á móti að Björn Leví Gunnarsson hafi ekki gerst brotlegur við reglurnar.
Ummælin sem um ræðir lét Þórhildur Sunna falla í Silfrinu á RÚV þann 25. febrúar 2018 og hljóða þau svo:
„Við sjáum það að ráðherrar þjóðarinnar eru aldrei látnir sæta afleiðingum, þingmenn þjóðarinnar eru aldrei látnir sæta afleiðingum. Nú er uppi rökstuddur grunur um það að Ásmundur Friðriksson hafi dregið að sér fé, almannafé, og við erum ekki að sjá viðbrögð þess efnis að það sé verið að segja á fót rannsókn á þessum efnum.“
Eins sagði hún á Facebook-síðu sinni:
„Almenn hegningarlög innihalda heilan kafla um brot opinberra starfsmanna í starfi, þessi lög ná eftir atvikum líka yfir þingmenn og ráðherra, að ógleymdum lögum um ráðherraábyrgð. Almenningur í landinu á það skilið að ríkissaksóknari taki það föstum tökum þegar uppi er grunur um brot æðstu ráðamanna í starfi.
Tökum nokkur dæmi. Í 248. gr. almennra hegningarlaga er fjársvip refsivert.
248. gr. Ef maður kemur öðrum manni til að hafast eitthvað að eða láta eitthvað ógert með því á ólögmætan hátt að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd hans um einhver atvik, og hefur þannig fé af honum eða öðrum, þá varðar það fangelsi allt að 6 árum. Sé brotið framið af opinberum starfsmanni kemur það til refsiaukningar sbr. 138. gr. sömu [sic] laga.
Það er því fullkomlega eðlilegt að skoða grunsamlegt akstursbókhald Ásmundar Friðrikssonar í þessu ljósi, það er fullkomlega eðlilegt í réttarríki að hann sæti rannsókn vegna þessa, rétt eins og annar sem uppvís verður að vafasamri fjársöfnun úr vösum skattgreiðenda. Það er í verkahring saksóknara að rannsaka það. Almenningur ber ekki sönnunarbyrðina hér.“
Þórhildur Sunna varð með þessu fyrsti þingmaður þjóðarinnar sem talin hefur verið hafa brotið gegn siðareglum Alþingis frá því að þær voru settar.
Ásmundur endurgreiddi ofteknar greiðslur
Mikið var fjallað um akstur Ásmundar í byrjun árs 2018 en þann 9. febrúar sama ár var upplýst um að hann væri sá þingmaður sem fékk 4,6 milljónir króna endurgreiddar vegna aksturskostnaðar árið 2017. Það þýddi að hann fékk um 385 þúsund krónur á mánuði í endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna keyrslu sinnar. Alls keyrði Ásmundur 47.644 kílómetra árið 2017 og fékk endurgreitt frá ríkinu vegna kostnaðar fyrir þann akstur. Frá því að Ásmundur settist á þing árið 2013, og út síðasta ár, hefur samanlagður aksturskostnaður hans verið 31,4 milljónir króna.
Í lok nóvember 2018 endurgreiddi Ásmundur skrifstofu Alþingis 178 þúsund krónur vegna ferða sem honum hafði verið endurgreiddar á árinu 2017. Þetta gerði hann vegna þess að honum hafi orðið það ljóst „að það gæti orkað tvímælis að blanda saman ferðum mínum um kjördæmið og ferðum á sama tíma með tökufólki ÍNN.“
Þórhildur Sunna sætti sig illa við niðurstöðuna. Í stöðuuppfærslu á Facebook síðu sinni í kjölfar þess að niðurstaða siðanefndar var birt sagði hún að fengi niðurstaðan að standa væri skilaboðin til okkar allra þau að það sé verra að benda á vandamálin en að vera sá sem skapar þau. „Ég er algerlega búin að fá nóg af slíkri meðvirkni.“
Forsætisnefnd Alþingis féllst á niðurstöðuna rúmum mánuði síðar.
Björn Leví gerir það sama og Þórhildur Sunna
Þann 3. apríl skrifaði Björn Leví pistil sem birtist í Morgunblaðinu. Í honum sagði hann meðal annars að það væri „rökstuddur grunur um að Ásmundur Friðriksson hafi dregið að sér fé, almannafé og við erum ekki að sjá viðbrögð þess efnis að það sé verið að setja á fót rannsókn í þeim efnum.“
Í pistlinum setti Björn Leví því fram sömu ásakanir og Þórhildur Sunna gerði í viðtalinu í Silfrinu í febrúar 2018 og notaði sama hugtak, að „rökstuddur grunur“ væri um að Ásmundur hefði dregið að sér fé.
Björn Leví sendi sjálfur erindi til forsætisnefndar 18. apríl og bað um álit nefndarinnar á því hvort að ummælin væru á skjön við siðareglur. Þá óskaði hann eftir því að þeim yrði vísað til ráðgefandi siðanefndar, líkt og gert var þegar Ásmundur óskaði eftir áliti á ummælum Þórhildar Sunnu.
Í liðinni viku komst forsætisnefnd að niðurstöðu og hún var loks birt í gær, 12. maí. Undir niðurstöðuna skrifar Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. Niðurstaðan varð sú að skilyrði brysti til þess að nefndin tæki erindið til athugunar á grundvelli siðareglna fyrir alþingismenn.
Beiðni um endurtekna umfjöllun
Í rökstuðningi forsætisnefndar segir að siðareglur alþingismanna hafi meðal annars þann tilganf að efla ábyrgðarskyldu þingmanna og traust og tiltrú almennings á Alþingi. Þeim sé ætla að „standa vörð um þessi siðferðilegu verðmæti og hvetja þingmenn til góðra verka. Á þessum grundvelli er í siðareglur settar fram meginreglur um hátterni og hátternisskyldu alþingismanna.“
Nefndin metur það svo að í erindi Björns Leví felist skírskotun og samanburður við niðurstöðu hennar í máli Þórhildar Sunnu. „Þó svo að gerður sé sá greinarmunur að styðja ummælin við opinber gögn er í raun verið að óska eftir umfjöllun um sama álitaefni og var til umfjöllunar í máli Þórhildar Sunnu[...]Í erindi þínu felst á hinn bóginn beiðni um að fjallað verði um sama álitaefni öðru sinni. Fellur slíkt utan tilgangs siðareglna fyrir alþingismenn. Það er því niðurstaða forsætisnefndar að erindi þitt gefi ekki nægilegt tilefni til athugunar.“
Miðflokksmenn líka brotlegir
Síðan að niðurstaða var birt í máli Þórhildar Sunnu hefur ráðgefandi siðanefnd Alþingis einu sinni til viðbótar komist að þeirri niðurstöðu að þingmenn hafi brotið siðareglur þegar Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins, voru taldir hafa gert það. Í því tilfelli voru til umfjöllunar ummæli sem þeir létu falla á barnum Klaustri þann 20. nóvember 2018.
Aðrir þingmenn sem tóku þátt í samtalinu, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmenn Miðflokksins, og Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, sem voru í Flokki fólksins þegar samtalið átti sér stað en gengu síðar til liðs við Miðflokkinn, brutu ekki gegn siðareglum að mati nefndarinnar.
Siðanefndin fór yfir ummæli Bergþórs um Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, þingmann Samfylkingarinnar, og Lilja Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra.
Siðanefnd komst að þeirri niðurstöðu að ummæli Bergþórs væru „öll af sömu rótinni sprottin“. Þau væru ósæmileg og í þeim fólst vanvirðing er laut að kynferði þeirra kvenna sem um var rætt. Einnig væru þau til þess fallin að kasta rýrð á Alþingi og skaða ímynd þess.
Nefndin fór einnig yfir ummæli Gunnars Braga um Albertínu og Lilju auk Ragnheiðar Runólfsdóttur, fyrrverandi sundkonu. Komist va að sömu niðurstöðu og í máli Bergþórs, að í ummælunum fælist vanvirðing í garð umræddra kvenna og þau væru til þess fallin að skaða ímynd Alþingis.